Alþjóðasamband jafnaðarmanna

Alþjóðasamband jafnaðarmanna (enska: Socialist International eða SI) er alþjóðasamtök stjórnmálaflokka sem aðhyllast lýðræðislega jafnaðarstefnu.[1] Flestir aðildarflokkar sambandsins eru sósíaldemókrataflokkar, sósíalistaflokkar eða verkamannaflokkar.

Alþjóðasamband jafnaðarmanna

Ríki þar sem aðildarflokkar SI starfa.
SkammstöfunSI
Stofnun1951; fyrir 73 árum (1951)
GerðAlþjóðleg félagasamtök
HöfuðstöðvarLondon, Bretlandi
Meðlimir147
AðalritariBenedicta Lasi
ForsetiPedro Sánchez
Vefsíðawww.socialistinternational.org

Alþjóðasambandið var stofnað árið 1951 og var ætlað að taka við af Alþjóðasambandi sósíalískra verkamanna (SAI) en uppruna þess má rekja til síðhluta 19. aldar. Í dag telur sambandið til sín 147 aðildarflokka[2] og stofnanir í rúmlega 100 löndum. Aðildarflokkarnir hafa setið í ríkisstjórn í mörgum löndum, meðal annars flestum löndum Evrópu.

Núverandi aðalritari samtakanna er Benedicta Lasi frá Gana. Forseti sambandsins er Pedro Sánchez, núverandi forsætisráðherra Spánar.[3] Þau voru bæði kjörin a síðasta þingi Alþjóðasambandsins í Madríd á Spáni í nóvember árið 2022.

Söguágrip

breyta

Fyrsta og annað alþjóðasambandið (1864–1916)

breyta

Alþjóðasamtök verkalýðsins, eða fyrsta alþjóðasambandið, voru fyrstu alþjóðasamtökin sem reyndu að sameina stjórnmálaöfl verkalýðsins þvert á landamæri.[4] Samtökin voru stofnuð þann 28. september árið 1864 að undirlagi sósíalískra, kommúnískra og anarkískra stjórnmálahópa og stéttarfélaga.[5] Togstreita á milli hófsemismanna og byltingarsinna innan samtakanna leiddi til þess að þau voru leyst upp árið 1876 í Philadelphiu.[6]

Annað alþjóðasambandið var stofnað í París þann 14. júlí árið 1889 sem samband sósíalistaflokka.[7] Ágreiningur um fyrri heimsstyrjöldina leiddi til þess að sambandið var leyst upp árið 1916.

Alþjóðasamband sósíalískra verkamanna (1919–1940)

breyta

Alþjóðanefnd jafnaðarmanna (e. International Socialist Commission eða ISC) var stofnuð á fundi í Bern í febrúar árið 1919 að undirlagi flokka sem vildu endurlífga annað alþjóðasambandið.[8] Í mars árið 1919 stofnuðu kommúnistaflokkar Komintern (Þriðja alþjóðasambandið) á ráðstefnu í Moskvu.[9]

Flokkar sem ekki vildu ganga í ISC eða Komintern stofnuðu með sér Alþjóðasamband lýðsins (sem einnig var kallað Vínarsambandið[10]) á ráðstefnu í Vín þann 27. febrúar 1921.[11] ISC og Vínarsambandið sameinuðust í Alþjóðasamband sósíalískra verkamanna í maí árið 1923 eftir ráðstefnu í Hamborg.[12] Það samband lognaðist út af árið 1940 vegna uppgangs nasisma og byrjun seinni heimsstyrjaldarinnar.

Alþjóðasamband jafnaðarmanna (1951–)

breyta

Alþjóðasamband jafnaðarmanna var stofnað í júlí árið 1951 í Frankfurt til að koma í stað Alþjóðasambands sósíalískra verkamanna.[13]

Á eftirstríðsárunum styrkti Alþjóðasambandið jafnaðarflokka sem þurftu að hasla sér völl á ný þegar fasískt einræði leið undir lok í Portúgal (1974) og á Spáni (1974). Fyrir þing sitt árið 1976 í Genf áttu fáir stjórnmálaflokkar utan Evrópu aðild að Alþjóðasambandinu og sambandið átti engin ítök í Rómönsku Ameríku.[14] Á níunda áratugnum lýstu flestir aðildarflokkar sambandsins yfir stuðningi við Þjóðfrelsisfylkingu sandínista þegar Bandaríkjastjórn reyndi að fella lýðræðislega kjörna vinstristjórn hennar í Níkaragva. Það mál leiddi til Íran-kontrahneykslisins í Bandaríkjunum þegar stjórn Ronalds Reagan Bandaríkjaforseta hélt áfram í laumi að styðja kontraskæruliða gegn sandínistum þrátt að Bandaríkjaþing hefði lagt bann við því.

 
Willy Brandt ásamt fráfarandi aðalritaranum Bernt Carlsson (til vinstri) og nýja aðalritaranum Pentti Väänänen (til hægri) á þingi Alþjóðasambands jafnaðarmanna árið 1983.

Síðla á áttunda áratugnum og í byrjun níunda áratugarins átti Alþjóðasamband jafnaðarmanna í samræðum við leiðtoga risaveldanna tveggja í kalda stríðinu, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, í málefnum varðandi samskipti austurs og vesturs og vopnaeftirlit. Alþjóðasambandið studdi slökunarstefnu og afvopnunarsáttmála á borð við SALT-II, START og INF-samningana. Fulltrúar sambandsins funduðu í Washington, D.C. með Jimmy Carter Bandaríkjaforseta og George Bush varaforseta og í Moskvu með aðalriturunum Leoníd Brezhnev og Míkhaíl Gorbatsjov. Finnski forsætisráðherrann Kalevi Sorsa leiddi sendinefndir sambandsins í þessum viðræðum.[15]

Sambandið hefur upp frá því veitt æ fleiri flokkum frá Afríku, Asíu, Evrópu og Rómönsku Ameríku aðild.

Eftir byltinguna í Túnis árið 2011 var Lýðræðislega stjórnskipunarsamkundan, stjórnarflokkur Ben Ali forseta, rekin úr alþjóðasambandinu.[16] Síðar sama mánuð var Lýðræðisflokkur þjóðarinnar í Egyptalandi einnig rekinn.[17] Alþýðufylking Fílabeinsstrandarinnar var einnig rekin í samræmi við grein 7.1 í lögum sambandsins eftir hrinu ofbeldis á árunum 2010 til 2011.[18] Brottrekstrarnir voru staðfestir á þingi Alþjóðasambandsins í Höfðaborg árið 2012.[19]

Klofningur Framfarabandalagsins (2013)

breyta

Þann 22. maí árið 2013 klufu þýski Jafnaðarmannaflokkurinn og nokkrir fleiri aðildarflokkar sig úr Alþjóðasambandinu og stofnuðu sín eigin alþjóðasamtök jafnaðarflokka undir nafninu Framfarabandalagið. Klofningsflokkarnir bentu á það sem þeir töldu úrelt og ólýðræðislegt skipulag Alþjóðasambandsins[20][21][22][23] og gagnrýndu Alþjóðasambandið jafnframt fyrir að veita ólýðræðislegum stjórnmálahreyfingum aðild.[24][25]

Samband við Rómönsku Ameríku

breyta

Alþjóðasamband jafnaðarmanna hélt lengi ákveðna fjarlægð frá Rómönsku Ameríku þar sem litið var á álfuna sem áhrifasvæði Bandaríkjanna. Alþjóðasambandið gagnrýndi til dæmis ekki valdaránið í Gvatemala 1954 gegn sósíalíska forsetanum Jacobo Árbenz eða innrás Bandaríkjanna í Dóminíska lýðveldið árið 1965. Það var ekki fyrr en eftir valdaránið í Síle 1973 sem Alþjóðasambandið fór að standa með vinstrihreyfingum í Rómönsku Ameríku. Antoine Blanca, erindreki Alþjóðasambandsins úr franska Sósíalistaflokknum, skrifaði að eftir valdaránið í Síle hafi sambandið uppgötvað „heim sem við þekktum ekki“ og að samstaða með vinstrimönnum í Síle gegn Bandaríkjamönnum hafi verið fyrsta meiriháttar áskorun sambandsins. Sambandið átti síðar, sérstaklega á stjórnartíð François Mitterrand, eftir að styðja sandínista í Níkaragva og aðrar vinstrihreyfingar í El Salvador, Gvatemala og Hondúras í baráttu þeirra gegn hægrisinnuðum einræðisstjórnum sem nutu stuðnings Bandaríkjanna.[26]

Á tíunda áratugnum gengu ýmsir flokkar sem ekki voru sósíalískir í Alþjóðasambandið. Þessir flokkar hrifust af efnahagsstyrk Evrópuríkja þar sem aðildarflokkar sambandsins nutu áhrifa og reiknuðu með því að geta hagnast af aðild. Meðal þessara flokka má nefna Róttæka borgarabandalagið í Argentínu, Byltingarsinnaða stofnanaflokkinn í Mexíkó og Frjálslynda flokkinn í Kólumbíu. Margir vinstriflokkar sem komust til valda í Rómönsku Ameríku á fyrsta áratugi 21. aldar (í Brasilíu, Venesúela, Bólivíu, Ekvador og El Salvador) gengu því aldrei í sambandið.[26]

Íslenskir aðildarflokkar

breyta

Alþýðuflokkurinn var aðili að Alþjóðasambandi jafnaðarmanna frá árinu 1987 þar til hann rann inn í Samfylkinguna árið 2000.[27] Samfylkingin erfði aðild Alþýðuflokksins að alþjóðasambandinu en sagði sig úr sambandinu árið 2017.

Tilvísanir

breyta
  1. „Statutes of the Socialist International“. Socialist International.
  2. „About Us“. Socialist International.
  3. „Presidium“. Socialist International.
  4. Lamb & Docherty 2006, bls. 176.
  5. Lamb & Docherty 2006, bls. xxiv.
  6. Lamb & Docherty 2006, bls. xxv.
  7. Lamb & Docherty 2006, bls. 302.
  8. Lamb & Docherty 2006, bls. 52.
  9. Lamb & Docherty 2006, bls. 77.
  10. Alþjóðasamböndin og klofning verkalýðshreyfingarinnar. Kyndill. 1. apríl 1943.
  11. Lamb & Docherty 2006, bls. 177.
  12. Lamb & Docherty 2006, bls. 197.
  13. Lamb & Docherty 2006, bls. 320.
  14. The Dictionary of Contemporary Politics of South America, Routledge, 1989
  15. Väänänen, Pentti (2012). Purppuraruusu ja samettinyrkki (finnska) (1st. útgáfa). Kellastupa. bls. 192–194. ISBN 9789525787115.
  16. „SI decision on Tunisia“. Socialist International. 17. janúar 2011.
  17. „Letter to the General Secretary of the National Democratic Party, NDP Egypt“ (PDF). Socialist International. 31. janúar 2011. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 3 febrúar 2011. Sótt 8. september 2020.
  18. „SI Presidium addresses situation in Côte d'Ivoire“. Socialist International. 19. mars 2011.
  19. „Statutes“. Socialist International (enska). Sótt 3. maí 2019.
  20. Bruderzwist unter Sozialisten - Politik - Süddeutsche.de. Sueddeutsche.de. Skoðað 8. september 2020.
  21. Progressive Alliance: Sozialdemokraten gründen weltweites Netzwerk - SPIEGEL ONLINE. Spiegel.de (22. maí 2013). Skoðað 8. september 2020.
  22. Sozialdemokratie: „Progressive Alliance“ gegründet - Politik. FAZ. Skoðað 8. september 2020.
  23. Sozialistische Internationale hat ausgedient: SPD gründet "Progressive Alliance". n-tv.de. Skoðað 8. september 2020.
  24. „SPD will Sozialistischer Internationale den Geldhahn zudrehen und den Mitgliedsbeitrag nicht zahlen – SPIEGEL ONLINE“. Der Spiegel. 22. janúar 2012. Sótt 8. september 2020.
  25. Sigmar Gabriel (3. febrúar 2011). „Gastbeitrag: Keine Kumpanei mit Despoten | Meinung – Frankfurter Rundschau“ (þýska). Fr-online.de. Sótt 8. september 2020.
  26. 26,0 26,1 Les enfants cachés du Général Pinochet. Précis de Coups d'État Modernes et autres tentatives de déstabilisation. Éditions Don Quichotte. 2015. bls. 613–614.
  27. Lamb & Docherty 2006, bls. 160.

Heimildir

breyta