Alþjóðasamband jafnaðarmanna
Alþjóðasamband jafnaðarmanna (enska: Socialist International eða SI) er alþjóðasamtök stjórnmálaflokka sem aðhyllast lýðræðislega jafnaðarstefnu.[1] Flestir aðildarflokkar sambandsins eru sósíaldemókrataflokkar, sósíalistaflokkar eða verkamannaflokkar.
Alþjóðasamband jafnaðarmanna | |
---|---|
Ríki þar sem aðildarflokkar SI starfa. | |
Skammstöfun | SI |
Stofnun | 1951 |
Gerð | Alþjóðleg félagasamtök |
Höfuðstöðvar | London, Bretlandi |
Meðlimir | 147 |
Aðalritari | Benedicta Lasi |
Forseti | Pedro Sánchez |
Vefsíða | www.socialistinternational.org |
Alþjóðasambandið var stofnað árið 1951 og var ætlað að taka við af Alþjóðasambandi sósíalískra verkamanna (SAI) en uppruna þess má rekja til síðhluta 19. aldar. Í dag telur sambandið til sín 147 aðildarflokka[2] og stofnanir í rúmlega 100 löndum. Aðildarflokkarnir hafa setið í ríkisstjórn í mörgum löndum, meðal annars flestum löndum Evrópu.
Núverandi aðalritari samtakanna er Benedicta Lasi frá Gana. Forseti sambandsins er Pedro Sánchez, núverandi forsætisráðherra Spánar.[3] Þau voru bæði kjörin a síðasta þingi Alþjóðasambandsins í Madríd á Spáni í nóvember árið 2022.
Söguágrip
breytaFyrsta og annað alþjóðasambandið (1864–1916)
breytaAlþjóðasamtök verkalýðsins, eða fyrsta alþjóðasambandið, voru fyrstu alþjóðasamtökin sem reyndu að sameina stjórnmálaöfl verkalýðsins þvert á landamæri.[4] Samtökin voru stofnuð þann 28. september árið 1864 að undirlagi sósíalískra, kommúnískra og anarkískra stjórnmálahópa og stéttarfélaga.[5] Togstreita á milli hófsemismanna og byltingarsinna innan samtakanna leiddi til þess að þau voru leyst upp árið 1876 í Philadelphiu.[6]
Annað alþjóðasambandið var stofnað í París þann 14. júlí árið 1889 sem samband sósíalistaflokka.[7] Ágreiningur um fyrri heimsstyrjöldina leiddi til þess að sambandið var leyst upp árið 1916.
Alþjóðasamband sósíalískra verkamanna (1919–1940)
breytaAlþjóðanefnd jafnaðarmanna (e. International Socialist Commission eða ISC) var stofnuð á fundi í Bern í febrúar árið 1919 að undirlagi flokka sem vildu endurlífga annað alþjóðasambandið.[8] Í mars árið 1919 stofnuðu kommúnistaflokkar Komintern (Þriðja alþjóðasambandið) á ráðstefnu í Moskvu.[9]
Flokkar sem ekki vildu ganga í ISC eða Komintern stofnuðu með sér Alþjóðasamband lýðsins (sem einnig var kallað Vínarsambandið[10]) á ráðstefnu í Vín þann 27. febrúar 1921.[11] ISC og Vínarsambandið sameinuðust í Alþjóðasamband sósíalískra verkamanna í maí árið 1923 eftir ráðstefnu í Hamborg.[12] Það samband lognaðist út af árið 1940 vegna uppgangs nasisma og byrjun seinni heimsstyrjaldarinnar.
Alþjóðasamband jafnaðarmanna (1951–)
breytaAlþjóðasamband jafnaðarmanna var stofnað í júlí árið 1951 í Frankfurt til að koma í stað Alþjóðasambands sósíalískra verkamanna.[13]
Á eftirstríðsárunum styrkti Alþjóðasambandið jafnaðarflokka sem þurftu að hasla sér völl á ný þegar fasískt einræði leið undir lok í Portúgal (1974) og á Spáni (1974). Fyrir þing sitt árið 1976 í Genf áttu fáir stjórnmálaflokkar utan Evrópu aðild að Alþjóðasambandinu og sambandið átti engin ítök í Rómönsku Ameríku.[14] Á níunda áratugnum lýstu flestir aðildarflokkar sambandsins yfir stuðningi við Þjóðfrelsisfylkingu sandínista þegar Bandaríkjastjórn reyndi að fella lýðræðislega kjörna vinstristjórn hennar í Níkaragva. Það mál leiddi til Íran-kontrahneykslisins í Bandaríkjunum þegar stjórn Ronalds Reagan Bandaríkjaforseta hélt áfram í laumi að styðja kontraskæruliða gegn sandínistum þrátt að Bandaríkjaþing hefði lagt bann við því.
Síðla á áttunda áratugnum og í byrjun níunda áratugarins átti Alþjóðasamband jafnaðarmanna í samræðum við leiðtoga risaveldanna tveggja í kalda stríðinu, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, í málefnum varðandi samskipti austurs og vesturs og vopnaeftirlit. Alþjóðasambandið studdi slökunarstefnu og afvopnunarsáttmála á borð við SALT-II, START og INF-samningana. Fulltrúar sambandsins funduðu í Washington, D.C. með Jimmy Carter Bandaríkjaforseta og George Bush varaforseta og í Moskvu með aðalriturunum Leoníd Brezhnev og Míkhaíl Gorbatsjov. Finnski forsætisráðherrann Kalevi Sorsa leiddi sendinefndir sambandsins í þessum viðræðum.[15]
Sambandið hefur upp frá því veitt æ fleiri flokkum frá Afríku, Asíu, Evrópu og Rómönsku Ameríku aðild.
Eftir byltinguna í Túnis árið 2011 var Lýðræðislega stjórnskipunarsamkundan, stjórnarflokkur Ben Ali forseta, rekin úr alþjóðasambandinu.[16] Síðar sama mánuð var Lýðræðisflokkur þjóðarinnar í Egyptalandi einnig rekinn.[17] Alþýðufylking Fílabeinsstrandarinnar var einnig rekin í samræmi við grein 7.1 í lögum sambandsins eftir hrinu ofbeldis á árunum 2010 til 2011.[18] Brottrekstrarnir voru staðfestir á þingi Alþjóðasambandsins í Höfðaborg árið 2012.[19]
Klofningur Framfarabandalagsins (2013)
breytaÞann 22. maí árið 2013 klufu þýski Jafnaðarmannaflokkurinn og nokkrir fleiri aðildarflokkar sig úr Alþjóðasambandinu og stofnuðu sín eigin alþjóðasamtök jafnaðarflokka undir nafninu Framfarabandalagið. Klofningsflokkarnir bentu á það sem þeir töldu úrelt og ólýðræðislegt skipulag Alþjóðasambandsins[20][21][22][23] og gagnrýndu Alþjóðasambandið jafnframt fyrir að veita ólýðræðislegum stjórnmálahreyfingum aðild.[24][25]
Samband við Rómönsku Ameríku
breytaAlþjóðasamband jafnaðarmanna hélt lengi ákveðna fjarlægð frá Rómönsku Ameríku þar sem litið var á álfuna sem áhrifasvæði Bandaríkjanna. Alþjóðasambandið gagnrýndi til dæmis ekki valdaránið í Gvatemala 1954 gegn sósíalíska forsetanum Jacobo Árbenz eða innrás Bandaríkjanna í Dóminíska lýðveldið árið 1965. Það var ekki fyrr en eftir valdaránið í Síle 1973 sem Alþjóðasambandið fór að standa með vinstrihreyfingum í Rómönsku Ameríku. Antoine Blanca, erindreki Alþjóðasambandsins úr franska Sósíalistaflokknum, skrifaði að eftir valdaránið í Síle hafi sambandið uppgötvað „heim sem við þekktum ekki“ og að samstaða með vinstrimönnum í Síle gegn Bandaríkjamönnum hafi verið fyrsta meiriháttar áskorun sambandsins. Sambandið átti síðar, sérstaklega á stjórnartíð François Mitterrand, eftir að styðja sandínista í Níkaragva og aðrar vinstrihreyfingar í El Salvador, Gvatemala og Hondúras í baráttu þeirra gegn hægrisinnuðum einræðisstjórnum sem nutu stuðnings Bandaríkjanna.[26]
Á tíunda áratugnum gengu ýmsir flokkar sem ekki voru sósíalískir í Alþjóðasambandið. Þessir flokkar hrifust af efnahagsstyrk Evrópuríkja þar sem aðildarflokkar sambandsins nutu áhrifa og reiknuðu með því að geta hagnast af aðild. Meðal þessara flokka má nefna Róttæka borgarabandalagið í Argentínu, Byltingarsinnaða stofnanaflokkinn í Mexíkó og Frjálslynda flokkinn í Kólumbíu. Margir vinstriflokkar sem komust til valda í Rómönsku Ameríku á fyrsta áratugi 21. aldar (í Brasilíu, Venesúela, Bólivíu, Ekvador og El Salvador) gengu því aldrei í sambandið.[26]
Íslenskir aðildarflokkar
breytaAlþýðuflokkurinn var aðili að Alþjóðasambandi jafnaðarmanna frá árinu 1987 þar til hann rann inn í Samfylkinguna árið 2000.[27] Samfylkingin erfði aðild Alþýðuflokksins að alþjóðasambandinu en sagði sig úr sambandinu árið 2017.
Tilvísanir
breyta- ↑ „Statutes of the Socialist International“. Socialist International.
- ↑ „About Us“. Socialist International.
- ↑ „Presidium“. Socialist International.
- ↑ Lamb & Docherty 2006, bls. 176.
- ↑ Lamb & Docherty 2006, bls. xxiv.
- ↑ Lamb & Docherty 2006, bls. xxv.
- ↑ Lamb & Docherty 2006, bls. 302.
- ↑ Lamb & Docherty 2006, bls. 52.
- ↑ Lamb & Docherty 2006, bls. 77.
- ↑ „Alþjóðasamböndin og klofning verkalýðshreyfingarinnar“. Kyndill. 1. apríl 1943.
- ↑ Lamb & Docherty 2006, bls. 177.
- ↑ Lamb & Docherty 2006, bls. 197.
- ↑ Lamb & Docherty 2006, bls. 320.
- ↑ The Dictionary of Contemporary Politics of South America, Routledge, 1989
- ↑ Väänänen, Pentti (2012). Purppuraruusu ja samettinyrkki (finnska) (1st. útgáfa). Kellastupa. bls. 192–194. ISBN 9789525787115.
- ↑ „SI decision on Tunisia“. Socialist International. 17. janúar 2011.
- ↑ „Letter to the General Secretary of the National Democratic Party, NDP Egypt“ (PDF). Socialist International. 31. janúar 2011. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 3 febrúar 2011. Sótt 8. september 2020.
- ↑ „SI Presidium addresses situation in Côte d'Ivoire“. Socialist International. 19. mars 2011.
- ↑ „Statutes“. Socialist International (enska). Sótt 3. maí 2019.
- ↑ Bruderzwist unter Sozialisten - Politik - Süddeutsche.de. Sueddeutsche.de. Skoðað 8. september 2020.
- ↑ Progressive Alliance: Sozialdemokraten gründen weltweites Netzwerk - SPIEGEL ONLINE. Spiegel.de (22. maí 2013). Skoðað 8. september 2020.
- ↑ Sozialdemokratie: „Progressive Alliance“ gegründet - Politik. FAZ. Skoðað 8. september 2020.
- ↑ Sozialistische Internationale hat ausgedient: SPD gründet "Progressive Alliance". n-tv.de. Skoðað 8. september 2020.
- ↑ „SPD will Sozialistischer Internationale den Geldhahn zudrehen und den Mitgliedsbeitrag nicht zahlen – SPIEGEL ONLINE“. Der Spiegel. 22. janúar 2012. Sótt 8. september 2020.
- ↑ Sigmar Gabriel (3. febrúar 2011). „Gastbeitrag: Keine Kumpanei mit Despoten | Meinung – Frankfurter Rundschau“ (þýska). Fr-online.de. Sótt 8. september 2020.
- ↑ 26,0 26,1 Les enfants cachés du Général Pinochet. Précis de Coups d'État Modernes et autres tentatives de déstabilisation. Éditions Don Quichotte. 2015. bls. 613–614.
- ↑ Lamb & Docherty 2006, bls. 160.
Heimildir
breyta- Lamb, Peter; Docherty, James C. (2006). Historical Dictionary of Socialism (2. útgáfa). The Scarecrow Press. ISBN 978-0-8108-5560-1. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. febrúar 2014. Sótt 8. september 2020.