1641-1650

áratugur

1641-1650 var fimmti áratugur 17. aldar sem telst til árnýaldar í sögu Evrópu.

Árþúsund: 2. árþúsundið
Öld: 16. öldin · 17. öldin · 18. öldin
Áratugir: 1621–1630 · 1631–1640 · 1641–1650 · 1651–1660 · 1661–1670
Ár: 1641 · 1642 · 1643 · 1644 · 1645 · 1646 · 1647 · 1648 · 1649 · 1650
Flokkar: Fædd · Dáin · Stofnað · Lagt niður

Á þessum áratug áttu sér stað breytingar sem höfðu mikil áhrif á stjórnmál heimsins allt fram á 20. öld: Í Kína tók Kingveldið yfir miðstjórnarvaldið sem það hélt til 1912; Enska borgarastyrjöldin hefur verið kölluð fyrsta borgaralega byltingin; og Vestfalíufriðurinn 1648 varð ein af grunnstoðum þjóðríkja 19. aldar með því að festa í sessi hugmyndina um alþjóðasamskipti milli formlega jafngildra fullvalda ríkja og mikilvægi valdajafnvægis í Evrópu.

Atburðir og aldarfar

breyta
 
Der November eftir Joachim von Sandrart frá 1643.
 
Loðvík 14. og bróðir hans, hertoginn af Orléans á málverki frá miðjum 5. áratugnum.

Þrjátíu ára stríðið

breyta

Bardagar héldu áfram í Þrjátíu ára stríðinu, einkum milli keisarahers hins Heilaga rómverska ríkis annars vegar og herja Svía og Frakka hins vegar. Mörg héruð Þýskalands voru orðin að auðn eftir áratugalangar herfarir, sjúkdóma og hungursneyð. Friðarsamningar voru loks undirritaðir í Vestfalíu árið 1648.

Enska borgarastyrjöldin

breyta

Einveldistilburðir Karls 1. Englandskonungs leiddu til upphafs Ensku borgarastyrjaldarinnar árið 1642. Bardagar stóðu allan áratuginn og lyktaði með því að Karl var hálshöggvinn árið 1649. Við það lýsti sonur hans, Karl 2., sig konung og reyndi innrás sem mistókst. Hann var ekki viðurkenndur sem Englandskonungur fyrr en árið 1660.

Í borgarastyrjöldinni kom enska þingið sér upp atvinnuher, New Model Army, þar sem kjarninn var róttækir mótmælendur. Herinn varð fljótt pólitískt afl sem átti þátt í því að riddaraliðsforinginn Oliver Cromwell komst til valda.

Dansk-norska ríkið

breyta

Dansk-norska ríkið upplifði stutt velmegunarskeið eftir að Kristján 4. dró sig út úr Þrjátíu ára stríðinu með samningi við keisarann 1629, en Torstensonófriðurinn 1643 var sá fyrsti í röð hernaðarósigra fyrir Svíþjóð sem á endanum leiddu til þess að Danmörk missti öll lönd sín austan megin Eyrarsunds. Kristján lést sama ár og Þrjátíu ára stríðinu lauk eftir sextíu ára valdatíma.

Á Íslandi voru biskuparnir Þorlákur Skúlason á Hólum og Brynjólfur Sveinsson í Skálholti áberandi í handritasöfnun í anda fornmenntastefnunnar. Brynjólfur sendi Kristjáni 4. Konungsbók Eddukvæða, eitt frægasta Eddukvæðahandritið, sem gjöf árið 1643.

Síðasta keisaraveldi hankínverja, Mingveldið, missti miðstjórnarvaldið í Kína þegar mansjúmenn lögðu Peking undir sig og stofnuðu Kingveldið árið 1644.

Landkönnun

breyta

Könnun Kyrrahafsins hélt áfram og hollenski skipstjórinn Abel Tasman kannaði Nýja-Sjáland og Tasmaníu og norðurströnd Ástralíu í tveimur leiðöngrum frá Austur-Indíum 1642-1643 og 1644.

Ráðamenn

breyta
1641 1642 1643 1644 1645 1646 1647 1648 1649 1650
Dansk-norska ríkið Kristján 4. (1596-1648) Friðrik 3. (1648-1670)
England, Írland og Skotland Karl 1. (1625-1649) Enska samveldið (1649-1660)
Eþíópía Fasilides (1632-1667)
Frakkland Loðvík 13. (1610-1643) Loðvík 14. (1643-1715)
Hið heilaga rómverska ríki Ferdinand 3. (1637-1657)
Holland Friðrik af Óraníu (1625-1647) Vilhjálmur af Óraníu (1647-1650)
Japan Meishō (1629-1643) Go-Kōmyō (1643-1654)
Tokugawa Iemitsu (1623-1651)
Kingveldið Huang Taiji (1626-1643) Shunzhi (1644-1661)
Mingveldið Chongzhen keisari (1627-1644)
Krímkanatið Bahadır 1. Giray (1637-1641) Mehmed 4. Giray İslâm 3. Giray (1644-1654)
Marokkó Mohammed esh Sheikh es Seghir (1636-1655)
Mógúlveldið Shah Jahan (1628-1658)
Ottómanaveldið Íbrahím 1. (1640-1648) Memeð 4. (1648-1687)
Páfi Úrbanus 8. (1623-1644) Innósentíus 10. (1644-1655)
Portúgal Jóhann 4. (1640-1656)
Pólsk-litháíska samveldið Vladislás 4. Vasa (1632-1648) Jóhann 2. Kasimír (1648-1672)
Rússneska keisaradæmið Mikael Rómanov (1613 - 1645) Alexis Rússakeisari (1645-1676)
Spánn Filippus 4. (1621-1665)
Safavídaríkið Safi (1629-1642) Abbas 2. (1642-1666)
Svíþjóð Kristín Svíadrottning (1632-1654)