Loðvík 13.
Loðvík 13. (27. september 1601 – 14. maí 1643) Frakkakonungur, eða Loðvík 2. konungur Navarra, kallaður Loðvík réttláti, var konungur Frakklands og Navarra frá 1610 til dauðadags. Hann var elsti sonur Hinriks 4. og Mariu de'Medici.
Loðvík komst til valda eftir morðið á föður hans aðeins átta ára gamall. Móðir hans fór með stjórn ríkisins fyrir hann þar til hann varð lögforráða þrettán ára gamall, en hélt áfram í valdataumana þar til Loðvík tók völdin í sínar hendur fimmtán ára gamall, og rak hana í útlegð um leið og hann lét myrða helsta ráðgjafa hennar, Concino Concini.
Helsti ráðgjafi Loðvíks var Richelieu kardináli og undir þeirra stjórn hurfu Frakkar frá stuðningi við Habsborgara og Spán, en afturkölluðu jafnframt þau pólitísku réttindi sem húgenottar höfðu fengið í valdatíð Hinriks. Richelieu skipaði Frakklandi við hlið mótmælenda í Þrjátíu ára stríðinu og veitti bæði Kristjáni 4. og Gústaf 2. Adolf fjárstyrk til að hindra framsókn Habsborgara og varðveita valdajafnvægið á meginlandi Evrópu.
Loðvík 13. lést úr steinsótt, ári eftir Richelieu kardinála.
Fyrirrennari: Hinrik 4. |
|
Eftirmaður: Loðvík 14. |