Úrbanus 8.
Úrbanus 8. (skírður 5. apríl 1568 – 29. júlí 1644) var páfi kaþólsku kirkjunnar frá 1623 til dauðadags. Hann var síðasti páfinn sem stækkaði Páfaríkið með hervaldi, en um leið steypti hann páfastól í skuldir sem drógu mjög úr möguleikum eftirmanna hans til að hafa hernaðarleg eða pólitísk áhrif í Evrópu.
Úrbanus hét Maffeo Barberini og var úr aðalsfjölskyldu frá Flórens. Hann hlaut grunnmenntun hjá jesúítum og tók síðan próf í lögfræði við Háskólann í Písa 1589. Frændi hans, sem gegndi stöðu postullegs frumbókanda, náði að tryggja honum stöðu sendimanns Klemens 8. páfa við hirð Hinriks 4. Frakkakonungs árið 1601. 1604 var hann skipaður erkibiskup í Nasaret, sem var heiðurstitill án raunverulegs umboðs enda Landið helga undir stjórn Tyrkjaveldis. Hann varð meðlimur kardinálaráðsins í tíð Páls 5. og gerðist sendimaður í Bologna. 6. ágúst 1623 var hann kjörinn eftirmaður Gregoríusar 15. og tók sér nafnið Úrbanus.
Úrbanus vann ötullega að því að auka sjálfstæði páfaveldisins og sín eigin völd, fremur en styrkja kaþólska trú í Evrópu þar sem Þrjátíu ára stríðið geisaði. Hann hyglaði ættingjum sínum sem sumir högnuðust gríðarlega í valdatíð hans, svo hann virtist vera að vinna að stofnun ættarveldis Barberini-fjölskyldunnar. 1626 gerði hann hertogadæmið Úrbínó að hluta Páfaríkisins og þegar karlleggur Gonzaga-ættarinnar dó út studdi hann tilkall hertogans af Nevers, sem var mótmælandi, gegn tilkalli hinna kaþólsku Habsborgara. Úrbanus jók vígvæðingu Páfaríkisins, kom upp vopnabúri í Vatíkaninu, víggirti Castel Sant'Angelo í Róm og Castelfranco Emilia á landamærunum við Mantúu. Hann stofnaði vopnaverksmiðju í Tívolí og bætti varnir hafnarinnar í Civitavecchia. Hann varð frægur fyrir að taka gríðarstóra bronsbjálka úr Pantheon í Róm til að steypa úr þeim fallbyssur. Við það tækifæri var sagt quod non fecerunt barbari, fecerunt Barberini („Það sem barbararnir ekki gerðu, það gerði Barberini“).
Úrbanus fjármagnaði líka verkefni á sviði byggingarlistar, svo sem Palazzo Barberini í Róm sem var teiknuð af Gian Lorenzo Bernini og Francesco Borromini, og studdi listmálara á borð við Nicolas Poussin og Claude Lorrain.
Afleiðingin af þessum verkefnum var gríðarleg skuldasöfnun embættisins. Úrbanus erfði 16 milljón skúta skuld frá fyrirrennurum sínum og jók hana í 28 milljónir skúta fyrir 1635. 1640 var skuldin komin í 35 milljónir og vaxtagreiðslurnar námu 80% af árstekjum páfa.
Úrbanus páfi tók Rosaliu mey í tölu dýrlinga árið 1630.
Fyrirrennari: Gregoríus 15. |
|
Eftirmaður: Innósentíus 10. |