Fornfræði

(Endurbeint frá Fornfræðingur)

Fornfræði eða klassísk fræði er fræðigrein sem fjallar um sögu, menningu og arfleifð klassískrar menningar Grikkja og Rómverja.[1] Viðfangsefni fornfræðinga eru margvísleg og vinnubrögð þeirra einnig. Innan fornfræðinnar vinna fræðimenn ýmist að sagnfræði, heimspeki, bókmenntasögu eða málvísindum að svo miklu leyti sem þessar greinar fást við fornöldina. Einkum er það málakunnátta í forngrísku og latínu, sameiginleg þekking á bókmenntum og öðrum heimildum fornaldar og þjálfun í klassískri textafræði sem sameinar ólíka fornfræðinga.

Wikipedia
Wikipedia
Forngríska skáldið Hómer.

Tímabilið sem fornfræðin fjallar um nær í grófum dráttum frá um 2000 f.Kr. er hópar grískumælandi fólks streymdu inn í Grikkland, til loka fornaldar um 500 e.Kr. eftir hrun Vestrómverska ríkisins. Fornfræðingar vinna náið saman með fornleifafræðingum einkum í rannsóknum á elsta tímabilinu en einnig á síðari hlutum tímabilsins.

Undirgreinar

breyta

Eitt eftirtektarverðasta einkennið á fornfræði er margbreytileiki innan greinarinnar, bæði er varðar viðfangsefni og eins aðferðir. Megináherslan hefur ávallt verið á Grikkland hið forna og Rómaveldi en fornfræðingar, einkum fornaldarsagnfræðingar, fást í síauknum mæli við aðrar menningarþjóðir umhverfis Miðjarðarhafið, bæði í Miðausturlöndum og Norður-Afríku.

Textafræði og textarýni

breyta
 
Upphaf 1. bókar Um sálina eftir Aristóteles á frummálinu (forngrísku) í fræðilegri útgáfu textans. Neðanmáls eru textafræðilegar og handritafræðilegar skýringar í svonefndum apparatus criticus.

Frá upphafi hefur textafræði verið kjarninn í fornfræðinni. Segja má að textafræði sé rannsókn á textum í víðum skilningi: Uppruna þeirra, miðlun þeirra, merkingu þeirra og samhengi. Klassísk textafræði er textafræði forngrískra og latneskra texta. Klassísk textafræði er enn kjarninn í menntun og þjálfun fornfræðinga.

Ein skilgreining klassískrar textafræði lýsir henni sem „vísindagrein sem fjallar um allar leifar klassískrar fornaldar, einkum texta á forngrísku eða latínu. Viðfangsefni greinarinnar er því hinn grísk-rómverski eða klassíski heimur að því marki sem varðveittar eru um hann ritaðar heimildir.“[2] Fornfræðingar fást auðvitað einnig við önnur tungumál, þar á meðal línuletur A, sanskrít, hebresku, arabísku og mörg fleiri og einnig línuletur B, sem er forngrísk táknskrift sem er eldri en gríska stafrófið.

Áður en prenttæknin var fundin upp voru textar afritaðir í handritum en dreifing handrita gat verið tilviljanakennd. Afleiðing þessa er sú að margar ólíkar útgáfur sama textans eru varðveittar í handritum. Auk þess að leita skilnings á merkingu texta í því samhengi sem þeir voru skrifaðir vinna fornfræðingar að því að bera saman ólíkar útgáfur textanna og reyna að finna „réttan“ texta eða komast að minnsta kosti eins nærri upphaflegum texta og mögulegt er.[3] Þessi hluti textafræðinnar kallast textarýni. Að lokum er textinn gefinn út með handritafræðilegum- og textafræðilegum skýringum. Þessi hluti fornfræðinnar lýtur að uppruna textanna og miðlun þeirra.

Oft eru þessi atriði í textafræði og textarýni óaðskiljanleg spurningum um túlkun textans. Þess vegna eru mörkin stundum óljós á milli textafræði og textarýni annars vegar og bókmenntasögu og túlkunarfræði hins vegar. Því getur verið erfitt að komast að óhlutdrægri niðurstöðu til dæmis þegar textinn fjallar um trúarbrögð, stjórnmál eða heimspeki enda veltur þá túlkun textans oft að jafnmiklu leyti á þeirri heildarmynd sem menn hafa eins og heildarmyndin veltur á túlkun á einstökum textum.

Bókmenntasaga og bókmenntarýni

breyta

Fornfræðingar rannsaka ekki klassíska texta eingöngu út frá textafræðinni og með aðferðum hennar. Þeir reyna einnig að segja bókmenntasögu Forn-Grikkja og Rómverja. Sumir rannsaka bókmenntirnar sem slíkar og beita bókmenntarýni. Segja má að auk textafræðinnar séu klassískar bókmenntir hornsteinn klassískra fræða. Fornfræðingar sem fást einkum við klassískar bókmenntir sérhæfa sig gjarnan enn frekar. Margir fást eingöngu við annaðhvort grískar bókmenntir eða latneskar bókmenntir, sumir sérhæfa sig í kveðskap en aðrir einbeita sér að textum í óbundnu máli, sumir rannsaka einkum leikritun, epískan kveðskap eða lýrískan kveðskap en aðrir ræðumennsku eða sagnaritun.

Fornaldarheimspeki

breyta
 
Platon og Aristóteles.

Rætur vestrænnar heimspeki eru í forngrískri heimspeki. Sú heimspekihefð sem hófst með Þalesi frá Míletos í upphafi 6. aldar f.Kr. á sér órofa sögu í gegnum miðaldir til vorra daga. Heimspekingar á borð við Sókrates, Platon og Aristóteles og jafnvel stefnur á borð við stóuspeki, epikúrisma og efahyggju höfðu gríðarleg áhrif á hugsuði miðalda, endurreisnartímans og nýaldar og gera enn nú á tímum. Þeir hafa að mörgu leyti mótað spurningarnar sem spurðar eru innan vestrænnar heimspeki og orðræðuna um þær.[4]

Sem fræðigrein er fornaldarheimspeki sameiginlegt sérsvið innan fornfræði og heimspeki. Hún fjallar um heimspeki fornaldar, einkum gríska og rómverska heimspeki og arfleifð hennar í nútímaheimspeki og hugmyndasögu. Þeir sem fást við heimspeki fornaldar nálgast viðfangsefnið bæði frá sjónarhóli og með aðferðum fornfræðinnar og heimspekinnar. Fyrsta verk fornfræðingsins eða heimspekisagnfræðingsins er að leggja mat á textann sem er varðveittur, hvernig rétt útgáfa textans lítur út og hvað hann merki í sögulegu samhengi. Næst er að leggja mat á þær hugmyndir og þau rök sem heimspekingar fornaldar héldu fram og hvaða máli þau skipta í nútímanum. Þannig fást fræðimenn við fornaldarheimspeki með aðferðum textafræðinnar en fjalla jafnframt um heimspekina sem heimspeki og leggja gagnrýnið mat á hana sem slíka.

Fornaldarsaga

breyta
 
Venusarhofið við Villa Adriana í Tívolí.

Sumir fornfræðingar byggja á sögulegum frásögnum í rituðum heimildum og styðjast við niðurstöður klassískrar textafræði og sögulegra málvísinda, fornleifafræði og listasögu til þess að afla þekkingar á sögu og menningu fornþjóða. Þeir rannsaka bæði ritaðar heimildir og fornleifar til að segja sögu fornaldar. Því miður eru heimildir oft af skornum skammti og því er lítið vitað um marga hluti, atburði og þjóðfélagshópa. Þannig reyna fornfræðingar nú að fylla í eyðurnar til að öðlast skilning á lifnaðarháttum og aðbúnaði kvenna í fornöld, þræla og ýmissa annarra hópa. Annar vandi er sá að heimildir eru oft rýrari um suma hluti en aðra. Til dæmis var Sparta nokkurs konar stórveldi í Grikklandi hinu forna, en tiltölulega fáar heimildir eru til um Spörtu. Á hinn bóginn eru miklu fleiri heimildir um helsta andstæðing Spörtu, Aþenu. Á sama hátt varð útþensla Rómaveldis til þess að færri heimildir eru til um eldri menningu, til dæmis Etrúra.

Nálgun fornaldarsagnfræðinga er marvísleg. Sumir fást einkum við hagsögu en aðrir einbeita sér að menningarsögu eða trúarbragðasögu, þ.e. rannsaka og segja sögu fornþjóðanna út frá menningarlegum eða trúarlegum hugtökum (til dæmis sæmd og skömm, réttindi, guðdómleiki, dýrkun og fórnarsiðir).

Fornleifafræði

breyta
 
Kórintískur smápeningur frá 4. öld f.Kr.

Ólíkt textafræðingum sem rannsaka bókmenntir og málsögu og varðveittar ritaðar heimildir Forn-Grikkja og Rómverja, rannsaka fornleifafræðingar í klassískri fornleifafræði varðveittar efnislegar leifar fornaldar. Auk Grikklands hins forna og Rómaveldis fást fornleifafræðingar meðal annars við Mesópótamíu og Egyptaland og ýmislegt annað. Fornleifarnar sem fornleifafræðingar grafa úr jörðu geta verið allt frá heilum hofum til lítilla hluta eins og örvarodda og smápeninga. Myntfræði er sérgrein innan klassískrar fornfræði.

Listasaga

breyta

Sumir listasagnfræðingar einbeita sér að þróun listar í fornöld. List Grikkja og Rómverja hefur haft ómælanleg áhrif á vestræna menningu. Þeir hafa venjulega hlotið þjálfun í klassískri fornleifafræði auk þess að hafa að baki menntun í listasögu.

Saga fornfræðinnar

breyta

„Klassík“

breyta

Fornfræðin, sem nefnist einnig klassísk fræði (sbr. e. „classics“), fjallar um klassíska fornöld. Orðið „klassík“ er komið af latneska lýsingarorðinu classicus sem merkir eitthvað „sem tilheyrir yfirstéttinni“. Orðið kemur fyrst fyrir hjá rómverska rithöfundinum Aulusi Gelliusi, sem var uppi á 2. öld. Í riti sínu Noctes Atticae (Attíkunætur 19.8.15) lýsir hann rithöfundi nokkrum sem svo að hann sé classicus scriptor, non proletarius („hástéttarhöfundur en ekki lágstéttarhöfundur“).

Þessi venja hófst hjá Grikkjum en þeir röðuðu gjarnan höfundum sínum og menningarfyrirbærum í tignarröð. Orðið sem þeir notuðu var kanon, sem þýðir mælistika. Höfundar sem töldust tilheyra „kanonunni“ kallast „kanonískir“ höfundar. Þeir varðveittust frekar en aðrir höfundar því þeir þóttu miklu frekar þess verðir að vera afritaðir. Á endurreisnartímanum varð til vestræn „kanona“ sem þótti endurspegla það besta í vestrænni menningu.

Klassísk menntun, þ.e. menntun sem byggist á lestri klassískra („kanonískra“) höfunda, var lengi talin besta fáanlega þjálfun fyrir góða borgara, einkum þá er ætluðu sér frama í stjórnmálum. Hún var talin innræta nemendunum vitsmunalega og fagurfræðilega tilfinningu fyrir „því besta sem hefur verið hugsað og sagt í heiminum“. Rómverski stjórnmálamaðurinn, heimspekingurinn og rithöfundurinn Marcus Tullius Cicero sagði að „allar bókmenntir, allar heimspekiritgerðir og allar raddir fornaldarinnar væru fullar af dæmum til eftirbreytni og án bókmenntanna ljóss myndu þau öll liggja óséð í myrkri“.

Vestræna „kanonan“ varð til í fornöld. Gríska „kanonan“ sem hafði verið til frá dögum alexandrísku fræðimannanna en latneska „kanonan“ varð ekki til fyrr en seint á 1. öld e.Kr. Æ síðan hefur „kanonan“ verið miðlæg í klassískum fræðum og hugvísindum almennt.[5] En aðferðir fornfræðinnar eiga sér einnig rætur í klassískri fornöld, engu síður en viðfangsefnin.

Fornar rætur málfræði og bókmenntarýni, textafræði og textarýni

breyta

Málfræði og bókmenntarýni eiga sér rætur meðal í klassískri fornöld Grikklands hins forna hjá höfundum eins og Platoni og Aristótelesi. Uppruna textafræðinnar og textarýninnar má hins vegar rekja að minnsta kosti aftur til alexandríska fræðimanna á hellenískum tíma, ekki síst Zenódótosar, Aristófanesar frá Býzantíon og Aristarkosar frá Samóþrake, sem voru allir að störfum í bókasafninu í Alexandríu.[6] Þeir ritstýrðu textum klassískra grískra bókmennta, m.a. texta höfunda á borð við Hómer, Hesíódos, Pindaros, Platon og Demosþenes auk annarra. Þeir beittu m.a. málvísindalegum aðferðum og bókmenntarýni til að leggja mat á textana sem þeir rannsökuðu og gerðu athugasemdir við þá í útgáfum sínum en breyttu þeim ekki. Þannig voru til dæmis ljóðlínur sem þeim þótti grunsamlegar merktar en látnar vera áfram í textunum. Önnur bókasöfn voru starfrækt í Grikklandi hinu forna til dæmis í Pergamon.

Málfræðirannsóknum alexandrísku fræðimannanna var haldið áfram, meðal annars af Apolloníosi Dyskolosi og Díonýsíosi Þrax og síðar hjá Rómverjum, meðal annars hjá Marcusi Terentiusi Varro. Heimspekingar, einkum stóuspekingar, fengust einnig við málfræði og bókmenntir.

Á 1. öld f.Kr. samdi Díonýsíos frá Halikarnassos ýmsar ritgerðir um mælskufræði. Rit hans Um orðaskipan (Περι Συνθησεως Ονοματων) fjallaði um orðaröð í mismunandi gerðum kveðskapar. Um eftirlíkingu (Περι Μιμησεως) fjallar um bestu fyrirmyndirnar í ólíkum bókmenntagreinum og hvernig bæri að líkja eftir þeim. Hann samdi einnig skýringarrit við ræður attísku ræðumannanna (Περι των Αττικων Ρητορων) sem fjallaði einkum um stíl og efnistök Lýsíasar, Ísajosar og Ísókratesar. Verkið Um hinn aðdáunarverða stíl Demosþenesar (Περι λεκτικης Δημοσθενους δεινοτητος) fjallaði um stíl Demosþenesar sérstaklega.

Tveir mikilvægir bókmenntarýnar 1. aldar e.Kr. voru Longínos og Quintilianus. Verk Longínosar, Um hið háleita (Περὶ ὕψους), fjallar einkum um áhrifamátt góðra bókmennta og er ásamt riti Aristótelesar, Um skáldskaparlistina, mikilvægasta rit fornaldar um bókmenntarýni. Marcus Fabius Quintilianus var rómverskur kennari í mælskufræði. Hann samdi rit um menntun og vitsmunalegt uppeldi ræðumanna en í ritinu, Um menntun ræðumannsins (Institutio oratoria), er að finna margvíslega umfjöllun um bæði grískan og latneskan kveðskap, sagnaritun, heimspeki og ræðumennsku. Mat Quintilianusar á fornum höfundum hefur verið afar áhrifamikið og var snar þáttur í mótun smekks nútímamanna á verkum fornaldar, ekki síst latneskra höfunda.

Síðfornöld og miðaldir

breyta
 
Boethius.

Í síðfornöld var hnignun klassískrar menningar samfara hnignun Vestrómverska ríkisins og að einhverju leyti tilkomu kristninnar. Seint á 4. öld var grískukunnátta í Vestrómverska ríkinu æ sjaldgæfari. Til að ráða bót á þeim vanda réðust lærðir menn í það verkefni að þýða mikilvæga texta grískra höfunda yfir á latínu. Boethius hófst handa við að þýða rökfræðiritgerðir Aristótelesar og lauk við nokkrar þýðingar auk þess sem hann samdi skýringarrit við nokkur rita Aristótelesar. Á miðöldum voru grískir höfundar nær algerlega óþekktir í vestri nema af þeim fáu ritum sem til voru latneskum þýðingum. Þau voru lesin á miðöldum og voru þau, ekki síst þýðingar Boethiusar á rökfræðiritum Aristótelesar, kjarninn í menntun allra lærðra manna ásamt ýmsum latneskum málfræðiritgerðum eftir höfunda eins og Aelius Donatus og Priscianus. En rit Aristótelesar urðu líka kjarninn í skólaspekinni. Auk þessara rita voru lesin latnesk rit höfunda á borð við Cíceró, Sallústíus og Lucanus. Megnið af þeim latneskum bókmenntum sem nú eru varðveittar var afritað og varðveitt í klaustrum.

Meðan þekking Vestur-Evrópumanna á klassískri fornöld hékk á bláþræði á frummiðöldum voru klassískar menntir í miklum blóma í Austrómverska ríkinu. Þar voru grísk rit lesin, afrituð, rannsökuð og varðveitt og grískur kveðskapur og mælskulist var kennd í skólum. Frá Konstantínópel bárust handrit til Miðausturlanda þar sem þau voru þýdd yfir á sýrlensku og arabísku, einkum á heimspeki- og fræðitextum. Undir lok 12. aldar og í byrjun 13. aldar hafði ástandið breyst í Austrómverska ríkinu, sem átti nú í vök að verjast gagnvart erlendum innrásarherjum.

Endurreisnin og nýöld

breyta

Á 14. öld og snemma á 15. öld fóru að berast æ fleiri grísk handrit að austan. Aukin kynni Vestur-Evrópumanna af grískum bókmenntum og fræðum, sem héldust í hönd við hnignun Austrómverska ríkisins, leiddu til nýs tíma í sögu Vestur-Evrópu, endurreisnartímans. Í fyrstu voru ritin þýdd úr arabísku, yfir á latínu, síðan úr grísku yfir á latínu og loks yfir á þjóðtungurnar. Um miðja 15. öld var prenttæknin fundin upp og jók það mjög á útbreiðslu klassískra bókmennta. Grískar og latneskar bókmenntir voru nú aðgengilegar öllum menntuðum mönnum alls staðar í Evrópu.

En handritin höfðu ekki öll sama textann og því varð á ný þörf á aðferðum textafræðinnar og textarýninnar. Enn fremur var ekki alltaf sami textinn í prentuðum bókum og þeim handritum sem komu í leitirnar eftir að textinn hafði verið prentaður. Handritafræðin varð til seint á 17. öld. Á nýöld unnu fræðimenn að því að bera saman ólík handrit sömu verka, komast að því hver tengslin eru á milli handritanna og ritstýra svo útgáfum ritanna með eins upprunalegum texta og mögulegt er. Á 19. öld var farið að gefa út útgáfur rita með textafræðilegum og handritafræðilegum skýringum.

Samtíminn

breyta

Nú á dögum eru til fræðilegar útgáfur flestra texta klassískra bókmennta ásamt textafræðilegum og handritafræðilegum skýringum. Þó eru enn handrit og papýrusbrot sem hafa ekki verið borin saman við þann texta sem liggur til grundvallar mörgum útgáfum. Fornfræðingar vinna enn að því að ritstýra textum og beita bæði textarýni og aðferðum handritafræðinnar til að ákvarða réttan texta. Flestir „kanonískir“ höfundar hafa nú verið þýddir yfir á þjóðtungurnar. Fjölmargir textar utan „kanonunnar“ svonefndu eru þó enn ófáanlegir í fræðilegum útgáfum og eru enn óþýddir, ekki síst textar frá síðfornöld.

Auk þess að ritstýra fræðilegum útgáfum klassískra texta og gefa út þýðingar fjalla fornfræðingar fræðilega um klassískar bókmenntir og bókmenntasögu og beita bókmenntarýni. Þeir fást einnig við fornaldarsögu, fornleifafræði og fornaldarheimspeki. Á 20. öld hafa margir háskólar komið á samvinnu milli fornfræðideilda og annarra deilda, svo sem sagnfræði-, fornleifafræði-, heimspeki-, bókmenntafræði- og málvísindadeilda.

Fornfræðingar

breyta

Eftirfarandi er listi yfir mikilvæga fornfræðinga.

Frægir „fornfræðingar“

breyta

Fjölmargt fornfræðimenntað fólk hefur um tíðina öðlast frægð og frama utan klassískra fræða.

Tilvísanir

breyta
  1. Svavar Hrafn Svavarsson, „Hvað gera fornfræðingar? Hvað þarf maður að læra og hversu lengi til að gerast fornfræðingur?[óvirkur tengill]“. Vísindavefurinn 15.8.2002. (Skoðað 13.2.2007).
  2. J. Kramer og K. Kramer, La filologia classica, 1979; tilvitnun frá Christopher S. Mackay
  3. Renehan (1969): 2; Reynolds og Williams (1991): 207.
  4. Geir Þ. Þórarinsson, „Hvaða áhrif höfðu kenningar Platons á aðra heimspekinga, vísindamenn og fólk almennt?[óvirkur tengill]“. Vísindavefurinn 8.6.2006. (Skoðað 3.2.2007)
  5. Svavar Hrafn Svavarsson, „Hvað gera fornfræðingar? Hvað þarf maður að læra og hversu lengi til að gerast fornfræðingur?[óvirkur tengill]“. Vísindavefurinn 15.8.2002. (Skoðað 13.2.2007).
  6. Sjá Reynolds og Wilson (1991): 5-16.

Heimildir og frekari fróðleikur

breyta

Almennt um fornfræði

breyta
  • Beard, Mary og John Henderson, Classics: A Very Short Introduction (Oxford: Oxford University Press, 1995/2000)
  • Hornblower, Simon og Antony Spawforth (ritstj.), The Oxford Classical Dictionary (endursk. 3. útg.) (Oxford: Clarendon Press, 2003).

Klassísk textafræði og textarýni

breyta
  • Bagnall, Roger S., Reading Papyri, Writing Ancient History (London: Routledge, 1995).
  • Dickey, Eleanor, Ancient Greek Scholarship: A Guide to Finding, Reading, and Understanding Scholia, Commentaries, Lexica, and Grammatical Treatises, from Their Beginning to the Byzantine Period (Oxford: Oxford University Press/The American Philological Association, 2007).
  • Renehan, Robert, Greek Textual Criticism. A Reader (Cambridge, Mass.: Harvard University Press, 1969).
  • Reynolds, L.D. og N.G. Wilson, Scribes and Scholars: A Guide to the Transmission of Greek & Latin Literature (3. útg.) (Oxford: Oxford University Press, 1991).

Klassískar bókmenntir og bókmenntarýni

breyta
  • Braund, Susanna Morton, Latin Literature (London: Routledge, 2002).
  • Conte, Gian Biagio, Latin Literature: A History. Joseph B. Solodow (þýð.) (Baltimore: Johns Hopkins University Press, 1994).
  • Dihle, Albrecht, A History of Greek Literature: From Homer to the Hellenistic Period (London: Routledge, 1994).
  • Dihle, Albrecht, Greek and Latin Literature of the Roman Empire: From Augustus to Justinian (London: Routledge, 1994).
  • Dover, Kenneth (ritstj.), Ancient Greek Literature (2. útg.) (Oxford: Oxford University Press, l997).
  • Fantham, Eleaine, Roman Literary Culture: From Cicero to Apuleius (Baltimore: Johns Hopkins University Press, 1996).
  • Harrison, Stephen (ritstj.), A Companion to Latin Literature (Oxford: Blackwell, 2005).
  • Howatson, M.C. (ritstj.), The Oxford Companion to Classical Literature (Oxford: Oxford University Press, l989).
  • Lesky, Albin, A History of Greek Literature, 2. útg., Cornelis de Heer og James Willis (þýð.) (Indianapolis: Hackett, 1966/1996).
  • Romilly, Jacquilene de, A Short History of Greek Literature. Lillian Doherty (þýð.) (Chicago: University of Chicago Press, 1996).
  • Rose, H.J. og E. Courtney, A Handbook of Latin Literature: From the Earliest Times to the Death of St. Augustine 3. útg. (Bolchazy-Carducci Publishers, 1966 endurpr. 1996).
  • Saïd, Suzanne og Monique Trédé, A Short History of Greek Literature (London: Routledge, 1999).
  • Taplin, Oliver (ritstj.), Literature in the Greek World (Oxford: Oxford University Press, 2000).
  • Taplin, Oliver (ritstj.), Literature in the Roman World (Oxford: Oxford University Press, 2000).
  • Whitmarsh, Tim, Ancient Greek Literature (Cambridge: Polity, 2004).

Fornaldarheimspeki

breyta
  • Ackrill, J.L., Aristotle the Philosopher (Oxford: Clarendon Press, 1981).
  • Algra, K., J. Barnes, J. Mansfeld, og M. Schofield (ritstj.), The Cambridge History of Hellenistic Philosophy (Cambridge: Cambridge University Press, 2005).
  • Annas, Julia, Plato: A Very Short Introduction (Oxford, 2003).
  • Annas, Julia, Ancient Philosophy: A Very Short Introduction (Oxford, 2000).
  • Annas, Julia, Voices of Ancient Philosophy: An Introductory Reader (Oxford, 2000).
  • Barnes, Jonathan, Aristotle: A Very Short Introduction (Oxford: Oxford University Press, 1982/2000).
  • Barnes, Jonathan (ritstj.), The Cambridge Companion to Aristotle (Cambridge: Cambridge University Press, 1995).
  • Barnes, Jonathan, The Presocratic Philosophers (London: Routledge, 1979/1982).
  • Burnet, John, Early Greek Philosophy (New York: Meridian Books, 1957).
  • Cornford, F.M., Before and After Socrates (Cambridge University Press, 1932).
  • Fine, Gail (ritstj.), Plato 1: Metaphysics and Epistemology (Oxford: Oxford University Press, 1999).
  • Fine, Gail (ritstj.), Plato 2: Ethics, Politics, Religion, and the Soul (Oxford: Oxford University Press, 1999).
  • Furley, David (ritstj.), Routledge History of Philosophy Volume 2: From Aristotle to Augustine (London: Routledge, 1997).
  • Gentzler, Jyl (ritstj.), Method in Ancient Philosophy (Oxford: Clarendon Press, 2001).
  • Gerson, L.P. (ritstj.), The Cambridge Companion to Plotinus (Cambridge: Cambridge University Press, 1996).
  • Guthrie, W.K.C., A History of Greek Philosophy (Cambridge: Cambridge University Press, 1962-1981).
  • Hankinson, R.J., The Skeptics (London: Routledge, 1998).
  • Harrison, S., Lane, M., Rowe, C. og Schofield, M. (ritstj.) The Cambridge History of Greek and Roman Political Thought (Cambridge: Cambridge University Press, 2000).
  • Inwwod, Brad, The Cambridge Companion to the Stoics (Cambridge: Cambridge University Press, 2003).
  • Kirk, G.S., J.E. Raven og M. Schofield, The Presocratic Philosophers (2. útg.) (Cambridge: Cambridge University Press, 1983).
  • Kraut, Richard (ritstj.), The Cambridge Companion to Plato (Cambridge: Cambridge University Press, 1992).
  • Long, A.A., Hellenistic Philosophy: Stoics, Epicureans, Sceptics (Los Angeles: University of California Press, 1986).
  • Long, A.A. og David Sedley (ritstj.), The Hellenistic Philosophers 2 bindi (Cambridge: Cambridge University Press, 1987).
  • McKirahan, Richard D., Philosophy Before Socrates: An Introduction With Texts and Commentaries (Indianapolis: Hackett, 1994).
  • Morford, Mark, The Roman Philosophers: From the time of Cato the Censor to the death of Marcus Aurelius (Routledge, 2002).
  • Ross, David, Aristotle (London: Routledge, 1995).
  • Sedley, David (ritstj.), The Cambridge Companion to Greek and Roman Philosophy (Cambridge: Cambridge University Press, 2003).
  • Shields, Cristopher, Classical Philosophy: A Contemporary Introduction (London: Routledge, 2003).
  • Shields, Cristopher (ritstj.), The Blackwell Guide to Ancient Philosophy (London: Blackwell, 2003).
  • Taylor, C.C.W. (ritstj.), Routledge History of Philosophy. Volume 1: From the Beginning to Plato (London: Routledge, 1997).
  • Wardy, Robert, Doing Greek Philosophy (London: Routledge, 2006).
  • Wilbur, J.B. og H.J. Allen, The Worlds of the Early Greek Philosophers (Buffalo: Prometheus Books, 1979).

Fornaldarsaga

breyta
  • Boardman, J., Griffin, J. og Murray, O. (ritstj.), The Oxford History of the Classical World (Oxford: Oxford University Press, 1986).
  • Champlin, Edward, Final Judgments: Duty and Emotion in Roman Wills, 200 B.C.-A.D. 250 (Los Angeles: University of California Press, 1991).
  • Cowell, F.R., Life in Ancient Rome (New York: Perigee, 1980).
  • Dowden, Ken, The Uses of Greek Mythology (London: Routledge, 1992).
  • Finley, M.I., The Ancient Greeks (New York: Penguin Books, 1991).
  • Finley, M.I., The World of Odysseus (New York: New York Review of Books, 2002).
  • Fox, Robin Lane, The Classical World: An Epic History from Homer to Hadrian (New York: Basic Books, 2006).
  • Frank, Tenney, Life and Literature in the Roman Republic (Los Angeles: University of California Press, 1930).
  • Graf, Fritz, Greek Mythology: An Introduction. Thomas Marier (þýð.) (Baltimore: Johns Hopkins University Press, 1996).
  • Hadas, Moses (ritstj.), A History of Rome from its origins to 529 A.D. as told by the Roman historians (Gloucester, Mass.: Peter Smith, 1976).
  • Hardy, W.G., The Greek and Roman Worlds (Cambridge, Mass.: Schenkman Publishing, 1962).
  • Howego, Christo, Ancient History from Coins (London: Routledge, 1995).
  • Kitto, H.D.F., The Greeks (New York: Penguin Books, 1991).
  • Ober, Josiah, Democracy and Knowledge: Innovation and Learning in Classical Athens (Princeton: Princeton University Press, 2008).
  • Ober, Josiah, Mass and Elite in Democratic Athens: Rhetoric, Ideology, and the Power of the People (Princeton: Princeton University Press, 1989).
  • Ober, Josiah, Political Dissent in Democratic Athens: Intellectual Critics of Popular Rule (Princeton: Princeton University Press, 1998).
  • Ober, Josiah, The Athenian Revolution (Princeton: Princeton University Press, 1996).
  • Ogilve, R.M., The Romans and their Gods in the Age of Augustus (New York: W.W. Norton & Company, 1969).
  • Osborne, Robin, Greek History (London: Routledge, 2004).
  • Powell, Anton, Athens and Sparta: Constructing Greek Political and Social History from 478 BC (London: Routledge, 2001).
  • Sinnigen, William G. og Boak, Arthur E.R., A History of Rome to A.D. 565 6. útg. (New York: Macmillan, 1977).
  • Speake, Graham (ritstj.), The Penguin Dictionary of Ancient History (New York: Penguin Books, 1995).
  • Treggiari, Susan, Roman Social History (London: Routledge, 2002).
  • Walbank, F.W., The Hellenistic World (Cambridge, Mass.: Harvard University Press, 1981).

Klassísk fornleifafræði og listasaga

breyta
  • Biers, William R, Art, Artefacts and Chronology in Classical Archaeology (London: Routledge, 1992).
  • Biers, William R, The Archaeology of Greece: An Introduction (Ithaca: Cornell University Press, 1996).
  • Boardman, John (ritstj.), The Oxford History of Classical Art (Oxford: Oxford University Press, 2001).
  • MacKendrick, Paul, The Greek Stones Speak: The Story of Archaeology in Greek Lands (New York: W.W. Norton & Company, 1962).

Saga fornfræðinnar

breyta
  • Pfeiffer, Rudolf, History of Classical Scholarship: From the Beginnings to the End of the Hellenistic Age (Oxford: Oxford University Press, 1968).
  • Pfeiffer, Rudolf, History of Classical Scholarship 1300-1850 (Oxford: Oxford University Press, 1976).
  • Reynolds, L.D. og N.G. Wilson, Scribes and Scholars: A Guide to the Transmission of Greek & Latin Literature (3. útg.) (Oxford: Oxford University Press, l991).
  • Sandys, John Edwin, History of Classical Scholarship from the Sixth Century B.C. to the Present Day (Hafner Publishing Co., 1958).

Annað

breyta
  • Todd, Richard B. (ritstj.), Dictionary of British Classicists 1500–1960 (Bristol: Thoemmes Continuum, 2004).

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta
  • Gríska Geymt 14 ágúst 2014 í Wayback Machine og latína Geymt 14 ágúst 2014 í Wayback Machine við Háskóla Íslands
  • Klassísk fræði Geymt 21 apríl 2015 í Wayback Machine við Háskóla Íslands
  • The American Philological Association Geymt 16 mars 2006 í Wayback Machine
  • „Hvað gera fornfræðingar? Hvað þarf maður að læra og hversu lengi til að gerast fornfræðingur?“. Vísindavefurinn.