Johan Nicolai Madvig
Johan Nicolai Madvig (7. ágúst 1804 – 12. desember 1886) var danskur fornfræðingur og textafræðingur og menningarmálaráðherra Danmerkur.
Madvig fæddist á Borgundarhólmi. Hann hlaut menntun sína við fornfræðiskólann í Frederiksborg og við Kaupmannahafnarháskóla. Árið 1828 varð hann lektor og 1829 prófessor í latínu og latneskum bókmenntum við Kaupmannahafnarháskóla. Hann varð bókavörður háskólabókasafnsins árið 1832.
Madvig settist á þing árið 1848. Í kjölfarið varð hann menningarmálaráðherra en sagði af sér 7. desember 1851. Hann var forseti þingsins árin 1856 til 1863.
Utan þessa varði hann ævinni í ástundun fræðanna og í kennslu. Madvig rannsakaði einkum ritverk Ciceros og umbylti rannsóknum á heimspekiverkum hans með útgáfu sinni á riti Ciceros De Finibus (1839). Hann samdi rit um latneska málfræði og gríska setningafræði.
Madvig hætti kennslu árið 1880 en hélt áfram rannsóknum sínum og gaf út rit um stjórnskipun Rómaveldis. Í bókinni gagnrýnir Madvig harkalega viðhorf Theodors Mommsen til stjórnartíðar Caesars.