Efahyggja
Efahyggja er heimspekilegt viðhorf til þekkingar sem einkennist af efa og meðvituðu skoðanaleysi. Hugtakið varð fyrst til um þá heimspeki sem kom fram í fornöld og kallaðist pyrrhonismi, sem fól í sér að maður ætti að fresta því að fella dóma og losa sig við allar skoðanir til þess að öðlast sálarró.
Skilgreining
breytaEfahyggja er sú heimspekilega afstaða að maður ætti að fresta því að fella dóma eða að fullyrða um hvernig hlutirnir eru. Efahyggjumaður heldur því ekki fram að þekking sé ómöguleg (sem myndi fela í sér að fella dóm um möguleika þekkingar). Slík afstaða er skilgreind sem neikvætt viðhorf til þekkingar.
Raunhyggja er náskyld efahyggju en þó ekki sama afstaðan. Raunhyggjumenn líta á raunhyggjuna sem hagnýta málamiðlun efahyggju og kreddufullra vísinda. Stundum er efahyggju lýst sem „róttækri raunhyggju“.
Saga
breytaEfahyggja varð til í Grikklandi til forna. Hún átti sér tvær rætur. Annars vegar voru upphafsmenn hennar þeir Arkesilás og Karneades sem voru akademískir heimspekingar, það er að segja þeir tilheyrðu Akademíunni, sem var skóli sem Platon stofnaði í Aþenu um 385 f.Kr. Á 3. öld f.Kr. voru akademískir heimspekingar farnir að túlka samræður Platons sem efahyggjurit og töldu að Sókrates hefði verið efahyggjumaður. Þessir efahyggjumenn (sem nefndust ekki efahyggjumenn á sínum tíma, heldur akademískir heimspekingar) áttu fyrst og fremst í rökræðum við stóumenn og frá forsendum stóumanna leiddu þeir út að ekki væri hægt að vita neitt; sjálfir tóku þeir ekki undir forsendur stóumanna og héldu engu fram.
Hin rót efahyggjunnar er hjá Pyrrhoni frá Elís (um 360 – 275 f.Kr.) sem var sjálfur undir áhrifum frá Demókrítosi. Pyrrhon hélt því fram að það væri ekki hægt að vita neitt vegna þess að heimurinn væri óákvarðanlegur og ómælanlegur. Í stað þess að leita þekkingar ætti maður að sætta sig við að ekkert væri hægt að vita, losa sig við skoðanir sínar og því myndi fylgja sálarró. Strangt tekið er þetta viðhorf ekki efahyggja (sem ekki gæti fullyrt að ekkert væri hægt að vita) heldur neikvæð kenning um möguleikann á þekkingu.
Heimspekingurinn Ænesidemos, sem lítið er vitað um annað en að hann var akademískur heimspekingur á 1. öld f.Kr., sagði skilið við akademíuna (sem var farin að mildast í efahyggjunni á hans tíma) og sameinaði áhrif frá eldri akademískum heimspekingum (Arkesilási og Karneadesi) við heimspeki Pyrrhons, sem hann sagði að væri raunverulegur efahyggjumaður. Þessi efahyggja heitir pyrrhonismi í höfuðið á Pyrrhoni og er varðveitt í ritum Sextosar Empeirikosar. Þar koma saman efahyggja Arkesilásar og Karneadesar og hugmynd Pyrrhons um sálarró. Þessi heimspeki hafði sáralítil áhrif í fornöld en gríðarleg áhrif á nýöld, meðal annars á Michel de Montaigne sem síðan hafði áhrif á René Descartes.
Önnur notkun orðsins efahyggja
breytaOrðin „efahyggja“ og „efahyggjumaður“ er stundum notað um þá sem eru fullir efasemda í garð fullyrðinga á ákveðnu sviði, til dæmis í garð trúarbragða eða svonefndra hjáfræða. Stundum eru þessi viðhorf aðgreind frá heimspekilegri efahyggju og nefnd efasemdahyggja.
Aðferðafræðileg efahyggja
breytaAðferðafræðileg efahyggja, sem er stundum nefnd vísindaleg efahyggja, er það viðhorf að ekki beri að fallast á neina fullyrðingu að óathuguðu máli. Efahyggjunni er þannig beitt sem tæki til að halda aga og til að varna gegn því að vísindin fallist á ótraustar fullyrðingar. Frægasta beiting aðferðafræðilegrar efahyggju er sennilega hjá franska heimspekingnum René Descartes (1596 – 1650).
Trúarleg efasemdahyggja
breytaTrúarleg efasemdahyggja er viðhorf til trúarbragða og trúarlegra fullyrðinga. Trúarlegur efasemdamaður þarf ekki nauðsynlega að vera guðleysingi en stundum er orðið notað á þann hátt.
Tengt efni
breyta- Aðferðafræðileg efahyggja
- Akademísk efahyggja
- Hellenísk heimspeki
- Pyrrhonismi
- Trúarleg efasemdahyggja
- Vísindaleg aðferð
Efahyggjumenn
breytaHeimildir og ítarefni
breyta- Algra, K., Barnes, J., Mansfeld, J. og Schofield, M. (ritstj.), The Cambridge History of Hellenistic Philosophy (Cambridge: Cambridge University Press, 2005).
- Annas, Julia og Barnes, Jonathan, The Modes of Scepticism: Ancient Texts and Modern Interpretations (Cambridge: Cambridge University Press, 1985).
- Bett, Richard, Pyrrho, his antecedents, and his legacy (Oxford: Oxford University Press, 2000).
- Burnyeat, Myles (ritstj.), The Skeptical Tradition (Berkeley: University of California Press, 1983).
- Burnyeat, Myles og Frede, Michael (ritstj.), The Original Sceptics: A Controversy (Indianapolis: Hackett, 1997).
- Hankinson, R.J., The Sceptics (London: Routledge, 1995).
- Popkin, Richard, The History of Scepticism: From Savonarola to Bayle (Oxford: Oxford University Press, 2003). ISBN 0-19-510768-3
- Striker, Gisela, „On the the difference between the Pyrrhonists and the Academics“ í G. Striker, Essays on Hellenistic Epistemology and Ethics (Cambridge: Cambridge University Press, 1996): 135-149.
- Striker, Gisela, „Sceptical strategies“ í G. Striker, Essays on Hellenistic Epistemology and Ethics (Cambridge: Cambridge University Press, 1996): 92-115.
- Striker, Gisela, „The Ten Tropes of Aenesidemus“ í G. Striker, Essays on Hellenistic Epistemology and Ethics (Cambridge: Cambridge University Press, 1996): 116-134.
Tenglar
breyta- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Ancient Skepticism“
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Arcesilaus“
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Carneades“
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Moral Skepticism“
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Pyrrho“
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Skepticism“
- The Internet Encyclopedia of Philosophy: „Aenesidemus“
- The Internet Encyclopedia of Philosophy: „Ancient Greek Skepticism“
- The Internet Encyclopedia of Philosophy: „Arcesilaus“
- The Internet Encyclopedia of Philosophy: „Carneades“
- The Internet Encyclopedia of Philosophy: „Contemporary Skepticism“
- The Internet Encyclopedia of Philosophy: „Pyrrho“