Hermann Alexander Diels

Hermann Alexander Diels (18. maí 18484. júní 1922) var þýksur fornfræðingur og textafræðingur.

Hermann Alexander Diels

Diels er þekktastur fyrir útgáfu sína á brotum frumherja grískrar heimspeki (hinna svonefndu fovera Sókratesar) og vitnisburði um þá.[1] Ritið, sem nefnist Die Fragmente der Vorsokratiker (Brot forvera Sókratesar) er enn talið undirstöðurit.[2] Ritið er í þremur bindum. Í ritinu er safnað saman öllum brotum forvera Sókratesar úr ritum þeirra (sem nú eru flest glötuð) auk vitnisburði um þá, sem varðveittur er í yngri höfundum ásamt þýskri þýðingu brotanna. Vitnisburðurinn kallast „A-brot“ en sjálf brotin (þ.e. beinar tilvitnanir) kallast „B-brot“. Þessi aðferð Diels til að auðkenna brot og vitnisburð heimspekinganna hefur orðið að hefðbundinni leið til þess að vísa til brota frumherjanna og kallast DK-tölur.

DK-tölur

breyta

Til dæmis vitna Sextos Empeirikos og Simplikkíos í ljóðlínur sem taldar eru vera upphafið af kvæði Parmenídesar. Í safni Diels er brotið merkt 28B1 — þ.e. kafli 28, hluti B, brot 1. Talan 28 vísar til Parmenídesar (sem Diels helgar 28. kafla í riti sínu), stafurinn B gefur til kynna að um brot (þ.e. tilvitnun) er að ræða en ekki vitnisburð, og talan 1 gefur til kynna að brotið er það fyrsta í röðinni af brotum Parmenídesar í safni Diels. Á hinn bóginn er upphafið af greinargerð Platons (í samræðunni Parmenídes 127 o.áfr.) fyrir meintri heimsókn Parmenídesar og Zenon til Aþenu auðkennt 29A11 í safni Diels. Talan 29 vísar til Zenons (sem er helgaður næsti kafli á eftir Parmenídesi í riti Diels), enda ræðir Platon meira um Zenon en Parmenídes í þessum tilteknu línum; bókstafurinn A gefur til kynna að um vitnisburð um Zenon er að ræða en ekki brot úr riti eftir Zenon, og talan 11 þýðir að vitnisburðurinn er sá 11. í röðinni um Zenon í riti Diels.

Diels raðaði heimspekingunum í grófa tímaröð en innan hvers kafla er brotunum raðað í stafrófsröð eftir heimildunum fyrir þeim. Venjulega er vísað til brotanna með því að skeyta „Diels-Kranz“ eða „DK“ fyrir framan, t.d. „Diels-Kranz 28B1“ eða „DK 28B1“.

Þrátt fyrir mikilvægi rits Diels greinir fræðimenn enn á um meðferð hans á ýmsum britanna, t.d. hvort þau séu réttilega flokkuð sem A eða B-brot (þ.e. hort þau séu bein tilvitnun eða ekki). Í ritinu er vitaskuld ekki að finna brot sem hafa uppgötvast eftir að ritið kom út, t.a.m. þau sem eru varðveitt á Strasbourg-papyrusnum (gefinn út 1998), þar sem er að finna fimm áður óþekkt brot úr kvæði eftir Empedókles. (Þau virðast vera áframhald af brotinu DK 31B17.)

Enska þýðingu á öllum B-brotum í Diels-Kranz er að finna hjá Kathleen Freeman, Ancilla to the Pre-Socratic Philosophers (Oxford, 1948; Harvard U.niversity Press, 1957), en hún byggir á 5. útgáfunni á riti Diels og því er röðin á brotunum örlítið frábrugðin.

Helstu rit Diels

breyta
  • Doxographi Graeci (Berlín, 1879)
  • Poetarum Philosophorum Fragmenta (Berlín, 1901).
  • Die Fragmente der Vorsokratiker (Berlín, 1903), 6. útg. endurskoðuð af Walther Kranz (Berlín, 1952).

Neðanmálsgreinar

breyta
  1. Sjálft hugtakið forverar Sókratesar (Vorsokratiker á þýsku) á rætur að rekja til rits Diels.
  2. Það kom fyrst út árið 1903 en Diles jók sjálfur við ritið þrisvar sinnum. 5. útgáfa (1934-7) var endurskoðuð af Walther Kranz en lítillega endurbætt 6. útgáfa kom út 1952.