Fornaldarheimspeki (fræðigrein)

Fræðigreinin fornaldarheimspeki er sameiginlegt sérsvið innan heimspeki og fornfræði, sem fjallar um heimspeki fornaldar, einkum gríska og rómverska heimspeki.

Þeir sem leggja stund á fræðigreinina nefnast ýmist heimspekingar, fornfræðingar og/eða heimspekisagnfræðingar og fer það stundum, en ekki alltaf, eftir menntun þeirra eða nálgun við viðfangsefnið.

Saga breyta

Frá miðöldum nútímans breyta

Við upphaf miðalda voru flestir heimspekingar fornaldar lítt þekktir í Vestur-Evrópu, einkum grískir heimspekingar. Miðaldamenn þekktu til grískrar heimspeki einkum í gegnum Ágústínus kirkjuföður auk þess sem nokkur rit Ciceros og Senecu voru þekkt og mikið lesin. Þegar handrit með verkum grísku heimspekinganna fóru að berast vestur við upphaf endurreisnartímans fóru grísku heimspekingarnir að hafa miklu meiri áhrif. Einkum voru rit Platons, Aristótelesar og Plótínosar lesin af kappi auk þess sem að efahyggja Sextosar Empeirikosar hafði þó nokkur áhrif.

Í fyrstu var mest vinna lögð í að þýða rit grísku heimspekinganna og gefa þau út á prenti; fyrst var þýtt úr arabísku en svo úr grísku og fyrst á latínu en svo á þjóðtungurnar. Þá voru rit fornmannanna að mestu lesin og notuð eða gagnrýnd líkt og um samtímahöfunda væri að ræða.

Á 19. öld var mikil textafræðileg vinna unnin einkum í Þýskalandi. Til dæmis var lögð mikil vinna í að gefa út orðavísi að ritum einstakra höfunda, svo sem Lexicon Platonicum eftir Georg Anton Friedrich Ast og Index Aristotelicum eftir Hermann Bonitz. Voru rit fornaldarheimspekinganna einkum lesin af fornfræðingum og voru sjaldan gagnrýnd en um leið dró nokkuð úr beinum áhrifum þeirra á heimspekinga. Þýðingar Benjamins Jowett á samræðum Platons gerði samræðurnar þó mun aðgengilegri enskumælandi almenningi.

20. öldin breyta

Á 20. öld fóru heimspekingar að gefa fornaldarheimspeki meiri gaum á ný. Ný útgáfa Johns Burnet á ritum Platons gerði texta Platons aðgengilegri og F.M. Cornford og Reginald Hackforth sömdu báðir skýringarrit á ensku við enskar þýðingar á samræðum Platons. Slík skýringarrit hafa síðan orðið afar algeng en áður höfðu einkum verið samin textafræðileg skýringarrit við texta frummálsins. Árið 1930 var stofnuð Laurence-prófessorsstaðan í fornaldarheimspeki við Cambridge-háskóla, fyrsta prófessorsstaðan í fornaldarheimspeki.

Á árunum fyrir og eftir síðari heimsstyrjöldina kviknaði einnig mikill áhugi á heimspeki fornaldar í heimspekideild Oxford-háskóla. Heimspekingar á borð við Gilbert Ryle og G.E.M. Anscombe fengust við fornaldarheimspeki auk samtímaheimspeki og hvöttu nemendur sína til þess að lesa einkum Platon og Aristóteles. Sem heimspekinemar voru nemendur hvattir til að láta sig engu varða kennivald fornmannanna.

Vestan hafs hafði heimspekingurinn Gregory Vlastos mikil áhrif á ástundun fræðanna. Hann hafði kynnst nemendum Ludwigs Wittgenstein, þ.á m. Norman Malcolm, er hann kenndi við Cornell-háskóla á árunum 1948-1955. Vlastos varð fyrir áhrifum af rökgreiningarheimspekinni og beitti gjarnan nútímarökfræði til að setja fram gátur og vandamál fornra heimspekinga á eins skýran hátt og mögulegt var. Árið 1955 fluttist hann til Princeton þar sem hann gegndi stöðu Stuart-prófessors í heimspeki í rúmlega tuttugu ár. Þar stofnaði hann ásamt Whitney Oates og Harold Cherniss námsbraut á framhaldsstigi í fornaldarheimspeki sem var samvinnuverkefni fornfræði- og heimspekideildar. Var sú námsbraut sú fyrsta sinnar tegundar. Árið síðar var sams konar námsbraut komið á laggirnar á Harvard-háskóla og síðar einnig við Cornell-háskóla, Yale-háskóla, Texas-háskóla í Austin og víðar.

Lengst af var heimspeki helleníska tímans talin annars flokks heimspeki en seint á 7. áratugnum fóru fræðimenn að sýna henni og heimspeki síðfornaldar meiri áhuga. Meðal fræðimanna sem ollu þessari breytingu má nefna Michael Frede, Myles Burnyeat, Jonathan Barnes, Giselu Striker, A.A. Long og John M. Cooper.

Mikilvægir fræðimenn breyta

Frekari fróðleikur breyta

  • Ackrill, J.L., „Introduction“ í Essays on Plato and Aristotle (Oxford: Clarendon Press, 1997): 1-13.
  • Frede, M., „Introduction: The Study of Ancient Philosophy“ í M. Frede, Essays in Ancient Philosophy (Minneapolis: University of Minnesota Press, 1987): ix-xxvii.
  • Striker, G., „Preface“ í G. Striker, Essays on Hellenistic Epistemology and Ethics (Cambridge: Cambridge University Press): ix-xiii.
   Þessi fornfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.
   Þessi heimspekigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.