Nýaldarheimspeki
Nýaldarheimspeki er sú heimspeki nefnd, sem var stunduð á nýöld og tók við af miðaldaheimspeki og heimspeki endurreisnartímans. Venjulega er litið svo á að nýaldarheimspeki nái yfir tímabilið frá 17. öld til 19. aldar. En stundum er 19. öldin talin sérstakt tímabil.
Upphaf nýaldarheimspeki er venjulega rakið til franska heimspekingsins Renés Descartes en sporgöngumenn hans glímdu að verulegu leyti við þær gátur heimspekinnar, sem hann hafði glímt við. Segja má að áherslubreyting hafi átt sér stað með Descartes, þar sem frumspekin vék fyrir þekkingarfræðinni sem mesta grundvallarviðfangsefnis heimspekinnar. Auk þessa má rekja áherslubreytingu í aðferðum heimspekinga til Descartes en á miðöldum var heimspekin einkum stunduð í formi skólaspekinnar, þar sem rök frá kennivaldi og greining á fornum textum með aðstoð aristótelískrar rökfræði voru höfð í fyrirrúmi. Á endurreisnartímanum komu að vísu fram fjölmargar nýjar hugmyndir sem drógu í efa kennivaldið, sem lá þó ætíð til grundvallar orðræðunni.
Á þessum tíma leituðust heimspekingar við að smíða alltumvefjandi heimspekikerfi, sameinuðu þekkingarfræði, frumspeki, rökfræði, og siðfræði og oft stjórnmál og náttúruvísindi í eitt kerfi.
Immanuel Kant flokkaði forvera sína í tvo hópa: rökhyggjumenn og raunhyggjumenn. Heimspeki nýaldar, einkum 17. og 18. aldar heimspeki, er oft lýst sem átökum þessara tveggja hefða. Þessi skipting er þó að einhverju leyti ofureinföldun og það er mikilvægt að hafa í huga að heimspekingarnir, sem um ræðir, töldu ekki sjálfir að þeir tilheyrðu þessum heimspekihefðum, heldur að þeir störfuðu allir innan einnar og sömu hefðarinnar.
Þrátt fyrir að flokkunin sé á suman hátt villandi er hún enn notuð í dag. Helstu rökhyggjumennirnir eru venjulega taldir hafa verið Descartes, Baruch Spinoza og Gottfried Leibniz en helstu raunhyggjumennirnir voru John Locke og (á 18. öld) George Berkeley og David Hume. Þeir fyrrnefndu töldu að hugsanlegt væri (þótt ef til vill væri það ómögulegt í raun) að alla þekkingu væri hægt að öðlast með skynseminni einni; þeir síðarnefndu höfnuðu þessu og töldu að öll þekking yrði til með skynjun, úr reynslu. Stundum er sagt að deilan hafi snúist um tilvist „áskapaðra hugmynda“. Rökhyggjumenn tóku sér stærðfræði sem fyrirmynd þekkingar en raunhyggjumenn litu frekar til náttúruvísindanna.
Þessi áhersla á þekkingarfræði liggur til grundvallar flokkun Kants. Flokkunin væri öðruvísi væri litið á hina ýmsu heimspekinga eftir frumspekilegum, siðfræðilegum eða málspekilegum kenningum þeirra. En jafnvel þótt þeim sé áfram skipt í hópa eftir þekkingarfræðilegum kenningum er þó ýmislegt við skiptinguna að athuga: til dæmis féllust flestir rökhyggjumenn á að í raun yrðum við að reiða okkur á vísindin um þekkingu á hinum ytra heimi og margir þeirra fengust við vísindalegar rannsóknir; á hinn bóginn féllust raunhyggjumenn almennt á að a priori þekking væri möguleg í stærðfræði og rökfræði og af þremur helstu málsvörum raunhyggjunnar hafði einungis Locke einhverja þjálfun eða sérþekkingu í náttúruvísindum.
Á þessum tíma urðu einnig til sígildar stjórnspekikenningar einkum hjá Thomas Hobbes í ritinu Leviathan og Locke í ritinu Two Treatises of Government.
Á 17. öld hafði heimspekin náð að slíta sig lausa frá guðfræði. Þótt heimspekingar ræddu enn um guð – og færðu jafnvel rök fyrir tilvist hans — var það gert innan heimspekilegrar orðræðu með heimspekilegum rökum. Á upplýsingartímanum á 18. öld hélt þetta ferli áfram og heimspekin sagði nær algerlega skilið við guðfræði og trúarbrögð.