Epikúrismi er heiti á heimspekistefnu sem nefnd er eftir forngríska heimspekingnum Epikúrosi frá Samos (341270 f.Kr.). Epikúrismi varð til á helleníska tímanum en varð langlíf heimspekistefna og naut einnig vinsælda í Rómaveldi.

Epikúros frá Samos. Brjótsmynd á Pergamonsafninu í Berlín.

Heimildir um epikúrisma

breyta

Meginheimildirnar um epikúrismann eru Díogenes Laertíos en tíunda bók verks hans um ævisögur forngrískra heimspekinga fjallar um heimspeki Epikúrosar. Díogenes endursegir þrjú bréf Epikúrosar þar sem Epikúros greinir frá meginatriðum í siðfræði sinni, frumspeki og þekkingarfræði og náttúruheimspeki. Önnur meginheimild um epikúrisma er kvæði rómverska skáldsins Títusar Lúcretíusar, De Rerum Natura (Um eðli hlutanna), sem fjallar öðru fremur um frumspeki, þekkingarfræði og náttúruheimspeki epikúrismans.[1] Lúcretíus er talinn fylgja náið eftir riti Epikúrosar Um náttúruna sem nú er að mestu glatað. Enn fremur eru rit rómverska stjórnmálamannsins, heimspekingsins og rithöfundarins Marcusar Tulliusar Ciceros ómetanleg heimild um epikúrisma.[2]

Yfirlit

breyta

Uppruni epikúrismans

breyta

Heimspeki Epikúrosar byggði að mörgu leyti á heimspeki Demókrítosar en Epikúros var einnig undir áhrifum frá Pyrrhoni og öðrum heimspekingum.

Frumspeki

breyta

Frumspeki epikúrismans var efnishyggja og eindahyggja.[3] Samkvæmt henni er heimurinn á endanum gerður úr örsmáum efnislegum eindum sem voru nefnd ódeili („atóm“) og sem svifu um í tómarúmi. Allt sem gerist er afleiðing af árekstrum ódeilanna, sameiningu þeirra þegar þær loða hver við aðra án tilgangs eða markmiðs með hreyfingu þeirra.

Eindirnar hafa frumlega eiginleika t.d. stærð, lögun og massa. Aðrir eiginleikar, eins og litur og bragð, eru afleiðingar af flóknu samspili eindanna í líkömum okkar og í hlutunum sem við skynjum. Raunverulegir eiginleikar eindanna ákvarða skynjanlega eiginleika hluta. Til dæmis er það sem er biturt eða súrt á bragðið myndað úr hvössum eindum, en það sem er sætt á bragðið er myndað úr sléttari eindum. Samspil þessara einda og eindanna í tungum okkar valda því hvernig við upplifum bragð hluta. Sumir hlutir eru sérstaklega harðir og þéttir vegna þess að eindirnar eru fleiri og þéttari og haldast saman vegna lögunar sinnar (t.d. vegna króka á þeim). Aðrir hlutir eru úr sérlega sléttum og sleipum eindum sem haldast illa saman.

Hugspeki

breyta

Epikúringar voru einnig efnishyggjumenn um hugann eða sálina. Þeir héldu því fram að ef sálin ætti að geta haft áhrif á líkamann eða líkaminn á sálina yrði hún einnig að vera líkamleg. Epikúros taldi að eindir sálarinnar væru óvenjufíngerð. Hugurinn sjálfur, þ.e. hugsanir manns, hvílir í brjósti manns en andi úr álíka fíngerðum atómum er dreifður um líkamann allan og þannig getur hugurinn átt samskipti við aðra hluta líkamans.

Þekkingarfræði

breyta

Þekkingarfræði epikúrismans[4] er raunhyggja. Hún lagði áherslu á skynjun og skynreynslu en samkvæmt henni er skynreynsla á endanum uppruni allrar þekkingar. Að baki þekkingarfræði epikúrismans var frumspekileg kenning um mannlega skynjun, byggð á eindahyggjunni, sem lýsir skynreynslu sem samspili eindanna í skynfærum okkar og einda sem losna frá hlutunum sem eru skynjaðir.

Í epikúrískri þekkingarfræði eru þrír mælikvarðar á sannleika, þ.e. hvort tiltekin fullyrðing sé sönn eða ekki. Þeir eru: Skynjun (aesþēsis), hugtök (prolepsis) og tilfinningar (paþē). Samkvæmt epikúrískri þekkingarfræði eru allar skynjanir réttar sem slíkar enda felst enginn dómur í þeim um hvort heimurinn er eins og hann virðist vera af þeim að dæma. Mönnum getur hins vegar skjátlast þegar þeir fella slíka dóma. Dæmi um hugtak er maður en allir þekkja hugtakið maður og vita hvað maður er. Uppruni hugtakaþekkingar manna er á endanum í skynreynslu. Ákveðin grundvallarhugtök liggja til grundvallar allri reynslu okkar og réttmæti þeirra þarf ekki að sanna.

Tlfinningar eru meginmælikvarðinn á það eftir hverju ber að sækjast og hvað skal forðast.

Stjórnmál

breyta

Andsætt stóumönnum sýndu epikúringar stjórnmálaþáttöku engan áhuga, enda töldu þeir slíkt einungis leiða til áhyggja og óróleika. „Lifðu lífinu í einangrun!“ var ráð Epikúrosar. Líkja má garði hans við kommúnur nútímans. Margir hafa leitað hælis frá skarkala samfélagsins með því að einangra sig frá samfélaginu.

Epikúros var einn af fyrstu heimspekingunum sem sett hafa fram kenningu um samfélagssáttmála.[5] Hann hélt því fram samfélag yrði réttlátt með því að þegnarnir kæmu sér saman um að gera ekki á hlut hver annars og að lög giltu sem væru í þágu allra þegnanna og auðvelduðu þeim leitina að hamingjunni. Lög sem væru ekki lengur gagnleg með þessum hætti taldi hann að væru ranglát. Epikúros taldi að lög hefðu í eðli sínu fælingarmátt og í samfélagi sem byggði á lögum væri því betra að brjóta ekki af sér, því afbrotið myndi einungis leiða til angistar vegna óvissunnar um það hvort upp um mann kæmist, ef ekki beinlínis til refsingar.

Siðfræði

breyta

Siðfræði[6] epikúrismans byggir á þeirri kenningu að öll gæði og allt böl séu afleiðingar skynreynslu.[7] Ánægjulegar skynjanir eru samkvæmt epikúrismanum góðar en sársaukafullar eða óþægilegar skynjanir eru að sama skapi slæmar.

Epikúrisminn var og er oft misskilinn sem hóflaus nautnahyggja byggð á eftirsókn eftir líkamlegri ánægju. Samkvæmt epikúrískri siðfræði eru hin æðstu gæði aftur á móti fólgin í sálarró sem fylgir því að losna undan hugarangri.[8] En epikúrísk siðfræði er eftir sem áður nautnahyggja, siðfræðileg nautnahyggja (en ekki sálfræðileg nautnahyggja), sem kveður á um að maður eigi að leitast við að vera ánægður en forðast sársauka.[9]

Í epikúrískri siðfræði er gerður tvennur greinarmunur á ánægju og sársauka eða vellíðan og vanlíðan. Í fyrsta lagi getur vellíðan og vanlíðan verið bæði líkamleg og andleg. Í öðru lagi getur vellíðan og vanlíðan verið bæði í breytingu („kinetísk“ vellíðan/vanlíðan) eða ástand („statísk“ vellíðan/vanlíðan). Þegar vellíðan er fólgin í breytingu er hún fólgin í því að fjarlægja sársauka eða óþægindi eða vanlíðan (til dæmis að seðja hungur, svala þorsta eða losna við ótta), en þegar hún er ástand er hún einfaldlega skortur á vanlíðan og óþægindum (til dæmis að vera saddur). Samkvæmt epikúrískri siðfræði er andleg vellíðan æðri líkamlegri ánægju og vellíðan sem er fólgin í breytingu er æðri en stöðug vellíðan sem ástand.

Epikúrismi var því ekki nautnahyggja í nútímaskilningi. Epikúringar vöruðu við því að eltast óhóflega við ánægju vegna þess að slíkt leiðir oft til sársauka. Til dæmis varaði Epikúros við því að eltast of ákaflega við ástina þar eð slíkt leiðir oft til óróleika og sársauka. Rökin mætti ef til vill nefna „timburmannarökin“. Að eiga sér góða vini sem maður getur reitt sig á er hins vegar eitt mikilvægasta atriðið í ánægjulegu lífi.

Dauðinn

breyta

Epikúringar trúðu því einnig (andstætt Aristótelesi) að dauðinn væri ekki slæmur, hann kæmi okkur einfaldlega ekkert við, því þegar við erum lifandi er dauðinn víðsfjarri en þegar dauðinn er nærri erum við ekki lengur til. Samkvæmt epikúrískri siðfræði eru gæði og böl (í formi ánægju og sársauka) afleiðingar af skynjunum okkar. Án skynjunar er ekkert böl. Þegar maður er á lífi finnur hann ekki til sársauka af völdum dauðans vegna þess að hann er ekki dauður. Þegar maður deyr finnur hann ekki til sársauka af völdum dauðans vegna þess að hann er dauður og þar sem dauði er tortíming getur hann ekki skynjað neitt lengur. Þar af leiðandi segir Epikúros að „dauðinn er okkur ekkert“.

Trúarbrögð

breyta

Epikúrismi er efnishyggja og samkvæmt kenningunni er allt sem til er efnislegt. Guðirnir eru einnig, samkvæmt epikúrisma, efnislegir og forgengilegir, alveg eins og dauðlegir menn. Enn fremur lýsir epikúrismi guðunum svo að þeir séu afskiptalausir um mál manna. Þeir sköpuðu ekki heiminn og hvorki refsa mönnum né umbuna þeim. Guðfræði epikúrismans hefur verið túlkuð sem dulbúið trúleysi.

Gáta eða þversögn Epikúrosar er ein fyrsta framsetning bölsvandans. Þessi frægu rök eru sett fram gegn almáttugum ríkjandi guði eða guðum. Þau eru venjulega sett fram með eftirfarandi hætti:

Ef guð er viljugur að stöðva illsku, en getur það ekki,
þá er hann ekki almáttugur.
Ef hann getur, en vill það ekki,
þá er hann vondur.
Ef hann bæði getur og vill,
hvaðan kemur þá illskan?
Ef hann hvorki getur né vill,
hvers vegna á þá að kalla hann guð?

Arfleifð epikúrismans

breyta

Ýmis atriði epikúrískri úr heimspeki hafa gengið aftur eða dúkkað upp hjá ýmsum hugsuðum og heimspekistefnum í sögu Vesturlanda. Bölsvandinn (sem er stundum nefndur þverstæða Epikúrosar er fræg rök gegn tilvist guðs.

Epikúros var einn af fyrstu heimspekingunum sem útskýrði réttlætishugtakið á grundvelli samfélagssáttmála. Í epikúrískri heimspeki er réttlæti skilgreint sem samkomulag um að „valda ekki skaða og verða ekki fyrir skaða“. Tilgangurinn með því að búa í samfélagi með öðrum þar sem lög gilda og refsing er við lagabrotum er sá að vernda borgarana frá skapa svo að maður sé frjáls til þess að leita hamingjunnar. Af þessum sökum eru lög, sem leggja mönnum ekki lið til þess að leita hamingjunnar, ranglát.

Lýðræðislegir hugsuðir frönsku byltingarinnar tóku síðar upp þessa hugmynd epikúrismans og einnig aðrir, líkt og John Locke, sem skrifaði að fólk ætti rétt á „lífi, frelsi, og eignum“. Locke taldi að líkami manns væri eign manns og því myndi eignarréttur manns tryggja öryggi manns sjálfs jafnt sem eigna manns.

Þessi hugsun lifði áfram í Sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna af stofnfeðrum Bandaríkjanna svo sem Thomas Jefferson sem skrifaði að menn ættu rétt á „lífi, frelsi og að leita hamingjunnar“.

Neðanmálsgreinar

breyta
  1. Um Lúcretíus og epikúrisma, sjá Morford (2002): 98-130.
  2. Um umfjöllun Ciceros um epikúríska siðfræði, sjá Michael C. Stokes, „Cicero on Epicurean Pleasures“ hjá Powell (1995): 145-170.
  3. Um epikúríska frumspeki, sjá Long (1986): 30-41; og David Sedley, „Hellenistic Physics and Metaphysics“ hjá Algra, Barnes, Mansfeld og Schofield (2005): 362-382.
  4. Um epikúríska þekkingarfræði, sjá Long (1986): 21-30; og Elizabeth Asmis, „Epicurean Epistemology“ hjá Algra, Barnes, Mansfeld og Schofield (2005): 260-294.
  5. „Epicurus“ á The Internet Encyclopedia of Philosophy, skoðuð 19. apríl 2007.
  6. Um epikúríska siðfræði, sjá Erler og Schofield, „Epicurean Ethics“ hjá Algra, Barnes, Mansfeld og Schofield (2005): 642-674.
  7. Um ánægju sem undirstöðu epikúrískrar siðfræði, sjá Erler og Schofield, „Epicurean Ethics“ hjá Algra, Barnes, Mansfeld og Schofield (2005): 648-651.
  8. Um epikúríska nautnahyggju, sjá Giselu Striker, „Epicurean Hedonism“ í Striker (1996) 196-208; og Erler og Schofield, „Epicurean Ethics“ hjá Algra, Barnes, Mansfeld og Schofield (2005): 651-657.
  9. Cooper, John M., „Pleasure and Desire in Epicurus“, í Reason and Emotion (Princeton: Princeton University Press, 1999), 485-514.

Heimildir og frekari fróðleikur

breyta

Frumheimildir

breyta
  • Epicurus, The Essential Epicurus: Letters, Principal Doctrines, Vatican Sayings, and Fragments. Eugene Michael O'Connor (þýð.) (Buffalo: Prometheus Books, 1993).
  • Epicurus, The Epicurus Reader: Selected Writings and Testimonia. Brad Inwood og Lloyd P. Gerson (þýð.) (Indianapolis: Hackett, 1994).

Fræðileg umfjöllun

breyta
  • Algra, K., Barnes, J., Mansfeld, J. og Schofield, M. (ritstj.), The Cambridge History of Hellenistic Philosophy (Cambridge: Cambridge University Press, 2005).
  • Cooper, John M., Reason and Emotion (Princeton: Princeton University Press, 1999).
  • Long, A.A., From Epicurus to Epictetus: Studies in Hellenistic and Roman Philosophy (Oxford: Oxford University Press, 2006).
  • Long, A.A., Hellenistic Philosophy: Stoics, Epicureans, Sceptics (Los Angeles: University of California Press, 1986).
  • Morford, Mark, The Roman Philosophers: From the time of Cato the Censor to the death of Marcus Aurelius (Routledge, 2002).
  • Powell, J.G.F. (ritstj.), Cicero the Philosopher (Clarendon Press, 1995).
  • Striker, Gisela, Essays on Hellenistic Epistemology and Ethics (Cambridge: Cambridge University Press, 1996).
  • Warren, James, Epicurus and Democritean Ethics: An Archaeology of Ataraxia (Cambridge: Cambridge University Press, 2002).
  • Warren, James, Facing Death: Epicurus and His Critics (Oxford: Clarendon Press, 2004).

Tenglar

breyta
  • „Hvað er ataraxía?“. Vísindavefurinn.
  • Stanford Encyclopedia of Philosophy:Epicurus
  • The Internet Encyclopedia of Philosophy:Epicurus
  • The Internet Encyclopedia of Philosophy:The Garden of Epicurus