Grísk heimspeki er, eins og nafnið gefur til kynna, heimspeki frá Grikklandi eða heimspeki stunduð á grísku. Venjulega er hugtakið notað til þess að nefna gríska fornaldarheimspeki og þá yfirleitt til aðgreiningar frá rómverskri heimspeki, en grísk heimspeki á sér einnig lengri sögu í Grikklandi.

Heimspeki fornaldar á Vesturlöndum á upphaf sitt í Grikklandi. Þar varð til rík og samfelld heimspekihefð sem Rómverjar þáðu í arf (sjá grein um rómverska heimspeki). Segja má að sú heimspekihefð sem upprunnin er í Grikklandi eigi sér samfellda sögu allt fram okkar samtíma í gegnum rómverska heimspeki, miðaldaheimspeki, heimspeki endurreisnartímans og nýaldarheimspeki á 17. og 18. öld.

Helstu tímabil grískrar fornaldarheimspeki

breyta
  1. Frumherjar grískrar heimspeki. Frumherjar grískrar heimspeki eru fyrstu grísku heimspekingarnir, stundum nefndir Forverar Sókratesar, en það er fremur villandi þar sem þeir yngstu voru samtímamenn Sókratesar fremur en forverar hans.
  2. Klassísk heimspeki. Heimspeki Sókratesar, Platons og Aristótelesar er stundum nefnd klassísk heimspeki og er af mörgum talin gullöld grískrar heimspeki, enda þótt fræðimenn séu farnir að teygja það hugtak þannig að það nái einnig yfir helleníska heimspeki
  3. Hellenísk heimspeki. Hellenísk heimspeki er heimspeki helleníska tímans, þ.e. frá dauða Alexanders mikla árið 323 f.Kr. til orrustunnar við Actíum árið 31 f.Kr. þegar her Oktavíanusar (sem síðar nefndist Ágústus) sigraði her Marcusar Antóníusar. Í sögu grískrar heimspeki er helleníski tíminn stundum sagður ná fram til um 200 e.Kr. enda voru helstu stefnur hellenískrar heimspeki enn þá ríkjandi.
  4. Heimspeki síðfornaldar. Heimspeki síðfornaldar er það tímabil nefnt sem tekur við af hellenískri heimspeki þrátt fyrir að stundum sé það ekki talið hefjast fyrr en við upphaf 3. aldar e.Kr. Áhrifamesta heimspekistefna þessa tímabils var nýplatonisminn.
  5. Grísk miðaldaheimspeki.

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta
  • The Internet Encyclopedia of Philosophy:Greek Philosophy
  • „Hver er saga grískrar heimspeki?“. Vísindavefurinn.
  • „Hvenær varð grísk heimspeki til?“. Vísindavefurinn.
  • „Hvenær var blómatími grískrar heimspeki og hvenær lauk honum?“. Vísindavefurinn.