Lýsingarorð
Það þarf að skrifa þessa grein út frá alþjóðlegu sjónarmiði. Vinsamlegast bættu greinina eða ræddu málið á spjallsíðunni. |
Lýsingarorð (skammstafað sem lo.) eru fallorð[1] sem lýsa fyrirbrigðum, verum eða hlutum; góður drengur, veikur maður. Þau beygjast í öllum föllum, eintölu og fleirtölu eins og nafnorð og þekkjast einkum af annars vegar merkingu sinni og hins vegar stigbreytingunni (góður, betri, bestur).
Lýsingarorð geta verið í karlkyni, kvenkyni og hvorugkyni.[1] Lýsingarorð þiggja fall, tölu[1] og kyn af nafnorði sem þau standa með eða vísa til.
Fallbeyging
breytaLýsingarorð hafa flest bæði sterka og veika beygingu. Fer beygingin eftir því með hverju lýsingarorðið stendur í setningu. Þegar lýst er óákveðnu nafnorði, t.d. góður maður, er lo. sterkt. Þegar lýst er ákveðnu nafnorði, t.d. góði maðurinn eða sá góði maður, er lo. oftast veikt.
Veik beyging endar á sérhljóði í öllum föllum eintölu og fleirtölu, annars er lýsingarorðið sterkt: Þreyttur hestur (sterkbeygt lýsingarorð, á við óákveðið nafnorð); þreytti hesturinn (veikt lýsingarorð, á við ákveðið nafnorð). Einnig má segja að endi lýsingarorðið á samhljóða í eignarfalli eintölu sé það sterkt.
Sum lýsingarorð hafa aðeins sterka beygingu, t.d. miður, nógur. Önnur hafa aðeins veika beygingu, t.d. aflvana, sammála, vansvefta, miðaldra, glaðsinna, ráðþrota, hugsi, þurfi, og stigbreytast þau ekki.
Stigbreyting
breytaFlest lýsingarorð stigbreytast. Stigin eru þrjú; frumstig, miðstig og efsta stig. Er stigbreytingin regluleg ef stigin eru öll mynduð af sama stofni; ríkur - ríkari - ríkastur. Miðstigið myndast af því að bæta við stofninn endingunum -ari eða -ri (í kk. og kvk.) -ara eða -ra (í hk.). Á efsta stigi eru tilsvarandi endingar -astur eða -stur (í kk.), -ust eða -st (í kvk.) og -ast eða -st (í hk.). Stundum verða hljóðavíxl í stofni lýsingarorða sem stigbreytast reglulega; stór - stærri - stærstur ; djúpur - dýpri - dýpstur.
Stigbreytingin er óregluleg ef miðstig og efsta stig myndast af öðrum stofni en frumstig, t.d. illur - verri - verstur.
Af sumum lýsingarorðum vantar frumstigið og eru miðstigið og efsta stigið þá oftast myndum af atviksorðum og forsetningum. Flest þessara orða merkja átt, stefnu eða röð í tíma og rúmi. Dæmi; (austur) - eystri (austari) - austastur ; (aftur) - aftari - aftastur ; (nær) - nærri - næstur.
Sum lýsingarorð stigbreytast ekki og eru óbeygjanleg með öllu, t.d. hugsi, aflvana, andvaka, örgeðja, dauður, miður, nógur. Sýna má stig þeirra með því að skeyta framan við orðunum meir og mest.
Staða lýsingarorða
breytaLýsingarorð geta verið hliðstæð eða sérstæð:
- Hliðstæð lo. eiga við fallorð og lýsa því. Þau standa oftast í sama kyni, tölu og falli og orðin sem þau eiga við og sambeygjast þeim; t.d. góður drengur, um góðan dreng.
- Sérstæð lo. standa sem nafnorð og jafngilda nafnorði eða nafnorði og lýsingarorði; t.d. hann sagði satt; komdu, góði.
Lýsingarorð getur þó staðið í nf., et., hk. en á við orð í þgf. og lagar sig því ekki að fallinu sem það á við; t.d. barninu er illt; stúlkunni er kalt.
Sjá einnig
breytaHeimildir
breyta- Bjarni Ólafsson (1995). Íslenskur málfræðilykill. Mál og menning. ISBN 9979-3-0874-5.
- Björn Guðfinnson (án árs). Íslensk málfræði. Námsgagnastofnun.
- Þórunn Blöndal (1985). Almenn málfræði. Mál og menning.