Slóvakía

land í Mið-Evrópu
(Endurbeint frá Slovenská republika)

Slóvakía (slóvakíska: Slovensko), opinberlega Slóvakíska lýðveldið (Slovenská republika), er landlukt land í Mið-Evrópu. Það á landamæri að Austurríki og Tékklandi í vestri, Póllandi í norðri, Úkraínu í austri og Ungverjalandi í suðri. Landið er að mestu fjalllent og nær yfir 49.000 km2 með 5,4 milljón íbúa. Helstu borgir eru Bratislava, sem er höfuðborg og stærsta borg landsins, Košice, Prešov, Žilina, Nitra og Banská Bystrica.

Lýðveldið Slóvakía
Slovenská republika
Fáni Slóvakíu Skjaldarmerki Slóvakíu
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Nad Tatrou sa blýska
Staðsetning Slóvakíu
Höfuðborg Bratislava
Opinbert tungumál slóvakíska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Peter Pellegrini
Forsætisráðherra Robert Fico
Sjálfstæði
 • Skipting Tékkóslóvakíu 1. janúar 1993 
Evrópusambandsaðild 2004
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
127. sæti
49.035 km²
0,72
Mannfjöldi
 • Samtals (2022)
 • Þéttleiki byggðar
117. sæti
5.460.185
111/km²
VLF (KMJ) áætl. 2022
 • Samtals 203,243 millj. dala (70. sæti)
 • Á mann 37.136 dalir (41. sæti)
VÞL (2019) 0.860 (39. sæti)
Gjaldmiðill evra (EUR)
Tímabelti UTC+1 (+2 á sumrin)
Þjóðarlén .sk
Landsnúmer +421

Slavar komu á landsvæðið þar sem Slóvakía er nú á 5. og 6. öld. Á 7. öld léku þeir lykilhlutverk í myndun ríkis Samos. Á 9. öld var furstadæmið Nitra stofnað, en seinna lagði furstadæmið Mæri það undir sig og varð við það Stór-Mæri. Eftir upplausn Stór-Mæri á 10. öld varð svæðið hluti af Ungverska furstadæminu sem síðar varð Konungsríkið Ungverjaland árið 1000.[1] Eftir innrás Mongóla í Evrópu árin 1241 og 1241 var landinu eytt. Undir yfirráðum Béla 4. af Ungverjalandi var það byggt að nýju, að hluta með Karpata-Þjóðverjum sem settust að í Hauerland og Austur-Slóvakíu.[2]

Eftir fyrri heimsstyrjöld og upplausn Austurríkis-Ungverjalands var Tékkóslóvakía stofnuð. Tékkóslóvakía var eina landið í Mið- og Austur-Evrópu sem hélt lýðræðislegri stjórn á millistríðsárunum. Fasistaflokkar náðu þó smám saman völdum í löndum Slóvaka og fyrsta Slóvakíska lýðveldið var leppríki Þriðja ríkisins. Þegar síðari heimsstyrjöld lauk var Tékkóslóvakía endurreist. Eftir valdaránið í Tékkóslóvakíu 1948 tók kommúnistastjórn við völdum og landið varð hluti af Austurblokkinni. Tilraunir til að auka frjálsræði í stjórnháttum leiddu til vorsins í Prag sem var brotið á bak aftur með innrás Varsjárbandalagsins í ágúst 1968. Árið 1989 lauk stjórn kommúnista friðsamlega með Flauelsbyltingunni árið 1989. Slóvakía varð sjálfstætt ríki eftir skiptingu Tékkóslóvakíu 1. janúar 1993.

Slóvakía er þróað land og hjátekjuland sem situr mjög hátt á vísitölu um þróun lífsgæða. Landið situr líka hátt á listum yfir lönd eftir borgararéttindum, fjölmiðlafrelsi, netfrelsi, lýðræði og friðsæld. Landið býr við blandað markaðshagkerfi með umfangsmikið velferðarkerfi, ókeypis heilbrigðisþjónustu, menntun og eitt af lengstu greiddu fæðingarorlofum innan OECD.[3] Slóvakía á aðild að Evrópusambandinu, evrusvæðinu, Schengen-svæðinu, Sameinuðu þjóðunum, NATO, CERN, OECD, Alþjóðaviðskiptastofnuninni, Evrópuráðinu, Visegrád-hópnum og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu. Í Slóvakíu eru átta staðir á heimsminjaskrá UNESCO. Slóvakía er stærsti bílaframleiðandi heims miðað við höfðatölu og þar voru framleiddir 1,1 milljón bílar árið 2019, sem var 43% af iðnframleiðslu landsins.[4]

Nafn landsins, Slovensko á slóvakísku, merkir „land Slava“ og er dregið af eldri orðmynd Sloven/Slovienin. Það er því skylt heitunum Slóvenía og Slavónía. Í miðaldalatínu, þýsku og jafnvel slavneskum heimildum var sama nafnið oft notað yfir Slóvaka, Slóvena, Slavóna og Slava almennt. Samkvæmt einni kenningu myndaðist nýtt heiti yfir forfeður Slóvaka milli 13. og 14. aldar, hugsanlega vegna áhrifa frá tékkneska orðinu Slovák sem er að finna í heimildum frá 13. öld.[5] Þessi orðmynd varð smám saman að heiti yfir karlkyns Slóvaka, en konur (Slovenka), landið (Slovensko) og heiti tungumálsins (slovenčina) voru áfram byggð á eldri orðmyndinni. Flestar erlendar útgáfur af nafninu eru því dregnar af nýrri orðmyndinni (Slóvakía á íslensku, Slowakei í þýsku, Slovaquie í frönsku o.s.frv.).

Í miðaldalatínu voru heitin Slavus, Slavonia og Slavorum (og fleiri)[5] notuð. Í þýskum heimildum voru lönd Slóvaka nefnd Windenland (sbr. Vindland) eða Windische Lande,[6] en orðin Slovakia og Schlowakei koma fyrir frá 16. öld.[7] Núverandi heiti landsins á slóvakísku, Slovensko, kemur fyrst fyrir árið 1675.[8]

 
Venus frá Moravany.

Elstu mannvistarleifar sem fundist hafa í Slóvakíu eru frá Nové Mesto nad Váhom og eru 270.000 ára gamlar, frá ársteinöld. Þetta eru steinverkfæri úr tinnusteini.[9] Steinverkfæri frá því fyrir 200.000 til 80.000 árum hafa fundist í hellum nálægt Bojnice.[10] Mikilvægasti fundurinn er 200.000 ára gömul höfuðkúpa af neanderdalsmanni sem fannst við Gánovce í Norður-Slóvakíu.

Margvíslegar minjar frá Gravette-menningunni hafa fundist víða í árdölum og fjöllum í Slóvakíu. Meðal þekktustu gripanna eru stytta skorin úr loðfílstönn (22.800 f.o.t.) og Venus frá Moravany sem fannst árið 1940 við Moravany nad Váhom. Fjöldi hálsmena úr kuðungum bendir til verslunar við Miðjarðarhafssvæðið.

Á bronsöld hófst umfangsmikil koparvinnsla í Slóvakíu sem varð uppspretta auðlegðar fyrir íbúa svæðisins. Lúsatíumenningin breiddist út frá um 1700 f.o.t. og einkenndist af gerð sterkra hæðavirkja og stórra bygginga í stjórnarmiðstöðvum. Uppgreftir hafa sýnt fram á skipulegan landbúnað og verslun á þessu tímabili. Grafir sýna að auðlegð íbúanna fór vaxandi og þar hafa fundist vopn, skartgripir, diskar og styttur. Á 12. öld breiddist Hallstatt-menningin út á sléttunum og Litlu-Karpatafjöllum með stórum grafhaugum. Um árið 500 hófu Keltar að flytjast norður á bóginn og reistu vel varin oppida þar sem nú eru Bratislava og Devín. Elstu dæmi um notkun skriftar í Slóvakíu eru á keltneskum biatec-peningum sem voru slegnir í Bratislava.

Frá árinu 2 tóku Rómverjar að sækja norður yfir Dóná og reistu herbúðir í Carnuntum sem eru miðja vegu milli Vínar og Bratislava, og Brigetio þar sem nú er Szőny við landamærin að Ungverjalandi. Herbúðirnar Gerulata voru reistar þar sem nú er úthverfi Bratislava á 2. öld. Samkvæmt Tacitusi stofnaði germanski Svefinn Vanníus ríki þar sem nú er miðhluti Slóvakíu á 1. öld en var sigraður af Lúgíum og Hermundúrum. Á 2. og 3. öld hófu Húnar innrásir í Evrópu. Þeir lögðu Pannóníu undir sig árið 377 og notuðu hana sem miðstöð fyrir ránsferðir vestar í álfuna. Árið 568 hófu Avarar innrásir á Dónársvæðinu og stofnuðu kanat í Karpatadældinni. Árið 623 gerðu Slavar sem bjuggu í vesturhluta Pannóníu uppreisn gegn Avörum undir stjórn frankverska kaupmannsins Samós.[11] Frá 626 hnignaði ríki Avara, en það hélt þó velli til 804.

Slavnesku ríkin

breyta
 
Stytta af heilögum Kýril og Meþódíusi í Žilina.

Slavar settust að þar sem nú er Slóvakía á Þjóðflutningatímabilinu á 5. og 6. öld og þar var miðstöð ríkis Samós á 7. öld. Á 9. öld var furstadæmið Nitra stofnað í kringum borgina Nitra sem síðar varð hluti af Stór-Mæri ásamt Mæri um árið 830, þegar Mojmir 1. af Mæri sameinaði slavnesku ættbálkana norðan við Dóná.[12] Þegar Mojmir reyndi hins vegar að kljúfa ríki sitt frá Austur-Frankíu steypti Loðvík þýski honum af stóli og studdi Rastislav af Mæri til valda.[13] Rastislav hertogi hélt áfram að styrkja sjálfstæði ríkisins og veikja áhrif frankverskra presta. Hann bað Mikael 3. keisara Austrómverska ríkisins um kennara til að kenna kristni á slavnesku. Mikael sendi tvo bræður, trúboðana Kýril og Meþódíus, árið 863. Kýrill bjó til fyrsta slavneska stafrófið og þýddi ritninguna á kirkjuslavnesku. Rastislav reisti líka fjölda víggirtra kastala.[14][15]

Í valdatíð Rastislavs fékk frændi hans, Svätopluk furstadæmið Nitra sem lén.[15] Furstinn gerði hins vegar bandalag við Franka og steypti frænda sínum af stóli árið 870. Líkt og fyrirrennari sinn tók Svatopluk upp titilinn rex („konungur“). Í valdatíð hans náði ríkið sinni ekki aðeins yfir Mæri og Slóvakíu, heldur líka það sem í dag eru norður- og miðhluti Ungverjalands, Neðra-Austurríki, Bæheimur, Slésía, Lúsatía, suðurhluti Póllands og Vojvodina í Serbíu, en hvar nákvæmlega landamærin lágu er umdeilt.[16] Svatopluk varðist árásum Magýara og frá Fyrsta búlgarska keisaradæminu.[17]

Árið 880 bjó Jóhannes 8. páfi til sjálfstætt erkibiskupsdæmi í Stór-Mæri með Meþódíus sem erkibiskup. Hann gerði þýska prestinn Wiching biskup í Nitra. Þegar Svatopluk lést árið 894 tóku synir hans við sem furstar í Stór-Mæri og Nitra,[15] en þeir tóku brátt að deila um yfirráð yfir öllu ríkinu. Þessar innanlandsdeilur auk stöðugra átaka við Austur-Frankíu urðu til þess að Stór-Mæri missti megnið af lendum sínum. Á sama tíma hófu Magýarar að flytjast austur yfir Karpatafjöll[18] og réðust inn í Karpatadældina sem þeir hófu að leggja undir sig frá 896.[19] Hugsanlega var tilefnið það að ráðamenn í þessum héruðum réðu þá oft sem málaliða í átökum sín á milli.[20] Ekki er vitað hvað varð um syni Svatopluks eftir 906. Í þremur orrustum í júlí og ágúst 907 sigruðu Magýarar Bæverja og sumir sagnfræðingar miða endalok Stór-Mæri við það ár, meðan aðrir vilja miða við 902.

Konungsríkið Ungverjaland

breyta

Eftir upplausn Stór-Mæri á 10. öld lögðu Ungverjar undir sig landið sem í dag er Slóvakía. Eftir að þeir biðu ósigur fyrir Þjóðverjum í orrustunni við Lechfeld lögðu þeir af hirðingjalíf og settust að í Karpatadældinni, tóku upp kristni og byggðu upp nýtt ríki, konungsríkið Ungverjaland.[21] Árin 1001-1002 og 1018-1029 var Slóvakía hluti af Póllandi eftir landvinninga Bóleslás 1.[22] Hertogadæmið Nitra var búið til af Andrési 1. af Ungverjalandi árið 1048 og náði yfir það sem áður var furstadæmið Nitra og furstadæmið Bihar.[23] Hertogadæmið var lén krónprinsins frá Árpád-ættinni.[24] Lénið var lagt niður 1108/1110 og landsvæðið innlimað í Ungverjaland.[25][26][27]

Innrás Mongóla í Evrópu árið 1241 leiddi til hungursneyðar og fólksfækkunar. Á síðmiðöldum varð íbúasamsetning fjölbreyttari þegar Karpataþjóðverjar settust þar að á 13. öld og Gyðingar á 14. öld. Bæir stækkuðu, fjöldi steinkastala var reistur og menning blómstraði.[28] Aðflutningur Þjóðverja olli oft átökum við innfædda Slóvaka þar sem þeir náðu völdum í bæjunum og brutu gamlar hefðir. Til að bregðast við þessu gaf Lúðvík 1. af Ungverjalandi út reglugerðina Privilegium pro Slavis sem kvað á um að helmingur bæjarráðsmanna í Žilina skyldi vera Slóvakar og þjóðirnar tværi skyldu skiptast á að fara með bæjarstjóraembættið.[29]

Árið 1465 stofnaði Matthías Corvinus þriðja háskóla Ungverjalands í Pressburg (Bratislava), en honum var lokað eftir andlát hans 1490.[30] Hússítar settust að í Slóvakíu í kjölfar Hússítastríðanna.[31] Þegar Tyrkjaveldi tók að sækja inn í Ungverjaland var Bratislava gerð að nýrri höfuðborg ríkisins árið 1536, rétt fyrir fall Búda árið 1541. Landið varð hluti af ríki Habsborgara sem Efra-Ungverjaland, og þar settist þriðjungur ungverska aðalsins að eftir innrás Tyrkja sem leiddi til útbreiðslu ungverskrar menningar og tungumáls.[31] Mótmælendatrú breiddist út í byrjun 17. aldar, að hluta vegna gamalla hússítafjölskyldna og slóvakískra nemenda Marteins Lúthers.[31] Á 17. öld urðu átök milli kaþólikka og mótmælenda í Efra-Ungverjalandi, auk stríðsins við Tyrkjaveldi. Eftir 1648 varð meirihluti íbúa kaþólskur í kjölfar gagnsiðbótarinnar.

 
Einn af foringjum Slóvaka, Ján Francisci-Rimavský, í uppreisn Slóvaka 1848-49.

Í Tyrkjastríðunum var Slóvakía vettvangur átaka milli Austurríkis og Transylvaníu og uppreisna gegn Habsborgurum sem leiddu til mikillar eyðileggingar, sérstaklega í sveitahéruðum.[32] Í stríði Austurríkis og Tyrkjaveldis 1663-1664 leiddi stórvesír Tyrkja her sem lagði Slóvakíu í rúst.[31] Samt sem áður börðust uppreisnarmenn frá Efra-Ungverjalandi gegn Austurríkismönnum og Pólverjum í orrustunni um Vín 1683. Eftir því sem Tyrkir hörfuðu frá Ungverjalandi seint á 17. öld dró úr mikilvægi Efra-Ungverjalands þótt Pressburg væri áfram höfuðborg ríkisins til 1848 þegar hún var aftur flutt til Búda.[33]

Slóvakar sóttust eftir sjálfstæði þegar byltingarnar 1848 hófust, en úr því varð ekki. Þess í stað versnaði sambúð þjóðanna eftir því sem ungverskuvæðing fór vaxandi innan ríkisins.[34]

Tékkóslóvakía

breyta
 
Sjálfstæðisyfirlýsing Tékkóslóvakíu lesin upp í Bandaríkjunum af Tomáš Garrigue Masaryk árið 1918.

Þann 18. október 1918 lásu þeir Tomáš Garrigue Masaryk, Milan Rastislav Štefánik og Edvard Beneš sjálfstæðisyfirlýsingu fyrir konungsríkið Bæheim, markgreifadæmið Mæri, Slésíu, Efra-Ungverjaland og Karpata-Rúteníu, í Washington D.C. Eftir upplausn Austurríkis-Ungverjalands var Tékkóslóvakía stofnuð, en þá bjó mikill fjöldi Þjóðverja, Slóvaka, Ungverja og Rútena innan landamæranna sem voru staðfest með Saint-Germain-en-Laye-sáttmálanum og Trianon-sáttmálanum. Nýja ríkið gaf því minnihlutahópum mikil réttindi.

Á millistríðsárunum gerði Tékkóslóvakía bandalag við Frakkland, Rúmeníu og Júgóslavíu. Bæði í Tékklandi og Slóvakíu blómstraði efnahagslífið og menning og menntun efldust. Heimskreppan olli skarpri niðursveiflu og á eftir fylgdi pólitískur óstöðugleiki bæði innanlands og utan.[35] Á 4. áratugnum beittu ríkisstjórnir Þýskalands, Ungverjalands og Póllands Tékkóslóvakíu þrýstingi til að endurheimta lönd sem þessi ríki töldu sig eiga tilkall til og ýttu undir óánægju minnihlutahópa. Þetta leiddi á endanum til München-samningsins í september 1938 sem fól í sér innlimun Súdetahéraðanna í Þýskaland. Aðrir minnihlutahópar þrýstu á stofnun sambandsríkis og stofnuð voru héraðsþing í Slóvakíu og Rúteníu.[36] Hlutar af Suður- og Austur-Slóvakíu voru innlimaðir af Ungverjalandi í nóvember 1938. Eftir þessar landheimtur hótaði Þriðja ríkið því að leggja hluta Slóvakíu undir sig og leyfa Ungverjalandi og Póllandi að taka afganginn nema Slóvakía lýsti yfir sjálfstæði. Þetta var gert í mars 1939 þegar Fyrsta slóvakíska lýðveldið var stofnað, undir stjórn Jozef Tiso og Vojtech Tuka. Við þetta varð Slóvakía í fyrsta sinn sjálfstætt ríki, en var í reynd aðeins leppríki Þýskalands.[37] Á sama tíma var útlagastjórn Tékkóslóvakíu starfandi í London sem Bandamenn litu á sem einu löglegu stjórn landsins.

Um 75.000 af um 80.000 Gyðingum sem eftir voru í Slóvakíu eftir missi suðurhéraðanna, voru fluttir í útrýmingarbúðir í Þýskalandi í helförinni í Slóvakíu.[38][39] Þúsundir Gyðinga, Rómafólks og annarra hópa voru fluttir í fangabúðirnar Sereď, Vyhne og Nováky í Slóvakíu.[40] Mikill meirihluti Gyðinga sem bjuggu í Slóvakíu fyrir stríð var myrtur.[41][42] Slóvakía greiddi Þjóðverjum 500 mörk fyrir hvern Gyðing sem fluttur var þaðan fyrir „endurmenntun og uppihald“.[43] Þegar ljóst varð að rauði herinn myndi hrekja Þjóðverja frá Mið- og Austur-Evrópu, hófst andspyrna gegn hernámsliðinu og leppstjórninni sumarið 1944 með blóðugum skæruhernaði. Þjóðverjar og slóvakískir samverkamenn þeirra lögðu 93 þorp í rúst og myrtu þúsundir almennra borgara, oft með fjöldaaftökum.[44] Sovétherinn og rúmenskir hermenn frelsuðu Slóvakíu undan hernámi Þjóðverja í apríl 1945.

Kommúnistastjórnin

breyta
 
41 árs alræðisstjórn kommúnista lauk með flauelsbyltingunni árið 1989.

Tékkóslóvakía var endurreist eftir síðari heimsstyrjöld og Jozef Tiso var tekinn af lífi árið 1947. Í kjölfarið fylgdu miklir fólksflutningar þar sem 80.000 Ungverjar[45] og 32.000 Þjóðverjar[46] voru hraktir frá Slóvakíu að undirlagi Bandamanna í samræmi við ákvarðanir Potsdamráðstefnunnar.[47] Aðeins um 20.000 Karpata-Þjóðverjar, af um 130.000 árið 1937, voru eftir í Slóvakíu árið 1947.[48] Sovéska öryggislögreglan handtók og flutti yfir 20.000 í fangabúðir í Síberíu.[49] Samkvæmt ákvörðunum Jaltaráðstefnunnar var Tékkóslóvakía á áhrifasvæði Sovétríkjanna og varð hluti af Varsjárbandalaginu eftir valdarán 1948. Yfir átta þúsund voru flutt í fangabúðir á árunum 1948 til 1953.[50]

Eftir vorið í Prag 1968 réðist her Varsjárbandalagsins inn í landið og batt enda á þróun í frjálsræðisátt undir stjórn Alexanders Dubček. Árið eftir var Tékkóslóvakía gerð að sambandsríki tveggja sósíalískra lýðvelda: Alþýðulýðveldis Slóvaka og Alþýðulýðveldis Tékka. Landið varð í reynd leppríki Sovétríkjanna, en hélt nokkru sjálfstæði. Í vestri lá járntjaldið um landamærin milli Tékklands og Austurríkis og Vestur-Þýskalands. Um 600 voru drepin á landamærunum milli 1948 og 1989.[51]

Lýðveldið Slóvakía

breyta
 
Slóvakía varð aðili að Evrópusambandinu 2004 og undirritaði Lissabonsáttmálann árið 2007.

Stjórn kommúnista í Tékkóslóvakíu lauk með hinni friðsamlegu flauelsbyltingu árið 1989. Í kjölfarið var landinu skipt í tvennt og alþýðulýðveldin tvö urðu lýðveldi. Þann 17. júlí 1992 lýsti forsætisráðherra Slóvakíu, Vladimír Mečiar, yfir stofnun sjálfstæðs ríkis. Haustið 1992 sömdu Mečiar og Václav Klaus um fyrirkomulag upplausnar sambandsríkisins. Í nóvember kaus sambandsþingið að leysa sig sjálft upp frá og með 31. desember 1992.

Skipting Tékkóslóvakíu fór friðsamlega fram og hefur verið kölluð flauelsskilnaðurinn.[52][53] Slóvakía hefur áfram náin tengsl við Tékkland. Bæði löndin eiga í miklu samstarfi við Ungverjaland og Pólland í Visegrád-hópnum. Slóvakía gekk í Atlantshafsbandalagið 29. mars 2004 og í Evrópusambandið 1. maí 2004. Landið gerðist aðili að Schengen árið 2007. Þann 1. janúar 2009 tók Slóvakía upp evru sem gjaldmiðil.[54] Árið 2019 varð Zuzana Čaputová fyrsti kvenforseti Slóvakíu.[55]

Landfræði

breyta
 
Kort.
 
Kort sem sýnir fjöll landsins.

Slóvakía liggur milli 47. og 50. breiddargráðu norður og 16. og 23. lengdargráðu austur. Landslag í Slóvakíu er að mestu fjalllent, með Karpatafjöll í mið- og norðurhluta og landsins. Undirfjöll þeirra Tatrafjöll eru með tugi tinda yfir 2.500 metrum; tindurinn Gerlachovský štít rís þeirra hæst (2655 m). Tatrafjöll eru einn hluti af Fatra-Tatrafjöllum með Slóvakísku málmfjöllin og Beskid-fjöll. Stærsta undirlendið er í kringum Dóná í suðvestri, en þar á eftir kemur austurslóvakíska undirlendið í suðaustri.[56]

Helstu fljót eru Dunajec, Dóná og Morava en þau mynda einnig landamæri við nágrannalöndin. Skógar þekja um 41% landsins.[57]

Níu þjóðgarðar þekja 6,5% svæði landsins. Hellar skipta hundruðum en þrjátíu þeirra eru opnir almenningi, þar af eru 5 hellar á lista UNESCO.

Stjórnmál

breyta
 
Þinghúsið í Bratislava.

Slóvakía býr við þingræði og fjölflokkakerfi. Forseti Slóvakíu er þjóðhöfðingi landsins og formlega æðsti maður framkvæmdavaldsins. Núverandi forseti er Zuzana Čaputová sem er fyrsti kvenkyns forseti landsins. Völd forseta eru þó mjög takmörkuð. Forsetinn er kosinn í beinum kosningum í tveimur umferðum til fimm ára í senn. Stjórnarleiðtogi er forsætisráðherra Slóvakíu sem nú er Eduard Heger.[58] Oftast er forsætisráðherra leiðtogi þess flokks sem telst sigurvegari þingkosninga og getur myndað ríkisstjórn með stuðningi meirihluta þingsins. Formlega er forsætisráðherra skipaður af forsetanum. Aðrir ráðherrar eru líka skipaðir af forseta, en samkvæmt ráði forsætisráðherra.

Löggjafarsamkunda Slóvakíu er þjóðarráð Slóvakíu (Národná rada Slovenskej republiky) með 150 þingmenn sem koma saman í einni deild. Þingmenn eru kosnir til fjögurra ára í senn með hlutfallskosningu.

Æðsti dómstóll Slóvakíu er stjórnlagadómstóll Slóvakíu (Ústavný súd) sem úrskurðar um stjórnarskrárrétt. Dómarar í stjórnlagadómstólnum eru 13 talsins, skipaðir af forseta eftir tilnefningu þingsins.

Stjórnarskrá Slóvakíu gekk í gildi 1. janúar 1993. Henni var breytt í september 1998 til að heimila beint forsetakjör og aftur í febrúar 2001 vegna inngöngunnar í Evrópusambandið. Lagakerfið í Slóvakíu byggist á lagakerfi Austurríkis-Ungverjalands. Lögum var breytt til samræmis við kröfur Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og til að afnema marx-lenínísku lagahefðina sem áður var ríkjandi. Slóvakía hefur gengist undir lögsögu Alþjóðadómstólsins án fyrirvara.

Stjórnsýslueiningar

breyta

Slóvakía skiptist í átta héruð (krajov - eintala: kraj) sem heita eftir höfuðstöðum sínum. Héruðin skiptast síðan í 79 umdæmi (okresy) sem aftur skiptast í mörg sveitarfélög (obec).

Heiti
(á íslensku)
Heiti
(á slóvakísku)
Höfuðstaður Íbúafjöldi
(2011)
  Bratislava-hérað Bratislavský kraj Bratislava 602.436
  Trnava-hérað Trnavský kraj Trnava 554.741
  Nitra-hérað Nitriansky kraj Nitra 689.867
  Trenčín-hérað Trenčiansky kraj Trenčín 594.328
  Banská Bystrica-hérað Banskobystrický kraj Banská Bystrica 660.563
  Žilina-hérað Žilinský kraj Žilina 688.851
  Prešov-hérað Prešovský kraj Prešov 814.527
  Košice-hérað Košický kraj Košice 791.723

Efnahagur

breyta
 
Seðlabanki Slóvakíu í Bratislava.
 
Háhýsi í viðskiptahverfi Bratislava.

Slóvakía er þróað hátekjuland[59] þar sem verg landsframleiðsla á mann var 78% af meðaltali Evrópusamabandsríkja árið 2018.[60] Landið býr við áskoranir sem varða ójöfnuð milli héraða.[61] Landsframleiðsla á mann er allt frá 188% af meðaltali ESB í Bratislava að 54% í Austur-Slóvakíu.[62] Þótt landfræðilegur ójöfnuður sé þannig mikill búa 90% íbúa í eigin húsnæði.

Árið 2021 setti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn Slóvakíu í 45. sæti á lista yfir lönd eftir landsframleiðslu á mann, með kaupmáttarjafnaða landsframleiðslu á mann upp á 34.815 dali. Landið var kallað „Tatratígurinn“ þegar slóvakíska hagkerfið breyttist úr áætlanabúskap í markaðsbúskap með einkavæðingu lykilgreina og aukningu erlendrar fjárfestingar. Helstu útflutningsvörur Slóvakíu eru hátæknivörur, bílar og bílahlutar.

Árið 2021 var Slóvakía í 61. sæti á lista yfir lönd eftir landsframleiðslu þótt íbúar séu aðeins um 5 milljónir. Slóvakía er eitt af þeim ESB-ríkjum sem er í örustum vexti (2017). Árið 2016 fór yfir 86% af útflutningi Slóvakíu til ríkja Evrópusambandsins og yfir 50% af innflutningi kom frá ESB-ríkjum.[63]

Hlutur opinberra skulda af landsframleiðslu náði 49,4% undir lok 2018, langt undir meðaltali OECD-ríkja.[64] Atvinnuleysi náði 19% undir lok 1999 en hafði lækkað í 4,9% árið 2019.[65]

Slóvakía tók upp evruna 1. janúar 2009 sem tók við af slóvakísku krónunni sem árið 2008 var metin á 30,126 fyrir eina evru.[66][67]

Slóvakía var í 45. sæti af 190 á lista yfir lönd eftir því hve auðvelt er að eiga þar viðskipti, samkvæmt Heimsbankanum árið 2020, og í 57. sæti af 63 löndum á lista yfir lönd eftir samkeppnishæfni samkvæmt World Competitiveness Yearbook 2020.

Íbúar

breyta

Íbúar Slóvakíu er yfir 5,4 milljónir og eru flestir Slóvakar að uppruna. Þéttleiki byggðar er að meðaltali 110 íbúar á ferkílómetra.[68] Samkvæmt manntali árið 2021 telur meirihluti íbúa Slóvakíu sig vera Slóvaka (83,82%). Stærsta þjóðarbrotið sem býr í Slóvakíu eru Ungverjar (7,75%). Aðrir minnihlutahópar eru meðal annars Rómafólk (1,23%),[69] Tékkar (0,53%), Rusynar (0,44%) og aðrir eða ótilgreint (6,1%).[70]

Árið 2018 var miðaldur íbúa Slóvakíu 41 ár.[71]

Stórir hópar Slóvaka fluttust burt seint á 19. og í byrjun 20. aldar. Árið 1990 sögðust 1,8 milljónir manna í Ameríku eiga sér slóvakískan uppruna.[72]

Menning

breyta

Alþýðumenning

breyta
 
Hægt er að skoða hefðbundin slóvakísk timburhús í þorpinu Vlkolínec sem er á heimsminjaskrá UNESCO.
 
Slóvakar í þjóðbúningum frá Austur-Slóvakíu.

Slóvakísk alþýðumenning er áberandi hluti af menningu landsins og birtist meðal annars í bókmenntum, tónlist, dansi og byggingarlist. Eitt þekktasta dæmið er þjóðsöngur Slóvakíu, Nad Tatrou sa blýska, sem byggist á þjóðlaginu Kopala studienku.

Helsta alþýðumenningarhátíð Slóvakíu fer fram árlega í Východná. Þetta er elsta og stærsta hátíð landsins með alþjóðlegri þátttöku.[73] SĽUK (Slovenský ľudový umelecký kolektív) er stærsta alþýðulistafélag Slóvakíu.

Hægt er að sjá vel varðveitt dæmi um alþýðilega byggingarlist í Slóvakíu í þorpinu Vlkolínec sem hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO frá 1993.[74] Í Prešov-héraði, er að finna stórfenglegar timburkirkjur. Flestar þeirra eru varðveittar sem menningararfur og sumar eru líka á heimsminjaskrá.

Þekktasta alþýðuhetja Slóvakíu er ræninginn Juraj Jánošík (1688–1713) (eins konar Hrói höttur Slóvakíu) sem er sagður hafa rænt frá þeim ríku til að gefa fátækum. Ævi Jánošíks eru gerð skil í mörgum skáldverkum og kvikmyndum frá 20. öld. Ein þekktasta kvikmyndin er Jánošík eftir Martin Frič frá 1935.[75]

Tilvísanir

breyta
  1. Dixon-Kennedy, Mike (1998). Encyclopedia of Russian & Slavic myth and legend. ABC-CLIO. bls. 375. ISBN 978-1-57607-130-4. Sótt 23. apríl 2009.
  2. Karl Julius Schröer, Die deutschen Mundarten des ungrischen Berglandes (1864)
  3. „Which countries are most generous to new parents?“. The Economist. Sótt 29. apríl 2017.
  4. „Slovakia beats record in car production, again“. 13. janúar 2020. Sótt 1. febrúar 2020.
  5. 5,0 5,1 UHLÁR, V.: O pôvode názvov Slovák, Slovensko a slovenčina
  6. Papasonov, Mária; Šmahel, František; Dvořáková, Daniela; Richental, Ulrich (2009). Kostnická kronika. Budmerice: Vydavateľstvo Rak. ISBN 978-808550142-1..
  7. Uličný, Ferdinand (2014). "Toponymum Slovensko – pôvod a obsah názvu" [The name Slovakia (Slovensko) – its origin and content]. Historický časopis. Historický ústav SAV (3): 548. ISSN 0018-2575.
  8. „Výrazová a významová diferenciácia a vznik nových pomenovaní“ (PDF). Kultúra Slova. Sótt 19. ágúst 2021.
  9. Neruda, Petr; Kaminská, L.ubomira (2013). Neanderthals at Bojnice in the Context of Central Europe. bls. 21. ISBN 978-80-7028-407-0. Sótt 19. nóvember 2021.
  10. Museum of Prehistoric Prepoštská Cave (2011). „Museum of Prehistoric“. muzeumpraveku.sk. Sótt 25. nóvember 2011.
  11. Benda, Kálmán (1981). Magyarország történeti kronológiája ("The Historical Chronology of Hungary"). Budapest: Akadémiai Kiadó. bls. 44. ISBN 963-05-2661-1.
  12. 'Europe', p.360
  13. Kristó, Gyula (1994). Korai Magyar Történeti Lexikon (9–14. század) [Encyclopedia of Early Hungarian History – 9th–14th centuries]. Budapest: Akadémiai Kiadó. bls. 467. ISBN 963-05-6722-9.
  14. Poulik, Josef (1978). „The Origins of Christianity in Slavonic Countries North of the Middle Danube Basin“. World Archaeology. 10 (2): 158–171. doi:10.1080/00438243.1978.9979728.
  15. 15,0 15,1 15,2 Čaplovič, Dušan; Viliam Čičaj; Dušan Kováč; Ľubomír Lipták; Ján Lukačka (2000). Dejiny Slovenska. Bratislava: AEP.
  16. Tóth, Sándor László (1998). Levediától a Kárpát-medencéig ("From Levedia to the Carpathian Basin"). Szeged: Szegedi Középkorász Műhely. bls. 199. ISBN 963-482-175-8.
  17. page=51
  18. A Country Study: Hungary. Federal Research Division, Library of Congress. Sótt 6. mars 2009.
  19. pages=189–211
  20. Kristó, Gyula (1996). Magyar honfoglalás – honfoglaló magyarok ("The Hungarians' Occupation of their Country – The Hungarians occupying their Country"). Kossuth Könyvkiadó. bls. 84–85. ISBN 963-09-3836-7.
  21. „The kingdom of Hungary“. loststory.net. Sótt 15. febrúar 2015.
  22. Ottov historický atlas Slovensko. Pavol Kršák, Daniel Gurňák. Praha: Ottovo Nakladatelství. 2012. ISBN 978-80-7360-834-7. OCLC 827000163.
  23. Steinhübel, Ján (2016). Nitrianské kniežatstvo : počiatky stredovekého Slovenska = The duchy of Nitra, the beginnings of the medieval Slovakia (Druhé prepracované a doplnené vydanie. útgáfa). Bratislava. ISBN 978-80-85501-64-3. OCLC 966315215.
  24. „História - Revue o dejinách spoločnosti | historiarevue.sk“. www.historiarevue.sk. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. ágúst 2021. Sótt 17. ágúst 2021.
  25. Felak, James Ramon (15. júní 1995). At the Price of the Republic: Hlinka's Slovak People's Party, 1929–1938. University of Pittsburgh Pre. bls. 3–. ISBN 978-0-8229-7694-3.
  26. Schuster, Rudolf (janúar 2004). The Slovak Republic: A Decade of Independence, 1993–2002. Bolchazy-Carducci Publishers. bls. 71–. ISBN 978-0-86516-568-7.
  27. Prokhorov, A. M. (1982). Great Soviet Encyclopedia. Macmillan. bls. 71.
  28. Tibenský, Ján; og fleiri (1971). Slovensko: Dejiny. Bratislava: Obzor.
  29. Žilina v slovenských dejinách : zborník z vedeckej konferencie k 620. výročiu udelenia výsad pre žilinských Slovákov : Žilina 7. mája 2001. Richard Marsina. Žilina: Knižné Centrum Vyd. 2002. ISBN 80-8064-158-7. OCLC 164889878.
  30. „Academia Istropolitana“. City of Bratislava. 14. febrúar 2005. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. maí 2008. Sótt 5. janúar 2008.
  31. 31,0 31,1 31,2 31,3 Mahoney, William (18. febrúar 2011). The History of the Czech Republic and Slovakia. ABC-CLIO. ISBN 9780313363061 – gegnum Google Books.
  32. "Part of Hungary, Turkish occupation". Slovakiasite.com
  33. Bratislava. Slovakiasite.com
  34. „Divided Memories: The Image of the First World War in the Historical Memory of Slovaks“. Slovak Sociological Review, Issue 3. 2003. Sótt 25. nóvember 2012.
  35. J. V. Polisencky, History of Czechoslovakia in Outline (Prague: Bohemia International 1947) at 113–114.
  36. Documents on British Foreign Policy 1919-1939 edited by Professor E. L. Woodward, Roham Butler, M.A., and Margaret Lambert, PhD., Third Series, vol.iv, Her Majesty's Stationery Office, 1951, pps:94-99: 'Memorandum on the Present Political Situation in Slovakia'.
  37. Dominik Jůn interviewing Professor Jan Rychlík (2016). „Czechs and Slovaks – more than just neighbours“. Radio Prague. Sótt 28. október 2016.
  38. „Obžaloba pri Národnom súde v Bratislave“. Spis Onľud 17/46. 20. maí 1946.
  39. Daxner, Igor (25. júlí 1946). „Rozsudok Národného súdu v Bratislave“. Spis Tnľud 17/1946.
  40. Leni Yahil, The Holocaust: The Fate of European Jewry, 1932–1945 (Oxford, 1990), pp. 402–403.
  41. Dawidowicz, Lucy. The War Against the Jews, Bantam, 1986. p. 403
  42. Rebekah Klein-Pejšová (2006). „An overview of the history of Jews in Slovakia“. Slovak Jewish Heritage. Synagoga Slovaca. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. september 2014. Sótt 28. júlí 2011.
  43. Nižňanský, Eduard (2010). Nacizmus, holokaust, slovenský štát [Nazism, holocaust, Slovak state] (in Slovak). Bratislava: Kalligram. ISBN 978-80-8101-396-6.
  44. "Slovenské Národné Povstanie – the Slovak national uprising". SME.sk.
  45. „Management of the Hungarian Issue in Slovak Politics“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 25. mars 2009. Sótt 16. október 2010.
  46. „Nemecká menšina na Slovensku po roku 1918“ [German minority in Slovakia after 1918] (slóvakíska). 20. júní 2008. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. júní 2008. Sótt 16. október 2010.
  47. Rock, David; Stefan Wolff (2002). Coming home to Germany? The integration of ethnic Germans from central and eastern Europe in the Federal Republic. New York; Oxford: Berghahn.
  48. „Dr. Thomas Reimer, Carpathian Germans history“. Mertsahinoglu.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. apríl 2023. Sótt 16. október 2010.
  49. „Slovakia (Czechoslovakia)“. Slovakia (Czechoslovakia) | Communist Crimes (enska). Sótt 29. október 2020.
  50. "[1]." upn.gov.sk. Sótt 9. júní 2019. "Communist crimes in Slovakia."
  51. "[2]." spectator.sme.sk. Retrieved on 9 June 2019. "Border killings remain unpunished decades later."
  52. „The Breakup of Czechoslovakia“. Slovakia. Afrit af upprunalegu geymt þann 10. október 2017. Sótt 3. júní 2011.
  53. „Velvet divorce“. Dictionary.reference.com. Sótt 3. júní 2011.
  54. „Slovakia joins the euro - European Commission“. ec.europa.eu. Sótt 7. apríl 2021.
  55. Walker, Shaun (31. mars 2019). „Slovakia's first female president hails victory for progressive values“. The Guardian (bresk enska). ISSN 0261-3077. Sótt 15. júlí 2020.
  56. „Slovakia“. The World Factbook. CIA. 2007. Sótt 26. apríl 2008.
  57. „Až dve pätiny územia Slovenska pokrývajú lesy“. etrend.sk. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. ágúst 2017. Sótt 29. ágúst 2017.
  58. „Slovakia Has New Leader as Russia Vaccine Feud Ousts Premier“. Bloomberg.com (enska). 30. mars 2021. Sótt 30. mars 2021.
  59. „World Bank 2007“. Web.worldbank.org. Sótt 25. apríl 2010.
  60. "GDP per capita in PPS, Eurostat", sótt 7. júlí 2019.
  61. Votruba, Martin. „Regional Wealth“. Slovak Studies Program. University of Pittsburgh. Afrit af upprunalegu geymt þann 2 júní 2010. Sótt 10. apríl 2010.
  62. "[3]." eurostat. Sótt 7. júlí 2019. "GDP per capita in 281 EU regions."
  63. „Intra-EU trade in goods - recent trends“.
  64. Slovakia's government debt well below the EU average. spectator.sme.sk (19. janúar 2020).
  65. „Historické čísla nezamestnanosti, prvýkrát klesla pod 5 percent“ (slóvakíska). 20. maí 2019. Sótt 25. maí 2019.
  66. Grajewski, Marcin (28. maí 2008). „Slovakia revalues currency ahead of euro entry“. The Guardian. Afrit af upprunalegu geymt þann 1. júní 2008. Sótt 9. júlí 2010.
  67. „Slovak euro exchange rate is set“. BBC News. 8. júlí 2008. Sótt 9. júlí 2010.
  68. „Europe:: Slovakia — The World Factbook - Central Intelligence Agency“. www.cia.gov. Sótt 28. júlí 2019.
  69. „Roma political and cultural activists estimate that the number of Roma in Slovakia is higher, citing a figure of 350,000 to 400,000“. Slovakia.org. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. ágúst 2013. Sótt 25. nóvember 2012.
  70. „Census 2021“. scitanie.sk.
  71. „The World FactBook - Serbia“, The World Factbook, 12. júlí 2018
  72. "The Slovaks in America". European Reading Room, Library of Congress.
  73. centrum, Národné osvetové. „Folklórny festival Východná“. Folklórny festival Východná.
  74. Centre, UNESCO World Heritage. „Vlkolínec“. UNESCO World Heritage Centre.
  75. „Jánošík movie on Czechoslovak Film Database“. 1935.

Tenglar

breyta