Neanderdalsmaður (fræðiheiti: Homo neanderthalensis) er útdauð tegund af ættkvíslinni homo sem þekkt er af sýnishornum frá pleistósentímabilinu í Evrópu og Asíu. Neanderdalsmenn eru ýmist flokkaðir sem undirtegund manna (Homo sapiens neanderthalensis) eða sem aðskilin tegund (Homo neanderthalensis).

Neanderdalsmaður
Tímabil steingervinga: Pleistósen
H. neanderthalensis, La Chapelle-aux-Saints
H. neanderthalensis, La Chapelle-aux-Saints
Uppsett beinagrind í American Museum of Natural History
Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Spendýr (Mammalia)
Ættbálkur: Fremdardýr (Primates)
Ætt: Mannætt (Hominidae)
Ættkvísl: Homo
Tegund:
H. neanderthalensis

Tvínefni
Homo neanderthalensis
King, 1864
Útbreiðsla neanderdalsmanna. Eystri og nyrðri mörkin má teygja yfir Okladinov í Altaífjöllum og Mamotnaia í Úralfjöllum
Útbreiðsla neanderdalsmanna. Eystri og nyrðri mörkin má teygja yfir Okladinov í Altaífjöllum og Mamotnaia í Úralfjöllum
Samheiti

Palaeoanthropus neanderthalensis
H. s. neanderthalensis

Tegundin heitir eftir Neanderdal 12 km austan við Düsseldorf í Þýskalandi vegna þess að ensk-írski jarðfræðingurinn William King stakk upp á því fyrstur manna 1864 að beinaleifar sem þar höfðu fundist 1856 væru ekki bein nútímamanna heldur af annarri tegund.

Uppruni

breyta

Neanderdalsmenn eru taldir hafa þróast út frá heidelbergmanninum (Homo heidelbergensis) sem kom til Evrópu mun fyrr. Þeir eru taldir hafa komið fram fyrir um 200.000 árum og dáið út fyrir 28.000 árum.[heimild vantar] Mest af leifum þeirra hafa fundist víða í Evrópu en einnig allt austur til Írans og norður til Síberíu.

Telja má víst að neanderdalsmenn hafi verið komnir fram sem aðgreindur stofn fyrir 150.000 - 200.000 árum. Fundist hafa beinaleifar hundruða einstaklinga af kyni neanderdalsmanna. Athuganir á beinaleifum hafa leitt í ljós að beinabygging neanderdalsmanna hefur verið áþekk og hjá nútímamönnum sem hafa aðlagast köldu veðurfari. Höfuðkúpan var hins vegar frábrugðin höfuðkúpum nútímamanna. Sumir telja útlit þeirra hafi verið sérstök aðlögun að köldu og þurru loftslagi.

Útlit

breyta

Neanderdalsmenn voru mjög líkir nútímamönnum. Þeir voru þó mun lægri, riðvaxnari, stórskornari og þéttvaxnari en nútímamenn almennt. Mælingar á tíu karl- og fimm kvenbeinagrindum sýndu meðalhæð karla um 1,68 m. og kvenna um 1,59 m.

Þeir voru með framsveigð lærbein og lítið sem ekkert mitti. Þeir voru rétthentir, hægri handleggurinn var mun vöðvastæltari.

Þeir höfðu afturhallandi enni, þykka brúnahnykla og ofan við augntóttir voru áberandi beinabrýr. Ennið var lágt, haka innfallin og beinhnykill var á hnakka. Kinnbein voru aftursveigð og nasaholurnar stórar og breiðar. Þessi andlitseinkenni hafa ef til vill verið aðlögun að köldu og þurru loftslagi.

Heilarými neanderdalsmanna var að meðaltali stærra en hjá nútímamönnum.

Neanderdalsmenn voru ef til vill fyrstir manna til að ganga í fötum allt árið til að verjast kulda. Skinn voru notuð til fata og verkuð þannig að þau voru strengd á grind og öll fita og sinar skafnar af. Til þess voru notuð tæki úr tinnu. Þegar búið var að súta skinnin voru föt saumuð úr þeim.

Lífshættir

breyta

Ýmsar minjar hafa fundist sem gefa innsýn í líf neanderdalsmanna. Til dæmis vopn, verkfæri og leifar fornra eldstæða. Verkfærin sýna að neanderdalsmenn voru mjög færir á sviði verkfæra- og vopnagerðar. Eldstæðin sýna að þeir hafi notað eld til að hita mat og halda á sér hita.

João Zilhão, prófessor við háskólann í Lissabon, sagði að Neanderdalsmenn hefðu hæfileika til að nota tákn og hugsa óhlutbundið út frá hellum á Spáni.[1]

Ljóst er að menning neanderdalsmanna hefur verið allþróuð og margbrotin. Tinnusteinssköfur og sílar gefa til kynna að þeir hafi stundað skinnaverkun, og hafa þeir meðal annars notað skinnin í tjöld og klæði. Talið er að neanderdalsmenn hafi lifað í hópum, 30 til 50 í hóp, og að þeir haft fasta búsetu í til dæmis hellum eða þá að þeir hafi verið mikið á faraldsfæti og búið ýmist í tjöldum eða hellumi.

Neanderdalsmenn kunnu vel að nýta sér þær bjargir sem frerasléttur við rætur jökulskjaldarins mikla höfðu upp á að bjóða en þar reikuðu um hjarðir stórvaxinna dýra sem aðlagast höfðu helkulda þessa tímabils. Um þetta vitna veiðitól þeirra og áhöld og beinaleifar veiðibráðar við aðsetursstaði þeirra.

Neanderdalsmenn hafa haft mikla samkennd og virðast hafa hugsað um hina veiku og öldruðu. „Chapelle-aux-saint-maðurinn“ er gott dæmi um það. Hann var tannlaus með brotinn kjálka sem náði að gróa. Útaf þessu gat hann ekki tuggið. En hann hefði hins vegar ekki getað lifað svona lengi eins og að hann lifði svo að hann hlýtur að hafa fengið hjálp. Maturinn hefur semsagt verið tugginn fyrir hann.

Greftrunarsiðir þeirra benda til trúar á annað líf. Oft voru munir, skartgripir eða nytjahlutir, meðal annars úr tinnu, lagðir í grafirnar. Sumar beinaleifar neanderdalsmanna eru af einstaklingum sem hafa átt við alvarlega fötlun að stríða, og fundist hafa menjar um áverka sem hafa gróið. Þá hafa fundist beinaleifar af gamalmennum. Þetta sýnir að annast hefur verið um sjúka og vanburða einstaklinga.

Útrýming

breyta

Neanderdalsmenn dóu út fyrir um það bil 28.000 árum. Enginn veit hvað olli hvarfi þeirra en kenningarnar eru margar.

Því hefur löngum verið haldið fram að nútímamenn (Homo sapiens sapiens) hafi útrýmt neanderdalsmönnum þegar hinir fyrrnefndu birtust í Evrópu fyrir 40.000 árum. Þetta þarf þó ekki að hafa gerst þannig að nútímamenn hafi farið með hernaði á hendur neanderdalsmönnum, heldur hafa þeir ef til vill þrengt að þeim, til dæmis með því að leggja undir sig vetrardvalarsvæði þeirra í syðri hluta álfunnar og mynda þar þéttari og varanlegri byggð en neanderdalsmenn gerðu.

Einnig kom krómagnonmaðurinn til Evrópu fyrir 40-45 þúsund árum og var á sömu svæðum og neanderdalsmaðurinn. Þeir voru of fámennir til að geta útrýmt neanderdalsmanninum, en þeir hafa getað stuðlað að útrýmingu þeirra.

Þegar byrjaði að kólna fyrir um 40 þúsund árum fóru jöklar stækkandi og því neyddust neanderdalsmenn til að hörfa undan þeim suður á bóginn. Þar tók við gjörólíkt landslag sem hentaði illa veiðitækni þeirra og búsiðum. Sumir telja þetta hafa valdið því að þeir dóu út.

Einnig eru til margar kenningar um að sjúkdómar hafi náð að þurrka út neanderdalsmennina, og bent hefur verið á þann möguleika að nútímamaðurinn hafi komið með sjúkdóma með sér frá Afríku sem neanderdalsmenn höfðu ekki kynnst áður og voru ekki ónæmir fyrir. Erfitt er að segja til um hversu líklegt er að þetta hafi verið reyndin en möguleikinn er til staðar.

Miklar deilur eru um það hvort neanderdalsmenn hafi ekki dáið út heldur hreinlega blandast krómagnonmanninum og séu þeir sameiginlegir forfeður Evrópubúa nútímans. Af fornleifafundum að dæma hefur einhver samgangur verið a milli þeirra þar sem á sama tíma og krómagnonmaðurin kemur til sögunnar verður mikil breyting á verkfærum neanderdalsmanna og þykir augljóst að það stafi af menningaráhrifum.

Heimildir

breyta
  • John, David, Þróun lífsins, Reykjavík: Örn og Örlygur, 1983.
  • Mannkyn í mótun (á frummál. Early people, ísl. þýð. Haraldur Ólafsson), ritstj. Phil Wilkinson og Vicky Davenport, Heimur í hnotskurn, Reykjavík: Vaka-Helgafell, 1989.
  • Prideaux, Tom, Krómagnon-maðurinn, Reykjavík: Fjölvi, 1979.

Tenglar

breyta
  1. Koto, Koray (2. nóvember 2022). „The Origin of Art and the Early Examples of Paleolithic Art“ (bandarísk enska). Sótt 13. nóvember 2022.