Alþýðumenning (þjóðmenning stundum notuð sem samheiti) eru þjóðhættir, siðir, munnlegar og verklegar hefðir og aðrir þættir hversdagsmenningar tiltekinna samfélaga, hópa og menningarkima. Til alþýðumenningar teljast meðal annars þjóðsögur, þjóðlög og þjóðdansar sem hafa gengið mann fram af manni í margar kynslóðir innan tiltekins samfélags. Alþýðumenning er oft bæði staðbundin og fjölþjóðleg þar sem ólíkar útgáfur sömu siða, hefða og lista finnast á stóru svæði og stundum jafnvel um allan heim.

Hrekkjavökusiðir eru dæmi um siði sem bárust til Nýja heimsins með fólksflutningum 19. aldar og svo aftur til Evrópu með dægurmenningu 20. aldar. Þeir eru í senn gamlir og nýir, fjölþjóðlegir og staðbundnir.

Alþýðumenningu er stundum stillt upp sem andstæðu menntamenningar eða „lærðrar“ menningar þar sem miðlun og flutningur fer fram innan opinberra mennta- og menningarstofnana. Þarna er samt ekki endilega skýr greinarmunur á milli þar sem miðlun hefðbundinnar verkþekkingar og alþýðulista getur líka farið fram innan sérhæfðra menntastofnana (t.d. iðnskóla og listaskóla). Stundum byggist skiptingin á menningarmun þar sem eitt samfélag skilgreinir sem alþýðumenningu það sem í öðru samfélagi telst vera hámenning. Alþýðumenningu hefur líka verið stillt upp sem andstæðu dægurmenningar: dægurtónlistar, kvikmynda og fjölmiðla.

Alþýðumenningu er stundum lýst sem „hverfandi“ menningu eða menningu á elleftu stundu enda gengu rannsóknir á 19. öld og fyrri hluta 20. aldar einkum út á að skoða leifar alþýðumenningar bændasamfélaga og „frumstæðra“ samfélaga um allan heim frá því fyrir daga iðnvæðingarinnar. Á móti hafa rannsóknir á hversdagsmenningu samtímans bent til þess að alþýðumenningin sé í raun sterk og áhrif hennar á dægurmenningu séu að minnsta kosti jafnmikil og áhrif dægurmenningar á hana. Í alþýðumenningu má líka sjá áhrif alþjóðavæðingar og fjölmenningar.

Alþýðumenning er viðfangsefni margra fræðigreina s.s. þjóðfræði, sagnfræði, félagsfræði, mannfræði, menningarfræði, trúarbragðafræði og bókmenntafræði.

Tengt efni

breyta