Súkkulaði er matvara unnin úr kakó. Það er algeng uppistaða í margs konar sælgæti, kökum, ís og ábætisréttum. Súkkulaði er eitt vinsælasta bragðefni í heiminum.

Súkkulaðiplötur - dökkt súkkulaði, ljóst súkkulaði og mjólkursúkkulaði

Súkkulaði er búið til úr kakóbaunum sem eru gerjaðar, ristaðar og malaðar. Baunirnar vaxa á kakótrénu (fræðiheiti: Theobroma cacao) og á það uppruna sinn að rekja til mið Ameríku og Mexíkó, en er núna einnig ræktað í hitabeltinu. Kakótréð hefur verið ræktað frá dögum Maja og Azteka. Kakóbaunir eru beiskar og bragðmiklar. Súkkulaði leysir endorfín út í líkamann og sumir segja að tilfinningin sé lík því að vera ástfangin(n).

Súkkulaðistúlkan er frægt málverk frá 1743-45 eftir Jean-Étienne Liotard.

Afurðir úr kakóbaunum eru:

  • Kakó, kakóduft: fæst með því að breyta hreinsuðum, afhýddum og ristuðum kakóbaunum í duft.
  • Kakósmjör: er fita sem fæst úr kakóbaunum eða hluta þeirra.
  • Súkkulaði er blanda af kakódufti og kakósmjöri.

Það sem í daglegu máli er kallað súkkulaði er sykruð blanda af kakódufti og feiti sem í er bætt ýmsum öðrum efnum svo sem mjólkurdufti. Súkkulaði er oft framleitt í litlum mótum og tengist neysla þess ýmsum hátíðum og er þá t.d. framleiddar súkkulaðikanínur eða páskaegg á páskum.

Nafnið súkkulaði kemur líklega úr Nahuatl tungumálinu sem er mál frumbyggja í miðri Mexíkó. Ein kenning er að það komi frá orðinu xocolatl á Nahuatl máli og það merki xocolli sem þýðir beiskur og atl sem þýðir vatn. Málfræðingar hafa bent á að í mörgum mállýskum af Nahuatl sé súkkulaði 'chicolatl' sem er orð yfir eins konar þeytara sem notaðir voru til að hræra í kakódrykkjum.

Fundist hafa fornleifar sem benda til að Majar hafi drukkið súkkulaði fyrir 2600 árum. Astekar tengdu súkkulaði við frjósemisgyðjuna Xochiquetzal. Í nýja heiminum var drukkinn beiskur og kryddaður drykkur úr súkkulaði sem nefndist xocoatl. Í þessum drykk var m.a. vanilla og chilípipar. Xocoatl var notaður sem eins konar orkudrykkur. Súkkulaði var munaðarvara í Ameríku fyrir daga Kristófers Kólumbusar og kakóbaunir voru oft notaðar sem gjaldmiðill.

Kristófer Kólumbus færði Ferdinand og Isabellu á Spáni nokkrar kakóbaunir en það var svo Hernando Cortes sem kynnti Evrópumönnum þessa nýju vöru.

Fyrsta skráða sendingin af súkkulaði til gamla heimsins var send með skipi frá Veracruz til Seville árið 1585. Á þeim tíma var súkkulaði enn þá neytt sem drykkjar en Evrópumenn bættu við sykri og mjólk, létu chilipiparinn eiga sig en bættu í vanillu í staðinn. Á 17. öld var súkkulaðineysla munaður meðal aðalsmanna í Evrópu.

Á 17. öld var súkkulaði nýtt og óþekkt í mörgum löndum sérstaklega Evrópu. Fólk var dálítið smeykt við að smakka súkkulaði, en þegar fólkið smakkaði súkkulaði í fyrsta sinn varð það háð súkkulaði og vildi sífellt meira. Eftir það byrjaði súkkulaði að dreifast um heiminn og gerðar voru ýmsar tilraunir með súkkulaði til þess að gera það betra og betra.

Árið 1615 fór Anna prinsessa af Austurríki sem þá var fjórtán ára og bjó á Spáni til Frakklands til þess að ganga í hjónaband með konungi Frakklands sem hét Loðvík XIII. Anna var ekki alveg tilbúin að verða krýnd drottning Frakklands um leið og hún kæmi og þess vegna tók hún með sér súkkulaði (sem var drykkur á þeim tíma) til þess að að hún fengi ekki heimþrá. Loðvík smakkaði súkkulaði hjá Önnu og leyst strax mjög vel á hann. Súkkulaði varð brátt vinsæll drykkur á Frakklandi.

Súkkulaði var drykkur yfirstéttarinnar. Það voru sérstök súkkulaðihús þar sem hefðarfólk kom saman. Hér er teikning af súkkulaðihúsi í London 1807.

[1]

Árið 1657 gerði franskur maður fyrstu súkkulaðiauglýsinguna í London og opnaði fyrstu súkkulaðiverslunina í Englandi.  Á þessum tíma kostaði hvert pund af súkkulaði 6 til 8 skildinga. Aðeins ríkt fólk hafði efni á að kaupa súkkulaði.

Árið 1660 giftist Maria Teresa af Austurríki konungi Frakklands Loðvík XIV. Maria ákvað að kynna súkkulaði fyrir almenningi. Eftir það varð algengara að venjulegt fólk í Frakklandi smakkaði súkkulaði.

Árið 1674 seldi kaffihúsið  Coffee Mill & Tabasco Roll í London fyrsta súkkulaðið í föstu formi.

Tilvísanir

breyta
  1. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. nóvember 2016. Sótt 14. mars 2016.

Heimildir

breyta