Árásin á Brasilíuþing 2023

Þann 8. janúar árið 2023 gerði æstur múgur árás á byggingar brasilíska þingsins í höfuðborginni Brasilíu. Jafnframt var ráðist inn í brasilísku forsetahöllina og híbýli Hæstaréttar Brasilíu í borginni.

Stuðningsmenn Jairs Bolsonaro í kringum þinghúsið í Brasilíu.

Árásirnar voru gerðar af stuðningsmönnum fyrrum forseta Brasilíu, Jairs Bolsonaro. Bolsonaro hafði tapað endurkjöri á móti Luiz Inácio Lula da Silva í forsetakosningum í október árið áður og Lula da Silva hafði tekið við forsetaembættinu þann 1. janúar 2023. Stuðningsmenn Bolsonaros höfðu safnast saman í höfuðborginni til að mótmæla nýrri stjórn Lula og krefjast þess að hann yrði leystur úr embætti og Bolsonaro gerður forseti á ný með hjálp hersins.

Atburðunum í Brasilíu hefur víða verið líkt við árásina á Bandaríkjaþing árið 2021, sem gerð var við svipaðar kringumstæður tveimur árum og tveimur dögum fyrr.[1]

Atburðarás

breyta

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu frá árinu 2019, tapaði endurkjöri með naumindum í seinni umferð forsetakosninga Brasilíu í lok október árið 2021 á móti keppinauti sínum, fyrrum forsetanum Luiz Inácio Lula da Silva.[2] Í aðdraganda kosninganna hafði Bolsonaro haldið á lofti fullyrðingum um að rafrænt kosningakerfi landsins væri berskjaldað fyrir kosningasvikum og að fjölmiðlar, dómstólar og aðrar stofnanir Brasilíu hefðu átt í bandalagi gegn honum og flokki hans. Mikils vantrausts gætti því meðal stuðningsmanna Bolsonaros gagnvart niðurstöðum kosninganna og sumir viðruðu opinberlega þá skoðun að her landsins ætti að grípa inn í til að hjálpa Bolsonaro að halda völdum.[3]

Að endingu viðurkenndi Bolsonaro engu að síður niðurstöðu kosninganna og Lula da Silva tók við embætti forseta á nýársdag 2023.[4][5] Bolsonaro yfirgaf Brasilíu áður en Lula sór embættiseið og kom sér fyrir í Flórída í Bandaríkjunum.[6]

Við embættistöku Lula söfnuðust þúsundir stuðningsmanna Bolsonaros saman í höfuðborginni Brasilíu til að mótmæla stjórnarskiptunum. Þann 8. janúar 2023 gerði æstur múgur stuðningsmanna fyrrum forsetans árás á þinghúsið og tókst að ryðjast inn þrátt fyrir tilraunir lögreglunnar til að stöðva þá.[1]

Þegar árásirnar voru gerðar var enginn þingfundur í gangi og Lula da Silva sjálfur var ekki staddur í höfuðborginni, heldur var hann í opinberri heimsókn í São Paulo.[7] Eftir að öryggissveitir voru sendar til að kveða niður uppþotin tók það þær fram á nótt að rýma byggingarnar.[8]

Eftir að brasilísk yfirvöld höfðu náð stjórn á ástandinu í höfuðborginni hét Lula da Silva því að þeir sem ættu hlut að máli, sem hann kallaði „skemmdarvarga og fasista,“ yrðu dregnir til ábyrgðar.[9] Þann 11. janúar höfðu yfirvöld hand­tekið fleiri en 1.200 manns í tengsl­um við árásirnar.[10] Dómsmálayfirvöld út handtökuskipanir á hendur hátt settum embættismönnum í tengslum við þær, meðal annars fyrrum yfirmanni hersins og fyrrum yfirmanni alríkislögreglu landsins, Anderson Torres. Torres var sakaður um að hafa lagt niður öryggisgæslu í höfuðborginni eftir að Lula tók við embætti og þannig stuðlað að verri viðbúnaði. Ríkislögreglustjóra Brasilíu var jafnframt sagt upp og Lula da Silva sakaði öryggissveitir um að vanrækja skyldur sínar með því að leyfa múgnum að ryðjast inn í opinberu byggingarnar.[11]

Jair Bolsonaro fordæmdi óeirðirnar í höfuðborginni í færslu á Twitter á meðan þær voru yfirstandandi.[7]

Sjá einnig

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 „Stuðningsmenn Bolsonaro ryðjast inn í þinghúsið“. mbl.is. 8. janúar 2023. Sótt 12. janúar 2023.
  2. „Lula nýr forseti Brasilíu eftir hnífjafna kosningu“. mbl.is. 30. október 2022. Sótt 30. október 2022.
  3. Ævar Örn Jósepsson (31. október 2022). „Bolsonaro sagður ætla að virða úrslit kosninganna“. RÚV. Sótt 11. janúar 2023.
  4. „Lula tekinn við í Brasilíu“. mbl.is. 1. janúar 2023. Sótt 1. janúar 2023.
  5. Pétur Magnússon (1. nóvember 2022). „Bolsonaro rýfur þögnina og viðurkennir niðurstöðurnar“. RÚV. Sótt 12. janúar 2023.
  6. „Fjöldi fólks hyllir Bolsonaro í Flórída“. mbl.is. 1. janúar 2023. Sótt 12. janúar 2023.
  7. 7,0 7,1 Lovísa Arnardóttir (9. janúar 2023). „Lögregla hefur náð aftur völdum í Brasilíu“. Fréttablaðið. Sótt 12. janúar 2023.
  8. „Hafa náð að rýma þinghúsið“. mbl.is. 9. janúar 2023. Sótt 12. janúar 2023.
  9. Gunnar Reynir Valþórsson (9. janúar 2023). „Þjóðarleiðtogar fordæma atburðina í Brasilíu“. Vísir. Sótt 9. janúar 2023.
  10. „Fleiri en 1.200 manns handteknir“. mbl.is. 11. janúar 2023. Sótt 12. janúar 2023.
  11. Ólafur Björn Sverrisson (10. janúar 2023). „Háttsettir embættismenn handteknir vegna árásarinnar“. Vísir. Sótt 12. janúar 2023.