Valdaránið í Brasilíu 1964

Valdaránið í Brasilíu 1964 (portúgalska: Golpe de estado no Brasil em 1964 eða einfaldlega golpe de 64) var valdarán sem brasilískir herforingjar frömdu með stuðningi Bandaríkjanna gegn ríkisstjórn João Goulart, forseta Brasilíu, á dögunum 31. mars til 1. apríl árið 1964. Valdaránið batt enda á lýðræðislega stjórnarhætti í Brasilíu og leiddi til stofnunar herforingjastjórnar sem var við lýði í landinu til ársins 1985.

Valdaránið í Brasilíu 1964
Hluti af kalda stríðinu

Skriðdreki og herjeppi í brasilísku höfuðborginni árið 1964.
Dagsetning31. mars – 1. apríl 1964
Staðsetning
Niðurstaða Ríkisstjórn João Goulart steypt af stóli
Herstjórn tekur völdin
Stríðsaðilar
Fáni Brasilíu Ríkisstjórn Brasilíu

Fáni Brasilíu Her Brasilíu:

  • Brasilíski landherinn
  • Brasilíski sjóherinn
  • Brasilíski flugherinn

Stuðningsaðilar:

Leiðtogar
Fáni Brasilíu João Goulart Fáni Brasilíu Humberto Castelo Branco
Fáni Brasilíu Artur da Costa e Silva
Fáni Brasilíu Olímpio Mourão Filho

Saga breyta

Aðdragandi valdaránsins lá í óánægju brasilískra hægrimanna með Goulart, sem þeir álitu hættulega vinstrisinnaðan. Goulart hafði verið varaforseti landsins frá árinu 1956 en hafði orðið forseti eftir að Jânio Quadros forseti sagði af sér árið 1961. Þegar fyrir lá að Goulart yrði forseti hafði brasilíska þingið reynt að vængstífa hann með því að breyta lögum svo að völd forsetaembættisins voru verulega skert og framkvæmdavaldið að mestu fært í hendur forsætisráðherra. Lagabreytingarnar voru hins vegar dregnar til baka eftir að þeim var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1963 og gömul völd forsetaembættisins færðust aftur í hendur Goularts.[1]

Mennta- og landeignarumbætur sem Goulart reyndi að framkvæma sem forseti mættu mikilli andstöðu meðal þingmanna og herforingja í Brasilíu, sem töldu þær ofstækisfullar eða jafnvel kommúnískar.[2] Bágt efnahagsástand í Brasilíu á þessum tíma varð Goulart jafnframt til óvinsælda og leiddi til mótmælagangna víða um landið.[3] Einnig stóð andstæðingum Goularts uggur af breytingum sem hann vildi gera á lögum um kosningarétt í Brasilíu, en hann vildi nema úr gildi skilyrði um að kjósendur þyrftu að vera læsir. Á þessum tíma þurftu Brasilíumenn að geta staðist lestrarpróf til þess að fá að greiða atkvæði í kosningum, en þar sem ólæsi var mjög útbreitt í landinu þýddi þetta að kosningaréttur var í reynd afar takmarkaður.[4]

Snemma dags þann 31. mars 1964 skipaði hershöfðinginn Olímpio Mourão Filho hermönnum sínum að gera áhlaup á Rio de Janeiro til þess að koma Goulart frá völdum.[5] Goulart flúði til höfuðborgarinnar Brasilíu og síðan til Porto Alegre en tókst ekki að afla sér stuðnings þingmanna til að berjast gegn valdaránsmönnunum og neyddist því til að yfirgefa landið ásamt fjölskyldu sinni.[6] Eftir að Goulart flúði til Porto Alegre lýstu forsetar þings og hæstaréttar Brasilíu því yfir að forsetaembættið væri „autt“ og vígðu Pascoal Ranieri Mazzilli í forsetaembættið til bráðabirgða.[7]

Eftir brottrekstur Goularts tók herinn við völd landsins. Eftir valdaránið héldu herforingjarnir því fram að fyrirætlun þeirra hefði ekki verið að taka völdin í sínar heldur, aðeins að „hreinsa til“ og uppræta kommúnista og aðra ofstækismenn úr röðum embættismanna. Á næstu mánuðum settu valdaránsmennirnir hins vegar bráðabirgðastjórnarskrá til að styrkja eigin völd, meðal annars til að gera sér kleift að svipta menn þingmennsku, embætti, kjörgengi og kosningarétti án dóms og laga. Þessum lögum beittu herforingjarnir meðal annars til að meina fyrrum forsetanum Juscelino Kubitschek, sem naut talsverðrar alþýðuhylli, að bjóða sig fram í forsetakosningum árið 1965.[8] Hið sama ár tók Humberto de Alencar Castelo Branco, einn af leiðtogum valdaránsmannanna, við forsetaembættinu. Í október næsta ár tók Castelo Branco sér formlega alræðisvald og lét banna starfsemi stjórnmálaflokka í landinu.[9] Castelo Branco varð fyrsti forseti herforingjastjórnar sem átti eftir að stjórna Brasilíu til ársins 1985.

Stuðningur Bandaríkjanna við valdaránið breyta

Ríkisstjórn Lyndons B. Johnson Bandaríkjaforseta studdi valdaránsmennina gegn stjórn Goularts. Í símskeytum frá þáverandi sendiherra Bandaríkjanna í Brasilíu, Lincoln Gordon, kemur fram að Bandaríkin hafi beitt áhrifum sínum til að kynda undir mótmælum og öðrum andófshreyfingum gegn stjórn Goularts í aðdraganda valdaránsins.[10] Þegar herforingjarnir hófu uppreisnina sendi Johnson þeim heillaóskaskeyti þar sem hann óskaði þeim til hamingju með að hafa tekið völdin. Goulart sagði þetta til merkis um stuðning Bandaríkjamanna við valdaránið og sagði að skeytið hefði verið sent daginn áður en valdaránið var framið.[11]

Seinni tíma umfjöllun breyta

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu frá 2019 til 2023, sem er yfirlýstur aðdáandi brasilísku herforingjastjórnarinnar, hefur hafnað því að valdarán hafi verið framið árið 1964. Stjórn hans efndi til hátíðahalda þann 1. apríl árið 2019 til þess að fagna því að 55 ár væru liðin frá því að herinn steypti Goulart af stóli.[12]

Tilvísanir breyta

  1. „Forseti Brasilíu fær óskert völd“. Alþýðublaðið. 30. janúar 1963. Sótt 6. október 2019.
  2. „Uppreisnin í Brasilíu“. Alþýðublaðið. 3. apríl 1964. Sótt 6. október 2019.
  3. „Kommúnistadaður Goularts varð honum að falli“. Morgunblaðið. 3. apríl 1964. Sótt 6. október 2019.
  4. Leslie Bethell. "Politics in Brazil: From elections without democracy to democracy without citizenship". Daedalus. Boston: Spring 2000, Vol. 129, Issue 2; bls. 1-27.
  5. Olímpio Mourão Filho Geymt 17 mars 2009 í Wayback Machine „Olímpio Mourão Filho“. Fundação Getúlio Vargas: Centro de Pesquisa e Documentação de História Contemporânea do Brasil. Sótt 6. október 2019.
  6. Gaspari, Elio (2002). A Ditadura Envergonhada. São Paulo: Cia. das Letras. bls. 103. ISBN 85-359-0277-5.
  7. Gaspari, Elio (2002). A Ditadura Envergonhada. São Paulo: Cia. das Letras. bls. 112. ISBN 85-359-0277-5.
  8. „Brasilía á leið til fasisma“. Tíminn. 12. júní 1965. Sótt 6. október 2019.
  9. „Forseti Brasilíu tekur sér alræðisvald, bannar flokka“. Þjóðviljinn. 28. október 1965. Sótt 6. október 2019.
  10. 187. Telegram From the Ambassador to Brazil (Gordon) to the Department of State Rio de Janeiro, 28. mars, 1964. Skoðað 6. október 2019.
  11. „Bandarískir heimsvaldasinnar að baki valdaráni afturhaldsins í Brasilíu“. Þjóðviljinn. 20. maí 1965. Sótt 6. október 2019.
  12. Róbert Jóhannsson (31. maí 2019). „Áfrýjunardómstóll leyfir herstjórnarhátíð“. RÚV. Sótt 6. október 2019.