João Goulart
João Belchior Marques Goulart (1. mars 1918 – 6. desember 1976), einnig kallaður Jango, var brasilískur stjórnmálamaður sem var 24. forseti Brasilíu. Hann sat í embætti frá árinu 1961 þar til honum var steypt af stóli í herforingjauppreisn árið 1964. Hann var síðasti vinstrisinnaði forseti Brasilíu þar til Luiz Inácio Lula da Silva tók við embætti árið 2003.
João Goulart | |
---|---|
Forseti Brasilíu | |
Í embætti 8. september 1961 – 2. apríl 1964 | |
Forsætisráðherra | Tancredo Neves Francisco de Paula Brochado da Rocha Hermes Lima |
Varaforseti | Enginn |
Forveri | Ranieri Mazzilli (starfandi) |
Eftirmaður | Ranieri Mazzilli (starfandi) |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 1. mars 1918 São Borja, Rio Grande do Sul, Brasilíu |
Látinn | 6. desember 1976 (58 ára) Mercedes, Corrientes, Argentínu |
Stjórnmálaflokkur | Verkamannaflokkurinn |
Maki | Maria Teresa Fontela Goulart (g. 1955) |
Starf | Stjórnmálamaður |
Undirskrift |
Æviágrip
breytaGoulart fæddist árið 1919 í Iguariaçá, sem í dag er hluti af héraðinu Itacurubi, nálægt bænum São Borja í Rio Grande do Sul. Hann fæddist inn í fjölskyldu ríkra landeigenda. Hann var elstur í systkinahóp átta systra og þriggja bræðra.
Goulart útskrifaðist úr laganámi í lögfræðiháskóla Porto Alegre árið 1939 en vann þó aldrei sem lögfræðingur. Faðir Goularts lést árið 1943 og Goulart hugðist því taka við stjórn fjölskyldueignarinnar en þegar Getúlio Vargas forseti (fjölskylduvinur Goulart-ættarinnar) sagði af sér í fyrsta sinn árið 1945 ákvað Goulart þess í stað að byrja þátttöku í stjórnmálum. Hann náði fljótt talsverðum vinsældum. Goulart var kjörinn í fylkisstjórn Rio Grande do Sul árið 1945 og varð vinnumálaráðherra í nýrri stjórn Vargas árið 1953. Í því embætti lét hann tvöfalda lágmarkslaun í Brasilíu. Goulart varð varaforseti Brasilíu árið 1956, fyrst í stjórn Juscelino Kubitschek forseta og síðan forsetatíð Jânio Quadros.
Eftir að Quadros sagði af sér árið 1961 varð Goulart forseti Brasilíu. Yfirvöld í Brasilíu voru hins vegar treg til þess að leyfa Goulart, sem þau töldu hættulega vinstrisinnaðan, að setjast á forsetastól og því gerðu þau stjórnarskrárbreytingu sem skerti verulega völd forsetans og juku völd þingsins áður en hann gat tekið við embætti. Goulart lét því kalla til þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar til að draga úr þingræði í Brasilíu og auka völd forsetans á ný. Stjórnarskrárbreytingarnar voru samþykktar með miklum meirihluta og völd Goularts jukust því verulega.[1] Árið 1964 hóf ríkisstjórn Lyndons B. Johnson í Bandaríkjunum fjölmiðlaherferð gegn Goulart.[2] Með vinstrisinnuðum umbótum sínum styggði Goulart verulega hluta brasilísku millistéttarinnar, brasilíska viðskiptajöfra og stjórn Bandaríkjanna. Bandaríkjamenn fjármögnuðu brasilísku stjórnarandstöðuna á stjórnarárum Goularts, sérstaklega í þingkosningum ársins 1962.[3]
Goulart var steypt af stóli árið 1964 í valdaráni brasilískra herforingja sem framið var með stuðningi bandarísku leyniþjónustunnar. Í kjölfarið viðurkenndi Lincoln Gordon, bandaríski sendiherrann í Brasilíu, að Bandaríkjastjórn hefði styrkt andstæðinga Goularts, staðsett fjölda njósnara í Brasilíu og að „eina erlenda höndin sem [hafi átt] hlut að máli var hönd Washington“.[2]
Eftir valdaránið var stofnuð herforingjastjórn í Brasilíu. Goulart var sakaður um að bera ábyrgð á verðbólgu, um að hafa skipulagt hættulega endurskiptingu auðæfa, um að hafa ætlað sér að taka einræðisvald og um að hafa átt vingott með kommúnistum. Goulart neitaði að beita valdi til að berjast gegn valdaránsmönnunum og hélt þess í stað í útlegð til Úrúgvæ. Þar var hann skráður sem hælisleitandi en ekki sem pólitískur útlagi og gat hann því ekki beitt sér að ráði gegn einræðisstjórn Brasilíu.[4]
Goulart lést árið 1978 í Mercedes í Argentínu. Opinber skýring á dauða hans var sú að hann hafi fengið hjartaáfall en kenningar hafa lengi verið á kreiki um að hann hafi verið myrtur í samræmi við aðgerðir Kondóráætlunarinnar.[5][6] Að ósk fjölskyldu Goularts var lík hans ekki krufið.[7]
Árið 2008 birti dagblaðið Folha de S. Paulo grein um að gamall úrúgvæskur njósnari að nafni Mario Neira Barreiro hefði staðhæft að formaður brasilísku öryggislögreglunnar, Sérgio Fleury, hefði látið eitra fyrir Goulart að tilskipan þáverandi forseta Brasilíu, Ernesto Geisel.[8]
Árið 2013 var ákveðið að grafa upp lík Goularts til að rannsaka það nánar.[9] Réttarlæknir komst að þeirri niðurstöðu eftir krufningu næsta ár að ekki hefði verið eitrað fyrir Goulart.[10]
Tilvísanir
breyta- ↑ „Forseti Brasilíu fær óskert völd“. Alþýðublaðið. 30. janúar 1963. Sótt 13. janúar 2019.
- ↑ 2,0 2,1 Library of Congress Country Studies - Brazil, Military Regime, 1964-85, Skjalasafn Bandaríkjaþings.
- ↑ Maurice Lemoine (2015). Les enfants cachés du général Pinochet. Précis de coups d’État modernes et autres tentatives de déstabilisation (franska). Don Quichotte. bls. 64.
- ↑ Roger Rodríguez (11. janúar 2008). „El Uruguay de Philip Agee“ (portúgalska). La República. Sótt 13. janúar 2019.
- ↑ „Filho de Jango diz que exumação é só início e quer que americanos deponham“ (portúgalska). Mundo. 12. maí 2013. Sótt 13. janúar 2019.
- ↑ Carlos Heitor Cony (8. janúar 2008). „Ainda a Operação Condor“ (portúgalska). Folha de S.Paulo. Sótt 13. janúar 2019.
- ↑ „Historiador rejeita tese de conspiração contra João Goulart“ (portúgalska). Folha de S.Paulo. Sótt 13. janúar 2019.
- ↑ „Goulart foi morto a pedido do Brasil, diz ex-agente uruguaio“ (portúgalska). Folha de S.Paulo. Sótt 13. janúar 2019.
- ↑ „Corpo de João Goulart pode passar por exumação“ (portúgalska). BBC. 3. maí 2013. Sótt 13. janúar 2019.
- ↑ María Martín (1. desember 2014). „Autópsia de Jango aponta que não existem indícios de asassinato“ (portúgalska). El País. Sótt 11. september 2022.
Fyrirrennari: Ranieri Mazzilli (starfandi) |
|
Eftirmaður: Ranieri Mazzilli (starfandi) |