Hjaltlandseyjar

Eyjaklasi í Atlantshafinu
(Endurbeint frá Sealtainn)

Hjaltlandseyjar (einnig kallaðar Hjaltland; skoska, enska: Shetland, áður fyrr Zetland; gelíska: Sealtainn) eru eyjaklasi í Norður-Atlantshafi milli Færeyja, Noregs og Skotlands. Eyjarnar eru eitt af 32 sveitarfélögum Skotlands.

Hjaltlandseyjar
Shetland
Fáni Hjaltlandseyja
Fáni
Kjörorð:
Með lögum skal land byggja
Staðsetning Hjaltlandseyja
Höfuðborg Leirvík
Opinbert tungumál Enska
Stjórnarfar Stjórnarskrárbundin konungsstjórn
Flatarmál
 • Samtals

1.466 km²
Mannfjöldi
 • Samtals (2012)
 • Þéttleiki byggðar

23.212
15/km²
Gjaldmiðill Sterlingspund
Tímabelti UTC (UTC+1 á sumrin)
Þjóðarlén .uk
Landsnúmer +44

Eyjaklasinn liggur um það bil 80 km norðaustan við Orkneyjar, 170 km frá skoska fastalandinu og 300 km vestan við Noreg. Hjaltlandseyjar mynda skil milli Norður-Atlantshafs og Norðursjávar. Þær eru 1.466 km² að stærð en íbúarnir voru 23.210 árið 2012. Höfuðstaður Hjaltlandseyja heitir Leirvík (Lerwick) og hefur gegnt því hlutverki frá árinu 1708. Fyrrum höfuðstaður Hjaltlandseyja er Skálavogur (Scalloway).

Stærsta eyjan í klasanum heitir Meginland (Mainland) og er 967 km² að stærð. Hún er þriðja stærsta eyja Skotlands og fimmta stærsta Bretlandseyja. Byggð er í 15 eyjum til viðbótar. Eyjaklasinn einkennist af úthafsloftslagi, flókinni jarðfræði, klettaströndum og lágum hólum.

Sögu manna í Hjaltlandseyjum má rekja til miðsteinaldar. Snemma á miðöldum var mikilla norrænna áhrifa að gæta í eyjunum, einkum frá Norðmönnum. Eyjarnar komu undir stjórn Skota á 15. öld. Þegar Skotland gekk í samband við England árið 1707 hnignuðu viðskiptin við Norður-Evrópu. Fiskveiðar eru mikilvæg atvinnugrein ennþá í dag. Á áttunda áratug 20. aldar fannst olía í Norðursjó en fundurinn hefur eflt efnahag eyjanna mikið.

Norrænn og skoskur menningararfur Hjaltlandseyja endurspeglast í lífinu þar. Hátíðin Up Helly Aa er haldin árlega. Þar er einnig mikil tónlistarhefð en fiðlan er einkennandi fyrir eyjarnar. Margir höfundar og skáld eru frá Hjaltlandseyjum og þónokkrir skrifa á hjaltlenskri mállýsku skosku tungunnar. Mikið er um verndarsvæði í eyjunum til að varðveita einstaka plöntu- og dýralífið. Hjaltlenski smáhesturinn og hjaltlenski fjárhundurinn eru frægar dýrategundir frá eyjunum.

Kjörorð eyjanna er „Með lögum skal land byggja“ en það má rekja til Frostaþingslaganna.

Landafræði og jarðfræði

breyta
 
Jarðfræðileg skipting Hjaltlandseyja.
 
Leirvík er höfuðstaður eyjanna.

Hjaltlandseyjar liggja um það bil 170 km norðan við skoska fastalandið. Eyjaklasinn þekur 1.469 ferkílómetra en ströndin er 2.702 km löng.

Íbúar Leirvíkur (Lerwick), stærsta byggðin og höfuðstaðurinn, eru um það bil 7.500. Rúmur helmingur allra Hjaltlendinga á heima innan við 16 km frá Leirvík. Skálavogur (Scalloway) á vesturströndinni var höfuðstaður eyjanna til ársins 1708 en íbúar hans eru tæp þúsund manns.

Einungis 16 af 100 Hjaltlandseyjum eru byggðar. Stærsta eyjan í klasanum kallast Meginland (Mainland). Þar á eftir í stærðarröð koma Gjall (Yell), Únst (Unst) og Fetlar til norðurs og Breiðey (Bressay) og Hvalsey (Whalsay) til austurs. Austur-Barrey og Vestur-Barrey, Rauðey mikla (Muckle Roe), Papey stóra (Papa Stour), Trondra og Valey (Vaila) eru allar smærri eyjar til vesturs. Hinar byggðu eyjarnar eru Fugley (Foula) í vestri og Friðarey (Fair Isle) í suðvestri, ásamt Útskerjum til austurs.

Landafræði Hjaltlandseyja er flókin, en mikið er um misgengi og brot. Helsta bergtegundin er myndbreytt berg sem svipar til bergsins á meginlandi Skotlands. Setberg svo sem sandsteinn finnst í einhverju mæli, ásamt graníti.

Efnahagur Hjaltlandseyja snýst að miklu leyti um olíulindirnar í umliggjandi sjávarbotni. Jarðfræðileg gögn sýna fram á að flóðbylgja hafi skollið á eyjarnar og austurströnd Skotlands um það bil 6100 f.Kr. Bylgjan hafi verið allt að 25 m há í þéttbyggðustu vogunum.

Hæsti punktur Hjaltlandseyja er Ronas Hill sem liggur 450 m yfir sjávarhæð. Á Pleistósentímabilinu voru eyjarnar þaktar jökli.

Loftslag

breyta

Ríkjandi veðurfar í Hjaltlandseyjum er úthafsloftslag. Vetrarnir eru svalir og sumrin stutt og mild. Hafið í kringum eyjarnar hefur temprandi áhrif á loftslagið. Í janúar og febrúar er lágmarkshitastigið rúmt 1°C á næturnar, en á daginn er hágmarkshitastigið tæpt 14°C að jafnaði í júlí og ágúst. Mesti hitinn sem hefur mælst í eyjunum er 28°C þann 6. ágúst 1910, en sá lægsti var –8,9°C í janúar 1952 og 1959. Frostleysi getur staðið yfir í eins lítið og þrjá mánuði.

Til samanburðar er hitinn mun breytilegri á nærliggjandi upplandssvæðum í Skandinavíu, sem sýnir temprandi áhrif Atlantshafsins. Vetrarnir eru mun mildari en á meginlandi Evrópu og eru sambærilegir vetrum í Englandi.

Veðurfarið einkennist af vindi og skýjum. Úrkoman er að minnsta kosti 2 mm á 250 dögum á ári. Meðaltalsúrkoman er 1,003 mm á ári en mest rignir í nóvember og desember. Í Hjaltlandseyjum snjóar eingöngu frá nóvember til febrúar en snjórinn bráðnar yfirleitt innan sólarhrings. Þoka er algeng á sumrin enda hafið kælir mildar sunnanáttir.

Vegna norðlegrar legu eyjanna sjást norðurljós stundum á heiðskírum vetrarnóttum. Á sumrin er náttleysi.

Forsaga

breyta

Á nýsteinöld tíðkaðist að hlaða hús af steini á trjálausum eyjum svo sem Hjaltlandseyjum. Því er mikið um fornleifar í eyjunum á 5.000 stöðum. Sorphaugur í Vesturvogi (Wester Voe) á suðurströnd Meginlands er elsta merkið um byggð en hann er talin vera frá 4320–4030 f.Kr. Á bænum Scord of Brouster í Vogum (Walls) hafa leifar frá 3400 f.Kr. fundust.

Leirbrot sem fundust við Jarlshof í Meginlandi eru til merkis um byggð á nýsteinöld, en aðalbyggðin þar er frá bronsöld. Á járnöld voru mörg hringlaga borgvírki (e. brochs) reist í eyjunum, en deilt er um upphaf og tilgang þeirra. Á seinni járnöld voru íbúar Norðureyja (Orkneyja og Hjaltlandseyja) sennilega Piktar, en fáar heimildir eru til um þá.

Landnám Norðmanna

breyta
 
Mynd af Haraldi hárfagra í Flateyjarbók. Hann lagði Hjaltlandeyjar undir sig árið 875.

Á 8. og 9. öld settust Víkingar frá Skandinavíu að í eyjunum. Óljóst er hvað varð um frumbyggjana. Flestir Hjaltlendingar geta rakið móðurættina og föðurættina í jöfnum mæli til Skandinavíumanna.

Víkingarnir notuðu eyjarnar sem upphafsstað fyrir ránsferðir til Noregs og stranda meginlands Skotlands. Til að bregðast við því lagði Haraldur hárfagri Norðureyjar undir sig árið 875. Rögnvaldur Eysteinsson fékk Orkneyjar og Hjaltlandseyjar sem jarlsdæmi frá Haraldi sem bætur fyrir dauða sonar síns í bardaga í Skotlandi. Seinna fól hann bróður sínum, Sigurði Eysteinssyni, jarlsdæmið.

Hjaltlandseyjar tóku kristni seint á 10. öld. Ólafur Tryggvason konungur boðaði Sigurð digra til sín og skipaði honum til að láta skíra sig og alla þegna sína. Frá um það bil árinu 1100 voru jarlar tryggir bæði norsku og skosku krúnunni vegna landareigna sinna á Katanesi.

Árið 1194, þegar Haraldur Maddaðarson var jarl Orkneyja og Hjaltlandseyja, var gerð uppreisn gegn Sverrir Sigurðssyni Noregskonungi. Uppreisnarmennirnir sigldu til Noregs en voru sigraðir í orrustunni um Florvåg nálægt Bergen. Eftir þetta lagði Sverrir Sigurðsson eyjarnar undir beina stjórn Norðmanna, sem stóð í tæplega tvær aldir.

Vaxandi áhrif Skota

breyta

Frá miðju 13. aldar sóttust skoskir konungar í auknu mæli eftir að leggja undir sig eyjarnar sem lágu í kringum fastalandið. Alexander 2. hóf framtakið af alvöru en sonur hans Alexander 3. hélt því áfram eftir dauða hans. Þetta framtak gerði það að verkum að Hákon gamli réðst inn í eyjarnar. Flotinn hans kom saman í Breiðeyjarsundi og sigldi svo til Skotlands. Eftir orrustuna um Largs, sem lauk við pattstöðu, hörfaði Hákon til Orkneyja. Hann dó þar í desember 1263.

Eftir andlát Hákons hættu Norðmenn við frekara landnámi í Skotlandi. Suðureyjar og Mön voru gefnar til konungsríkisins Skotlands árið 1266 við gerð Perth-sáttmálans. Skotar viðurkenndu þó fullveldi Norðmanna yfir Orkneyjum og Hjaltlandseyjum.

Sameining við Skotland

breyta
 
Jakob 3. og Margrét af Danmörku, en heitbinding þeirra gerði það að verkum að Hjaltlandseyjar komu undir stjórn Skota.

Þótt Orkneyjar og Hjaltlandseyjar hafi enn verið undir stjórn Norðmanna á 14. öld fóru áhrif Skota vaxandi. Jón Haraldsson, sem var drepinn í Thurso árið 1231, var síðasti norræni jarlinn. Eftir það voru jarlar aðalsmenn í skosku ættunum Angus og St Clair. Við dauða Hákons 6. árið 1380 sameinaðist Noregur við Danmörku og áhugi norsk-danska konungsins á eyjunum dvínaði.

Árið 1469 voru eyjarnar veðsettar af Kristjáni 1. Danakonungi sem trygging á greiðslu heimanmundar fyrir dóttur sína Margréti, sem var heitbundin Jakobi 3. Skotakonungi. Þar sem heimanmundurinn var aldrei greiddur varð veðið við skosku kórónuna varanlegt. Árið 1470 vék Vilhjálmur Sinclair, 1. jarl af Katanesi fyrir Jakob 3. og ári seinna voru eyjarnar lagðar undir skosku kórónuna. Þetta var staðfest með lögum á skoska þinginu árið 1472.

Frá 15. öld skiptu Hjaltlendingar við kaupmenn frá Hansasambandinu. Kaupmennirnir keyptu skipsfarma af saltfiski, ull og smjöri og fluttu inn salt, dúka, bjór og aðrar vörur. Seinni hluti 16. aldar og fyrri hluti 17. aldar einkenndust af stjórn einræðisherrans Róbert Stewart jarls og sons síns Patricks. María Skotadrottning, hálfsystir Róberts, faldi honum eyjarnar. Sonur Róberts sá um byggingu Skálavogskastala en eftir að hann var fangelsaður árið 1609 lagði kórónan Orkneyjar og Hjaltlandseyjar aftur undir sig. Árið 1643 faldi Karl 1. Englandskonungur Vilhjálmi Douglas, 7. jarl af Morton eyjarnar. Morton-ættin hélt eyjunum öðru hvoru til ársins 1766 þegar Jakob Douglas, 14. jarl af Morton seldi eyjarnar til Laurence Dundas.

18. og 19. öld

breyta

Viðskipti við norðþýska bæi stóðu yfir til ársins 1707 þegar Sambandslögin voru samþykkt. Hár tollur á salti hindraði verslun þýskra kaupmanna við Hjaltlendinga. Í kjölfarið varð efnahagskreppa því heimamenn voru ekki eins færir í að versla með saltaðan fisk. Samt sem áður byrjuðu nokkrir hjaltlenskir kaupmenn að gera út skip til að flytja fisk til meginlands Evrópu. Þetta hafði neikvæð áhrif á sjálfstæða bændur í eyjunum þar sem þeim var neytt til að veiða fyrir þessa kaupmenn.

Bólusótt gekk yfir eyjarnar á 17. og 18. öld sem og annars staðar í Evrópu. Heilsa hjaltlendinga batnaði til munar við komu bólusetningar árið 1800. Kartöfluplágan 1846 hafði mjög slæm áhrif á eyjarnar. Ríkisstjórnin bjó til sértaka áætlun til að stuðla að efnahaglegum uppgangi eyjanna undir forystu Roberts Craigie kapteins í Breska sjóhernum. Hann dvaldi í Leirvík árið 1847–1852 og bætti vegakerfi eyjanna mikið.

Íbúafjöldinn náði hámarkinu 31.670 árið 1861. Breska stjórnin í eyjunum varð mörgum eyjamönnum dýrkeypt. Breska sjóherinn leitaði siglingafærni Hjaltlendinga en 3.000 manns voru í herþjónustu á Napóleonsstyrjöldunum árin 1800 til 1815. Mikið var um að menn voru teknir án fyrirvara. Á þeim tíma voru 120 menn teknir frá Fetlar en aðeins 20 snéru heim. Fyrir lok 19. aldar voru 90% allra jarða í Hjaltlandseyjum komnar í eigu 32 einstaklinga og á árunum 1861 til 1881 fluttu rúmlega 8.000 Hjaltlendingar burt.

Þegar ný lög um smábændur voru samþykkt árið 1886 frelsaði frjálslyndi forsætisráðherrann William Gladstone smábændur undan stjórn landeigenda. Lögin gerðu það að verkum að smábændur, sem fyrr voru ánauðugir, gætu keypt og notað jörðina sem þeir bjuggu á undir landbúnað. Hollendingar komu síldarævintýri af stað í eyjunum upp úr 1880, en því lauk á þriðja áratug 20. aldar þegar síldarstofninn dvínaði. Framleiðsla náði hámarki árið 1905, þegar yfir milljón tunnur voru framleiddar og þar af 700.000 fluttar út.

20. öld

breyta

Á heimsstyrjöldin fyrri gengu margir Hjaltlendingar í her, 3.000 í sjóherinn og 1.500 til viðbótar í varaliði með aðstöðu í eyjunum. Yfir 500 Hjaltlendingar létust í stríðinu, hlutfallslega fleiri menn en annars staðar á Bretlandi. Á þriðja og fjórða áratugnum fluttu fleiri Hjaltlendingar burt í bylgjum.

Á heimsstyrjöldinni seinni var norskt sjóherslið sem hét „Shetland bus“ sett upp í eyjunum haustið 1940 til að sinna erinum við Noregsstrendur. Um það bil 30 fiskveiðiskip voru notuð af norskum flóttamönnum til að flytja njósnara, uppreisnarmenn og birgðir yfir Norðursjóinn. Liðið sigldi fleiri en 200 ferðir en enn þeirra, Leif Larsen, sá um 52 ferðir einn.

Olíulindir sem uppgötvuðust á seinni hluta 20. aldar í sjónum austan og vestan við Hjaltlandseyjar hafa skilað sér í miklum tekjum fyrir eyjamenn. Eitt stærsta olíusvæðið í Evrópu, East Shetland Basin, er við eyjarnar. Vegna þess og tengslanna við Noreg kom smávægileg heimastjórnarhreyfing upp árið 1978 en leitað var til Manar og Færeyja til innblásturs.

Árið 1961 voru Hjaltlendingar 17.814 manns.

Efnahagslíf

breyta
 
Helmingur af aflanum í Hjaltlandseyjunum er makríll.

Helstu tekjulindir Hjaltlandseyja í dag eru landbúnaður, fiskeldi, endurnýjanleg orka, olíuiðnaður, skapandi iðnaður og ferðamennska.

Fiskveiðar

breyta

Fiskveiðar eru enn í dag mikilvægur liður í efnahagslífi Hjaltlendinga. Heildaraflinn var 75.767 tonn árið 2009, að verðmæti 73,2 milljón punda. Helmingur af aflanum eftir þyngd og verðmæti er makríll. Einnig er veitt töluvert af ýsu, þorski, síld, lýsu, skötusel og skelfiski.

Olíuiðnaður

breyta

Olía og jarðgas voru fyrst flutt á land við Sullom Voe árið 1978, en það er ein stærsta olíuhöfnin í Evrópu í dag. Tekjur af olíuiðnaðnum hafa skilað sér í auknum fjárveitingum til velferðar, listar, íþrótta, umhverfisverndar og efnahagslegrar þróunar. Þrír af hverjum fjórum Hjaltlendingum vinna í þjónustugeiranum. Sveitarfélagið svaraði til 27,9% efnahagsframleiðslu árið 2003.

Árið 2007 var skrifað undir samning við Scottish og Southern Energy um að byggja upp vindgarður með 200 túrbínum og sæstreng. Áætlað er að vindgarðurinn muni framleiða 600 megavött af rafmagni á ári. Áformin mættu töluverðri andstöðu í eyjunum, aðallega vegna áhættu á skertu útsýni yfir hafið.

Landbúnaður og vefnaðariðnaður

breyta

Helsta húsdýrið í Hjaltlandeyjum er hjaltlenska kindin sem er með óvenjulega mjúka ull. Prjón er mikilvægur liður í efnahags- og menningarlífi eyjanna og er Fair Isle-mynstrið vel þekkt. Misnotkun á orðinu „Shetland“ af framleiðendum sem ekki eru með aðstöðu í eyjunum ógnar iðnaðinum.

Hjáleigur á smábýlum eru ennþá algengar, en rekstur þeirra er talinn mikilvæg hefð og tekjulind. Hafrar og bygg eru ræktuð í eyjunum en hvassviðri hindra ræktun margra nytjaplantna.

Fjölmiðlar

breyta

Eitt vikulegt dagblað, The Shetland Times, er gefið út í Hjaltlandseyjum. Vefmiðillinn Shetland News þjónar íbúum eyjanna. Tvær útvarpsstöðvar eru sendar út frá eyjunum: BBC Radio Shetland og SIBC.

Ferðamennska

breyta

Hjaltlandseyjar eru vinsæll viðkomustaður fyrir skemmtiferðaskip en 26.000 farþegar komu við Leirvíkurhöfn árið 2006. Mikill vöxtur hefur verið í geiranum, en farþegar voru 107.000 árið 2019. Helsta aðdráttaaflið fyrir ferðamenn er óspillta náttúran og menningin.

Samgöngur

breyta
 
Vél Loganair í Friðarey (Fair Isle) á miðri leið milli Orkneyja og Hjaltlandseyja.

Aðalferðamátinn milli eyja er ferja, en sveitarfélagið rekur reglulegar siglingar. Ferjusambönd eru einnig milli Leirvíkur og Aberdeen á skoska fastalandinu. Siglingin tekur um það bil 12 tíma og er rekin af NorthLink Ferries. Á ákveðnum siglingum er komið við Kirkjuvog (Kirkwall) í Orkneyjum, sem lengir ferðatímann um tvo tíma. Áform eru uppi um gangnatengingar milli eyjanna, einkum milli Breiðeyjar og Hvalseyjar, en skortur er á fjarveitingum til slíkra verkefna.

Sumburgh-flugvöllur er aðalflugvöllurinn í Hjaltlandseyjum. Hann liggur um það bil 40 km sunnan við Leirvík. Með Loganair er flogið þangað til áfangastaða í Skotlandi allt að 10 sinnum á dag, en þeir eru Kirkjuvogur, Aberdeen, Inverness, Glasgow og Edinborg. Tingwall-flugvöllur liggur 11 km vestan við Leirvík. Þaðan er flogið til flestra byggðra eyja, en flug eru rekin í samstarfi við sveitarfélagið. Frá Scatsca-flugvelli við Sullom Voe er flogið reglulega til Aberdeen með fólk sem vinnur í olíuiðnaði.

Haldið er utan um akstur strætisvagna í Meginlandi, Hvalsey, Barrey, Únst og Gjalli.

Eyjaklassinn verður fyrir sterkum hvassviðrum og straumum, því hafa vitar verið settir upp á ýmsum stöðum.

Tenglar

breyta
   Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.