Fiðla
Fiðla er strengjahljóðfæri með fjórum strengjum. Það er fimmund á milli allra strengjanna og sá dýpsti er stilltur á G fyrir neðan mið-C. Hinir eru, að neðan, D, A og E. Fiðla er minnsta hljóðfærið í fiðlufjölskyldunni og það sem hefur hæsta tónsviðið. Hin hljóðfærin eru lágfiðla, selló og kontrabassi. Tónlist fyrir fiðlu er vanalega skrifuð í g-lykli.
Hljóðfærið
breytaFiðla er eins konar boginn, kúptur viðarkassi (búkur) með sveigðri spýtu sem stendur fram úr öðrum endanum (háls). Neðst á búknum (þ.e. næst fiðluleikaranum) er oftast hökubretti sem á hvílir haka og stundum kinn fiðluleikarans. Rétt hjá hökubrettinu er strengjabretti þar sem strengirnir eru festir niður. Stundum eru þar stilliskrúfur til að stilla fiðluna með og eru strengirnir þá festir í þær, en ef ekki eru þeir festir beint í holur á brettinu. Þaðan liggja strengirnir fram fiðluna, yfir eins konar viðarbrú sem heldur þeim uppi (stól) og þaðan yfir fingrabrettið, plötu sem byrjar á miðjum búknum og liggur áfram eftir hálsinum. Þar sem fingrabrettinu sleppir lenda strengirnir á lítilli upphækkun og liggja þaðan inn í snigilinn, skreyttan enda hálsins þar sem stilliskrúfurnar eru. Til hliðar við stólinn, sitt hvoru megin, eru F-holur þar sem hljóðið kemur út úr búknum. Innan í búknum eru meðal annars sál og bassabiti sem eiga stóran þátt í að framkalla hljóðið sem úr fiðlunni kemur.
Spilun
breytaLeika má á fiðlu á tvennan hátt: með því að strjúka boga yfir fiðluna eða með því að plokka strengina með fingrunum (en það kallast pizzicato), hvort tveggja með hægri hendi. Þannig er hrynjandinni stjórnað. Tónhæð er stjórnað með því að þrýsta streng niður á fingrabrettið á réttum stað með viðeigandi fingri vinstri handar. Þannig styttist ómandi hluti strengsins (sá hluti sem sveiflast frjáls milli tveggja snertipunkta) sem aftur ræður því hvaða tónn hljómar. Sé enginn strengur snertur með fingrunum kallast það að leika lausa strengi, þ.e. G, D, A eða E (sjá nótnamynd).
Saga
breytaFiðlan á rætur sínar að rekja mjög langt aftur í söguna og mörg hljóðfæri af svipaðri gerð hafa verið til í Evrópu og víðar mjög lengi. En fiðlan sjálf, þetta hljóðfæri sem við þekkjum í dag, var ekki fundin upp fyrr en á 16. öld. Það var á Ítalíu og er oftast talið verk Antonio Stradivari sem er þó ekki alveg satt. Nútímafiðlan var í þróun á hans tíð, en ekki er hægt að segja að einn maður hafi fundið hana upp. Frá því á barokktímanum hefur fiðlan verið eitt mikilvægasta hljóðfærið í sígildri tónlist til að spila laglínur. Hlutur hennar varð mjög stór á klassíska tímanum og enn meiri á þeim rómantíska. Í dag má segja að hlutur hennar hafi minnkað, þrátt fyrir að vera enn meiri en flestra hljóðfæra, þegar tónskáld hafa farið að prófa sig meira áfram með að fara nýjar leiðir með ný hljóðfæri. Þjóðlagafiðlur eru stundum eilítið öðruvísi en þær sem notaðar eru í sígildri tónlist, en þær eiga oft jafnvel enn lengri sögu þar sem áður voru notuð eldri hljóðfæri sem voru fyrirmyndir fiðlunnar, en síðar hefur verið farið að nota breyttar útgáfur af fiðlum.
Þótt rannsóknir séu af skornum skammti er vitað að fiðlur voru smíðaðar á Íslandi öldum saman og langt fram eftir 19. öld, ekki sízt í Þingeyjarsýslu og Húnavatnssýslu. Skapaðist að vissu marki sín fiðlusmíðahefðin í hverri sveit þar sem slíkar smíðar voru stundaðar.
Efniseiningar fiðlunnar
breyta- Bassabjálki
- Gripbretti (tónstokkur)
- Háls
- Hljómbotn
- Hljómgöt
- Innlegg
- Sál
- Snigill
- Stillipinnar
- Stóll
- Strengjahaldari