Frjálslyndi flokkurinn (Bretland)
Frjálslyndi flokkurinn (Liberal Party á ensku) var stjórnmálaflokkur sem var einn af tveimur stærstu flokkum Bretlands á nítjándu öld og byrjun tuttugustu aldar.[1]
Frjálslyndi flokkurinn Liberal Party | |
---|---|
Formaður | Henry John Temple, vísigreifi af Palmerston (fyrstur) David Steel (síðastur) |
Stofnár | 1859 |
Lagt niður | 1988 |
Gekk í | Frjálslynda demókrata |
Höfuðstöðvar | National Liberal Club, 1 Whitehall Place London |
Stjórnmálaleg hugmyndafræði |
Frjálslyndishyggja, verslunarfrelsi, miðvinstri- til miðhægristefna |
Einkennislitur | Gulur |
Flokkurinn varð til á sjötta áratug 19. aldar með bandalagi Vigga, stuðningsmanna Roberts Peel sem studdu verslunarfrelsi og róttæklinga sem voru hlynntir hugsjónum bandarísku og frönsku byltinganna. Í lok 19. aldar hafði Frjálslyndi flokkurinn myndað fjórar ríkisstjórnir undir forsæti Williams Ewart Gladstone. Þótt flokkurinn væri klofinn í afstöðu sinni til írskrar heimastjórnar vann hann stórsigur í kosningum árið 1906 og myndaði ríkisstjórn á ný.
Frjálslyndi flokkurinn kom á ýmsum umbótum sem lögðu grunn að bresku velferðarríki. Formaður Frjálslyndra, H. H. Asquith, var forsætisráðherra Bretlands frá 1908 til 1916. Við honum tók annar frjálslyndismaður, David Lloyd George, frá 1916 til 1922. Þótt Asquith væri formaðurinn var Lloyd George jafnan mesti áhrifamaðurinn innan flokksins. Asquith var um megn að gegna embætti forsætisráðherra þjóðstjórnar á meðan á fyrri heimsstyrjöldinni stóð og því tók Lloyd George við af honum í lok ársins 1916. Asquith var þó áfram formaður Frjálslyndra. Þeir Lloyd George kepptust um völd innan flokksins næstu árin og grófu mjög undan áhrifum flokksins með þessum innanflokksdeilum.[2]
Íhaldsflokkurinn var í lykilhlutverki í ríkisstjórn Lloyd George og Íhaldsmenn drógu loks stuðning sinn við hann til baka árið 1922. Í lok þriðja áratugarins hafði Verkamannaflokkurinn velt Frjálslyndum úr sessi sem helsti keppinautur Íhaldsflokksins. Frjálslyndi flokkurinn beið fylgishrun frá árinu 1918 og á sjötta áratugnum vann flokkurinn ekki fleiri en sex þingsæti í kosningum. Fyrir utan minniháttar sigra í aukakosningum batnaði gæfa Frjálslynda flokkinn ekki fyrr en hann gekk í bandalag við Jafnaðarmannaflokkinn árið 1981. Í kosningum ársins 1983 hlaut bandalagið um fjórðung greiddra atkvæða en þó aðeins 23 af 630 þingsætum þar sem það gaf kost á sér. Árið 1988 sameinuðust Frjálslyndir og Jafnaðarmenn og stofnuðu flokk Frjálslyndra demókrata.
Tilvísanir
breyta- ↑ Thomas Banchoff; Mitchell Smith (1999). Legitimacy and the European Union: The Contested Polity. Routledge. bls. 123.
- ↑ Michael Fry, "Political Change in Britain, August 1914 to December 1916: Lloyd George Replaces Asquith: The Issues Underlying the Drama." Historical Journal 31#3 (1988): 609-627.