Ull eru hár sumra spendýra og myndar feld til að halda að þeim hita. Ull er einnig hugtak sem er haft um unna vöru en það er ull af sauðfé en einnig geitum, lamadýrum og angórukanínum.

Ullarlagðar
Ull af Merinofé breidd yfir rimla

Vinnsla ullar á Íslandi breyta

Ull er unnin þannig að kindur eru fyrst rúnar, og ullin síðan þvegin og þurrkuð. Því næst er hún kembd og spunnin. Gæði ullarinnar fer eftir lengd og fínleika þráðanna. Lengd þráðanna er frá 40-150 mm og fínleiki frá 15-30 mm.

Vegna sérstakrar hárgerðar íslensku ullarinnar er auðvelt að útbúa úr henni fjölbreyttan fatnað, allt frá undirfatnaði til þykkra hlífðarfata en hún er hlý og veitir skjól í alls kyns veðrum og gegndi margþættu hlutverki í búskap.

Ull var unnin að vetri til en fólk hófst ekki handa við vinnslu ullar fyrr en eftir sláturtíð. Í upphafi úrvinnslunnar var tog aðskilið frá þelinu en það kallaðist að taka ofan af ullinni. Því næst tæjaði fólk þelið, það er greiddi því í sundur, áður en það var sett í ullarkamba þar sem það var kembt svo vel að hvergi sást hnökri í kembunni. Úr kembunni var svo spunninn þráður, fyrst með snældu en síðar með rokk. Þráðurinn var ýmist notaður einspinna,tvinnaður eða þrinnaður. Ef þráðurinn átti að vera tvinnaður voru tvær fullar snældur settar í snældustól og þrjár snældur ef þráðurinn átti að vera þrinnaður. Þræðinum var síðan undið upp í hnykla eða á hesputré (viðartré).

Togið sem tekið var ofan af ullinni var vel nýtt. Togið var spunnið ýmist á rokk eða halasnældu í mismunandi grófan þráð eftir notkun en togþráðurinn var venjulega þrinnaður. Togþráðurinn var til dæmis notaður til að verpa skinnskó, í snjósokka eða ytri sokka (togsokka) og einnig voru búin til úr honum hrognkelsanet.

Togið á íslensku ullinni hefur fjölbreytilegt notagildi en það líkist mest hör eða líni. Til þess að hreinsa togið voru notaðir svokallaðir togkambar en í þeim var unnið það vandaðasta fyrir vefnað og útsaum. Sem dæmi má nefna fléttusaum (íslenska krosssauminn). Fyrr á öldum var allur klæðnaður heimilisfólks handsaumaður en togþráðurinn var notaður til þess að sauma hann. Þar má nefna skúfinn við skotthúfuna (sem er hluti af upphlut). Notagildi togsins var fjölbreytt og var það einnig notað í grófar rúmábreiður, segl á báta, í tjöld og vaðmál.

Íslenska ullin hentar vel í listrænan vefnað, prjón og útsaum en allur vefnaður á Íslandi fram til loka 19. aldar byggðist eingöngu á ullinni.

Peysufatavaðmálið var það vaðmál sem mest var vandað til. Vandasamt verk var að spinna í dúksvunturnar og að vinna peysufatasjöl. Ýmiss konar annar fatnaður var unninn úr íslensku vaðmáli, svo sem skrautföt, treflar og prjónapeysur fyrir karlmenn.

Ullarþvottur á Íslandi breyta

Fram yfir síðari heimsstyrjöld var mikill hluti íslenskrar ullar þveginn heima á bæjum. Við ullarverkun þurfti að safna keytu til ullarþvottar. Öllu þvagi sem til féll var safnað því lítið var fáanlegt af þvottaefnum en keytan þótti bæði betra þvottaefni og svo var hún ódýr.

Þegar búið var að rýja féð voru mestu óhreinindin barin úr – kallað að berja ullina[1] Ullin var vanalega þvegin við á eða læk á þurrum sumardegi. Tvenns konar aðferðum var beitt við ullarþvott. Önnur aðferðin var sú að ullin var þvæld sem fólst í því að vatn var hitað í stórum potti og keytu blandað við, 1/3 keyta og 2/3 vatn. Ullinni var síðan bætt út í pottinn og hún var þvæld fram og aftur í nokkra stund. Lögurinn í pottinum mátti ekki ofhitna, 40-45°C, vegna þess að þá bráðnaði sauðfitan of mikið úr ullinni og yrði verri til tóskapur. Næst var ullin sett á smágrind sem lögð var yfir pottinn. Þetta var gerst til þess að lögurinn sem rann úr ullinni tapaðist ekki heldur rynni beint aftur niður í pottinn. Ullin var því næst þvegin í sjó eða rennandi vatni og borin út á tún. Þegar þurrkur kom var ullin breidd til þerris.

Önnur aðferð kallast var tunnu- eða stampaþvottur sem var algengari sérstaklega ef um mikla ull var að ræða. Lögurinn var látinn í stamp eða tunnu og ullin sett í löginn. Ullin var troðin niður með berum fótum eins þétt og hægt var. Sá sem tróð ullina þvældi hana í leiðinni með fótunum. Þegar öll ullin var komin í tunnuna var lokað fyrir hana svo hitinn héldist og látin standa svo í eina til tvær klukkustundir. Að því búnu var ullin tekin úr tunnunni og þvegin í sjó eða rennandi vatni. Ekki mátti taka nema lítið úr tunnunni í einu því þegar ullin kom í kalt vatn vildu óhreinindin festast í henni og hún varð stöm. Þegar búið var að þvo ullina var hún borin út á tún og þurrkuð.

Þegar ullin var orðin þurr var hún flokkuð. Fyrst valin sú ull sem var mjög hvít og með mikið þel en úr henni átti að vinna nærföt. Síðan var öll mislit ull tekin frá en úr henni átti að vinna betri sokkaplögg og vettlinga, rendur í sokka, herðasjöl og hluti til skrauts. Ull sem var gul eða togmikil var notuð í grófari fatnað svo sem ytri föt þar sem efnið var ofið í vefstól. Flókar og úrgangsull var notuð til ýmissa þarfa svo sem í reipi og gjarðir.

Þegar ullin var þvegin fóru allir í sín verstu föt því ullarþvottur þótti óþrifaleg vinna. Í sveitum var ullarþvottur aðallega í verkahring kvenna en umtalsverð vinna var við ullarþvott. Með flutningum fólks úr sveit í bæ á fyrri hluta 20. aldar dró úr ullarþvotti heima fyrir. Ullarþvottavélum var komið upp í klæðaverksmiðjunum Iðunni, Gefjun og Álafossi en oft þurfti að þvo aftur heimaþvegna ull þegar hún kom til vinnslu í ullarverksmiðjunum.

Eiginleiki ullar breyta

Eðliseiginleikar ullar gera hana togþolna og þjála. Þurr hiti feyskir ull. Hún harðnar við 100°C og við 130°C gulnar hún og molnar, kosturinn við hana er að hún brennur ekki.

Áhrif raka og hita á ull eru sérstök. Raki og hiti gera ull þjála, sé þrýstingi beitt má móta hana. Hún geymist lengi óskemmd ef hitastig er eðlilegt og rakastig minna en 65%.

Verði ull fyrir núningi þegar hún er blaut þófnar hún, því heitari sem hún er þeim mun meira þófnar hún. Ullin hleypur ekki en getur þæfst í vélþvotti og við hátt ph gildi. Hún er einnig frekar viðkvæm fyrir sól og brotnar fljótt niður í sólarljósi. Ullin þolir ekki þurrkara.

Ullin hefur frá náttúrunnar hendi afar góða einangrunareiginleika og stafar það af því að þræðirnir eru liðaðir og loftrými er því mikið í þeim sem er mikilvægt fyrir vinnslu hennar og notkun. Liðirnir eru mestir í fínustu ullargerðum eins og loðbandi sem er bylgjað með mikilli fyllingu en minni í grófari ull líkt og kambgarni sem er slétt með lítilli fyllingu. Bylgjurnar auðvelda spuna á loðbandi en bandið verður fjaðurmagnaðra og ullarvörurnar léttari og hlýrri. Þessir eiginleikar ullar ásamt þjáll hennar valda því að fötin þola mikið hnjask án þess að á þeim sjáist. Ullarflíkur geta varið fólk gegn kulda jafnt sem hita. Til dæmis ver ull fólk á hásléttum Argentínu og Ástralíu gegn hita dagsins og kulda næturinnar.

Ullarhár sauðfjár breyta

Ullarhár sauðfjár er í fjórum lögum. Yst er þunn vatnsverjandi himna sem hlífir hárinu. Á himnunni eru lítil göt, hárið getur þannig tekið við raka eða losað sig við hann. Vegna þessa eigileika ullarinnar er ull þægilegt hráefni í klæðnað. Undir himnunni er hreisturslag sem er flögumyndað, þessar flögur eru ein aðalskýringin á þófeiginleikum ullar. Þriðja lagið er hárkjarni sem er meginhluti hársins eða meira en 90% þess og er myndað af löngum snældulaga frumum og skýrir sú frumumyndun togþjálni ullar. Fjórða lagið má finna í grófum hárum en í þeim er oft mergur eða laus fylling af opnum, glúfum frumum. Þessi mergur rýir gæði ullar til iðnaðar. Ullarfita frá fitukirtlum smyr hárin og ver þau, mismikið eftir tegundum, en er nauðsynleg til þess að hægt sé að kemba hana.

Íslensk ull breyta

 
Lopapeysa.

Munur er á ull eftir kyni og aldri fjár. Ullin er grófust á gömlum hrútum en lambsull fíngerðust. Munur getur einnig verðið á ull eftir því hvar ullin vex á sauðkindinni.

Íslensku ullinni hefur verið skipt í fjóra flokka eftir eðli og eiginleikum. Ullarhárin skiptast í þelhár, toghár, hvítar illhærur og rauðgular illhærur.

Þelhárin eru fínustu og stystu hár reyfisins og finnast í reyfinu innanverðu og mynda þar svokallaðan þelfót. Fín ull er betur fallin til iðnaðar en gróf ull. Í íslensku ullinni er um 88% af öllum hárum í reyfinu þelhár en vegna þess hve stutt þau eru og fín vega þau ekki nema um 50% af þunga reyfsins. Sumir fjárstofnar erlendis hafa nánast ekkert þel og til eru aðrir sem eru allt að því toglausir. Að fínleika jafnast íslensku þelhárin við merinóull en munur er á gildleika og lengd.

Þelhárin í íslensku ullinni eru frábrugðin öðrum vegna þess að þau eru óreglulega liðuð. Til dæmis verður þelþráður úr íslenskri ull fyrirferðameiri en þráður úr jafn mörgum hárum af merinólull því hárin falla ekki þétt hvert að öðru í þræði. Þelhárið heldur einnig meira lofti og einangrar betur en þráður úr merinóull.

Íslensk lopapeysa breyta

 
íslenska lopapeysan.

Ekki er langt síðan að íslenska lopapeysan kom fram á sjónarsviðið. Handprjónaðar lopapeysur urðu afskaplega vinsælar á seinni heimsstyrjaldarárunum en þá voru svokallaðir hringprjónar notaðir. Munstur á þessum lopapeysum byggðust aðallega á hefðbundnu norsku munstri en það er tvíbanda með beinum axlabekkjum. Lopapeysan með hringlaga axlabekkjunum er sköpunarverk íslenskra prjónakvenna á síðari hluta sjötta áratugar 20. aldar. Íslenska lopapeysan hefur orðið mjög vinsæl á meðal bæði þjóðarinnar og ferðamanna en vegna hennar opnuðust erlendir markaðir fyrir íslenskar vélprjónaðar vörur. Hönnun á prjónavörum hefur orðið sérstök atvinnugrein alveg síðan að prjónaiðnaður varð að útflutningsiðnaði og í dag eru nokkrir hönnuðir sem vinna við prjónaframleiðslu. Til að byrja með var íslenska lopapeysan eingöngu í íslensku sauðalitunum en með tímanum hafa litir og munstur þróast og alls konar útfærslur og snið hafa mótast hjá hinum ýmsu hönnuðum. Í þrjá áratugi hafa íslenskar lopapeysur verið prjónaðar af fjölda kvenna og eiga flestir Íslendingar slíkar peysur. Erlendir ferðamenn eru að sama skapi áfjáðir í að kaupa þær. Mest er prjónað af lopapeysum en einnig er vinsælt að prjóna sjöl, hyrnur, húfur, sokka og vettlinga. Íslenska lopapeysan átti stærstan þátt í því að opna markað fyrir íslenskar ullarvörur úti í hinum stóra heimi.

Útflutningur breyta

Mestan hluta Íslandssögunnar hefur ull verið ein helsta útflutningsvara Íslendinga. Á 17. öld var unnin ull aðalútflutningsvara Íslendinga. Smá saman dró úr útflutningi á unninni ull og á 19. öld var rúmlega helmingur af ull Íslendinga flutt óunnin út. Langt fram eftir 20. öldinni fór ullarframleiðsla fram á heimilum landsmanna en færðist að mestu leyti, í lok seinni heimsstyrjaldarinnar, í hendur ullarverksmiðja.

Fólk prjónaði eða óf ýmsar flíkur og þæfði síðan flíkurnar til þess að þær entust betur. Framan af notaði fólk snældu við ullarframleiðslu en með tilkomu rokksins jókst framleiðslan enn frekar. Ullarframleiðsla tók stakkaskiptum með tilkomu fyrstu ullarvinnsluvélarinnar árið 1884. Landsmenn hættu hinsvegar ekki að prjóna og er prjónaskapur enn þann dag í dag tómstundaiðja hjá mörgum Íslendingum. Helstu vörurnar sem eru framleiddar á Íslandi og fluttar út eru prjónaðar lopapeysur.

Ull á alþjóðlegum markaði breyta

Ull var fyrsta varan sem verslað var með á alþjóðlegum markaði og er enn þann dag í mjög mikilvægur þáttur í landbúnaði margra landa. Alþjóðleg ullarframleiðsla er um 1,3 milljón tonn á ári. Rúmlega helmingur allrar alþjóðlegrar framleiðslu fer í fataiðnað. Í Ástralíu fer mesta ullarframleiðslan fram. Nýja Sjáland kemur á eftir Ástralíu en þeir framleiða mest af öllum í heiminum af kynblendinni ull. Kína er þriðji stærsti framleiðandi ullarinnar.

Ull er seld á mismunandi hátt. Flestir fjárbændur hafa ekki nægilega mikið af ull til þess að geta selt hana beint til verslana eða vöruhúsa. Vöruhúsin vilja flokka ullina eftir gæðum og tegundum en til þess að það sé hægt þarf að hafa mikið magn af ull. Það eru fáir sem geta framleitt svo mikið af ull þannig að margir bændur í Bandaríkjunum sameina ullina sína til þess að geta markaðssett hana. Í þessari sameiginlegu ullarsölu er nægilegt magn af ull til að flokka hana eftir gæðum og tegundum. Í sumum vöruhúsum er ullin seld á uppboðum fyrir ákveðna kaupendur.

Bein viðskipti með ull er þegar seljandinn selur ullina beint til endanlega kaupandans en ekki til ullarvöruhúsa eða annarra framleiðenda. Algengustu beinu viðskiptin eru þegar ull er seld beint til vefara og annars handverksfólks. Handverksfólk sem býr til föt eða aðra hluti úr ullinni vill hafa ullina sem hreinasta og lausa við alla mengun. Bændur verða að huga að þessum kröfum neytenda þegar þeir vinna með ullina.

Tilvísanir breyta

  1. bls. 185, 197.

Heimildir breyta

  • Fyrirmynd greinarinnar var „wool“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 16. apríl 2012.
  • Halldóra Bjarnadóttir. (1966). Vefnaður á íslenzkum heimilum á 19. öld og fyrri hluta 20. aldar. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs. (bls. 61- 63, 67- 70).
  • Jóhannes Jónsson. (1982). „Þjóðhættir á Ströndum“. Strandapósturinn, 16 (bls. 12-14).
  • Magnús Guðmundsson. (1988). Ull verður Gull, ullariðnaður Íslendinga á síðari hluta 19. aldar og á 20. öld. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag. (bls. 96- 98).

Tenglar breyta

   Þessi landbúnaðargrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.