Mön

Eyja í Írlandshafi
Mön getur líka átt við dönsku eyjuna Mön. Fyrir aðrar merkingar má sjá aðgreiningarsíðuna.

Mön er eyja í Írlandshafi í miðjum Bretlandseyjaklasanum. Hún er í konungssambandi við Bretland en nýtur fullrar sjálfstjórnar varðandi flesta hluti og telst ekki vera hluti af Bretlandi. Löggjafarþing eyjunnar, Tynwald, hefur starfað óslitið frá því í kringum 978. Lávarður Manar er þjóðhöfðingi eyjarinnar en titillinn er hluti af titlum Bretakonungs, Karls 3. Landstjóri Manar fer með vald hennar á eyjunni en ríkisstjórn Bretlands fer með utanríkis- og varnarmál. Íbúar eyjarinnar eru nefndir Manverjar á íslensku.

Ellan Vannin
Isle of Man
Fáni Manar Skjaldarmerki Manar
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Quocunque Jeceris Stabit
Þjóðsöngur:
O Land of Our Birth
Staðsetning Manar
Höfuðborg Douglas
Opinbert tungumál enska, manska
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Lávarður Karl 3.
Landstjóri Sir Richard Gozney
Forsætisráðherra Howard Quayle
Krúnunýlenda
 - Undir bresku krúnunni 1765 
Flatarmál
 - Samtals
 - Vatn (%)
196. sæti
572 km²
0
Mannfjöldi
 - Samtals (2011)
 - Þéttleiki byggðar
203. sæti
84.497
148/km²
VLF (KMJ) áætl. 2010
 - Samtals 2,113 millj. dala (162. sæti)
 - Á mann 53.800 dalir (11-12. sæti)
Gjaldmiðill sterlingspund
Tímabelti UTC/+1
Þjóðarlén .im
Landsnúmer ++44

Eyjan hefur verið byggð frá því fyrir 6500 f.Kr. Manverjar eru ein af sex þjóðum kelta og manska, sem er gelískt mál, kom fram á sjónarsviðið á 5. öld. Játvin af Norðymbralandi lagði eyjuna undir sig árið 627. Á 9. öld settust norrænir menn að á eyjunni. Mön varð síðan hluti af Konungsríki Manar og eyjanna sem náði yfir Suðureyjar og Mön. Magnús berfættur Noregskonungur bar þannig titilinn „konungur Manar og eyjanna“. Árið 1266 varð eyjan hluti af Skotlandi samkvæmt Perth-samningnum. Eftir tímabil þar sem ýmist Skotakonungar eða Englandskonungar fóru með völd á eyjunni varð hún lén undir ensku krúnunni árið 1399. Lávarðstitillinn gekk til bresku krúnunnar árið 1765 en eyjan varð þó aldrei hluti af Breska konungdæminu, heldur hélt áfram að vera sjálfstætt lén undir krúnunni.

Á eyjunni búa rúmlega 80 þúsund manns. Manska dó út sem móðurmál á eyjunni um 1974 og nú tala hana aðeins um 100 manns. Eyjan er skattaskjól með fáa og lága skatta. Undirstaða efnahagslífs eyjarinnar eru aflandsbankaþjónusta, iðnaður og ferðaþjónusta.

HeitiBreyta

Heiti eyjarinnar á mönsku er Ellan Vannin. Ellan merkir „eyja“ en Vannin er eignarfall orðsins Manu eða Mana.[1] Ekki er vitað með vissu hvað Manu eða Mana vísar til. Sumir telja það vísa til keltneska sjávarguðsins Manannán mac Lir, en aðrir telja að guðinn sé nefndur eftir eyjunni. Hliðstæða við nafn Manar er velska heitið á Öngulsey, Ynys Môn. Velska orðið mynydd, bretónska orðið menez og gelíska orðið monadh eru öll af sömu rót og merkja „fjall“ sem gæti vísað til þess hvernig eyjan rís úr Írlandshafi.

Elstu heimildir um eyjuna eru rómversk rit þar sem hún er kölluð Mona, Monapia, Mοναοιδα (Monaoida), Mοναρινα (Monarina), Menavi og Mevania.[2] Írskir höfundar nefndu hana Eubonia eða Eumonia á latínu, í velskum heimildum kemur hún fyrir sem Manaw og í norrænum ritum sem Mön.

SagaBreyta

Eyjan skildist frá Bretlandi og Írlandi vegna hækkandi sjávarborðs fyrir um 10.000 árum. Talið er að menn hafi sest þar að fyrir 6500 f.Kr. á miðsteinöld. Þessir fyrstu íbúar lifðu af fiskveiðum og söfnun. Lítil verkfæri úr tinnusteini og beini hafa fundist sem minjar um þá. Á nýsteinöld hófst landbúnaður á eyjunni. Þá voru reistir jötunsteinar sem enn sjást á eyjunni. Á bronsöld voru reistir grafhaugar yfir látna einstaklinga.

Á járnöld eru merki um aukin menningaráhrif frá Írlandi og Skotlandi og manska varð til, en hún er náskyld írsku og gelísku. Hæðavirki voru reist og timburklædd hringhús. Hugsanlega voru fyrstu keltnesku íbúar Manar Bretar frá Bretlandi. Rómverjar lögðu eyjuna aldrei undir sig, þótt þeir vissu vel af henni. Samkvæmt arfsögn átti heilagur Maughold að hafa kristnað eyjuna á 5. öld.

Norrænir víkingar komu til eyjarinnar á 9. öld og hófu að setjast þar að um 850. Eyjan varð hluti af ríki konunga Dyflinnar og frá 990 til 1079 var hún hluti af ríki Eyjajarla. Þing Manar, Tynwald, var að sögn stofnað árið 979. Árið 1079 lagði Guðröður Crovan eyjuna undir sig og bjó til konungsríkið Mön og eyjar sem náði líka yfir Suðureyjar. Að nafninu til var þetta ríki hluti af veldi Noregskonunga en þeir höfðu í reynd lítið af eyjunni að segja. Árið 1266 fengu Skotar Mön og eyjarnar með Perth-sáttmálanum við Magnús lagabæti. Íbúar Manar börðust gegn yfirráðum Skota en biðu ósigur í orrustunni um Ronaldsway 1275.

Stríðin milli Englands og Skotlands á 13. og 14. öld urðu til þess að yfirráð yfir eyjunni gengu sitt á hvað þar til England vann endanlegan sigur árið 1346. Árið 1405 fékk John Stanley af Mön eyjuna sem lén frá Hinriki 4. Stanleyfjölskyldan ríkti síðan yfir eyjunni næstu aldir, fyrir utan stutt skeið í Ensku borgarastyrjöldinni. Árið 1736 lést síðasti erfingi titilsins og eyjan gekk til skoska aðalsmannsins James Murray af Atholl. Á 18. öld varð smygl ástæða fyrir afskiptum breska þingsins af málefnum Manar en manska þingið var áfram aðallöggjafi eyjarinnar. Árið 1765 seldi Charlotte Murray af Atholl eyjuna til bresku krúnunnar sem skipaði landstjóra.

Árið 1866 fékk eyjan nokkra sjálfstjórn í landstjóratíð Henry Brougham Loch. Þá urðu fulltrúar í kjördeild þingsins, House of Keys, kjörnir fulltrúar, fyrsta járnbrautin var opnuð og skipuleg ferðaþjónusta hófst. Í fyrri og síðari heimsstyrjöld rak breski herinn fangabúðir á eyjunni. Árið 1949 var stofnað framkvæmdaráð með kjörnum fulltrúum.

EfnahagslífBreyta

Þegar ferðaþjónustu hnignaði sem undirstöðuatvinnugrein á síðari hluta 20. aldar ákvað þingið að breyta eyjunni í skattaparadís. Á Mön er enginn skattur á söluhagnað, auðlegðarskattur, stimpilgjald eða erfðaskattur og tekjuskattur er að hámarki 20%. Að auki er skattaþak í gildi sem nemur 115 þúsund pundum á hvern einstakling en tekjuskattur miðast við alþjóðlegar tekjur íbúa fremur en innlendar tekjur.

Fyrirtækjaskattur er í flestum tilvikum enginn. Undanþága frá þessu er 10% skattur á hagnað banka og á leigutekjur af eignum á eyjunni.

Aflandsbankaþjónusta, iðnframleiðsla og ferðaþjónusta eru undirstöðuatvinnugreinar á Mön, en framlag fiskveiða og landbúnaðar fer minnkandi sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Verslun er mest við Bretland og eyjan er í tollabandalagi með Bretlandi.

Kvikmyndagerð á Mön er styrkt með opinberri þátttöku í framleiðslukostnaði og frá 1995 hafa 80 kvikmyndir verið teknar á eyjunni. Þetta hefur verið gagnrýnt þar sem fjárfestingin skilar miklu tapi.

GeimferðirBreyta

Mön hefur orðið að miðstöð fyrir geimferðir einkaaðila. Margir þátttakendur í Google Lunar X Prize eru frá eyjunni. Árið 2010 var eyjan í fimmta sæti yfir þær þjóðir sem talið er að muni næst lenda á tunglinu. Manska fyrirtækið Excalibur Almaz hefur verið að þróa þar geimstöðvar sem byggja á hlutum frá sovésku Almazáætluninni.

TilvísanirBreyta

  1. Kinvig, R. H. (1975). The Isle of Man: A Social, Cultural and Political History (3rd. útgáfa). Liverpool University Press. bls. 18. ISBN 0-85323-391-8.
  2. Rivet, A. L. F.; Smith, Colin (1979). „The Place Names of Roman Britain“. Batsford: 410–411.

TenglarBreyta

   Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.