Alexander 3. Skotakonungur

Alexander 3. (4. september 124119. mars 1286) (gelíska: Alasdair mac Alasdair) var konungur Skotlands frá 1249 til dauðadags.

Krýning Alexanders 3. Úr miðaldahandriti.

Alexander var eina skilgetna barn Alexanders 2. Skotakonungs og móðir hans var seinni kona Alexanders, Marie de Coucy. Alexander 2. lést þegar sonur hans var aðeins átta ára að aldri og allt þar til hann varð sjálfráða ríkti stöðug togstreita um völd milli tveggja blokka. Fyrir annarri þeirra fór Walter Comyn, jarl af Meteith, en fyrir hinni Aland Durward, sem var eins konar lögmaður eða dómsmálaráðherra Skotlands. Framan af var fyrrnefnda blokkin sterkari, svo náði hin undirtökunum en á endanum eignuðust báðar þátt í ríkisstjórninni, þar til Alexander varð myndugur 1262.

Hann tilkynnti þá að hann hefði í huga að vinna áfram að fyrirætlunum sem faðir hans hafði haft um að ná skosku eyjunum undir sig og lagði fram formlegt tilkall til þeirra við Hákon gamla Noregskonung, sem hafnaði því og gerði innrás í Skotland en varð lítið ágengt. Hann sneri því heim á leið en dó í Orkneyjum 15. desember 1263. Þar með náði Alexander unditökunum og lagði Suðureyjar undir Skotland en greiddi Noregskonungi fjárupphæð fyrir þær. Norðmenn héldu þó Hjaltlandseyjum og Orkneyjum.

Alexander gekk að eiga Margréti af Englandi, dóttur Hinriks 3. og Elinóru af Provence, 26. desember 1251, þegar hann var tíu ára en hún ellefu. Hún dó 1274 og hafði þá alið þrjú börn: Margréti (1260-1283), konu Eiríks prestahatara Noregskonungs, Alexander (1264-1284) og Davíð (1272-1281). Öll börn Alexanders dóu á innan við þriggja ára tímabili og hann átti aðeins einn afkomanda, dótturdótturina Margréti, sem var ársgömul. Hann fékk hana viðurkennda sem ríkiserfingja en þar sem hann var sjálfur aðeins rúmlega fertugur og við ágæta heilsu átti hann góða möguleika á að eignast fleiri börn og 1. nóvember 1285 giftist hann Jólöndu af Dreux.

Hjónasælan var þó ekki langvinn því að 19. mars 1286 féll konungur af hestbaki í náttmyrkri og illviðri, hálsbrotnaði og fannst látinn um morguninn. Jólanda drottning var þunguð en hefur líklega fætt andvana barn og í nóvember 1286 var Margrét litla lýst drottning Skotlands. Hún dó á leið til Skotlands 1290 og þá upphófst erfðadeila sem ekki leystist fyrr en löngu síðar.

Alexander 3. var öflugur og hæfur konungur og má leiða að því líkur að ef hann hefði lifað og eignast erfingja hefði saga Skotlands næstu áratugi verið allt önnur, en óvissuástandið sem skapaðist við lát hans vakti upp deilur, innanlandsófrið, stríð við Englendinga, hernám og borgarastyrjöld.

Heimildir breyta


Fyrirrennari:
Alexander 2.
Skotakonungur
(12491286)
Eftirmaður:
Margrét