Fiskeldi
Fiskeldi er oft notað sem samheiti yfir enska orðið aquaculture, þó í raun eigi það betur við eitt form þess (e. fish farming). Þó er samkvæmt íslenskum lögum fiskeldi skilgreint sem geymsla, gæsla og fóðrun vatnafiska, annarra vatnadýra og nytjastofna sjávar, klak- og seiðaeldi, hvort sem er í söltu eða ósöltu vatni.[1]
Menn hafa alið vatnadýr frá örófi alda, þar með talið fiska, lindýr, krabbadýr og plöntur. Árið 2006 var heildarframleiðsla í heiminum (veiddur afli og ræktaður, að plöntum undanskildum) um 140 milljón tonn, og þar af stendur fiskeldi undir um 35% framleiðslunnar. Ef aðeins er skoðaður hlutinn er fer beint til manneldis, breytist þetta hlutfall í hátt í 50%.[2] Mikil aukning hefur átt sér stað í fiskeldi í heiminum og eru eldisafurðir nú algengar og áberandi á alþjóðlegum mörkuðum. Eldisafurðir eru í beinni samkeppni við afurðir frá hefðbundnum fiskveiðum.
Stríðeldi og strjáleldi
breytaHægt er að skipta fiskeldisframleiðslu gróflega í þrjá hluta; strjáleldi, hálf-stríðeldi og stríðeldi.
Strjáleldi (e. extensive) fer yfirleitt fram í meira eða minna tilbúnum jarðtjörnum eða lónum af ýmsum stærðum. Það er algengasta eldisformið í heiminum, einkum í heitari löndum. Strjáleldi byggir á að skapa eldistegund rétt umhverfisskilyrði, en lífveran er síðan látin sjálfala að miklu eða öllu leyti, þar til sláturstærð er náð. Fiskinum er ætlað að éta dýrasvif og plöntur sem vaxa í tjörninni. Mikilvægt að hlutfall stofnstærðar lífveru (upphafsfjöldi) og fæðuframboðs í vatninu sé rétt.
Hálf-stríðeldi (e. semi-intensive) er nokkurs konar strjáleldi, en þó er reynt að örva og auka framleiðsluna með fóðrun og umhverfisbætandi aðgerðum. Þá er fóðrað með tilbúnu fóðri eða úrgangi (t.d. afskurði eða jafnvel plöntum) . Einnig gæti verið reynt að hafa áhrif á stofnstærð eða samsetningu í eldinu.
Í stríðeldi (e. intensive) er fjölda lífvera haldið þétt saman á tiltölulega afmörkuðu svæði ( kerum/ kvíum o.s.frv.). Þar er reynt að aðlaga umhverfið að þörfum tegundarinnar og nýta það sem best. Reynt er að örva vöxt með fóðurgjöf og öðrum aðgerðum til að keyra framleiðsluna áfram. Þessi leið er gríðarlega kostnaðarsöm og orkuþörfin er mikil, öfugt við strjáleldi.[3]
Eineldi og fjöleldi
breytaEineldi (e. monoculture) er þegar eingöngu ein tegund lífveru er alin í sömu eldiseiningu. Þetta er algengasti mátinn á Íslandi og í öðrum þróuðum löndum, og er yfirleitt notaður í stríðeldi. Þessi leið er kostnaðarsöm og gríðarlega tímafrek þar sem stjórnunin er mikil. Helsta ógnin eru sýkingar þar sem lífverurnar lifa oft mjög þétt og umhverfið veldur stressi.
Fjöleldi (e. polyculture) er algengast í jarðtjörnum eða í strjáleldi. Þar eru tvær eða fleiri tegundir aldar saman í sömu eldiseiningunni. Þá er t.d. ein tegund sem étur úrgang annarrar eða rántegund sem heldur földa annarrar tegundar í skefjum. Einnig hefur færst í vöxt að blanda saman fiskeldi og plönturækt. Fiskurinn bætir næringarefnum í eldisvatnið sem nýtt er á plönturnar.[3]
Fleiri form eldis
breytaEnn er hægt að skipta fiskeldi niður í mismunandi form. Þau helstu eru eftirfarandi:
- Kvíaeldi: Fiskeldi í netkvíum (netbúrum) í fersku vatni eða söltu.
- Landeldi: Eldi fiska til slátrunar í tönkum eða kerjum á landi með afrennsli í ferskvatn.
- Sjókvíaeldi: Eldi á fiski í netbúrum sem komið er fyrir í sjó eða söltu vatni.
- Heilsárseldi: Hefðbundið eldi í sjókvíum frá 50 gramma göngustærð upp í markaðsstærð.
- Strandeldi: Eldi fiska til slátrunar í tönkum eða kerum á landi með afrennsli í sjó.
- Skiptieldi: Eldi á fiski í strandeldi upp í 250–1.000 grömm og framhaldseldi í sjókvíum upp í markaðsstærð.
- Hafbeit: Slepping gönguseiða til sjógöngu og föngun þeirra sem fullvaxta fiska á sleppistað þegar þeir ganga úr sjó í ferskt vatn, annaðhvort til slátrunar eða flutnings í annað veiðivatn til endurveiða.[1]
Heimildir
breyta- ↑ 1,0 1,1 Alþingi. (2008). Lög um fiskeldi nr. 71/2008. Sótt 8. apríl 2009 af Althingi.is.
- ↑ FAO. (2008). State of World Aquaculture 2008. Sótt 10. apríl 2009 af FAO.org[óvirkur tengill] (bls. 3).
- ↑ 3,0 3,1 Jennings, S., Kaiser, M. og Reynolds, J. (2008). Marine Fisheries Ecology (7. útgáfa). United Kingdom: Blackwell Science Ltd. (bls. 313-314).