Miðhálendið

Miðhálendið er óbyggt hálendi í yfir 500 metra hæð sem nær yfir stærstan hluta Íslands inni í landi og sem að jafnaði hentar ekki til búsetu vegna kulda og/eða skorts á jarðvegi. Að öðru leyti er náttúra þessa svæðis fjölbreytt. Á þessu svæði er t.d. að finna eldfjöll, hveri, hraun, ýmsar jarðmyndanir, sanda, jökla, ár, stöðuvötn og gróðurvinjar. Stór hluti hálendisins er á gosbeltinu, þ.e. eldvirku svæði. Hluti hálendisins hefur verið nýttur sem afréttur. Ferðamennska hefur farið þar vaxandi, einkum á sumrin.

Miðhálendið nær yfir samfellt hálent svæði í miðju landsins. Þetta kort sýnir hæð yfir 500 metra á Íslandi.
Herðubreið
Kerlingarfjöll séð frá Kili
Nýidalur er ein ferðamannamiðstöð á hálendinu.
Ferðalangur á hálendinu.
Á Sprengisandi. Séð til Hofsjökuls.
Á Friðlandi að Fjallabaki eru jarðmyndanir litskrúðugar.

Ekki er til eitt algilt svar við því hvert er flatarmál miðhálendis Íslands. Í tengslum við vinnu við gerð svæðisskipulags miðhálendisins var rætt um að skipulagssvæðið væri um 40% af flatarmáli landsins.[1] Samkvæmt Náttúrufræðistofnun Íslands er flatarmálið 42.700 km² [2] Kort hafa verið gerð af Miðhálendinu. [3]

Þjóðleiðir milli landshluta voru eitt sinn á miðhálendinu. Í dag eru ákveðnir fjallvegir um það líkt og Kjölur, Kaldidalur og Sprengisandur. Fimm hæstu fjallvegir á Íslandi eru á miðhálendinu. [4]

Vatnajökulsþjóðgarður nær yfir stóran hluta austursvæðis miðhálendisins.[5]

VötnBreyta

Meðal vatna eru Langisjór, Þórisvatn, Öskjuvatn og Hvítárvatn. Þórisvatn hefur verið stækkað vegna virkjana og er stærsta vatnið á landinu. Blöndulón, Hágöngulón og Hálslón eru manngerð vötn vegna virkjana.

FjöllBreyta

Ýmis merk fjöll eru á eða við Miðhálendið. Þar má nefna virkar og óvirkar megineldstöðvar, móbergsstapa og dyngjur. Meðal fjalla eru: Kerlingarfjöll, Askja, Herðubreið, Hrútfell, Eiríksjökull, Kverkfjöll, Trölladyngja, Skjaldbreiður og Snæfell. Hekla er í jaðri hálendisins.

JöklarBreyta

Stærstu jöklar landsins eru á miðhálendinu eða í námunda við það: Vatnajökull, Langjökull, Hofsjökull, Mýrdalsjökull ásamt smærri jöklum.

FljótBreyta

Stærstu fljót landsins eiga upptök sín í jöklum á miðhálendinu: Þjórsá, Jökulsá á Fjöllum, Hvítá, Skjálfandafljót, Blanda og Skaftá. Jökulsá á Dal myndaði Dimmugljúfur og Hafrahvammagljúfur

HraunBreyta

Ódáðahraun er stærsta hraunflæmi á landinu. Síðan má nefna Kjalhraun og Hallmundarhraun af stærri hraunum á miðhálendinu. Eldhraun sem kom úr Lakagígum er að hluta til á miðhálendinu.

GróðurBreyta

Þjórsárver og Guðlaugstungur við Hofsjökul eru mikilvægar varpstöðvar heiðagæsa og gróðurfarslega fjölbreytt svæði. Arnarvatnsheiði og Vesturöræfi eru að miklu leyti grónar heiðar. Hvannalindir og Herðubreiðarlindir eru dæmi um gróðurvinjar á norðurhluta hálendisins.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur gert stafrænt gróðurkort af hálendinu. [6] Gróðurþekja er sem hér segir:

 • Lítt/ógróið land eða <10% gróðurþekja: 41%.
 • Gróðurþekja 25%: 6%.
 • Gróðurþekja 50%: 5%.
 • Gróðurþekja 75%: 9%.
 • Algróið eða >90% gróðurþekja: 10%.
 • Jöklar: 25%.
 • Vatn: 3%.

Mosagróður er algengasta gróðurlendið eða samtals 46%. [7]

DýralífBreyta

Heimskautarefurinn eða tófan lifir víða á miðhálendinu og á heiðum innan þess. Hreindýr halda til á Vesturöræfum.

Á hálendinu hafa verið taldar 32 fuglategundir. Fuglar eru m.a. heiðagæs, rjúpa, mófuglar eins og heiðlóa, snjótittlingur og þúfutittlingur [8]. Spói er strjáll á hálendinu.[9] Himbrimi og hávella lifa við vötn á heiðum hálendisins. Á Kili verpa fimm tegundir mófugla: Heiðlóa, sendlingur, lóuþræll, steindepill og snjótittlingur. [10]

Ferðamannastaðir og skálarBreyta

Ýmsir skálar og ferðamannamiðstöðvar hafa verið byggðar á miðhálendinu. Landmannalaugar, Hveravellir og Herðubreiðarlindir eru með þeim þekktari. Meðal annarra staða eru Nýidalur, Ásgarður við Kerlingarfjöll, Sigurðarskáli við Kverkfjöll, Drekagil, og Snæfellsskáli við Snæfell.

Önnur mannvirkiBreyta

Mannvirki utan ferðaskála eru umdeild. Félagið Landvernd, aðrir umhverfishópar og ferðafélög hafa gagnrýnt áform um virkjanir, uppbyggða vegi og háspennulínur á miðhálendinu.

,,Fram­kvæmd­irn­ar eru sagðar munu kljúfa víðerni há­lend­is­ins, valda um­ferðargný í stað ör­æfa­kyrrðar og bjóða upp á hættu á frek­ari „lág­lendi­svæðingu“ há­lend­is­ins með upp­bygg­ingu margskon­ar innviða og þjón­ustu á svæðinu. [11]

Hugmyndir eru uppi að leggja háspennulínu yfir Sprengisand. Gagnrýnendur vilja fremur jarðstreng til að minnka umhverfisáhrif.

VirkjanirBreyta

Landsvirkjun hefur reist virkjanir á hálendinu, þar á meðal: Búrfellsvirkjun, Sultartangavirkjun, Búðarhálsvirkjun, Hrauneyjafossvirkjun, Sigölduvirkjun, Vatnsfellsvirkjun og Blönduvirkjun. Kárahnjúkavirkjun sem var lokið að byggja árið 2007 á austurhluta miðhálendisins og Hálslón sem fylgdi því hafði í för með sér pólitískar deilur.

Rammaáætlun hefur verið gerð um orkunýtingarkosti, þar á meðal á hálendinu. Svæði eru sett í nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. Fyrsta rammaáætlunin var samþykkt árið 2013.[12]

VerndunBreyta

Vatnajökulsþjóðgarður þekur stóran hluta austursvæðis hálendisins og er hann á heimsminjalista UNESCO.

Hugmyndir um miðhálendisþjóðgarðBreyta

Umhverfis- og auðlindaráðuneyti hefur tillögur á borði sem myndi gera 85 prósent af miðhálendinu að þjóðgarði. [13]Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra, [14] undirbýr frumvarp um verndun hálendisins; mörk þjóðgarðsins miðist við þjóðlendur og friðlýst svæði á miðhálendinu, þar með talinn Vatnajökulsþjóðgarð. Ýmis sveitarfélög og orkufyrirtæki hafa mótmælt þessum áætlunum. Bent er á að skipulagsvald sveitarfélaga sé skert [15]

Tengt efniBreyta

TenglarBreyta

TilvísanirBreyta

 1. http://www.visindavefur.is/svar.php?id=67980
 2. http://www.ni.is/frettir/nr/14130
 3. http://www.halendi.is/media/files/C1-a3-fleka.jpg
 4. http://www.visindavefur.is/svar.php?id=4690
 5. http://www.umhverfisraduneyti.is/media/PDF_skrar/vatnajokullkort.pdf
 6. http://www.ni.is/frettir/nr/14130
 7. https://www.youtube.com/watch?v=JV_4MUZ_W7U
 8. http://www1.nams.is/fuglar/details.php?val=1&id=21
 9. http://www1.nams.is/fuglar/details.php?val=1&id=10
 10. http://www.ni.is/media/midlunogthjonusta/utgafa/skyrslur_2009/NI-09008_vef.pdf
 11. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/11/30/hefdi_oafturkraef_ahrif_a_midhalendid/
 12. http://www.althingi.is/altext/141/s/0892.html
 13. 85 prósent af miðhálendinu undir þjóðgarðRúv, skoðað 23. júlí 2019
 14. Skiluðu ráðherra skýrsu um miðhálendisþjóðgarð Rúv, skoðað 29. janúar 2020.
 15. Mótmæla þjóðgarði á miðhálendinu Rúv, skoðað 29. jan. 2020.