Blönduvirkjun

vatnsaflsvirkjun á Norðurlandi vestra

Blönduvirkjun er vatnsaflsvirkjun í jökulánni Blöndu sem tekin var í notkun árið 1991. Við Blönduvirkjun eru þrír 50 MW hverflar, samtals 150 MW. Við virkjunina varð til miðlunarlónið Blöndulón á húnvetnsku heiðunum og er það allt að 57 km² og hefur 400 gígalítra miðlunarrými. Heildarfallhæð er 287 m og meðalrennsli er 39 m³ á sekúndu.

Blöndustöð.
Blanda
Blanda

Blöndustöð

breyta

Fyrstu hugmyndirnar af Blöndu komu fram um 1950 þegar byrjað var að gera markvissar áætlanir um vikjun vatnsafls á Íslandi. Fóru fram umfangsmiklar rannsóknir og til að finna hagkvæmustu tillögu til að virkja Blöndu. Tillagan sem byggt var á kom fram 1980. Blönduvirkjun er fyrsta stórvirkjun Íslendinga sem segja má að sé að öllu leyti íslensk hönnun. Framkvæmdir hófust árið 1984 og var miðað við að þeim yrði lokið árið 1988.

Bygging virkjunarinnar

breyta

Framkvæmdir hófust á virkjuninni árið 1984, með jarðgangagerð og var þá stefnt að því að rekstur myndi hefjast haustið 1988. Vegna breyttra markaðsaðstæðna var stíflugerð og niðursetningu véla frestað og gangsetning ákveðin í byrjun október 1991. Blönduvirkjun hófst með formlegum hætti 5. október 1991 þegar Jóhannes Nordal stjórnarformaður Landsvirkjunar ræsti fyrsta hverfil af þremur í rafaflsstöðinni. En stofnun Landsvirkjunar árið 1965 má rekja til þess að íslensk stjórnvöld höfðu hug á að nýta orkulindir landsins betur með því að draga að erlenda fjárfesta í orkufrekan iðnað innanlands. Fram að þeim tíma hafði rafvæðing á Íslandi verið rekin af ríki og sveitarfélögum og stóð rekstur veitufyrirtækja ekki undir nýframkvæmdum í orkumálum. Miðað við orkuspár Landsvirkjunnar var þörf á aukinni orku árið 1991 og þess vegna eru framkvæmdir miðaðar við það ár. Átta árum eftir að framkvæmdir hófust eða árið 1992 var virkjunin komin í fullan rekstur. Virkjunarkostnaðurinn varð í heild 672 milljónir króna en hann var upphaflega áætlaður 540 milljónir króna. Í dag er Landsvirkjun orkufyrirtæki sem leggur grunn að nútíma lífsgæðum og starfar af ábyrgð í anda sjálfbærrar þróunar. Fyrirtækið stefnir að því að verða öflugt fyrirtæki á alþjóðavettvangi á grundvelli sveigjanleika og góðrar þjónustu við viðskiptavin

Við Blönduvirkjun unnu að jafnaðu rúmlega hundrað manns frá stórum fyrirtækjum, Landsvirkjun, Hagvirki, Krafttaki og Metalna. Mestar framkvæmdir voru við undirbúning stíflugerðar sem var í umsjá Hagvirkis, við það unnu fimmtíu manns. Aðalframkvæmdarhlutinn var við stíflugerðina í bergþéttingu meðfram stíflugarðinum. Boraðar eru holur niður á visst dýpi og sementseðju dælt ofan í þær til þéttingar.

Blanda var stífluð við Reftjarnarbungu, um miðja vegu á milli upptaka og árósa. Önnur stífla var reist við upptök Kolkukvíslar nokkru vestar en hún rennur til Vatnsdalsár. Með þessum tveim stíflum myndaðist miðlunarlónið.

Stöðvarhús Blönduvirkjunar er neðanjarðar og yfir því er stjórn- og tengivirkihús. Aðrar helstu byggingar kringum virkjunina eru starfsmannahús, verkstæði og íbúðarhús stöðvarstjóra. Þegar unnið var að jarðgangnagerðinni þá voru allir fletir gangnanna húðaðir með múr og stálflísum sem smjúga inn í bergið og styrkja það.

Blönduvirkjun er frábrugðin öðrum virkjunum að því leyti að hún er neðanjarðar virki. Ekkert orkuver af þessari stærðargráðu hefur vélbúnað sinn að öllu leyti neðanjarðar. Stærsti stigi landsins var einnig settur upp en hann telur 1100 tröppur.

Virkjanir og aflstöðvar

breyta

Bæði vatnsaflsstöðvar og gufuaflsstöðvar nýta sér hringrás vatns. Vatnið sem rennur í gegnum vatnsorkuverin hefur einhvern tímann fallið sem rigning eða snjókorn af himnum ofan. Ef til vill hefur snjókornið lent á jökli þar sem það hefur geymst í hundruð ára áður en það bráðnaði og fór í gegnum vélar eins stöðvarhússins. Nýtanlegur jarðhiti er einnig fólginn í úrkomu sem fellur á jörðina og leitar djúpt niður í jörðu. Þar tekur vatnið upp varma úr heitu bergi og berst síðan aftur upp á yfirborðið.

Að velja stað fyrir virkjun þarf að hafa í huga að til þess að nýta kraftinn sem býr í vatninu er best að velja stað í ánni þar sem fallhæð er sem mest á sem stystri vegalengd. Einnig ræður vatnsmagnið því hve mikla orku er hægt að beisla.

Á Íslandi hefur vatnsaflið fyrst og fremst verið notað til raforkuframleiðslu þar sem nýtni við umbreytingu á vatnsafli í raforku er mjög góð. Einnig er mikill kostur að orkulindin endurnýjast stöðugt og mun halda áfram að gera það nema til komi stórfelldar loftslagsbreytingar.

Hverfillinn sem notaður er í gufuaflstöð notfærir sér sömu lögmál og hverflar í vatnsaflsstöðvum. Í gufuaflstöð er það hins vegar þrýstingurinn frá gufunni sem knýr hverfilinn. Hverfillinn gegnir ásamt rafalanum lykilhlutverki í framleiðslu á rafmagni. Til eru þrjár megingerðir hverfla í vatnsaflsstöðvum; Francis, Pelton og Kaplan.

Hugtakið orkugeta segir til um hversu mikið rafmagn tiltekin stöð getur framleitt. Orkugeta stöðva er mæld í gígawattstundum (GWst).

Áhrif Blönduvirkjunar á lífríki og umhverfi

breyta

Á Íslandi er til nóg af vatni til að virkja til raforku. Hægt er að halda uppi raforkuframleiðslu í landinu án þess að nota orkugjafa sem valda mengun andrúmsloftsins eða gróður-eyðingu við brennslu. Ekki eru allir á eitt sáttir um hvað mikið landrými á að fara undir miðlunarlón. Vatnsaflavirkjanir þarfnast yfirleitt miðlunarlóna til að jafna út dægursveiflur í rennsli og miðla vatni á milli árstíða. Við byggingu vatnsaflsvirkjana fylgir þó óhjákvæmilega röskun á landi og gróðri. Leggur Landsvirkjun mikla vinnu í undirbúning með ítalegum rannsóknum á sem flestum sviðum. Þannig sem minnst tjón hljótist af og jafnvægi ríki áfram í vistkerfinu.

Frá Kolkustíflu er vatni veitt um veituskurði og vötn, samtals um 25 km leið að inntakslóni virkjunarinnar. Gróður þakti stóran hluta landsvæðisins sem fór undir miðlunarlón og inntakslón Blöndustöðvar. Samið var við heimamenn um að virkjunaraðili bætti gróðrartapið með uppgræðslu örfoka lands á heiðum beggja vegna við Blöndu, Auðkúluheiði og Eyvindarstaðaheiði. Landsvirkjun hefur ræktað rúmlega 3000 hektara lands frá árinu 1981, þetta eru umfangsmestu uppgræðsluaðgerðir sem ráðist hefur verið í á hálendi landsins.

Í Blöndu renna fjölmargar vatnsmiklar lindár og dragár frá upptökum og til sjávar. Blanda hefur verið vinsæl veiðiá alla sína tíð en þar má veiða lax, eftir virkjun þykir betra að veiða þar en áður en áin var svo gruggug fyrir virkjun að fiskurinn sá ekki beituna. Eftir virkjun er áin tærari og því er laxinn veiðanlegur á flugu og er áin hentug til hefðbundinnar stangveiði.

Rannsóknir benda til að líffræðilega ástand Blöndu eftir að hún var virkjuð hafi breyst þannig að fiskmagn varð fljótlega mikið í Blöndulóni en fimm árum eftir myndun þess fór vaxtarhraði bleikju og stærð við kynþroska að minnka.

Heimildir og ítarefni

breyta