Hávella (fræðiheiti: Clangula hyemalis) er norðlæg kafönd sem einnig er algeng varptegund á Íslandi. Hún er með algengustu heimskautaöndum heims.

Hávella
Hávellubliki
Hávellubliki
Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Fuglar (Aves)
Ættbálkur: Gásfuglar (Anseriformes)
Ætt: Andaætt (Anatidae)
Ættkvísl: Clangula
Tegund:
C. hyemalis

Tvínefni
Clangula hyemalis
(Linnaeus, 1758)
Clangula hyemalis

Lýsing

breyta

Sennilega er engin íslenskur fugl með fleiri búninga en hávellan, en er hún gjörólík í ásýndum að sumri og að vetri. Sumarbúningur karlfulsins er að mestu leyti dökkbrúnn að ofan, á bringu og á kolli. Andlit og kviður er hvítt. Á veturna er blikinn gjörólíkur. Þá er hann að mestu hvítur með nokkrum dökkbrúnum skellum á vængjum, bringu og hálsi. Aðalskraut karlsins eru tvær langar stélfjaðrir sem hann lætur stundum standa út í loftið á fallegan hátt. Þaðan er enska heiti tegundarinnar dregið, Long-tailed Duck. Lengd karlfuglsins er um 55 cm, en kvenfuglinn, sem ekki er með langar stélfjaðrir, er um 40 cm. Kvenfuglinn er ekki með eins dramatísk búningaskipti. Hún er oftast dökkbrún á baki og kolli, en ljós annars staðar.

Lifnaðarhættir

breyta

Hávellan verpur aðallega við vötn og tjarnir. Á Íslandi er hún gjarnan á hálendinu, ekki síst á Mývatni og nálægum tjörnum. Á veturna halda fuglarnir sig oftast á sjónum allt umhverfis landið. Kollan ein sér um ungauppeldið, en stundum getur kolla tekið að sér fleiri unga en sína eigin. Má þá oft sjá eina eða fleiri kollur með fjölda unga.

Útbreiðsla

breyta
 
Kolla

Hávellan er hánorræn tegund og verpir allt í kringum norðurskautið, þ.e. nyrst í Síberíu, heimskautasvæði Kanada og Alaska, og víða með ströndum Grænlands. Í Evrópu verpir hávellan nyrst í Skandinavíu og eitthvað suður með Noregsströndum. Á Íslandi verpir hún um nær allt land. Á veturna fer hluti stofnins eitthvað suður á bóginn. Stórar vetrarstöðvar eru við strendur Eystrasalts og Norðursjávar. Í Ameríku er hávellan alger farfugl. Vetrarstöðvarnar eru bæði við Kyrrahaf (allt suður til Kaliforníu) og við Atlantshaf (suður til Flórída). Á Íslandi heldur hávellan sig að mestu við strendurnar á veturna. Hávellan er ákaflega algeng. Talið er að vetrarfuglarnir í Eystrasalti einu saman séu um 4 milljónir.

Orðsifjar

breyta

Orðið hávella er eflaust komið af söng eða pípi fuglsins, sem oft heyrast langar leiðir. Fuglarnir eru sérlega raddmiklir og heyrist oft meira í þeim en öðrum öndum. Latneska heiti tegundarinnar er clangula hyemalis. Clangula er dregið af latneska sagnorðinu clango, sem merkir að öskra eða hrópa, enda gefa karlfuglarnir frá sér einkennileg blísturhljóð. Hyemalis er dregið af orðinu hiems, sem merkir vetur, enda lifir tegundin í hánorðri. [1]

Tilvísanir

breyta
  1. Wember, Viktor. Die Namen der Vögel Europas. Aula-Verlag. 2005. Bls. 53.

Heimildir

breyta
   Þessi fuglagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.