Dyngja er breitt, aflíðandi og keilulaga eldfjall sem myndast í langvinnu eldgosi á hringlaga gosopi. Dyngjugos eru svo kölluð flæðigos þar sem hraunið er þunnfljótandi og flæðir langar leiðir. Eldvirkni í dyngjum getur varað í mörg ár eða jafnvel áratugi.

Mauna Kea á Hawaii í Bandaríkjunum, stærsta dyngja jarðarinnar
Skjaldbreiður, dæmigerð dyngja.
Hrauntjörn, Erta Ale, Eþíópía


Útlit fjallsins

breyta

Dyngjur eru auðþekktar, þær líkjast skál eða skildi á hvolfi (Skjaldbreiður).

Flestar dyngjur á Íslandi eru um það bil 1-3 km í þvermál, rísa 50-100 m yfir næsta umhverfi sitt og eru að rúmmál í kringum 0,1 - 2 km3. Sú stærsta er 3-12 km í þvermál og nær upp í 500-600 m yfir umhverfi sitt með 1-9° hlíðhalla. Hér á landi eru dyngjur eingöngu til á rekbeltum landsins.[1] Stundum veldur landslag eða aðrar aðstæður því að dyngja nær ekki að myndast í dyngjugosi. Hraunið rennur burt frá gígnum án þess að hlaða upp dyngjulaga fjalli. Dæmi um þetta er Leitin og Leitahraun á Reykjanesskaga. Hraunið er dæmigert dyngjuhraun en myndar ekki dyngjulaga hraunskjöld og gígurinn er nánast ósýnilegur.

Toppgígurinn

breyta

Efst í dyngjunnni er meira eða minna kringlóttur gígur. Þeir dýpstu eru 50-170 m djúpir og allt að 800-900 m breiðir. Í dyngjugígnum kraumar stór hrauntjörn svo lengi sem virkni er í eldstöðinni – sem getur verið í marga áratugi (sjá Kilauea-eldstöðin á Hawaii eða Erta Ale-dyngjan í Etíópíu).[1]

Jarðfræði

breyta

Hrauntegund

breyta

Lengd og stærð eldgosa á þurru landi eru háðar efnasamsetningu og gerð jarðlagastaflans þar sem kvikan streymir upp úr iðrum jarðar. Basalt rennur t.d. oft líkt og seigfljótandi vökvi, hratt og greiðlega. Í flestum dyngjum er hrauntegundin ólivínþóleít. Hraun af þessu tagi storknar sem helluhraun og gosið kallast flæðigos (effusive eruption á ensku).[1]

Kvikustrókar og flæðigos

breyta

Úr eldstöðinni geta staðið kvikustrókar sem innihalda eldfjallagas, eins og sást síðast í Holuhraunsgosi. Svoleiðis tröllslegir gosbrunnur úr glóandi efni standa ýmist viðstöðulaust í loft upp eða hækka og lækka í takt við gaslosunina í eldstöðinni og þrýstingsbreytingar í gosrásinni.[1]

Flæðigos á Íslandi hefjast venjulega á stuttum eða löngum gossprungum. Síðan, eins og gerðist síðast í Holuhrauni, einangrast virknin með tímanum við eitt eða fá gosop (eins og gerðist við Baug) og þá í flestum tilvikum um miðbik sprungunnar. Þegar gosvirkni sem þessi heldur áfram í mjög langan tíma, mánuðum og árum, kannski áratugum saman, myndast dyngja.[1]Það sást t.d. þegar Surtsey varð til.

Dyngjugos á Íslandi eru talin hafa verið mjög róleg gos með lítið hraunflæði á hverjum tíma og er það áætlað út frá upphleðslu dyngjanna í gosunum. Við upphaf dyngjugoss verður upphleðslan mest næst gosopinu og þannig hlaðast upp umfangsmiklar dyngjur. [2]

Eins og sjá má í löndum þar sem virkar dyngjur finnast, t.d. á Hawaii eða Réunion (eldfjallið Piton de la Fournaise), rennur líka mikið af hrauni neðanjarðar, síðar í gosinu og kemur upp víðs vegar í hlíðum fjallsins. Margföld lög af hrauntungum byggja þannig upp fjallið og hlaða upp hraunin umhverfis.[2]

Dyngjugos

breyta
 
Dyngjugos
 
Mauna Ulu, Hawaii, 1974
1 = (gos)mökkur, gosstrókur, gjóskuský
2 = gosop
3 = gígur
4 = hrauntjörn
5 = (kviku)gösop
6 = hrauná
7 = hraun- og gjóskulög
8 = berglögin
9 = sylla
10 = gosrás og gosop
11 = kvikuhólf
12 = berggangur

Dyngjur

breyta

Dyngjur á Íslandi

breyta

Flestar dyngjur hérlendis eru frá lokum ísaldar, sú yngsta frá nútíma, 3000 ára gömul (Lambahraun) eða bara 50 ára (Surtsey).

Dyngjur finnast á Íslandi í öllum landshlutum sem eru nálægt rekbeltum. Á Reykjanesskaga eru til dæmis Þráinsskjöldur, Heiðin há og Selvogsheiði.

Á Langjökulssvæði eru Skjaldbreiður, Ok, Lambahraun og Kjalhraun.

 
Toppgígur Skjaldbreiðs

Og á Norðausturlandi eru til dæmis Þeistareykjabunga – sem er í rauninni eldstöð samvaxin úr tveimur dyngjum -, Ketildyngja og Trölladyngja í Ódáðahrauni.[1]

Fleiri dyngjur

breyta

Stórar dyngjur finnst á mörgum úthafseyjum, t.d. á Hawaii, Galapagoseyjum og Réunion og á meginlöndum nálægt rekbeltum, t.d. í Austur-Afríku.

Stærsta fjall sólkerfisins, Ólympusfjall á Mars, er dyngja.

Myndasyrpa

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 Ari Trausti Guðmundsson, Ragnar Th. Sigurðsson: Íslenskur jarðfræðilykill. Reykjavík, Mál og Menning, 2004
  2. 2,0 2,1 Snæbjörn Guðmundsson: Vegvísir um jarðfræði Íslands. Reykjavík, Mál og Menning, 2015

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta