Skjálfandafljót er jökulfljót sem á upptök sín í Vonarskarði sem er á milli Vatnajökuls og Tungnafellsjökuls og fellur til sjávar í Skjálfanda. Fljótið er um 180 kílómetra langt og er það því fjórða lengsta vatnsfall á Íslandi. Vatnið í fljótinu er ekki eingöngu jökulvatn. Ýmsar drag- og lindár blandast því á leið þess til sjávar. Þetta gerir það að verkum að fiskur gengur upp í fljótið og er stunduð silungs- og laxveiði í fljótinu og þverám þess.

Skjálfandafljót nálægt ósum þess. Í bakgrunni má sjá Aðaldalshraun og Skjálfanda.
Við Goðafoss
Skjálfandafljót á hálendinu.

Farvegur fljótsins

breyta

Eftir að hafa runnið norður með Sprengisandi fellur fljótið niður Bárðardal en það hefur verið íbúum dalsins umtalsverður farartálmi í gegnum tíðina. Margir þekktir fossar eru í fljótinu, syðstur og efstur er Gjallandi, Aldeyjarfoss og Hrafnabjargafoss eru innarlega í Bárðardal og Goðafoss nokkru neðar. Nokkrum kílómetrum neðan við Goðafoss klofnar fljótið og umvefur þar Þingey, hinn forna þingstað héraðsins sem Þingeyjarsýslur heita eftir. Meginkvíslin liggur vestan við eyna og fellur um Barnafoss. Norðan Þingeyjar fellur önnur kvísl um Ullarfoss ofan í Skipapoll.

Norðan Þingeyjar liðast fljótið eftir miklu flatlendi það sem eftir er leiðarinnar til sjávar. Þar getur fljótið við vissar aðstæður flætt yfir bakka sína og ógnað mannvirkjum. Síðast gerðist þetta í febrúar árið 2004 en þá ollu flóð í fljótinu töluverðu tjóni á vegum á svæðinu. Rauf það meðal annars skarð í þjóðveg 85 og vegasamband að nokkrum bæjum í Kaldakinn.

Fram yfir miðja tuttugustu öld var ósinn upp við Ógöngufjall sem er yst Kinnarfjalla. Ósinn var síðar færður til austurs. Við þá framkvæmd varð til allstórt lón upp við fjallið. Með tímanum leitaði ósinn enn austar og fór þar að brjóta gróið land. Það varð til þess að ósinn var aftur færður til vesturs árið 2009 og er hann nú nálægt sínum gamla stað, skammt frá björgum Ógöngufjalls.

Heimildir

breyta