Þjórsá
Þjórsá er lengsta á Íslands, alls 230 km löng. Hún er jökulá að uppruna sem á meginupptök sín í Hofsjökli og rennur í suður til sjávar vestan Þykkvabæjar. Í hana falla fjölmargar dragár og lindár. Þjórsá er sýslumörk Rangárvallasýslu og Árnessýslu og er sóttvarnarlína hvað varðar búfjárveikivarnir. Ennfremur er Þjórsá næstvatnsmesta á landsins með 363 rúmmetra á sekúntu eftir einungis Ölfusá sem hefur um 400.
Þjórsá | |
---|---|
Staðsetning | |
Land | Ísland |
Einkenni | |
Uppspretta | Hofsjökull |
Hnit | 63°47′00″N 20°48′00″V / 63.7833°N 20.8°V |
Árós | |
• staðsetning | Ströndin nálægt Þykkvabæ |
Lengd | 230 km |
Vatnasvið | 7.578 km² |
Rennsli | |
• miðlungs | 310-360 m³/s |
breyta upplýsingum |
Merking
breytaOrðið þjór merkir naut og er Þjórsá því Nautsá. Orðið þjór kemur nokkrum sinnum fyrir í fornritum, en lifir nú einungis í örnefnum. Í nágrannamálunum eru til samsvarandi orð: danska - tyr, sænska - tjur, latína - taurus, írska - tarbh. Íslendingar tóku upp úr írsku orðið „tarfur“, og hefur það ef til vill rutt orðinu „þjór“ úr málinu.
Samgöngur
breytaTvær brýr eru á ánni, önnur á þjóðvegi nr. 1 neðan við Þjórsártún og hin við Sandafell rétt neðan Sultartangavirkjunar. Gamla brúin við Þjótanda var tekin í notkun árið 1895 og endurgerð nokkru neðar árið 1949. Nýja brúin, sem leysti þá gömlu af hólmi, var tekin í notkun árið 2003 og er tæpur kílómetri á milli þeirra.
Nokkur vöð eru á ánni, þau helstu eru Nautavað við Þjórsárholt og Hagavað við bæinn Haga.
Gamla Sprengisandsleiðin lá inn Gnúpverjaafrétt og yfir Þjórsá á vaði á móts við Sóleyjarhöfða, sem er austan árinnar. Þarna vestan ár er fjallkofi fyrir fjallmenn Gnúpverja, sem kallast Bólstaður.
Fossar
breytaÍ Þjórsá eru margir fagrir fossar. Sé talið ofan frá er röðin eftirfarandi: Hvanngiljafoss (Kjálkaversfoss), Dynkur, Gljúfurleitarfoss, Tröllkonuhlaup, Þjófafoss, Minna-Núps flúðir, Búðafoss og Hestfoss sitt hvoru megin við Árnes og að lokum Urriðafoss.
Eyjar
breytaÁrnes og Hagaey eru meðal stærstu eyja í ánni. Eyjan Viðey (gengur einnig undir heitinu Minnanúpshólmi) hefur nýlega verið friðuð og er sérstök vegna gróskumikils birkiskógar.[1] Traustholtshólmi er skammt upp frá ósum árinnar þar var samnefndur bær sem nú er kominn í eyði.
Fiskigengd
breytaMiklar nytjar eru af veiði í Þjórsá en þar er einkum stunduð netaveiði. Í ánni lifa þær fisktegundir sem algengar eru í ám og vötnum landsins, lax, urriði, bleikja, hornsíli og áll. Flundra hefur einnig veiðst í Þjórsárósi. Í Þjórsá og þverám hennar er að finna einn af stærri laxastofnum landsins og góður stofn sjóbirtings gengur á vatnasvæðið. Þar eru einnig staðbundin bleikja og urriði. Mestur hluti villtra laxa sem ganga á vatnasvæðið er alinn upp í Þjórsá sjálfri. Selir ganga upp í Þjórsá, allt upp að Urriðafossi, til lax- og silungsveiða.
Virkjanir
breytaÍ Þjórsá og þverám hennar Tungnaá og Köldukvísl eru sjö vatnsaflsvirkjanir í eigu Landsvirkjunar: tvær Búrfellsstöðvar, Sultartangastöð, Hrauneyjafossstöð, Sigöldustöð, Vatnsfellsstöð og Búðarhálsvirkjun. Á teikniborðinu eru þrjár til viðbótar; Hvammsvirkjun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun.[2]
Tilvísanir
breyta- ↑ http://visir.is/section/MEDIA99&fileid=VTVF761A4BE-A7B4-4A6F-9EB8-FDC3042ECE97
- ↑ „Nýjar virkjanir í Þjórsá“. 22. nóvember 2007. Sótt 1. desember 2007.
Heimildir
breyta- „Hver er lengsta á á Íslandi og hvað er hún löng?“. Vísindavefurinn.
- „Vegagerðin - saga og minjar - söguleg gögn - blaðaefni um vegagerð árið 1895b“. Sótt 26. febrúar 2006.
- Gísli Gestsson, safnvörður. Árbók FÍ 1956. Árnessýsla milli Hvítár og Þjórsár.
Tengill
breyta- Nýjar virkjanir í Þjórsá, upplýsingavefur Landsvirkjunar
- Umræðuvefur um virkjanir í Þjórsá Geymt 24 maí 2009 í Wayback Machine
- Vísindavefurinn: „Af hverju dregur Þjórsá nafn sitt?“ Geymt 5 febrúar 2011 í Wayback Machine