Kaldidalur

Kaldidalur er fjallvegur sem liggur frá Reyðarvatni innan Lundarreykjadals, milli Langjökuls og Oks til efstu bæja í Hálsasveit, innan við Húsafell, og síðan má halda áfram um Stórasand til Norðurlands.

Séð til Langjökuls af Kaldadal.

Hæsti hluti Kaldadalsvegar, Langihryggur, er í 727 metra hæð yfir sjó og er Kaldidalur því einn hæsti fjallvegur landsins. Vegurinn er fær flestum bílum nokkra mánuði á hverju sumri. Hann var ruddur sumarið 1830 að frumkvæði Fjallvegafélagsins, sem Bjarni Thorarensen amtmaður stýrði. Bílfær vegur var fyrst lagður um Kaldadal rétt fyrir 1930 og var það þá eini bílfæri vegurinn milli Suður- og Norðurlands því vegur var ekki kominn fyrir Hvalfjörð.

Kaldidalur var fjölfarinn áður fyrr, ekki síst milli Þingvalla og uppsveita Borgarfjarðar, en Norðlendingar notuðu hann einnig, meðal annars þegar þeir riðu til þings. Sunnarlega á dalnum er beinakerling, varða sem ferðamenn stungu áður mismunandi klúrum vísum í. Á Kaldadal er Skúlaskeið, grýttur og erfiður kafli og er um hann sú þjóðsaga að maður sem Skúli hét hafi verið dæmdur til dauða á Alþingi fyrir einhverjar sakir en sloppið á hesti sínum, Sörla, og tekist að sleppa undan þeim sem hann eltu þegar hann reið þarna yfir. Um þetta orti Grímur Thomsen kvæðið Skúlaskeið.