Landsvirkjun
Landsvirkjun er sameignarfélag í eigu íslenska ríkisins og er stærsti raforkuframleiðandi Íslands. Landsvirkjun rekur 14 vatnsaflsstöðvar og þrjár jarðvarmastöðvar. Rafmagnið er selt annars vegar í heildsölu fyrir almennan markað og hins vegar beint til stóriðju.
Landsvirkjun | |
Rekstrarform | Opinbert fyrirtæki |
---|---|
Stofnað | Reykjavík, Íslandi (1965) |
Staðsetning | Reykjavík, Ísland |
Lykilpersónur | Jónas Þór Guðmundsson, stjórnarformaður,
Hörður Arnarson, forstjóri |
Starfsemi | Raforkuvinnsla og sala |
Starfsfólk | 270 (2017) |
Vefsíða | www.landsvirkjun.is |
Saga
breytaLandsvirkjun var stofnuð af íslenska ríkinu og Reykjavíkurborg 1. júlí 1965. Þá féll í skaut Landsvirkjunar fyrirtækið Sogsvirkjun sem var helmingafélag ríkisins og Reykjavíkurborgar. Það fyrirtæki átti og rak aflstöðvarnar við Sogið: Ljósafossstöð, Steingrímsstöð og Írafossstöð. Fyrst um sinn beitti Landsvirkjun sér eingöngu á Suðvestur- og Vesturlandi. Fyrsta stórframkvæmd Landsvirkjunar var bygging Búrfellsvirkjunar sem lauk á árunum 1969-70. Þá byggði Landsvirkjun Sigölduvirkjun á árunum 1973-77. Árið 1977 hófust framkvæmdir við Hrauneyjafossvirkjun og var hún tilbúin 1981.
Árið 1983 keypti Akureyrarbær 5% eignarhlut í Landsvirkjun af Reykjavíkurborg. Við þau kaup rann fyrirtækið Laxárvirkjun inn í Landsvirkjun. Það var helmingafélag ríkisins og Akureyrarbæjar og því tilheyrðu þrjár litlar aflstöðvar í Laxá í Aðaldal og gufuaflstöð í Bjarnarflagi.
Árið 1984 réðist Landsvirkjun í framkvæmdir við Blönduvirkjun og hóf hún rekstur 1991. Árið 1997 hófust framkvæmdir við Sultartangavirkjun í Þjórsá og var hún fullbúin árið 2000. Árið 1999 var Vatnsfellsvirkjun byggð og lauk þeim framkvæmdum 2001. Landsvirkjun keypti Kröflustöð af RARIK árið 1986.
Við gildistöku nýrra raforkulaga árið 2005 var flutningur raforkunnar aðgreindur frá framleiðslunni. Flutningssvið Landsvirkjunar var skilið frá Landsvirkjun og rann það inn í fyrirtækið Landsnet sem nú hefur umsjón með flutningkerfi raforkunnar á Íslandi.
Í nóvember 2006 samþykktu borgarstjórn Reykjavíkur og bæjarstjórn Akureyrar að selja hluti sína í Landsvirkjun. Lögum þar að lútandi var breytt í desember.[1][2] Við það varð Landsvirkjun sameignarfyrirtæki í eigu ríkisins.
Byggingu Kárahnjúkavirkjunar norðan Vatnajökuls lauk haustið 2008 og hófst raforkuframleiðsla í aflstöð virkjunarinnar, Fljótsdalsstöð, í lok mars 2007.
Árið 2005 kom út bókin „Landsvirkjun 1965 - 2005, fyrirtækið og umhverfi þess“.[3]
Starfsemin
breytaLandsvirkjun er orkufyrirtæki í eigu íslenska ríkisins og vinnur rafmagn úr vatnsafli, jarðvarma og vindi. Fyrirtækið vinnur 71% allrar raforku á Íslandi.[4]
Stjórn
breytaStjórn Landsvirkjunar er samkvæmt lögum um Landsvirkjun skipuð af fjármálaráðherra á aðalfundi fyrirtækisins sem haldinn skal fyrir lok aprílmánaðar ár hvert. Ber hún ábyrgð á fjármálum og rekstri Landsvirkjunar. Stjórn Landsvirkjunar ræður forstjóra sem veitir fyrirtækinu forstöðu. Stjórn og forstjóri fara með stjórn fyrirtækisins.[5]
Í stjórn Landsvirkjunar sitja:
- Jónas Þór Guðmundsson (formaður), hæstaréttarlögmaður
- Álfheiður Ingadóttir (varaformaður), líffræðingur
- Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar
- Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir
- Gunnar Tryggvason
Forstjóri Landsvirkjunar er Hörður Arnarson.
Mannauður
breytaFastráðið starfsfólk Landsvirkjunar er um 270 á starfsstöðvum víðs vegar um land. Þess utan störfuðu 170 ungmenni og 62 háskóla- og tækninemar við sumarstörf.[6]
Framkvæmdastjórar Landsvirkjunar eru eftirfarandi:
- Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri
- Einar Mathiesen, orkusvið
- Stefanía G. Halldórsdóttir, markaðs- og viðskiptaþróunarsvið
- Óli Grétar Blöndal Sveinsson, þróunarsvið
- Gunnar Guðni Tómasson, framkvæmdasvið
- Rafnar Lárusson, fjármálasvið
Aflstöðvar
breytaLandsvirkjun starfrækir fimmtán vatnsaflsstöðvar og þrjár jarðvarmastöðvar víðs vegar um landið á fimm starfssvæðum. Íslendingar vinna 99% allrar raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum. Landsvirkjun vinnur þrjá fjórðu hluta þessarar orku úr vatnsafli og jarðvarma en árleg orkuvinnsla fyrirtækisins er um 14.000 GWst.[7]
Aflstöð | Gangsett | Orkugjafi | Uppsett afl (MW) |
Orkuvinnsla (GWst/ár) |
---|---|---|---|---|
Bjarnarflag | 1969 | Jarðvarmi | 5 | 42 |
Blöndustöð | 1991 | Vatnsafl | 150 | 990 |
Búðarhálsstöð | 2014 | Vatnsafl | 95 | 585 |
Búrfellsstöð I | 1972 | Vatnsafl | 270 | 2.300 |
Búrfellsstöð II | 2018 | Vatnsafl | 100 | 700 |
Fljótsdalsstöð | 2007 | Vatnsafl | 690 | 5.000 |
Hrauneyjafossstöð | 1981 | Vatnsafl | 210 | 1.300 |
Írafossstöð | 1953 | Vatnsafl | 48 | 236 |
Kröflustöð | 1977 | Jarðvarmi | 60 | 500 |
Laxárstöð I | 1939 | Vatnsafl | 5 | 3 |
Laxárstöð II | 1953 | Vatnsafl | 9 | 78 |
Laxárstöð III | 1973 | Vatnsafl | 13,5 | 92 |
Ljósafossstöð | 1937 | Vatnsafl | 16 | 105 |
Sigöldustöð | 1978 | Vatnsafl | 150 | 920 |
Steingrímsstöð | 1959 | Vatnsafl | 27 | 122 |
Sultartangastöð | 1999 | Vatnsafl | 120 | 1.020 |
Vatnsfellsstöð | 2001 | Vatnsafl | 90 | 490 |
Þeistareykjastöð | 2017 | Jarðvarmi | 90 | 738 |
Rannsóknir og þróun
breytaLandsvirkjun stundar rannsóknir á lífríki landsins, veðurfari, vatnafari, jöklum, jarðfræði og fleiru í samstarfi við vísindamenn, háskóla, menntastofnanir og fyrirtæki, innan sem utan landsteina Íslands.
Rammaáætlun
breytaLandsvirkjun er með virkjunarkosti til rannsókna víðs vegar um landið en kostirnir eru misjafnlega langt komnir í undirbúnings- og leyfisferli. Þingsályktunartillaga um vernd og nýtingu landsvæða (rammaáætlun) var samþykkt í janúar 2013 og flokkar hún virkjunarkosti í orkunýtingar-, bið- og verndarflokk á grundvelli laga um verndar- og orkunýtingaráætlun. Flokkunin tekur til alls 67 virkjunarkosta en þar af eru 16 í orkunýtingarflokki, 31 í biðflokki en 20 í verndarflokki.[8]
Þróunarverkefni
breytaLandsvirkjun stendur að þróunarverkefnum varðandi sæstreng, djúpborun og vindmyllur.
Sæstrengur
breytaÍ rúmlega 60 ár hafa verið uppi hugmyndir um lagningu sæstrengs milli íslenska raforkukerfisins og Skotlands. Á árunum 2009 til 2010 fóru fram at huganir á vegum Landsvirkjunar og Landsnets um hvort slíkt verkefni væri tæknilega framkvæmanlegt og arðbært en frekari athuganir fara nú fram. Talið er að ef ráðist verður í lagningu sæstrengs þá muni taka um það bil fimm ár að framleiða og leggja strenginn, reisa landsstöðvar, háspennulínur og fleira.[9]
Djúpborun
breytaÍslenska djúpborunarverkefnið er alþjóðlegt rannsóknarverkefni sem hefur það að markmiði að bora dýpra niður í jörðina en áður hefur verið gert og skila þannig allt að tíu sinnum meiri orku úr hverri holu en hefðbundnar aðferðir. Þegar hefur verið borað niður á kviku í um 2100 km dýpi en sú hola reyndist kvikuhola, ekki djúpborunarhola. Frá árinu 2010 hafa farið fram rannsóknir til að reyna að finna leiðir til að nýta þessa orku.[10]
Vindmyllur
breytaTvær vindmyllur voru settar upp á Hafinu (sem er sléttlendi ofan Búrfells) í desember 2012 í rannsóknarskyni. Vindmyllurnar eru hvor um sig 900 kW og samanlögð raforkuframleiðsla þeirra er 5,4 GWst/ári, sem nægir til að sjá 1.200 heimilum fyrir rafmagni. Turn vindmyllanna er 55 metra hár og hver spaði 22 metrar á lengd svo heildarhæð myllanna í efstu stöðu er 77 metrar. Safnað er upplýsingum um arðsemi og rekstur vindmyllanna við séríslenskar aðstæður, ísingu, skafrenning, ösku- og sandfok.[11]
Samfélagsábyrgð
breytaLandsvirkjun hefur sérstaka samfélagsábyrgðarstefnu og hefur frá árinu 2010 rekið sérstakan Samfélagssjóð.[12]
Umhverfi
breytaLandsvirkjun er með vottað umhverfisstjórnunarkerfi samkvæmt alþjóðastaðlinum ISO 14001 og hefur farið í gegnum ferli sem felur í sér stefnumótun á sviði umhverfismála og ítarlega skoðun á hvaða umhverfisáhrif starfsemi fyrirtækisins hefur.[13]
Gagnrýni
breytaMeðal margvíslegrar gagnrýni sem birst hefur á starfsemi Landsvirkjunar, einkum virkjanaframkvæmdirnar við Kárahnjúka, má telja bókina Draumalandið eftir Andra Snæ Magnason.
Tengt efni
breytaTilvísanir
breyta- ↑ „Sala á hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun samþykkt í borgarstjórn“. 21. nóvember 2006.
- ↑ „Ný stjórn skipuð hjá Landsvirkjun“. 28. desember 2006.
- ↑ „Saga Landsvirkjunar“. nóvember 2008.
- ↑ „Vefur Orkustofnunar“. Afrit af upprunalegu geymt þann 10. október 2017. Sótt 1. júní 2018.
- ↑ „Stjórn Landsvirkjunar 2014“. júní 2014.
- ↑ „Ársskýrsla Landsvirkjunar 2017“. febrúar 2018.
- ↑ „Ársskýrsla Landsvirkjunar 2017“. febrúar 2018.
- ↑ „Rammaáætlun“. júní 2014.
- ↑ „Sæstrengur“. júní 2014.
- ↑ „Djúpborun“. júní 2014.
- ↑ „Vindmyllur“. júní 2014.
- ↑ „Samfélagsábyrgð“. júní 2014.
- ↑ „Umhverfismál“. júní 2014.
Tenglar
breyta- Heimasíða Landsvirkjunar
- Lög um Landsvirkjun
- Lög um breyting á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun, með síðari breytingum
Landsvirkjun í fjölmiðlum
- „Hlutafélagarekstur er til skoðunar“; grein í Morgunblaðinu 1999
- „Hörður Arnarson ráðinn forstjóri Landsvirkjunar“; af Vísi.is 2009
- „Skuldir Landsvirkjunar nema 380 milljörðum“; af Vísi.is 28. okt. 2009
- „Stóriðja borgar fjórðung af því orkuverði sem heimili borga“; grein af Vísi.is 16. apr. 2010
- „Greiða 1,8 milljarð í arð til eiganda“; grein af Vísi.is 2012