Þjórsárver er samheiti yfir ver og gróðursvæði milli Hofsjökuls og Sprengisands. Þjórsárver eru einstök í íslenskri náttúru að því leyti að gróðurþekjan er í yfir 600 metra hæð og þar á einn þriðji hluti allra heiðagæsa í heiminum varpstöðvar sínar. Afréttir Gnúpverja (Gnúpverjaafréttur) og Ásamanna liggja meðal annars í Þjórsárverum.

Náttúrufar

breyta

Þjórsárver eru gróðursæl ver með tjörnum og rústum. Vestan Þjórsár einkennast verin einnig af þeim mörgu jökulkvíslum sem koma undan Hofsjökli. Svæðið er flatlent og hallalítið. Innst í Þjórsárverum eru tvö Arnarfell; Arnarfell hið mikla og Arnarfell hið litla. Verin sjálf eru að mestu leyti vestan Þjórsár sunnan Hofsjökuls. Gróðursældin stingur í stúf við harðneskjulegt umhverfið, en þarna er að finna gróskumiklar og fjölskrúðugar flæðilendur með fjölbreyttu gróðurfari. Fimm af þeim sex vistgerðum sem taldar eru hafa mest verndargildi á miðhálendinu finnast á Þjórsárverasvæðinu, gilja- og lyngmóavistir, víðikjarrvist, lágstararflóavist, rústamýrarvist og hástaraflóavist. Í Þjórsárverum er eitt stærsta sífrerasvæði landsins.

Plöntur og annar gróður

breyta

Að minnsta kosti 663 tegundir háplantna, mosa og fléttna finnast í Þjórsárverum, þar af 187 tegundir háplantna, 237 tegundir mosa og 239 tegundir fléttna.[1]

Margar sjaldgæfar tegundir vaxa í Þjórsárverum. Fjórar háplöntutegundir á válista finnast í Þjórsárverum. Þær eru naðurtunga, mánajurt, haustbrúða og snækobbi. Þjórsárver eru heimili að minnsta kosti fimm sjaldgæfra mosategunda, þar af tveggja sem eru sjaldgæfar í heiminum. Það eru peruhnokki og fjallarindill. Fjórtán sjaldgæfar fléttutegundir lifa í Þjórsárverum, þar af þrjár sem Náttúrufræðistofnun Íslands telur þurfa sérstaka vernd.[2] Þær eru dílbreyskja (Stereocaulon paschale), Caloplaca festivella og Thrombium epigaeum.[1]

Dýralíf

breyta

Í Þjórsárverum hafa sést 47 fuglategundir og hafa allt að 27 tegundir orpið á svæðinu, þar af fimm tegundir sem eru á válista. Í Þjórsárverum verpa þriðjungur allra heiðagæsa í heiminum. Sumarið 1951 rannsakaði Peter Scott stofninn og skrifaði um það bók.

Af smádýrum hafa 284 tegundir úr Þjórsárverum verið nafngreindar, þar af sextán sjaldgæfar tegundir og þrjár sem ekki hafa fundist annars staðar á Íslandi.[1]

Friðun

breyta

Frá árinu 1981 hafa Þjórsárver verið friðuð samkvæmt Umhverfisstofnun og Ramsar-samþykktin nær utan um votlendið og fuglalífið.

Virkjanamál

breyta

Landsvirkjun hefur lengi haft á teikniborðinu að reisa í Þjórsárverum stíflu og mynda þar miðlunarlón til að safna vatni yfir vetrartímann. Því ætti síðan að dæla yfir í Þórisvatn til að nýta það í öllum virkjunum á Þjórsár-Tungnár-svæðinu. Við þetta myndi stórt gróðursvæði fara undir vatn og fossar í Þjórsá týnast vegna þess hve lítið vatn yrði í þeim. Talað var um „9 til 5 fossa“ – hægt væri að hleypa vatni á þá á milli klukkan 9 og 5 yfir daginn svo ferðamenn gætu notið þeirra.

Tenglar

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 Erling Ólafsson, Borgþór Magnússon, Guðmundur Guðjónsson, Guðmundur A. Guðmundsson, Hörður Kristinsson, Kristbjörn Egilsson, Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Sigurður H. Magnússon og Starri Heiðmarsson (2009). Vistgerðir á miðhálendi Íslands - Þjórsárver.[óvirkur tengill] Skýrsla Náttúrufræðistofnunar nr. NÍ-09019. Reykjavík, Náttúrufræðistofnun Íslands. ISSN 1670-0120.
  2. Harðardóttir, M., Ólafsson, E., Skarphéðinsson, K. H., & Einarsson, S. (2008). Verndun svæða, vistgerða og tegunda. Geymt 2 desember 2021 í Wayback Machine Skýrsla nr. NÍ-08008, Tillögur Náttúrufræðistofnunar Íslands vegna náttúruverndaráætlunar 2009–2013.
   Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.