Wikipedia:Grein mánaðarins/03, 2019
Áhrif erlendra hvalveiðimanna á íslenskt samfélag voru talsverð á þeim stöðum sem hvalveiðimennirnir reistu hvalstöðvar sínar.
Fyrstu heimildir um hvalveiðar í atvinnuskyni á Íslandi eru veiðar Baska og Hollendinga upp úr aldamótunum 1600. Baskar byggðu að minnsta kosti þrjár landstöðvar, en aðeins hvalstöðin á Strákatanga hefur verið grafin upp af fornleifafræðingum. Á Strákatanga fannst mikið magn tóbakspípa (krítarpípur), sem er til marks um að hvalveiðimennirnir hafi komið með varning frá Nýja-heiminum, eins og tóbak, til Íslands og stundað þar ólöglega verslun við Íslendinga á tímum einokunarverslunarinnar.
Hvalveiðar Norðmanna á 19. öld voru veiðar af áður óþekktri stærðargráðu við Íslandsstrendur. Átti vera þeirra eftir að hafa talsverð áhrif á íslenskt þjóðfélag og kenna Íslendingum hvernig standa skyldi að stórútvegi. Að auki áttu norsku hvalveiðimennirnir eftir að hafa áhrif á efnahags- og menningarlegt líf Íslendinga.