Abdúl Hamid 2. (عبد الحميد ثانی á Ottómantyrknesku, Abdülhamit á nútímatyrknesku) (21. september 184210. febrúar 1918) var 34. soldán Tyrkjaveldis og sá síðasti sem réð yfir ríkinu með alræðisvaldi.[1] Tyrkjaveldi var í stöðugri hnignun á valdatíma hans. Hann réð frá þeim 31. ágúst 1876 þar til honum var steypt af stóli stuttu eftir Ungtyrkjabyltingu ársins 1908, þann 27. apríl 1909. Samkvæmt samkomulagi við hina lýðveldissinnuðu Ungtyrki tók hann aftur upp stjórnarskrá sem hann hafði upphaflega komið í gildi árið 1876.[2] Þá hafði stjórnarskráin þótt til marks um umbótasinnaða stjórnarhætti Abdúl Hamid. Hann hafði afnumið hana og leyst upp þing Tyrkjaveldis árið 1878 til að sporna við vestrænum áhrifum á Tyrkjaveldi og ráðið sem einvaldur næstu þrjá áratugina.

Skjaldarmerki Ósman-ætt Tyrkjasoldán
Ósman-ætt
Abdúl Hamid 2.
Abdúl Hamid 2.
السلطان عبد الحميد الثاني
Ríkisár 31. ágúst 1876 – 27. apríl 1909
SkírnarnafnAbdü’l-Ḥamīd-i sânî
Fæddur21. september 1842
 Topkapı-höll, Istanbúl
Dáinn10. febrúar 1918 (75 ára)
 Beylerbeyi-höll, Istanbúl
GröfÇemberlitaş, Fatih
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Abdúl Mejid 1.
Móðir Tirimüjgan Kadın
Börn17

Æviágrip

breyta

Tyrkjaveldi nútímavæddist nokkuð á valdatíð hans: Stjórnsýslukerfið var bætt, járnbrautir voru byggðar í Rúmelíu, Anatólíu, um Bagdad og Hejaz. Auk þess varð til skráningarkerfi fyrir íbúafjöldann, stjórn var sett á fjölmiðlun og fyrsti nútímalögfræðiskólinn var stofnaður árið 1898. Víðtækustu umbæturnar voru í menntakerfinu: Fjölmargir skólar voru settir á fót, þ. á m. lagaskóli, listaskóli, viðskiptaskóli, verkfræðiskóli, dýralæknaskóli, landbúnaðarskóli málfræðiskóli ásamt öðrum. Háskólinn í Istanbúl, sem Abdúl Hamid lokaði reyndar árið 1881, var opnaður á ný árið 1900 og menntakerfi grunn-, framhalds- og hernaðarskóla var sett á fót um allt veldið. Aðallega voru það þýsk fyrirtæki sem tóku að sér uppbyggingu byggingu járnbrauta og símskeytakerfa. Á milli 1871 til 1908 náði tyrkneska ríkisstjórnin því „nýju stigi skipulags og vandvirkni.“[3][4]

Vestrænir fjölmiðlar kölluðu Abdúl Hamid „rauða soldáninn“ vegna fjöldamorða gegn Armenum á valdatíð hans og beitingu leynilögreglu til að kveða niður andóf og lýðveldishyggju.[5][6] Þessar aðgerðir soldánsins leiddu til þess að misheppnuð tilraun var gerð til að koma honum fyrir kattarnef árið 1905. [7]

Ungtyrkjabyltingin 1908

breyta

Sumarið 1908 braust Ungtyrkjabyltingin út. Abdúl Hamid lét nánast samstundis undan kröfum Ungtyrkja þegar hann frétti að hermenn frá Salóniku, sem þótti Tyrkjaveldi niðurlægt í Makedóníu og voru leiðir á að soldáninn njósnaði um þá, væru að búast til árásar á Konstantínópel. Þann 24. júlí tilkynnti Abdúl Hamid að stjórnarskrá ársins 1876 væri nú aftur í gildi, hætti njósnum og ritskoðun, og skipaði svo fyrir að pólitískum föngum yrði sleppt.

Þann 17. desember setti Abdúl Hamid þing Tyrkjaveldis á ný úr hásæti sínu og sagði að fyrra þingið hefði verið „leyst upp tímabundið þar til menntun fólksins kæmist á nógu hátt stig með útvíkkun kennslu um allt veldið.“ Í reynd gerði þetta nýja fyrirkomulag Abdúl Hamid að þingbundnum konungi með lítil sem engin pólitísk völd. Þetta hugnaðist honum og öðrum íhaldsmönnum illa og hugðu þeir á gagnbyltingu þrátt fyrir að lofa Ungtyrkjum öllu fögru.

Þann 13. apríl 1909 varð úr að íhaldsvængur herstéttarinnar steypti stjórn Ungtyrkja af stóli til að koma Abdúl Hamid aftur til alræðisvalds. Hermönnum frá Salóníku tókst þó fljótt að bjarga lýðræðisstjórninni og kveða niður gagnbyltinguna. Ungtyrkir ákváðu nú að Abdúl Hamid gæti ekki lengur verið soldán og neyddu hann til að segja af sér. Þann 27. apríl var bróðir hans, Reshad Efendi, krýndur nýr soldán undir nafninu Mehmed 5.

Gagnbylting soldánsins hafði farið fram með stuðningi íhaldssamra íslamista sem voru andsnúnir frjálslyndisumbótum Ungtyrkja. Gagnbyltingin leiddi til fjöldamorða á tugum þúsunda kristinna Armena í Adana-ríki.[8]

Fyrrverandi soldáninn var sendur í fangavist til Salóniku. Þegar Grikkir hertóku Salóniku árið 1912 var hann sendur aftur sem fangi til Konstantínópel. Hann eyddi síðustu dögum sínum í fræðimennsku og í að rita æviminningar sínar í Beylerbeyi-höll, þar sem hann lést þann 10. febrúar 1918, aðeins fáeinum mánuðum á undan bróður sínum, soldáninum.

Vegna ófara Tyrkjaveldis eftir að Abdúl Hamid var steypt af stóli orti Rıza Tevfik Bölükbaşı, sem var meðlimur í Ungtyrkjaflokknum Samstöðu- og framfaranefndinni, ljóð titlað „İstimdad“ sem fjallaði um eftirsjá Tyrkja fyrir að losa sig við Abdúl Hamid. [9]

Tenglar

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Overy, Richard bls. 252, 253 (2010)
  2. Abdulhamid II, sótt 20. júlí 2017.
  3. Carter Vaughn Vaughn Findley, 'Bureaucratic Reform in the Ottoman Empire: The Sublime Porte, 1789-1922,' Chapter, 6, 'Restoring political balance: the first constitutional period and return to sultanic dominance.'
  4. „Abdul Hamid II Collection -About this Collection- Prints & Photographs Online Catalog (Library of Congress)“. www.loc.gov. Sótt 30. september 2015.
  5. „Sultan beaten, capital falls, 6,000 are slain“. The New York Times. 25. apríl 1909.
  6. Vahan Hamamdjian (2004). Vahan's Triumph: Autobiography of an Adolescent Survivor of the Armenian Genocide. iUniverse. bls. 11.
  7. Razmik Panossian. The Armenians: From Kings and Priests to Merchants and Commissars. 13. ágúst 2013. Columbia University Press. Bls. 165.
  8. Creelman, James (22. ágúst 1909). „The Slaughter of Christians in Asia Minor“. The New York Times.
  9. Effendi, Ayberk (2011). Lions of the golden apple. Germany: Haqqbutler. bls. 167–170.


Fyrirrennari:
Múrad 5.
Tyrkjasoldán
(1876 – 1909)
Eftirmaður:
Mehmed 5.