Hæstiréttur Bandaríkjanna
Hæstiréttur Bandaríkjanna er æðsta dómsstig Bandaríkjanna. Hæstarétt Bandaríkjanna skipa níu hæstaréttardómarar og gegnir einn þeirra um leið embætti forseta hæstaréttar. Í samráði við og með staðfestingu öldungadeildarinnar skipar forseti Bandaríkjanna hæstaréttardómara. Hæstaréttardómarar eru æviráðnir, að viðhöfðu virðulegu hátterni samkvæmt þriðju grein stjórnarskrárinnar[1], og halda þeir embætti sínu til andláts, þar til þeir segja af sér, setjast í helgan stein eða hljóta sakfellingu vegna formlegrar ákæru um embættisafglöp fyrir landsdómi (e. impeachment). Hæstiréttur Bandaríkjanna dæmir fyrst og fremst í málum áfrýjuðum til hans af lægri dómsstigum í Bandaríkjunum en til eru einstaka mál þess eðlis að fyrsta dómsstig þeirra er hjá honum. Með óformlegum hætti er oft talað um hæstarétt Bandaríkjanna sem háréttinn (e. High Court) og/eða skótus (e. SCOTUS), en hið síðarnefnda er skammstöfun enska heiti réttarins (e. Supreme Court of the United States), borið fram eins og samsetning bókstafanna gefur til kynna. Húsakynni hæstaréttar Bandaríkjanna eru í Washington.
Saga
breytaHæstiréttur Bandaríkjanna er eini dómstólinn sem kveðið er á um í stjórnarskrá Bandaríkjanna. Upphaflega átti hæstirétturinn að standa saman af sex hæstaréttardómurum en hafa þeir verið níu talsins nær alla tíð frá upphafi hans. Hæstiréttur Bandaríkjanna kom fyrst saman árið 1790. Fyrst um sinn komu fá mál á borð hæstaréttar Bandaríkjanna en fyrsta dómsuppkvaðning hans varð í réttarfarsmáli West gegn Ellsworth árið 1791.[2] Á þeim tíma var hæstirétturinn án húsakynna og heimilisfangs og skorti almennt virðingu og upphefð.[3]
Á tíma Johns Marshall í embætti forseta hæstaréttar Bandaríkjanna, á árabilinu 1801 – 1835, urðu miklar breytingar á háttum réttarins, upphefð hans og virðingu. Meðal þeirra breytinga sem urðu þá var yfirlýsing réttarins um að hann væri æðsti túlkandi stjórnarskrárinnar og einnig féllu dómar sem drógu skýrar línur um hlutverk hans í hinu stjórnarskrárbundna valdajafnvægi milli ríkjanna og alríkisins[4]. Við lok embættistíðar John Marshall lagði rétturinn niður þá aðferð að hver hæstaréttardómari kvæði upp sinn eigin úrskurð og var þess í stað tekin upp aðferð meirihlutaúrskurða, þ.e. að einfaldur meirihluti hæstaréttardómara kvæði upp einn sameiginlegan dómsúrskurð[5], og hefur sá háttur verið hafður allar götur síðan þá.
Fjöldi hæstaréttardómara
breytaStjórnarskrá Bandaríkjanna tekur ekki sérstaklega fram fjölda dómara í hæstaréttinum en samkvæmt þriðju grein stjórnarskrárinnar hefur Bandaríkjaþing yfirráð til að ákveða fjölda dómara[6]. Samkvæmt lögum um dómstólaskipan (e. Judiciary Act of 1789) frá árinu 1789 kveður á um að skipaðir séu sex dómarar. Eftir því sem landið stækkaði landfræðilega bætti Bandaríkjaþing við dómurum til að samsvara aukinni yfirferð dómstólanna (e. judicial circuits). Bætt var við einum dómara árið 1807 og þannig urðu þeir sjö, níu árið 1837 og tíu árið 1863. Samkvæmt lögum um dómstólaskipun frá árinu 1869 var ákveðið það ár að dómarar skyldu vera níu talsins og hefur sá fjöldi verið sá sami allar götur síðan.
Skipun dómara í hæstarétt Bandaríkjanna
breytaÖnnur grein stjórnarskrár Bandaríkjanna veitir Bandaríkjaforseta umboð til að tilnefna dómara en þó einungis með ráðgjöf og samþykki öldungadeildar[7]. Flestir forsetar tilnefna dómara í hæstarétt sem deilir sömu hugmyndafræði en það tryggir þó ekki að sá dómari sem tilnefndur var af viðkomandi forseta taki ákvarðanir út frá því sem er forsetanum í hag. Þar sem stjórnarskráin setur ekki fram nein skilyrði sem dómari þarf að uppfylla getur forsetinn tilnefnt hvern sem er í stöðu dómara. Öldungadeildin þarf þó alltaf að samþykkja dómara áður en hann öðlast stöðu sína sem dómari hæstaréttar.
Samþykki öldungadeildar felst í að einfaldan meirihluta þarf til að samþykkja eða hafna frambjóðanda. Ekki samþykkir öldungadeildin alltaf þá sem forsetinn tilnefnir en það hefur gerst tólf sinnum þar sem öldungadeildin tók afgerandi stöðu gegn tilnefningu forsetans og höfnuðu því frambjóðandanum en það telst þó afar sjaldgæft að slíkt gerist.
Seta í embætti
breytaAð meðaltali sitja hæstaréttardómarar í meira en 25 ár áður en þeir ýmist segja af sér eða láta lífið. Í ársbyrjun 2005 var meðal starfsaldur núverandi dómara rétt undir tuttugu ár og sá sem yngstur var í starfinu hafði setið frá árinu 1994. Þar sem svona hár starfsaldur ríkir hjá hæstaréttardómurum er farið afar varlega í ráðningar en það er vegna þess að bæði er vilji fyrir því að ráða dómara sem deila sömu pólitísku hugmyndafræðinni og þeir og von er um að þeir komi til með að halda áfram að hafa áhrif á þá hugmyndafræði næstu áratugina. Að sama skapi er farið afskaplega varlega í þessa ráðningu sökum þess hversu neyðarlegt það getur verið út frá pólitísku sjónarmiði að tilnefna einhvern sem síðar meir er uppvís að smánarlegu leyndarmáli, hvort sem það tengist fjölskyldu eða frama.[8]
Sá dómari sem lengst hefur setið í hæstarétti er William O. Douglas, sem sat 36 ár og 209 daga. Douglas sem var einn eindregnasti talsmaður persónufrelsis og borgaralegra réttinda í sögu réttarins var skipaður 15. apríl 1939 af Franklin D. Roosevelt sem eftirmaður Louis O. Brandeis. Þrátt fyrir að hafa fengið heilablóðfall í desember 1974 neitaði Douglas að láta af störfum fyrr en 12. nóvember 1975. Eftirmaður Douglas var John Paul Stevens.
Hæstiréttur og pólitík
breytaDómarar hæstaréttarins eru ekki studdir opinberlega af stjórnmálaflokkum eins og þekkist hjá framkvæmdar- og löggjafarvaldinu. Þeim er hinsvegar skipt óformlega niður í þrjá flokka, íhaldssama, frjálslynda og svo þeir sem eru mitt á milli. Þessi skipting tengis þó einungis lagalegri hlið málsins þar sem dómarar eiga að vera óháðir flokkum.
Hæstiréttur er ekki laus við pólitísk tengsl en hver dómari ræður til sín aðstoðarmenn sér til stuðnings. Aðstoðarmenn dómarans hafa óskrifað vald sem felst í að hugmyndir þeirra koma fram í gegnum skrif á dómum sem þeir vinna fyrir sinn dómara. Hefur það tíðkast að dómarar velji sér aðstoðarmenn sem tengjast einum flokk fremur en öðrum og má í því samhengi nefna Clarence Thomas hæstaréttardómara, en hann hefur ráðið til sín 84 aðstoðarmenn á tuttugu árum og hafa þeir allir tengst Repúblikanaflokknum.[9]
Valdsvið hæstaréttar
breytaValdsvið hæstaréttar afmarkast í öðrum hluta þriðju greinar stjórnarskrár Bandaríkjanna. Valdsviðinu má skipta í tvo hluta og eru það annarsvegar mál sem rétturinn getur tekið upp beint og hinsvegar mál sem hefur verið áfrýjað frá öðrum dómsstigum.[10] Dómurinn velur mál sem gjarnan eru deilumál innan þjóðfélagsins, mál sem snúa ýmist að þinginu eða forseta landsins og mál sem krefjast túlkunar á stjórnarskránni. Þetta eru þá frekar óskráðar reglur þar sem hæstiréttur útskýrir aldrei ástæðu valsins.[11]
Hæstiréttur getur tekið upp mál án þess að þeim hafi verið áfrýjað til réttarins. Hæstiréttur er í hlutverki fyrsta dómsstigs í ákveðnum tegunda mála. Dæmi um slík mál eru þegar sendiherrar eða aðrir ráðherrar eiga hlut að máli, í málum þar sem ríki er annar málsaðili og þegar ríki fer í mál við annað ríki vegna deilna.[12]
Réttindabyltingin
breytaRéttindabyltingin (e. The Rights Revolution) er markvert tímabil í sögu Bandaríkjanna og bandarískri stjórnmálasögu sem hófst á sjötta áratug 20. aldar. Upphaf tímabilsins má rekja til ársins 1954, þegar dómur Hæstaréttar féll í máli Brown v. Board of Education. Með dóminum var staðfest að aðskilnaðarstefnan sem hafði viðgengist innan skóla og opinberra stofnana, sérstaklega í Suðurríkjunum, væri brot á stjórnarskrá Bandaríkjanna.[13] Dómurinn markaði afgerandi stefnubreytingu Hæstaréttar, setti kynþáttamisrétti undir smásjána, mannréttindi í forgrunn umræðunnar og leiddi til þess að lögbundin aðskilnaðarstefna var endanlega afnumin.
Stefnubreyting Hæstaréttar
breytaHæstiréttur staðfesti stefnubreytinguna með því að taka fyrir fjölmörg sambærileg mál, meðal annarra mál Monroe v. Pape árið 1961, sem bæði undirdómstig höfðu hafnað. Málið snerist um ofbeldi lögregluþjóna gegn fjölskyldu blökkumanna, en afar sjaldgæft var á þessum árum að slík mál kæmu fyrir æðstu dómstig.[14][15] Fordæmið tryggði framgang sambærilegra mála sem einkenndust af því að opinberir aðilar virtu ekki stjórnarskrárvarin réttindi einstaklingsins. Með þessum breyttu áherslum Hæstaréttar var vernd stjórnarskrárinnar útvíkkuð og minnihlutahópum veitt réttindi til þátttöku í samfélaginu til jafns við aðra þjóðfélagshópa.
Vernd borgaralegra réttinda
breytaHæstiréttur umbylti þannig áherslum sínum á um 20 ára tímabili og útvíkkaði réttindaskrá stjórnarskrárinnar (e. The Bill of Rights). Gjörbreyting varð á mörgum sviðum samfélagsins, ekki síst er varða réttindi blökkumanna, kvenna, fatlaðra og síðar samkynhneigðra. Nokkrum árum áður höfðu mál þar sem tekist var á um borgaraleg réttindi aðeins verið um 10% dómsmála við réttinn, en í lok sjöunda áratugarins voru slík mál um 70% af málaskránni.[15] Með stefnubreytingunni lýsti Hæstiréttur því yfir að hann væri verndari réttinda einstaklingsins og hins venjulega borgara, enda snerust breytingarnar ekki hvað síst um hvernig réttur einstaklingsins gagnvart hinu opinbera er skilgreindur og með hvaða hætti ríkisvaldinu er heimilt að ganga á rétt einstaklingsins.[15] Með fleiri hæstaréttardómum og tengdum atburðum í kjölfarið, urðu afgerandi kaflaskil í bandarísku samfélagi hvað varðar réttindi minnihlutahópa. Öll mismunun á grundvelli kynþáttar, litarháttar, trúar, kyns eða þjóðernis, var svo bönnuð með samþykkt The Civil Rights Act árið 1964.[16]
Ríkjandi þjóðfélagsmenningu mótmælt
breytaRéttindabyltingin hefði ekki orðið nema með stuðningi allra valdsþátta samfélagsins, löggjafar-, framkvæmda- og dómsvaldsins. Þrýstingur frá almennum borgurum í gegnum fjöldahreyfingar og kröfur baráttufólks, höfðu þó mikið að segja. Tímabilið einkenntist jafnframt af öflugum grasrótarhreyfingum sem voru andvígar ríkjandi þjóðfélagsmenningu, friðarhreyfingum sem mótmæltu þátttöku Bandaríkjanna í Víetnamstríðinu og baráttuhreyfingum fyrir borgaralegum réttindum, meðal annars American Civil Rights Movement.[17] Að mörgu leyti má segja að Réttindabyltingunni sé ekki lokið, því afleiðingar hennar og þeir átakapunktar sem þar birtust lita enn deilur og áherslur í bandarísku samfélagi og eru, umfram margt annað, lykillinn að því hvernig bandarísk stjórnmál ganga fyrir sig.
Sögulegir dómar Réttindabyltingarinnar
breytaEftirfarandi eru tímamótadómar Hæstaréttar Bandaríkjanna sem telja má hluta af Réttindabyltingunni á sjötta og sjöunda áratug 20. aldar, þegar kaflaskil urðu í bandarísku samfélagi. Dómarnir eiga það sameiginlegt að fjalla um borgaraleg réttindi einstaklingsins og staðfesta stjórnarskrárvarinn rétt þeirra sem áttu undir högg að sækja. Dómarnir tryggðu minnihlutahópum aukin réttindi til þátttöku í samfélaginu til jafns við aðra þjóðfélagshópa og voru hluti af þeim grundvallarbreytingum sem fylgdu Réttindabyltingunni.
Sweatt v. Painter (1950)
breytaDómurinn í máli Sweatt v. Painter varð til þess að blökkumenn fengu að ganga í háskóla í Texas og gekk þvert gegn öðrum sögulegum dómi í máli Plessy v. Ferguson frá árinu 1896, þar sem staðfest var hugmyndafræðin um að kynþættir gætu lifað og starfað aðskildir en jafnir (e. separate but equal). Með þeim dómi var komið á lögbundinni kynþáttamismunun milli blökkumanna og hvítra. Niðurstaðan var að stefnan gengi ekki gegn fjórtánda viðauka stjórnarskrárinnar (e. Fourteenth Amendment). Opinberum aðilum var þar með heimilt, í krafti laga einstakra ríkja, að aðskilja kynþætti í opinberu rými, til dæmis í skólum, strætisvögnum, lestum, á hótelum og veitingastöðum, sem og takmarka blönduð hjónabönd.[18][19]
Dómsmálið fjallaði um laganemann Herman M. Sweatt, blökkumann, sem hafði verið neitað um inngöngu í laganám við Háskólann í Texas, en á þeim tíma voru blökkumenn ekki velkomnir í háskólanám í Texas og víðar. Í stað þess að ríkið starfrækti sérstakan skóla fyrir blökkumenn, líkt og lægri dómsstig höfðu talið duga, gerði Hæstiréttur skólastjóranum, Theophilus Painter, skylt að opna skólann fyrir blökkumönnum, á þeim forsendum að þar fengju þeir sömu menntun og hvítir, sem og aðgang að sambærilegri aðstöðu og bókakosti. Slíkur jöfnuður milli kynþátta væri ekki mögulegur í aðskildum skólum. Dómurinn hafði síðar áhrif á mál Brown v. Board of Education árið 1964, sem markaði frekari tímamót varðandi afnám lögbundinnar aðskilnaðarstefnu. Sambærilegt dómsmál þar sem fjallað var um aðskilnað kynþátta í skólakerfinu er meðal annars McLaurin v. Oklahoma State Regents frá árinu 1950, þar sem læknanema var meinuð innganga í Háskólann í Oklahoma.[20]
Henderson v. United States (1950)
breytaDómurinn í máli Henderson v. United States varð til þess að aðskilnaður kynþátta með sérstökum sætum og gardínum í matarvögnum farþegalesta, var aflagður. Rétturinn tók þó ekki afstöðu til málsins á grundvelli stefnunnar um að kynþættir væru aðskildir en jafnir, heldur gerði þá kröfu um að allir farþegar fengju sömu þjónustu, væru þeir á sama farrými og hefðu keypt samskonar lestarmiða.[21]
Dómsmálið fjallaði um opinberan starfsmann, Elmer W. Henderson, blökkumann, sem ferðaðist með lest frá Washington DC til Atlanta í erindagjörðum tengdum starfi sínu. Þegar Henderson vildi nýta sér sérstaka aðstöðu fyrir blökkumenn í matarvagni lestarinnar gat hann það ekki, þar sem hvítir sátu þegar í flestum sætunum. Starfsfólk lestarinnar gaf Henderson ekki leyfi til þess að sitja við hlið hvítu farþeganna, þrátt fyrir að um afmarkað svæði fyrir blökkumenn væri að ræða. Hæstiréttur féllst á kröfu Henderson um að brotið hefði verið á honum á grundvelli Interstate Commerce Act frá árinu 1887 og hann ætti rétt á sömu þjónustu og aðrir farþegar.[22] Rétturinn vísaði til eldri dóms í máli Mitchell v. United States frá árinu 1941, þar sem sama þjónusta skyldi vera veitt fyrir sama verð, á jafnræðisgrundvelli og óháð kynþætti.[23][24]
Brown v. Board of Education (1954)
breytaMeð dóminum í máli Brown v. Board of Education komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að lög ríkja þar sem nemendur í opinberum skólum væru aðskildir eftir kynþætti, stæðust ekki stjórnarskrána. Rétturinn sneri þar með við dóminum í máli Plessy v. Ferguson frá 1896. Niðurstaða dómsins var samhljóða um að grundvallaróréttlæti fælist í því að nemendur væru aðskildir í opinberum skólum. Þar með var staðfest að lögbundinn aðskilnaður bryti í bága við grein stjórnarskrárinnar sem fjallar um jafna vernd borgaranna gagnvart lögum, óháð kynþætti, jafnræðisreglunni (e. Equal Protection Clause), sem er hluti af fjórtánda viðaukanum. Dómurinn markaði kaflaskil í mannréttindabaráttu sjötta og sjöunda áratugarins og var mikill áfangasigur fyrir The Civil Rights Movement.[25][26]
Dómsmálið höfðuðu þrettán foreldrar, fyrir hönd 20 barna sinna gegn skólayfirvöldum í borginni Topeka í Kansas. Málið snerist um að foreldrarnir töldu að reglunum um aðskilnað kynþáttanna í opinberu rými, en jafna stöðu að öðru leyti, væri síður en svo framfylgt. Þess í stað væri aðstaða barnanna, þjónusta hins opinbera og framkoma við börn blökkumanna allt önnur og lakari, en sú framkoma og þjónusta sem ríkið bauð uppá fyrir börn hvítra. Málið er kennt við Oliver L. Brown, en hann var faðir Lindu Brown, sem þurfti að ferðast um langan veg til þess að komast í Monroe Elementary, skóla fyrir börn blökkumanna, en skóli hinna hvítu, Sumner Elementary, var steinsnar frá heimilinu.[27][28][29][30]
Aðskilnaðurinn skaðlegur
breytaEitt af því sem er markvert við dóminn í máli Brown v. Board of Education er að Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu, að þrátt fyrir að aðstaða og framkoma kennara yðri á síðari stigum af sambærilegum gæðum í báðum skólum, væri aðskilnaðurinn í sjálfu sér skaðlegur börnum og stæðist ekki stjórnarskrá. Niðurstaða dómaranna var að börn blökkumanna væru líklegri til að þjást af alvarlegum sálfræðilegum og félagslegum kvillum vegna aðskilnaðarins.[31] Sú niðurstaða var studd rannsóknum bandaríska sálfræðingsins Kenneth Clark. Spurningin snerist því ekki lengur um hvort skólarnir væri jafngóðir, líkt og hugmyndin á bakvið dóminn í máli Plessy v. Ferguson frá 1896 gekk út á, heldur að aðskilnaðurinn sem slíkur, stæðist ekki stjórnarskrána. Stefnan um aðskilnaðinn var studd vísindalegum rasisma (e. scientific rasism) sem þá var að ná fótfestu víða um heim.[32][33] Þeirri hugmyndafræði var afneitað formlega í kjölfar síðari heimstyrjaldarinnar með yfirlýsingu UNESCO, The Race Question, árið 1950.[34]
Lögbundið réttlæti
breytaHugmyndin á bakvið dóminn í máli Brown v. Board of Education er að allir eigi rétt á að njóta lögbundins réttlætis (e. equal justice under law), óháð kynþætti. Sú hugmynd lifði áfram og varð síðar grundvöllur að fleiri dómum og yfirlýsingum Hæstaréttar sem og Bandaríkjaþings á árunum þar á eftir. Þar með var bundinn endi á margskonar misrétti í bandarísku samfélagi, lögbundið óréttlæti gagnvart minnihlutahópum aflagt og stjórnarskrárvarinn réttur einstaklingsins varinn. Stærsta skrefið var stigið tíu árum síðar með undirskrift Lyndon B. Johnson á The Civil Rights Act árið 1964, þar sem öll lagaleg mismunun á grundvelli kynþáttar, litarháttar, trúar, kyns eða þjóðernis var bönnuð.[35]
Bolling v. Sharpe (1954)
breytaDómurinn í máli Bolling v. Sharpe varð til þess að aðskilnaður kynþátta í almennum skólum var aflagður. Dómurinn var kveðinn upp samhliða dómi í máli Brown v. Board of Education þann 17. maí 1954. Hæstiréttur taldi að aðskilnaðurinn stæðist ekki ákvæði fimmta viðauka stjórnarskrárinnar (e. Fifth Amendment), um að allir borgarar eigi rétt á sanngjarni málsmeðferð án þess að vera þvingaðir í varðhald eða lífi og eignum þeirra ógnað (e. Due Process Clause).[36]
Dómsmálið var höfðað af foreldrum barna, líkt og í máli Brown v. Board of Education. Foreldrarnir höfðu óskað eftir því við skólayfirvöld í Washington DC, að nýr skóli, John Phillip Sousa Junior High, myndi verða blandaður skóli en ekki eingöngu fyrir börn hvítra. Beiðninni var hafnað af skólastjóranum Melvin Sharpe og skólinn hélt áfram að taka við hvítum nemendum, eingöngu. Hæstiréttur, með Earl Warren í broddi fylkingar, sneri við ákvörðun skólastjórans og komst að samhljóða niðurstöðu. Warren hafði þá nýlega tekið við sem forseti Hæstaréttar og átti eftir að setja afgerandi mark sitt á niðurstöður réttarins.[37][15]
Boynton v. Virginia (1960)
breytaHæstiréttur staðfesti með dóminum í máli Boynton v. Virginia að aðskilnaður kynþátta í farartækjum almenningssamgangna og tengdra mannvirkja væri ólöglegur og bryti í bága við Interstate Commerce Act frá árinu 1887.[38] Í þessu tilviki vísaði rétturinn ekki í ákvæði stjórnarskrárinnar um vernd borgaralegra réttinda. Dómurinn var ekki síst markverður fyrir þær sakir að í kjölfar hans varð til hópur aðgerðasinna, Frelsisfarþegarnir (e. Freedom Riders). Hópurinn tók sér far með strætisvögnum þvert yfir ríkjamörk, einkum í Suðurríkjunum og ögruðu reglum um aðskilnað í vögnunum. Mörg ríkjanna hundsuðu dóm Hæstaréttar enda gerði ríkisvaldið lítið til að framfylgja honum og aðskilnaðarlögin, Jim Crow lögin, héldu gildi sínu allt til ársins 1965.[39] Sú öfgafulla andstaða sem aðgerðir Frelsisfarþeganna mætti, varð til þess að American Civil Rights Movement varð öflugri á landsvísu. Lögreglan í Suðurríkjunum tók hart á lögbrotum Frelsisfarþeganna og starfaði með öfgaþjóðernishreyfingunni Ku Klux Klan, einkum í Birmingham Alabama, þar sem lögreglan horfði framhjá grófum árásum á aðgerðasinnana.[40]
Dómsmálið snerist um að ungur blökkumaður, laganeminn Bruce Boynton, neitaði því að yfirgefa sérstakt svæði sem var frátekið fyrir hvíta farþega á veitingastað strætisvagnabiðstöðvar í Virginíu. Þrátt fyrir að hafa verið beðinn af starfsfólki veitingastaðarins um að færa sig yfir á svæði sem var sérstaklega ætlað lituðu fólki (e. colored people), þá neitaði hann ítrekað. Hann var handtekinn og síðar sektaður fyrir að óhlýðnast fyrirmælum um að yfirgefa svæðið.[41] Sambærilegur dómur féll í máli Garner v. Louisiana ári síðar, þar sem hópur stúdenta, blökkumanna, við Southern University í Baton Rouge Louisiana, mótmælti aðskilnaði með því að neita að yfirgefa svæði sérstaklega ætlað hvítum. Þau voru handtekin og ákærð fyrir að raska ró samborgara sinna á grundvelli Disturbing the Peace laganna. Í kjölfarið fengu þau stuðning úr ýmsum áttum meðal annars frá National Association for the Advancement of Colored People og dómsmálaráðuneyti John F. Kennedy. Þeim þóttu friðsöm mótmælin ekki réttlætanleg og að ekki ætti að dæma stúdentana.[42] Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að hegðun hópsins hefði í engu raskað ró borgara og í dóminum kemur fram að friðsömum mótmælum megi frekar líka við tjáningu með orðum. Friðsöm mótmæli væru því tengd tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar.[43][44]
Monroe v. Pape (1961)
breytaHæstiréttur staðfesti með dómi í máli Monroe v. Pape að framkvæmd laga um borgaraleg réttindi Civil Rights Act frá árinu 1897 stæðist ekki stjórnarskrá og fjórtánda viðaukann. Hæstiréttur sneri þar með við dómi undirdómstóla sem höfðu vísað kröfu Monroe-fjölskyldunnar á hendur lögregluþjónum frá dómi og staðfesti að þeir hefðu brotið gegn fjölskyldunni. Rétturinn beindi jafnframt tilmælum til Bandaríkjaþings um að virða bæri stjórnarskrárvarinn rétt borgaranna og rétt þeirra til sanngjarnar málsmeðferðar af hálfu hins opinbera. Ríkin gætu ekki staðið fyrir því að valdinu væri misbeitt gegn borgurunum, í krafti stofnana hins opinbera. Hæstiréttur hafnaði hinsvegar kröfu gegn Chicago-borg sjálfri, þar sem ekki var talið að borgin gæti verið persóna í skilningi laga.[45] Þessum hluta málsins var snúið við með dómi í máli Monell v. Department of Social Services of the City of New York árið 1978, þar sem staðfest var að borgarstjórnir gætu borið lagalega ábyrgð á því ef opinberir starfsmenn virtu ekki stjórnarskrárvarinn rétt borgaranna.[46] Á þessum tíma var sjaldgæft að æðstu dómstig fjölluðu um mál þar sem opinberir aðilar voru ásakaðir um ofbeldi gagnvart blökkumönnum. Með dóminum tryggði Hæstiréttur framgang fjölda sambærilegra mála auk þess sem ferlar innan opinberra stofnana og lögreglunnar gjörbreyttust í kjölfarið.[15]
Dómsmálið var höfðað af Monroe fjölskyldunni, foreldrum ásamt sex börnum, blökkumönnum, gegn Chicago-borg. Monroe fjölskyldan var vakin um miðja nótt af þrettán lögregluþjónum á heimili sínu í Chicago Illinois. Engar leitarheimildir eða handtökuskipanir höfðu verið gefnar út. Fjölskyldan var látin standa nakin í stofunni á meðan lögregluþjónarnir rótuðu í eigum þeirra, opnuðu hirslur, tæmdu skúffur og skáru í sængurver og rúmdýnur. Fjölskyldufaðirinn var handtekinn og færður til yfirheyrslu á lögreglustöð, þar sem hann var spurður út í ótengt morð sem framið var tveimur dögum áður. Hann var ekki færður fyrir dómara og fékk ekki að hringja heim eða í lögmann, en var sleppt að lokinni yfirheyrslu án nokkurra sakargifta.[47][15]
Griffin v. Maryland (1964)
breytaHæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í máli Griffin v. Maryland að dómur undirréttar í máli fimm háskólanema frá Maryland, gengi gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Ríkið var gert ábyrgt fyrir misbeitingu valds að hálfu opinbers starfsmanns, jafnvel þótt hann hafi ekki verið á vakt sem slíkur, þegar atvikið átti sér stað. Ríkisdómstóll hafði komist að þeirri niðurstöðu að handtakan hafi verið réttmæt, í krafti lögmætrar aðskilnaðarstefnu skemmtigarðs, sem neitaði blökkumönnum um aðgang.[48] Hæstiréttur hafði nokkrum árum áður komist að samskonar niðurstöðu í máli Pennsylvania v. Board of Directors of City Trusts of Philadelphia frá árinu 1957, að ríkin gætu ekki stutt þess háttar „einkarekinn“ aðskilnað kynþátta, enda væri það brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, þrátt fyrir að opinberi starfsmaðurinn, lögregluþjónninn, hafi ekki verið á vakt.[49][50]
Dómsmálið var höfðað af háskólanemunum fimm, sem allir voru blökkumenn. Skemmtigarðurinn var eingöngu ætlaður hvítum, en nemarnir höfðu komist yfir aðgöngumiða sem aðrir höfðu keypt. Nemarnir voru handteknir eftir að hafa neitað að verða við fyrirmælum um að yfirgefa garðinn og voru síðar sakfelldir og sektaðir fyrir að vera þar í óleyfi.[51] Tvö sambærileg mál frá árinu 1964 þar sem Hæstiréttur sneri við niðurstöðu ríkisdómstóla og staðfesti að jafnræðisreglan væri brotin, voru mál Robinson v. Florida, þar sem ríkið hafði ekki staðið fyrir því að banna aðskilnað á veitingastað og mál Bell v. Maryland, þar sem hópur stúdenta höfðaði mál eftir að hafa verið rekinn út af veitingastað vegna stefnu um aðskilnað kynþátta á staðnum. Hæstiréttur felldi niður dóminn yfir stúdentunum fimm og beindi því til Maryland-ríkis að endurskoða löggjöfina.[52][53]
Loving v. Virginia (1967)
breytaMeð dómi í máli Loving v. Virginia komst Hæstiréttur að samhljóða niðurstöðu um að lög í Virginíu, sem bönnuðu hjónabönd fólks af mismunandi kynþáttum, stæðust ekki stjórnarskrána. Dómurinn leiddi til þess að lögin voru afnumin. Þar með var lögbundinni mismunun á grundvelli kynþáttar aflétt, hvað hjónabönd varðar. Þetta var í fyrsta skipti sem rétturinn tókst á við álitamálið með hliðsjón af stjórnarskránni; hvort að það stæðist jafnræðisregluna, sem og sanngjarna málsmeðferð, að ríki gæti komið í veg fyrir hjónaband, eingöngu vegna kynþátta viðkomandi einstaklinga. Ríkisdómstóllinn í Virginíu hafði áður úrskurðað að með hjónabandi Loving-hjónanna, hefði verið brotið gegn Racial Integrity Act frá árinu 1924, sem bannaði hjónaband einstaklings sem væri skilgreinur hvítur (e. white) og annars einstaklings sem væri skilgreindur litaður (e. colored).[54] Hæstiréttur sneri þar við dómi í máli Pace v. Alabama frá árinu 1883, þar sem rétturinn hafði komist að þeirri niðurstöðu að lög sem bönnuðu hjónabönd eða sambúð tveggja kynþátta í Alabama, stæðust stjórnarskrána.[55]
Dómsmálið höfðuðu hjón, Mildred Loving, áður Jeter, sem var blökkukona og Richard Loving, sem var hvítur. Þau höfðu gift sig í Washington DC og síðan flutt til Virginíu. Þar voru þau dæmd af ríkisdómstóli í eins árs fangelsi fyrir að hafa gengið í hjónaband, en blönduð hjónabönd voru bönnuð í Virginíu. Þau játuðu brot sitt, en dómarinn frestaði refsingu í 25 ár, að því gefnu að þau flyttu aftur burt úr ríkinu og kæmu ekki aftur, sem hjón að minnsta kosti í 25 ár. Hjónin fluttu aftur til Washington DC og biðu dóms Hæstaréttar.[56] Niðurstaða Hæstaréttar í málinu leiddi til þess að mikil fjölgun varð á blönduðum hjónaböndum almennt í Bandaríkjunum. Dagsins sem dómurinn féll, þann 12. júní, er minnst sem Loving Day, víða um Bandaríkin. Dagurinn er þó ekki viðurkenndur sem opinber frídagur, þrátt fyrir óskir þar um.[57] Loving Day er ein stærsta hátíð þar sem fjölmenningu og margbreytileika mannlífsins er fagnað sérstaklega.[58] Árið 2013 vísaði alríkisdómstóll í dóminn þegar hann komst að þeirri niðurstöðu að takmarkanir á hjónabandi samkynhneigðra (e. same sex marriage) stæðust ekki stjórnarskrána. Hjónaband fólks af sama kyni er nú heimilt í 32 ríkum Bandaríkjanna.[59]
Roe v. Wade (1973)
breytaMál Roe v. Wade var eitt umdeildasta dómsmál sem Hæstiréttur hefur fjallað um og markaði dómurinn þáttaskil í bandarískri réttarfarssögu. Með dóminum komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að lög sem bönnuðu fóstureyðingar, stæðust ekki stjórnarskrána. Lögin voru afnumin í kjölfarið og fóstureyðingar urðu þar með löglegar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Hæstiréttur byggði úrskurð sinn á réttinum til einkalífs (e. right to privacy), sem er hluti af jafnræðisreglunni í fjórtánda viðauka stjórnarskrárinnar. Í kjölfar dómsins var barnshafandi konum heimilt að ákveða í samráði við lækni, að fara í fóstureyðingu á fyrsta og öðrum þriðjungi meðgöngu, eða fram að þeim tíma þegar fóstur hefur náð lífvænlegu þroskastigi (e. becomes viable) og getur lifað utan legsins, venjulega á 24. til 28. viku meðgöngu.[60][61]
Í gegnum þá tæpu fimm áratugi sem fordæmi Roe gegn Wade var í gildi voru fjölmargar tilraunir verið gerðar til að fá honum hnekkt. Í nokkrum málum sem Hæstiréttur hefur fjallað um, hefur slíkt komið til álita, meðal annars í máli Webster v. Reproductive Health Services frá árinu 1989,[62] Planned Parenthood v. Casey frá árinu 1992,[63] Stenberg v. Carhart frá árinu 2000[64] og í máli Gonzales v. Carhart frá árinu 2007.[65]
Auk deilunnar um lögmæti fóstureyðinga, lýsa átökin í tengslum við Roe v. Wade togstreytunni á milli alríkisins og fylkja Bandaríkjanna um hvar ákvörðunarvaldið eigi að liggja í samfélaginu, en varpa ekki síður ljósi á umræðuna um hvers konar samfélag Bandaríkin eigi að vera.[66][67]
Hæstirétturinn felldi niður fordæmið úr Roe gegn Wade loks niður þann 24. júní 2022 og dæmdi að rétturinn til þungunarrofs væri ekki stjórnarskrárvarinn.[68] Sitjandi Hæstiréttur var talinn einn sá hægrisinnaðasti og íhaldssamasti í marga áratugi, einkum vegna þess að á einu kjörtímabili frá 2017 til 2021 hafði forsetinn Donald Trump úr Repúblikanaflokknum fengið að skipa þrjá dómara til Hæstaréttar með það að markmiði að endurstilla dómstólinn.[69]
Norma McCorvey (Jane Roe)
breytaÁrið 1969 höfðaði Norma Leah McCorvey, 21 árs gömul og barnshafandi kona frá Texas, dómsmál gegn Henry Wade, lögmanni Texas-ríkis. McCorvey tók upp dulnefnið Jane Roe, til þess að vernda einkalíf sitt á meðan málið var fyrir dómi, en fram að þessu hafði hún átt afar stormasamt líf. McCorvey vildi fara í fóstureyðingu og leitaði leiða til þess að framkvæma aðgerðina löglega. Lög Texas-ríkis bönnuðu þó alfarið fóstureyðingu, með þeirri einu undantekningu að heimild fengist ef líf móður væri í hættu. Vinir McCorvey töldu ranglega að lögin heimiluðu fóstureyðingu ef móðurinni hefði verið nauðgað og kvöttu McCorvey til þess að ljúga til um nauðgun og reyna þannig að komast í löglega aðgerð. Ráðagerðin misheppnaðist meðal annars vegna þess að lögregluskýrsla um nauðgun var ekki til staðar. McCorvey ætlaði því að láta framkvæma aðgerðina á ólöglegri læknastofu, en stofunni hafði verið lokað af yfirvöldum.[70][71]
McCorvey leitaði í kjölfarið til Linda Coffee og Sarah Weddington, tveggja lögmanna sem höfðu auglýst eftir skjólstæðingum með sambærileg mál. Þær tóku að sér að flytja málið og fylgdu því eftir alla leið til Hæstaréttar. Þegar málið var tekið fyrir af Hæstarétti þremur árum síðar var barn McCorvey fætt og hún hafði gefið það til ættleiðingar. Málið hafði því ekki lengur bein áhrif á barnið, né móðurina. McCorvey mætti aldrei í réttinn á meðan málflutningur stóð yfir. Hún hefur síðan breytt um skoðun og barist gegn fóstureyðingum.[72][73]
Djúpstæðar og langvarandi deilur
breytaDómurinn í máli Roe v. Wade varð til þess kynda undir langvarandi átök á landsvísu, bæði innan stjórnmálanna sem utan. Deilurnar standa á milli þeirra sem eru hlynntir því að leyfa fóstureyðingar (e. pro-choice) og hinna sem eru á móti fóstureyðingum (e. pro-life). Sumir sem alfarið eru á móti, vilja ganga svo langt að banna allar slíkar aðgerðir, einnig í tilfelli nauðgunar eða þegar um sifjaspell er að ræða og jafnvel þrátt fyrir að heilsu móður sé ógnað með áframhaldandi meðgöngu. Deilan snýst einnig um hvaða stofnanir samfélagsins geti talist bærar til að taka ákvörðun um lögmæti slíkra einstaklingsbundinna aðgerða og hversu mikið réttarkerfið og hið opinbera eigi að skipta sér af persónulegum trúar- og lífsskoðunum eða læknisfræðilegum álitaefnum.[74][75]
Skilgreining Hæstaréttar á þremur tímabilum meðgöngu sem dómurinn byggir á, er því afar markverð og stendur enn þrátt fyrir að vera umdeild. Engin afskipti eru heimil í löggjöf fylkjanna á fyrsta þriðjungi meðgöngu, takmörkuð afskipti eru heimil á öðrum þriðjungi og háð því að heilsa móður sé í húfi, en heimild er til staðar til að banna fóstureyðingu á þriðja þriðjungi og mörg fylki hafa nýtt þá heimild. Móðurinni er þannig gefið sjálfdæmi á tveimur fyrri þriðjungum, en ófætt barnið nýtur vafans á þriðja þriðjungi, að því gefnu að líf móðurinnar sé ekki í hættu.[76][77][78][79]
Átök um grunngildi samfélagsins
breytaDeilurnar um fóstureyðingar hafa náð inn að kjarna bandarískrar siðmenningar, enda tekist á um almenn fjölskyldugildi, sem og trúarleg og siðferðileg gildi. Lóðin á vogarskálunum eru annars vegar frelsi móður til að taka sjálfstæða ákvörðun varðandi líf sitt og líkama og hinsvegar lífsneistinn, réttur barns eða fósturs til lífs. Við munnlegan málflutning í Hæstarétti var tekist á um hvenær líf manneskju kviknar og á hvaða tímapunkti rétt sé að skilgreina nýjan einstakling gagnvart stjórnarskrá og almennum lögum; við fæðingu, á öðrum eða þriðja þriðjungi meðgöngu eða jafnvel við getnað.[80] Sú umræða stendur enn og hefur oft og tíðum blossað upp fyrir kosningar í Bandaríkjunum og víðar.[81][82]
Öflug grasrótarsamtök sem berjast gegn fóstureyðingum og andstæð samtök sem eru hlynnt fóstureyðingum, hafa starfað allar götur frá því að dómurinn var kveðinn upp. Samtökin National Right to Life hafa beitt sér fyrir því að ríkin fái aftur heimild til að banna alfarið fóstureyðingar og samtökin March for Life hafa staðið fyrir árlegum mótmælum gegn niðurstöðu Hæstaréttar.[83][84] Samtökin National Abortion Rights Action League - Pro Choice America eru á öndverðum meiði og vilja vernda rétt verðandi mæðra og samtökin Planned Parenthood hafa sérhæft sig í upplýsingagjöf um ábyrgt og heilbrigt líferni kvenna almennt.[85][86] Samkvæmt skoðanakönnunum er bandaríska þjóðin klofin í afstöðu sinni til fóstureyðinga, í nokkuð jafnar fylkingar með og á móti, sé einungis spurt um tvo valkosti.[87]
Núverandi dómarar
breytaForseti hæstaréttar
breyta- John G. Roberts (f. 1955, skipaður árið 2005 af George W. Bush)
Meðdómarar
breyta- Clarence Thomas (f. 1948, skipaður árið 1991 af George H.W. Bush)
- Samuel Alito (f. 1950, skipaður 2006 af George W. Bush)
- Sonia Sotomayor (f. 1954, skipuð 2009 af Barack Obama)
- Elena Kagan (f. 1960, skipuð 2010 af Barack Obama)
- Neil Gorsuch (f. 1967, skipaður 2017 af Donald Trump)
- Brett Kavanaugh (f. 1965, skipaður 2018 af Donald Trump)
- Amy Coney Barrett (f. 1972, skipuð 2020 af Donald Trump)
- Ketanji Brown Jackson (f. 1970, skipuð 2022 af Joe Biden)
Forsetar hæstaréttar
breyta- John Jay, (1789–1795) skipaður af George Washington
- John Rutledge, (1795) skipaður af George Washington
- Oliver Ellsworth, (1796–1800) skipaður af George Washington
- John Marshall, (1801–1835), skipaður af John Adams
- Roger B. Taney, (1836–1864), skipaður af Andrew Jackson
- Salmon P. Chase, (1864–1873), skipaður af Abraham Lincoln
- Morrison Waite, (1874–1888), skipaður af Ulysses S. Grant
- Melville Fuller, (1888–1910), skipaður af Grover Cleveland
- Edward D. White, (1910–1921), skipaður af William Howard Taft
- William H. Taft, (1921–1930), skipaður af Warren G. Harding
- Charles E. Hughes, (1930–1941), skipaður af Herbert Hoover
- Harlan F. Stone, (1941–1946), skipaður af Franklin D. Roosevelt
- Fred M. Vinson, (1946–1953), skipaður af Harry S. Truman
- Earl Warren, (1953–1969), skipaður af Dwight D. Eisenhower
- Warren E. Burger, (1969–1986), skipaður af Richard M. Nixon
- William Rehnquist, (1986–2005), skipaður af Ronald Reagan
- John G. Roberts, (2005– ), skipaður af George W. Bush
Heimildir
breyta- ↑ The Constitution of the United States.
- ↑ United States reports volumes 2 – 107 (1791 – 1882). Dates of Supreme Court decisions and arguments.. Sótt 25. október 2010.
- ↑ Gerber, S. D. (1998). Seriatim: The Supreme Court Before John Marshall. Bls 3. New York og London: New York university press.
- ↑ Newsweek.com. (e.d.). "Why Marbury V. Madison Still Matters.". Sótt 25. október 2010.
- ↑ Washingtonpost.com (e.d.). The Supreme Quiz. Sótt 25. október 2010.
- ↑ The Constitution of the United States.
- ↑ The Constitution of the United States.
- ↑ Katz, R. S. (2007). Political institutions in the United States. Bls 136-138. New York: Oxford university press.
- ↑ NYtimes.com (6. september 2010). A Sign of the Court’s Polarization: Choice of Clerks. Sótt 25. október 2010.
- ↑ The Constitution of the United States.
- ↑ Washingtonpost.com (2009). Choosing Cases. Sótt 25. október 2010.
- ↑ The Constitution of the United States.
- ↑ „Dómur í máli Brown v. Board of Education. 347 U.S. 483. Supreme Court of the United States. 1954“.
- ↑ „Dómur í máli Monroe v. Pape. 365 U.S. 167. Supreme Court of the United States. 1961“.
- ↑ Stökkva upp til: 15,0 15,1 15,2 15,3 15,4 15,5 Epp, C. R (1998). The Rights Revolution: Lawyers, Activists, and Supreme Courts in Comparative Perspective. The University Of Chicago Press.
- ↑ „The Civil Rights Act“.
- ↑ „American civil rights movement“.
- ↑ „Dómur í máli Sweatt v. Painter. 339 U.S. 629. Supreme Court of the United States. 1950“.
- ↑ „Dómur í máli Plessy v. Ferguson. 163 U.S. 537. Supreme Court of the United States. 1896“.
- ↑ „Dómur í máli Sweatt v. Painter. 339 U.S. 629. Supreme Court of the United States. 1950“.
- ↑ „Dómur í máli Henderson v. United States. 339 U.S. 816. Supreme Court of the United States. 1950“.
- ↑ „Interstate Commerce Act“.
- ↑ „Dómur í máli Henderson v. United States. 339 U.S. 816. Supreme Court of the United States. 1950“.
- ↑ „Dómur í máli Mitchell v. United States. 313 U.S. 80. Supreme Court of the United States. 1941“.
- ↑ „Dómur í máli Brown v. Board of Education. 347 U.S. 483. Supreme Court of the United States. 1954“.
- ↑ „The Civil Rights Movement“.
- ↑ Anderson, R. „Legacy of Brown: Many people part of local case, Thirteen parents representing 20 children signed up as Topeka plaintiffs“.
- ↑ „Black, White, and Brown“.
- ↑ „Brown v. Board of Education of Topeka MSN Encarta“.
- ↑ „Dómur í máli Brown v. Board of Education. 347 U.S. 483. Supreme Court of the United States. 1954“.
- ↑ „Dómur í máli Brown v. Board of Education. 347 U.S. 483. Supreme Court of the United States. 1954“.
- ↑ Sarat, A. „Race, Law, and Culture: Reflections on Brown v. Board of Education“.
- ↑ Forgren, C. A. „The Plessy Case“.
- ↑ „The Race Question“ (PDF).
- ↑ „The Civil Rights Act“.
- ↑ „Dómur í máli Bolling v. Sharpe. 347 U.S. 497. Supreme Court of the United States. 1954“.
- ↑ „Dómur í máli Bolling v. Sharpe. 347 U.S. 497. Supreme Court of the United States. 1954“.
- ↑ „Interstate Commerce Act“.
- ↑ „Jim Crow lögin“.
- ↑ „Dómur í máli Boynton v. Virginia. 364 U.S. 454. Supreme Court of the United States. 1960“.
- ↑ „Dómur í máli Boynton v. Virginia. 364 U.S. 454. Supreme Court of the United States. 1960“.
- ↑ „Dómur í máli Garner v. Louisiana. 368 U.S. 157. Supreme Court of the United States. 1961“.
- ↑ Geer, J. G.; W. J. Schiller; og fleiri (2011). Gateways to Democracy: An Introduction to American Government. Wadsworth Pub Co.
- ↑ „First Amendment Timeline“ (PDF).
- ↑ „Dómur í máli Monroe v. Pape. 365 U.S. 167. Supreme Court of the United States. 1961“.
- ↑ „Dómur í máli Monell v. Department of Social Services of the City of New York. 436 U.S. 658. Supreme Court of the United States. 1978“.
- ↑ „Dómur í máli Monroe v. Pape. 365 U.S. 167. Supreme Court of the United States. 1961“.
- ↑ „Dómur í máli Griffin v. Maryland. 378 U.S. 130. Supreme Court of the United States. 1964“.
- ↑ „Dómur í máli Griffin v. Maryland. 378 U.S. 130. Supreme Court of the United States. 1964“.
- ↑ „Dómur í máli Pennsylvania v. Board of Directors of City Trusts of Philadelphia. 353 U.S. 239. Supreme Court of the United States. 1957“.
- ↑ „Dómur í máli Griffin v. Maryland. 378 U.S. 130. Supreme Court of the United States. 1964“.
- ↑ „Dómur í máli Robinson v. Florida. 378 U.S. 153. Supreme Court of the United States. 1964“.
- ↑ „Dómur í máli Bell v. Maryland. 378 U.S. 226. Supreme Court of the United States. 1964“.
- ↑ „Dómur í máli Loving v. Virginia. 388 U.S. 1. Supreme Court of the United States. 1967“.
- ↑ „Dómur í máli Pace v. Alabama. 106 U.S. 583. Supreme Court of the United States. 1883“.
- ↑ „Dómur í máli Loving v. Virginia. 388 U.S. 1. Supreme Court of the United States. 1967“.
- ↑ „Make Loving Day Official“.
- ↑ „Loving Day“.
- ↑ „Freedom to Marry“.
- ↑ „Dómur í máli Roe v. Wade. 410 U.S. 113. Supreme Court of the United States. 1973“.
- ↑ „Roe v. Wade: Its History and Impact“ (PDF).
- ↑ „Dómur í máli Webster v. Reproductive Health Services. 492 U.S. 490. Supreme Court of the United States. 1989“.
- ↑ „Dómur í máli Planned Parenthood v. Casey. 505 U.S. 833. Supreme Court of the United States. 1992“.
- ↑ „Dómur í máli Stenberg v. Carhart. 530 U.S. 914. Supreme Court of the United States. 2000“.
- ↑ „Dómur í máli Gonzales v. Carhart. 550 U.S. 05-380. Supreme Court of the United States. 2007“.
- ↑ „30 years after ruling, ambiguity, anxiety surround abortion debate“.
- ↑ „40 Years After Roe v. Wade, Thousands March to Oppose Abortion“.
- ↑ Þorvaldur S. Helgason (24. júní 2022). „Hæstiréttur Bandaríkjanna felldi fordæmi Roe gegn Wade úr gildi“. Fréttablaðið. Sótt 7. ágúst 2022.
- ↑ Ásta Hlín Magnúsdóttir (24. júní 2022). „Niðurstaða Roe gegn Wade afleiðing valdatíðar Trumps“. RÚV. Sótt 7. ágúst 2022.
- ↑ McCorvey, N.; Meisler, A (1994). I Am Roe: My Life, Roe V. Wade, and Freedom of Choice. Harper Collins.
- ↑ „Norma McCorvey“.
- ↑ McCorvey, N.; Meisler, A (1994). I Am Roe: My Life, Roe V. Wade, and Freedom of Choice. Harper Collins.
- ↑ „Norma McCorvey“.
- ↑ „30 years after ruling, ambiguity, anxiety surround abortion debate“.
- ↑ „40 Years After Roe v. Wade, Thousands March to Oppose Abortion“.
- ↑ „Dómur í máli Roe v. Wade. 410 U.S. 113. Supreme Court of the United States. 1973“.
- ↑ „Roe v. Wade Re-Argued: U.S. Supreme Court - Lawyers Present Oral Arguments“.
- ↑ „30 years after ruling, ambiguity, anxiety surround abortion debate“.
- ↑ „40 Years After Roe v. Wade, Thousands March to Oppose Abortion“.
- ↑ „Roe v. Wade Re-Argued: U.S. Supreme Court - Lawyers Present Oral Arguments“.
- ↑ „Roe v. Wade: Its History and Impact“ (PDF).
- ↑ „Abortion debate“.
- ↑ „National Right to Life“.
- ↑ „March for Life“.
- ↑ „National Abortion Rights Action League NARAL - Pro Choice America“.
- ↑ „Planned Parenthood“.
- ↑ „Gallup Poll: Abortion“.