Wikipedia:Grein mánaðarins/07, 2019
Tanzimat („endurskipulagningin“) er tímabil í sögu Tyrkjaveldis (Ottómanveldis) sem stóð frá 1839 til 1876 og markaðist af endurskipulagningu hersins, réttarbótum og umbótum í menntamálum og stjórnarfari.
Markmiðið var að nútímavæða ríkið svo það gæti tekist betur á við uppgang Evrópuríkja út á við og þjóðernishreyfinga innan ríkisins. Til að ná þessum þessum markmiðum sáu ráðamenn ríkisins þörf fyrir umbótum og endurskipulagninu, sérstaklega í hermálum.
Umbótaskeiðið er almennt talið hefjast um 1839 með útgáfu Rósaherbergis-tilskipunarinnar (sjá mynd). Árið 1856 var gefin út Humayun-tilskipunin. Þessar tvær tilskipanir gjörbreyttu stöðu minnihlutahópa innan ríkisins. Jafnrétti var lofað öllum borgurum og kristnum var leyft að ganga í herinn eða gegna embætti. Ofan á þetta átti að stemma stigu við spillingu, standa vörð um eignarréttinn og endurskipuleggja menntakerfið og skattkerfið. Árið 1876 leið Tanzimat-tímabilið undir lok með gildistöku nýrrar stjórnarskrár sem átti að tryggja frelsi og jafnrétti allra borgara heimsveldisins. Stjórnarskráin skapaði líka fyrsta þing Tyrkjaveldis sem kom saman ári seinna. Þingið hafði ásett sér að halda áfram með umbæturnar en það hafði ekki erindi sem erfiði því sama ár leysti nýi soldáninn, Abdul Hamid 2., þingið upp og afnám stjórnarskrána.