Wikipedia:Grein mánaðarins/10, 2019

Friedrich Christian zu Schaumburg-Lippe (5. júní 1906 – 20. september 1983) var þýskur aðalsmaður og nasisti sem vann lengi sem aðstoðarmaður þýska áróðursmálaráðherrans Josephs Goebbels á stjórnarárum Adolfs Hitlers.

Árið 1938 gerði sendinefnd þriggja Íslendinga í Berlín Friedrich tilboð um að gerast konungur Íslands eftir áætluð sambandsslit Íslands við dönsku krúnuna. Friedrich tók boðinu alvarlega og þáði það að endingu með því skilyrði að það hlyti velþóknun þýskra stjórnvalda. Goebbels var að orðinu til samþykkur því að Friedrich tæki við konungdómi á Íslandi en utanríkisráðherrann Joachim von Ribbentrop var mótfallinn hugmyndinni og því runnu þessar ráðagerðir út í sandinn og fóru endanlega út um þúfur þegar seinni heimsstyrjöldin braust út og Ísland var hertekið af Bretum. Friedrich hafði þó áfram áhuga á upphefð á Íslandi og kom meðal annars í heimsókn til landsins árið 1973 til að þreifa fyrir sér í þeim efnum.

Á síðari æviárum sínum hóf Friedrich bréfaskipti við íslensk stjórnvöld og minnti á tilboðið um konungdóm sem honum hafði verið gert árið 1938. Friedrich gerði sér vonir um að Íslendingar sýndu honum einhverja sæmd, til dæmis með því að sæma hann íslenskum ríkisborgararétti samhliða hinum þýska og skipa hann íslenskan ræðismann ævilangt til þess að styrkja samband Íslands við Vestur-Þýskaland. Jafnframt stakk hann upp á því að stjórn Íslands sæmdi hann séríslenskum aðalstitli, t.d. greifi af Reykjavík (graf von Reykjavík).