Wikipedia:Grein mánaðarins/04, 2019
Surtur er eldjötunn í norrænni goðafræði. Hann kemur úr Múspellsheimi og í Ragnarökum ríður hann um jörðina ásamt Múspellssonum og brennir jörðina með glóandi sverði. Þegar þeir ríða yfir Bifröst, brúna sem tengir Miðgarð og Ásgarð, brotnar hún; svo verður Surtur Frey að bana.
Þekktustu örnefni á Íslandi í höfuðið á Surti eru hraunhellirinn Surtshellir, lengsti hellir landsins, og Surtsey, eyja skammt frá Vestmannaeyjum sem varð til í eldgosi á árunum 1963-1967.
Textafræðingurinn Rudolf Simek telur hugmyndina um Surt mjög gamalgróna og bendir á vísanir í nafn hans í kvæðum eftir Eyvind skáldaspilli og Hallfreð vandræðaskáld frá 10. öld því til stuðnings. Hann bendir jafnframt á að í Landnámabók sé þegar minnst á hellinn Surtshelli og telur það vera til marks um að íslenskir landnemar hafi snemma þekkt til Surts. Simek bendir einnig á að venjulega sé talað um að jötnar komi að austan í norrænum goðsögum, en að Surtur komi hins vegar að sunnan. Þetta sé vafalaust til marks um það að hann sé tengdur við eld og hita. Simek segir að Íslendingar hafi vafalaust séð Surt fyrir sér sem voldugan jötun sem réð yfir eldi jarðarinnar og telur að hugmyndin um Surt sem óvin guðanna sé ekki upprunnin á Íslandi.