Nes við Seltjörn er fornbýli á Seltjarnarnesi. Þar hafa fundist mannvistarleifar sem spanna langt tímabil en talið er að búið hafi verið á jörðinni allt frá því um 900 eða tiltölulega fljótlega eftir landnám Íslands. Staðurinn er nú einna þekktastur fyrir Nesstofu, bústað fyrsta landlæknisins og þar hefur til skamms tíma verið rekið Lækningaminjasafn Íslands.

Lækningaminjasafn vinstra megin og Nesstofa hægra megin, efst á bæjarhólnum (horft til austurs)

Vettvangsnámskeið fyrir fornleifafræðinema við Háskóla Íslands hafa verið haldin í Nesi síðan sumarið 2007.

Náttúra og staðhættir

breyta

Nes er ysta jörðin á Seltjarnarnesi. Sveitarfélagið Seltjarnarnes er nú aðeins ysti hluti nessins en áður fyrr náði Seltjarnarneshreppur yfir mun stærra svæði og er Reykjavík að stærstum hluta vaxin út úr honum. Landsvæðið sem í dag er skilgreint sem Seltjarnarnes er fremur mjótt og láglent að undanskilinni Valhúsahæð sem hæst er um 30 metrar yfir sjávarmáli.

Nesjörðin er rétt austan við sjálfa Seltjörn, sem nú er vík en ekki tjörn vegna ágangs sjávar. Norðvestan við Nes er Grótta, sem vegna landrofs er nú eyja en var áður tangi. Nes var stærsta jörðin í Nessókn og jafnframt kirkjustaður. Ólafur Lárusson taldi að jarðirnar Nes og Vík hafi verið kjarninn hvor í sínu byggðarlagi, Nessókn og Reykjavíkursókn.[1]

Úttektir og yfirlit

breyta

Ýmiss konar rannsóknir og skráningar hafa einnig verið gerðar í Nesi og á svæðinu þar í kring. Árið 1936 var gerð fyrsta ítarlega rannsóknin á landnámi og byggðarþróun á Seltjarnarnesi. Hana gerði Ólafur Lárusson og birti hann niðurstöðurnar í greininni „Hversu Seltjarnarnes byggðist“ sem síðar kom út í ritgerðasafni hans Byggð og sögu. Á sjötta áratug 20. aldar tók Ari Gíslason saman skrá um örnefni á Seltjarnarnesi á vegum Örnefnastofnunar. Önnur örnefnaskrá var tekin saman árið 1976 af Guðrúnu S. Magnúsdóttur og árið 1978 vann Guðrún Einarsdóttir, landfræðinemi við Háskóla Íslands, lokaverkefni um örnefni á Seltjarnarnesi.[2] Á aldarafmæli hreppsnefndar Seltjarnarness, árið 1975, var ákveðið að láta skrifa og gefa út sögu bæjarins. Heimir Þorleifsson, sagnfræðingur, var ráðinn til verksins og kom Seltirningabók, ítarleg úttekt á sögu byggðar á Seltjarnarnesi, síðan út árið 1991.[3]

Árið 1980 var gerð fornleifaskráning í landi Seltjarnarness, en það var á meðal fyrstu sveitarfélaga landsins sem gekkst fyrir slíku. Sú skráning var gerð af Ágústi Ó. Georgssyni og leiddi í ljós 61 minjastað. Birna Gunnarsdóttir fornleifafræðingur gaf skrána út 1995.[4] Árið 2006 kom út endurskoðuð og uppfærð skrá og reyndust þá vera 324 minjastaðir á Seltjarnarnesi öllu og þar af 144 í landi Ness.[5]

Búseta í Nesi

breyta

Elsta heimildin sem getur um Nes er frá því um 1200. Í kirknatali Páls biskups Jónssonar er talin kirkja með prestskyld í Nesi. Fyrstu nafngreindu ábúendurnir í Nesi voru Hafurbjörn Styrkársson og Guðrún Þorláksdóttir, en þau bjuggu þar á síðari hluta 13. aldar. Hafurbjörn var kominn af Ásbirni Össurarsyni í beinan karllegg, en Ásbjörn var bróðursonur Ingólfs Arnarsonar. Hjónanna Hafurbjörns og Guðrúnar er getið í Árna sögu biskups þar sem segir að þau hafi verið stórauðug af peningum. Veturinn 1280-1281 hafði Loðinn leppur, sem konungur hafði sent til Íslands með Jónsbók, vetursetu hjá þeim hjónum. Þess var getið að í Nesi hafi verið hið ríkmannlegasta heimili á landinu og hið mesta höfuðból.[6]

Óljóst er um eignarhald á jörðinni á miðöldum, eða frá 1341 og fram undir siðaskipti 1550. Við siðaskiptin komst jörðin í eigu Skálholtsstóls. Árið 1556 eignaði konungur sér Nes og á meðan jörðin var í hans eigu bjuggu þar aðallega prestar og veraldlegir embættismenn.[7]

Bjarni Pálsson var skipaður fyrsti landlæknirinn á Íslandi með konungsúrskurði árið 1760. Í fyrstu bjó hann á Bessastöðum en árið 1761 hófst bygging Nesstofu við Seltjörn. Þar skyldi vera bústaður og vinnustaður landlæknis. Nesstofa var fullbyggð árið 1763. Hún var bústaður fimm fyrstu landlæknanna og fjögurra fyrstu lyfsalanna. Með konungsúrskurði árið 1833 voru embætti landlæknis og lyfsala flutt til Reykjavíkur.[8] Nesstofa hefur frá árinu 1979 verið hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands.

Þórður Sveinbjörnsson, háyfirdómari og síðar dómstjóri í Landsyfirrétti, keypti Nes árið 1834. Þar stundaði hann mikinn búskap ásam því að sinna embætti sínu í Reykjavík. Þórður og Kirstin Cathrine Knudsen kona hans bjuggu í Nesi til 1851. Sveinbjörn Sveinbjörnsson tónskáld var sonur þeirra, en hann fæddist í Nesstofu árið 1847. Fljótlega eftir tíð Þórðar og Kirstínar varð jörðin tvíbýli, en búskapur var stundaður í Nesi fram yfir 1960.[9] Allmörg gömul býli eru talin hafa byggst úr Neslandi, þar á meðal Bakki, Bygggerði, Eiði og Lambastaðir, en einnig tilheyrðu jörðinni fjölmargar hjáleigur og þurrabúðir.[10]

Kirkjan í Nesi og rannsóknir í kirkjugarðinum

breyta

Saga kirkjunnar í Nesi spannar meir en 600 ár. Þó kirkjunnar sé fyrst getið í heimildum um 1200 er sennilegt að kirkja hafi verið reist þar strax á 11. öld í Nesi eins og á flestum stórbýlum í landinu.[11]

Engin lýsing er til á kirkjunni eða staðsetningu hennar fyrr en á 17. öld. Árið 1695 var reist ný kirkja í Nesi, en hún var byggð bæði úr timbri og torfi. Þessari byggingu var haldið við í tæpa öld þar til ný kirkja var reist af grunni árið 1785. Engar heimildir segja til um staðsetningu þessara tveggja bygginga og ekki er vitað hvort sú nýja var reist á grunni þeirrar eldri eður ei. Hin nýja kirkja var stór og vönduð, byggð úr timbri að öllu leyti. Einnig var nýtt klukknaport reist við hana. Það hefur verið annað hvort frístandandi framan við kirkjuna eða áfast við hana að framan. Klukkuturninn var um 4 metra breiður og tæplega 9 metra hár og hefur því verið tilkomumikið mannvirki í þá tíð. Þessi nýja Neskirkja átti ekki eftir að þjóna sóknarbörnum þar lengi vegna þess að hún var aflögð með konungsúrskurði árið 1797 og sóknin lögð til Reykjavíkur. Eftir það var kirkjubyggingin seld apótekaranum í Nesi sem mun m.a. hafa notað hana til að þurrka í lyfjagrös. Húsið fauk svo í Básendaveðrinu 1799 og eyðilagðist.

Svo langt er síðan kirkjan fauk og hætt var að greftra í kirkjugarðinum að vitneskja um nákvæma staðsetningu kirkjubyggingarinnar og kirkjugarðsins hafði gelymst er rannsóknir hófust á kirkjustæðinu um miðjan 10. áratug 20. aldar.[12] Vísbendingar um staðsetningun voru einkum mannabeinafundir. Árið 1979 var komið niður á mannabein þegar unnið var að hitaveitulögn við Nesstofu. Í upphafi níunda áratugarins komu tvisvar í ljós mannabein við framkvæmdir á lóðum íbúðarhúsanna sem standa næst bæjarhólnum á Nesi.[13] Uppgröftur sem gerður var 1995 leiddi í ljós bæði grafir og kirkjugarðsvegg og má út frá þeim upplýsingum afmarka kirkjugarðinn með nokkurri nákvæmni, austan við Nesstofu en að stærstu hluta norðan við heimreiðina og vestan við íbúðarhúsið sem næst er stofunni við Neströð.[14] Vorið 2000 komu enn einu sinni í ljós mannabein í tengslum við framkvæmdir á lóð íbúðarhússins sem næst stendur.[15]

Bæjarhóllinn og minjar í túninu

breyta

Bæjarhóllinn í Nesi og svæðið umhverfis hann er eitt mest rannsakaða svæðið á landinu í fornleifafræðilegum skilningi. Rannsóknirnar hafa bæði verið í formi fornleifaskráningar, prufuskurða og fjarkannana. Fornleifar á svæðinu eru óvenju vel varðveittar m.a. vegna þess að stór hluti túnsins í Nesi var aldrei sléttaður með stórvirkum vinnuvélum, en varðveisluskilyrði í jarðvegi eru einnig venju fremur góð.[16]

Hringlaga gerði

breyta

Í kringum 1970 veittu menn því fyrst athygli að í túninu vestan Nesstofu væru hringlaga mannvirki en þau sjást skýrar úr lofti en af jörðu niðri.[17] Könnunarskurðir sem grafnir voru í nokkur gerðanna 1993 og 1996 sýndu að þau eru byggð úr einföldum torfhleðslum skömmu eftir að landnámsgjóskan féll 871+/-2. Engar skýrar vísbendingar komu fram um hlutverk þeirra en rannsakendur voru sammála um að líklegast væri að gerðin hefðu verið byggð í tengslum við jarðrækt af einhverju tagi.[18]

Bæjarhóllinn

breyta

Bungan þar sem Nesstofa stendur í dag, er mjög stór. Hann hefur smátt og smátt byggst upp vegna búsetu í meir en þúsund ár. Árið 1989 voru grafnir prufuskurðir í bæjarhólinn austan og vestan við Nesstofu. Austan við stofuna var komið niður á hús frá 18. og 19. öld en undir þeim voru mannvistarlög niður á 2,7 m dýpi. Þar neðst var landnámsgjóskan óhreyfð og lágu mannvistarlögin beint ofan á henni. Vestan við Nesstofu var öskuhaugur meir en 2,4 m þykkur.[19] Rannsókn á dýrabeinum úr öskuhaugnum sýndi gríðarlega hátt hlutfall fiskibeina, einkum í lögum frá 17.-19. öld, en einnig vöktu athygli mikill fjöldi skelja af mismunandi tegundum og mikið af þangi. Mjög hátt hlutfall nautgripa miðað við sauðfé kemur vel heim og saman við að Nes var höfuðból.[20] Við rask á bæjarhólnum árið 2009 kom í ljós yfir 2,6 metra þykkt lag af mannvistarlögum og byggingaleifum.[21] Ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar á bæjarhólnum austan við Nesstofu á vegum Þjóðminjasafns Íslands og Háskóla Íslands sem hefur rekið þar vettvangsnámskeið fyrir nemendur í fornleifafræði frá 2007. Þær minjar sem helst hefur verið fengist við á námskeiðunum eru frá síðari tímum búsetu í Nesi.[22]

Auk rannsókna á bæjarhóli Ness hefur verið grafið í önnur bæjarstæði í nágrenninu, m.a. í Móakot, Nýjabæ, Bygggarðsvör og Ráðagerði og eru það mest minjar frá seinni öldum sem þar hafa verið kannaðar.[23]

Miðlun rannsókna

breyta

Eftir að uppgrefti lauk sumarið 1995 tók Orri Vésteinsson saman tillögur um rannsóknir og kynningu á menningarminjum í Nesi fyrir Seltjarnarnesbæ.[24] Önnur samantekt var gerð árið 2009 þar sem niðurstöður rannsókna á fornleifum frá tímabilinu 1760-1900 voru teknar saman og tillögur um miðlun þeirra settar fram.[25]

Tilvísanir

breyta
  1. Ólafur Lárusson 1944, bls. 109-110, 122.
  2. Elín Ósk Hreiðarsdóttir og Rúnar Leifsson 2006, bls. 9.
  3. Heimir Þorleifsson 1991
  4. Ágúst Ólafur Georgsson & Birna Gunnarsdóttir 1995
  5. Elín Ósk Hreiðarsdóttir og Rúnar Leifsson 2006
  6. Ólafur Lárusson 1944, bls.113.
  7. Kristinn Magnússon 2006, bls. 5.
  8. Kristinn Magnússon 2006, bls. 5-6.
  9. Kristinn Magnússon 2006, bls. 6.
  10. Orri Vésteinsson 1997, bls. 111.
  11. Orri Vésteinsson 1997, bls. 111.
  12. Orri Vésteinsson 1997, bls. 110, 111-114.
  13. Elín Ósk Hreiðarsdóttir og Rúnar Leifsson 2006, bls. 10-11.
  14. Orri Vésteinsson 1997
  15. Kristinn Magnússon og Guðmundur Ólafsson 2000.
  16. Garðar Guðmundsson 1995.
  17. Sigurjón Páll Ísaksson og Þorgeir S. Helgason 1994, bls. 152.
  18. Kristinn Magnússon 1995; Hildur Gestsdóttir og Orri Vésteinsson 1996
  19. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 1990
  20. Amorosi et al. 1994
  21. Margrét Hrönn Hallmundsdóttir. 2010, bls. 5.
  22. Guðmundur Ólafsson. 2008.
  23. Margrét Hrönn Hallmundsdóttir. 2010, bls. 13.
  24. Orri Vésteinsson 1995b.
  25. Kristín Halla Baldvinsdóttir. 2009.

Heimildir

breyta
  • Amorosi, T., P.C. Buckland, K. Magnússon, T.H. McGovern & J.P. Sadler 1994, 'An Archaeozoological Examination of the Midden at Nesstofa, Reykjavik, Iceland.' Whither Environmental Archaeology? ed. R. Luff & P. Rowley-Conwy, Oxbow Monograph 38, Oxford, bls. 69-80.
  • Ágúst Ólafur Georgsson & Birna Gunnarsdóttir 1995. Fornleifaskráning á Seltjarnarnesi. Þjóðminjasafn Íslands/Umhverfisnefnd Seltjarnarness, Reykjavík.
  • Elín Ósk Hreiðarsdóttir og Rúnar Leifsson 2006. Fornleifaskráning á Seltjarnarnesi. Fornleifastofnun Íslands FS305, Reykjavík.
  • Garðar Guðmundsson 1995. Fornleifarannsóknir í Nesi við Seltjörn II: Athugun á ástandi jarðvegs og varðveisluskilyrðum jurta og dýraleifa í Nesi við Seltjörn 1995. Fornleifastofnun Íslands FS006, Reykjavík.
  • Guðmundur Ólafsson 2007. Nes við Seltjörn. Vettvangsnámskeið í fornleifafræði 2007. Vinnuskýrsla Þjóðminjasafns Íslands nr. 3/2007, Reykjavík.
  • Heimir Þorleifsson 1991, Seltirningabók, Seltjarnarnesi.
  • Hildur Gestsdóttir og Orri Vésteinsson 1996. Fornleifarannsóknir í Nesi við Seltjörn V: Skýrsla um fornleifauppgröft í túni við Nesstofu 1996. Fornleifastofnun Íslands FS027, Reykjavík.
  • Kristinn Magnússon og Guðmundur Ólafsson 2000. Beinafundur hjá Nesi við Seltjörn. Rannsóknaskýrsla Þjóðminjasafns Íslands nr. 17/2000, Reykjavík.
  • Kristinn Magnússon 1995. Fornleifarannsókn á Seltjarnarnesi 1993. Rannsóknaskýrsla Þjóðminjasafns Íslands nr. 12/1995, Reykjavík.
  • Kristinn Magnússon 2006. Rannsókn undir Nesstofu. Rannsóknaskýrsla Þjóðminjasafns Íslands nr. 12/2006, Reykjavík.
  • Kristín Halla Baldvinsdóttir 2009. Búseta í Nesi 1760-1900. Miðlun rannsókna. Umsjónarmaður verkefnis Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir. Nýsköpunarsjóður námsmanna.
  • Margrét Hrönn Hallmundsdóttir 2010. Uppmælingar á fornleifum við bæjarhólinn á Nesi á Seltjarnarnesi vegna deiliskipulags á vestursvæðum. Fornleifadeild Náttúrustofu Vestfjarða.
  • Orri Vésteinsson 1995a. Fornleifarannsóknir í Nesi við Seltjörn I: Skýrsla um uppgröft 1995. Fornleifastofnun Íslands FS005, Reykjavík.
  • Orri Vésteinsson 1995b. Fornleifarannsóknir í Nesi við Seltjörn IV: Tillögur um rannsóknir og kynningu á menningarminjum í Nesi. Fornleifastofnun Íslands FS008, Reykjavík.
  • Orri Vésteinsson 1997. „Kirkja og kirkjugarður í Nesi við Seltjörn.“ Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1995, bls. 99-122.
  • Ólafur Lárusson 1944. Byggð og saga. Reykjavík.
  • Sigurjón Páll Ísaksson og Þorgeir S. Helgason 1994. Kirkjan í Nesi við Seltjörn: Jarðsjármælingar austan Nesstofu og yfir hringa í túni. Skýrsla unnin fyrir Rótarýklúbb Seltjarnarness, Læknafélag Íslands og Seltjarnarnesbæ. Línuhönnun hf.
  • Sigurjón Páll Ísaksson og Þorgeir S. Helgason. „Vetrarmyndir frá Nesi við Seltjörn og Laugarnesi.“ Árbók Hins íslenzka fornleifafélags, 91.árg. (1994a), bls. 149-161.
  • Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 1990, Fornleifarannsókn við Nesstofu 1989. Rannsóknarskýrsla, Þjóðminjasafn Íslands, Reykjavík.