Wikipedia:Grein mánaðarins/09, 2019

Nes við Seltjörn er fornbýli á Seltjarnarnesi. Þar hafa fundist mannvistarleifar sem spanna langt tímabil en talið er að búið hafi verið á jörðinni allt frá því um 900 eða tiltölulega fljótlega eftir landnám Íslands. Staðurinn er nú einna þekktastur fyrir Nesstofu, bústað fyrsta landlæknisins og þar hefur til skamms tíma verið rekið Lækningaminjasafn Íslands.

Elsta heimildin sem getur um Nes er frá því um 1200. Í kirknatali Páls biskups Jónssonar er talin kirkja með prestskyldu í Nesi. Fyrstu nafngreindu ábúendurnir í Nesi voru Hafurbjörn Styrkársson og Guðrún Þorláksdóttir, en þau bjuggu þar á síðari hluta 13. aldar. Hafurbjörn var kominn af Ásbirni Össurarsyni í beinan karllegg, en Ásbjörn var bróðursonur Ingólfs Arnarsonar. Hjónanna Hafurbjörns og Guðrúnar er getið í Árna sögu biskups þar sem segir að þau hafi verið stórauðug af peningum. Veturinn 1280-1281 hafði Loðinn leppur, sem konungur hafði sent til Íslands með Jónsbók, vetursetu hjá þeim hjónum. Þess var getið að í Nesi hafi verið hið ríkmannlegasta heimili á landinu og hið mesta höfuðból.

Óljóst er um eignarhald á jörðinni á miðöldum, eða frá 1341 og fram undir siðaskipti 1550. Við siðaskiptin komst jörðin í eigu Skálholtsstóls. Árið 1556 eignaði konungur sér Nes og á meðan jörðin var í hans eigu bjuggu þar aðallega prestar og veraldlegir embættismenn. Bjarni Pálsson var skipaður fyrsti landlæknirinn á Íslandi með konungsúrskurði árið 1760. Í fyrstu bjó hann á Bessastöðum en árið 1761 hófst bygging Nesstofu við Seltjörn. Þar skyldi vera bústaður og vinnustaður landlæknis. Nesstofa var fullbyggð árið 1763. Hún var bústaður fimm fyrstu landlæknanna og fjögurra fyrstu lyfsalanna.