Nesstofa er safnahús á Seltjarnarnesi. Húsið var byggt á árunum 1761 til 1767 eftir teikningum Jacobs Fortling hirðhúsameistara. Í húsið var notað grágrýti fengið úr fálkahúsi konungs á Valhúsahæð. Á jarðhæð var apótek og húsakynni landlæknisembættisins en í risi voru íbúðarherbergi og yfir því var hanabjálkaloft. Húsið var í landi jarðarinnar Ness við Seltjörn.

Nesstofa á Seltjarnarnesi

Bjarni Pálsson sem var fyrsti landlæknirinn settist að í Nesi með fjölskyldu sína árið 1763 og bjó þar til dauðadags. Frá árinu 1772 skiptu landlæknir og apótekari með sér ábúðarréttindum í Nesi.

Nesstofa 1925, Fyrir framan húsið er frúin í Nesi, Kristín Ólafsdóttir, dóttir hennar Ásta Guðmundsdóttir (1895-1976), sonur Kristínar, Einar Guðmundsson skipstjóri (1891-1971) og Tryggve Bergström (1922-2012) sem var sonur dóttur hennar Guðrúnar Guðmundsdóttur (1893-1988) og sænska þingmannsins Karl Bergström (1888-1965).

Konan í Nesi

breyta

Vesturhluti hússins var keyptur árið 1866 af Ólafi Þórðarsyni (1801-1876) sem flutti í Nes. Dóttir hans Kristín Ólafsdóttir (1860-1945) erfði þennan hluta hússins og giftist Guðmundi Einarssyni (1858-1906) sem var útvegsmaður.

Kristín Ólafsdóttir var "Konan í Nesi" sem Ásgrímur Jónsson (1876-1958) málaði mynd af. Halldór Laxness (1902-1998) sagði að þetta væri eina góða málverkið eftir hann. Kristín leigði herbergi til listamanna sem voru þar sem kostgangarar. Því málaði Ásgrímur málverk af henni og bænum.

Síðustu ábúendur og endurbætur

breyta

Síðustu ábúendur í Nesi voru Ólöf Gunnsteinsdóttir (1910-1997) og Jóhann Ólafsson (1908-1989). Ólöf bjó í vesturhluta Nesstofu til ársins 1997 er hún lést en í eystri hluta hússins var lækningaminjasafns á níunda áratugnum. Árið 2009 lauk umfangsmiklum endurbótum á húsinu sem fóru fram á vegum Þjóðminjasafns Íslands og Húsafriðunarnefndar undir stjórn Þorsteins Gunnarssonar arkitekts. Við endurbæturnar var mikil áhersla lögð á að endurgera húsið í upphaflegri mynd og gera upprunalega bygginarhluta sýnilega á nýjan leik.

Nesstofa er á lista yfir friðuð hús á Íslandi.

Nesstofa er opin gestum yfir sumartímann og kynnir byggingarsögu hússins.[1] Fyrr á árum var það safn um lækningaminjar og sýndi ýmsa gripi.[2] Árið 2007 var lagst í að reisa nýtt hús Lækningaminjasafns Íslands við hliðina á Nesstofu, en ekki náðist að ljúka við það og var safnið lagt niður[3] og munirnir færðir í vörslu Þjóðminjasafns Íslands.[4]

Tenglar

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. „Nesstofa | Menning og listir | Þjónusta | Seltjarnarnes kaupstaður | Nesstofa | Menning og listir | Þjónusta | Seltjarnarnesbær“. www.seltjarnarnes.is. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. júlí 2020. Sótt 25. nóvember 2020.
  2. „Nesstofa“. www.mbl.is. Sótt 25. nóvember 2020.
  3. „Lækningaminjasafnið lagt niður“. RÚV. 14. janúar 2013. Sótt 25. nóvember 2020.
  4. https://rikisendurskodun.is/wp-content/uploads/2016/01/Laekningaminjasafn_Islands.pdf[óvirkur tengill]
   Þessi Íslandsgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.