Kassel er þriðja stærsta borgin í þýska sambandslandinu Hessen með 202 þúsund íbúa (2019). Kassel var í hartnær 600 ár höfuðborg hertogadæmisins Hessen (og Hessen-Kassel), allt þar til hertogadæmið var innlimað í Prússland 1866.

Skjaldarmerki Kassel Lega Kassel í Þýskalandi
Upplýsingar
Sambandsland: Hessen
Flatarmál: 106,8 km²
Mannfjöldi: 202.000 (2019)
Þéttleiki byggðar: 1.817/km²
Hæð yfir sjávarmáli: 167 m
Vefsíða: www.stadt-kassel.de
Herkúlesmannvirkið er einkennisbygging Kassel. Fossarnir eru manngerðir.

Lega breyta

Kassel liggur við ána Fulda nær nyrst í Hessen, steinsnar fyrir sunnan sambandslandið Neðra-Saxland. Næstu borgir eru Göttingen til norðausturs (40 km), Paderborn til norðvesturs (70 km) og Frankfurt am Main til suðurs (150 km).

Skjaldarmerki breyta

Skjaldarmerki Kassel er með 13 hvíta smára á bláum fleti. Hvít rönd fer skáhallt niður merkið. Röndin merkir ána Fulda. Smárarnir eru upprunnir á 14. öld, en merking þeirra er óviss.

Orðsifjar breyta

Kassel hét upphaflega Chassalla eða Chassella. Það er dregið af latneska orðinu castellum, sem merkir virki. Upphaf byggðar þar var í kringum kastalavirki konungs.[1] Síðan 1999 er borgin með auknefnið Documenta-Stadt en Documenta er stór listasýning í borginni á fjögurra eða fimm ára fresti.

Saga Kassel breyta

Upphaf breyta

913 kemur borgin fyrst við skjöl hjá Konráði I konungi þýska ríkisins. Þar kom fram að konungur átti sér kastala sem borgin er seinna kennd við. Um miðja 12. öld var stofnað nunnuklaustur á staðnum og myndaðist nokkur byggð í kringum það. 1189 kemur fram á skjölum að Kassel hafi þegar hlotið borgarréttindi. Reyndar var um þrjár byggðir að ræða: Altstadt, Neustadt og Freiheit. Bæirnir sameinuðust ekki fyrr en 1378. Árið 1277 varð Kassel aðsetur landgreifans Heinrich I. eftir að Hessen var splittað frá Þýringalandi. Þar með verður Kassel að höfuðborg og er hún það í hartnær 600 ár til ársins 1866.

Siðaskipti breyta

 
Kassel um árið 1600. Borgin er beggja megin við ána Fulda. Mannvirkið til vinstri er klaustrið.

1527 tók borgin siðaskipti, enda var landgreifinn Filippus einn mestur forvígismanna þeirra. Þetta varð til þess að klaustrið var lagt niður og kaþólsku kirkjurnar urðu lúterskar. Filippus gekk í herbandalag með siðaskiptamönnum (Schmalkaldischer Bund) um miðja 16. öld og varð Kassel að einu mesta vígi þeirra manna. Herinn beið hins vegar mikinn ósigur gegn keisarahernum, sem hertók Kassel 1547. Filippusi var varpað í dýflissu þar sem hann þurfti að dúsa í fimm ár. 1567 dó Filippus. Þá var Hessen splittað upp í nokkur greifadæmi. Við það myndaðist landgreifadæmið Hessen-Kassel með Kassel að höfuðborg. Landgreifinn Vilhjálmur IV hafði mikinn áhuga á stjörnufræði. Hann lét reisa sér stjörnuathugunarstöð, en hún er fyrsta stjörnustöð Evrópu eftir siðaskiptin. 1685 tók landgreifinn Karl við 1.700 húgenottum sem flúið höfðu trúarofsóknir í Frakklandi.

Napoleonstíminn og iðnbylting breyta

 
Jérôme Bonaparte ríkti sem konungur í Kassel

1807 réðust Frakkar inn í Hessen og leystu furstadæmið Hessen-Kassel upp. Frakkar stofnuðu konungsríkið Vestfalíu og varð Kassel höfuðborg þess. Napoleon gerði bróður sinn, Jérôme, að konungi í hinu nýstofnaða ríki. Það stóð þó stutt. Eftir ófarir Napoleons í Rússlandi 1813 voru Frakkar hraktir úr héraðinu og furstadæmið var endurreist. Á þessum tíma voru Grimmsbræðurnir í borginni og mynduðu nokkurs konar bókmenntafélag með þekktum skáldum og rithöfundum. Í iðnskólanum störfuðu nokkrir nafntogaðir vísindamenn, þar á meðal efnafræðingurinn Robert Bunsen sem fann upp gasgrímuna. 1848 fékk borgin járnbrautartengingu. 1850 urðu nokkur innanlandsátök í Rínarsambandinu, sem endaði með því að herir frá Bæjaralandi og Austurríki hertóku Kassel til skamms tíma. 1866 átti sér stað þýska stríðið. Prússar og Austurríkismenn áttust við og gekk Hessen-Kassel til liðs við Austurríki. En Prússar sigruðu og ákvað Bismarck kanslari að innlima Hessen-Kassel í Prússland. Þetta var endalok Kassels sem höfuðborg. 1870-71 sigruðu Prússar í stríði við Frakka og varð Prússland í kjölfarið að keisararíki. Þeir handtóku Frakkakeisarann Napoleon III eftir orrustuna við Sedan og fluttu hann til Kassel. Þar þurfti hann að dúsa í stofufangelsi í heilt ár, reyndar í sama kastala og föðurbróðir hans, Jérôme Bonaparte, ríkti sem konungur til skamms tíma. Hann var látin laus eftir keisarakrýningu Vilhjálms I Þýskalandskeisara og fór í útlegð til Bretlands.

Nýrri tímar breyta

Nóttina 23. október 1943 varð Kassel fyrir gríðarlegum loftárásum Breta. 80% borgarinnar eyðilagðist og 10 þús manns biðu bana. Nær öll miðborgin brann niður. 4. apríl 1945 gáfust nasistar í borginni upp og hertóku þá bandarískir hermenn borgina, sem eftir stríð varð hluti af hernámssvæði þeirra. 1949 sótti Kassel um þann heiður að verða höfuðborg nýs Þýskalands. Þrjár aðrar borgir sóttu einnig um þann heiður: Frankfurt am Main, Stuttgart og Bonn. Bonn varð fyrir valinu en hún fékk 200 atkvæði þingmanna en Kassel 176. Fyrir vikið var ákveðið að Kassel fengi atvinnudómstólinn og félagsmáladómstólinn. Hið fyrrnefnda var þó flutt til Erfurt árið 1999. 1970 hittust Willy Brandt kanslari og Willi Stoph fulltrúi Austur-Þýskalands í Kassel til að ræða um sjálfstæði landanna. 1971 var háskólinn Universität Kassel stofnaður.

Viðburðir breyta

  • Documenta er mesta listasýning heims og fer fram á fjögurra eða fimm ára fresti í Kassel og stendur í 100 daga, yfirleitt frá júní til september. Documenta fór fyrsta fram 1955 og varð strax gífurlega vinsælt. Hér er bæði um að ræða listaviðburði innanhúss og utanhúss. Síðasta sýning fór fram 2007. Þá fóru rúmlega 500 listviðburðir fram. Rúmlega 750 þúsund manns komu gagngert til borgarinnar til að fylgjast með. Næsta sýning verður 2012.
 
Síldin er einkennismerki hátíðarinnar Zissel
  • Zissel er heiti á þjóðhátíð borgarinnar. Hún er haldin árlega fyrstu helgina í ágúst. Upphaf hátíðarinnar má rekja til kappræðara á ánni Fulda. Hugmyndin fæddist er nokkrir ræðarar átu síld í veitingahúsi og ákváðu að gera sér dagamun. Hátíðin fer fram víða um borg, en hápunkturinn er skrúðsigling á hinum ýmsum bátum og fleytum á ánni Fulda. Þar má sjá ýmsar skrýtnar og skrautlegar fleytur. Einkennismerki hátíðarinnar er stórt plastmódel af síld sem hengd er niður úr brú einni.
  • Connichi er sýning á japönsku manga og anime í borginni Kassel. Hún fer árlega fram í september og stendur í þrjá daga. Þetta er stærsta slíka sýningin í þýskumælandi landi og dregur til sín fjölda gesta. Heiðursgestir eru yfirleitt teiknarar og tónlistarmenn frá Japan. Auk sýningarinnar geta gestir tekið námskeið í pappírskúnst (Origami), japanskri tehúsamenningu, fagurskrift og japönsku. Á aðalsviðinu koma þýskir og japanskir listamenn fram.

Vinabæir breyta

Dresden viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar breyta

Byggingar og kennileiti breyta

  • Marteinskirkjan er helsta lúterska kirkjan í borginni. Þetta er grafarkirkja landgreifanna frá Hessen. Hér liggja tugir greifar og ættingjar þeirra, en einnig einhverjir heldri menn úr Kassel á öldum áður. Byrjað var að reisa hana fyrir 1364 og var hún vígð 1462 heilögum Marteini í kaþólskum sið. Kirkjan var þá turnlaus. Suðurturninn var reistur 1487. Við siðaskiptin 1524 varð kirkjan lútersk og svo er enn. Það var svo ekki fyrr en 1889-1892 að norðurturninn var reistur. Eftir skemmdir loftárásanna 1943 var kirkjunni breytt nokkuð og hlaut hún þá núverandi mynd.
  • Drusel-turninn er hluti af gamla borgarmúrunum. Turninn var reistur 1415 á veikum bletti í múrnum, þar sem vatnið í læknum Druselbach rann inn í borgina. Af læknum dregur turninn heiti sitt. Hann þjónaði einnig sem dýflissa, en fangana þurfti að láta síga niður um holu í gólfinu. Þegar landgreifinn Filippus þurfti sjálfur að dúsa í dýflissunni í 5 ár (1547-52), lét hann hita hana upp. Hún var svo seinna notuð til að reykja mat og enn seinna sem lager. Múrinn var rifinn niður 1767-74, en turninn fékk að standa. 1905 brann hann þó niður. Ári seinna fékk hann þá nýtt þak, sem aftur eyðilagðist í loftárásum 1943. Turninn er ónotaður í dag og ekki aðgengilegur.
  • Ottoneum er heiti á leikhúsi í borginni, en það er elsta fasta leikhús Þýskalands. Það var reist 1603-1606 og nefnt Ottoneum eftir syni þáverandi Landgreifa (sem hét Otto). Leiksýningar í húsinu fóru þó ekki fram nema til 1690. Þá var því umbreytt í listasafn. Seinna varð það skólabygging, en þar fór fram kennsla í náttúruvísindum. Húsið skemmdist talsvert í loftárásum 1943 og eyðilögðust margir sjaldgæfir sýningargripir í náttúrufræðum. Húsið er náttúrufræðisafn í dag.
  • Wilhelmshöhe-kastalinn var reistur 1786-1798 og átti að þjóna sem aðsetur greifanna í Hessen-Kassel. En skömmu síðar hertóku Frakkar greifadæmið og ríkti þá Jérôme Bonaparte yfir nýstofnað konungsríki Vestfalíu í þessum kastala. 1870-71 sat Napoleon III í stofufangelsi í kastalanum. Hann skemmdist nokkuð í loftárásum 1943 og var endurreistur í áföngum. 1970 hittust Willy Brandt og Willi Stoph í kastalanum og ræddu um framtíð þýsku ríkjanna. Í dag er í honum lista- og málverkasafn.
  • Herkúles er heiti á styttu og gríðmiklum stalli sem er einkennisbygging borgarinnar. Niður af stallinum eru manngerðir fossar, þeir lengstu (250 m) og fegurstu í Þýskalandi.

Gallerí breyta

Tilvísanir breyta

  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 148.

Heimildir breyta

Fyrirmynd greinarinnar var „Kassel“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt febrúar 2010.