Samfylkingin
Samfylkingin - jafnaðarflokkur Íslands er íslenskur stjórnmálaflokkur sem kennir sig við jafnaðarstefnu. Flokkurinn var stofnaður árið 1999 en hélt formlegan stofnfund sinn þann 5. maí 2000. Flokkurinn var samruni fjögurra vinstri flokka (Alþýðuflokkurinn, Alþýðubandalagið, Þjóðvaki og Kvennalistinn) til þess að vinna sem mótvægisafl við Sjálfstæðisflokkinn. Samfylkingin hefur frá stofnun almennt verið næst stærsti flokkur landsins ef litið er til kjörfylgis til þings og sveitarstjórna auk skráðra flokksmanna.
Samfylkingin - jafnaðarflokkur Íslands | |
---|---|
Fylgi | 20,8%¹ |
Formaður | Kristrún Frostadóttir |
Varaformaður | Guðmundur Árni Stefánsson |
Ritari | Arna Lára Jónsdóttir |
Þingflokksformaður | Logi Einarsson |
Stofnár | 5. maí 2000 |
Samruni eftirtalinna hreyfinga | Alþýðubandalagið, Alþýðuflokkurinn, Kvennalistinn, Þjóðvaki |
Höfuðstöðvar | Hallveigarstígur 1, 101 Reykjavík |
Stjórnmálaleg hugmyndafræði |
jafnaðarstefna |
Einkennislitur | rauður |
Sæti á Alþingi | |
Sæti í sveitarstjórnum | |
Listabókstafur | S |
Vefsíða | www.xs.is |
¹Fylgi í síðustu Alþingiskosningum |
Flokkurinn staðsetur sig vinstra megin við miðju og eru þrjú grunngildi hans jafnaðarstefna, félagshyggja og kvenfrelsi. Formaður flokksins frá árinu 2022 er Kristrún Frostadóttir. Samfylkingin hefur myndað þrjár ríkisstjórnir og veitt tveimur þeirra forystu. Auk þess hafa þrír borgarstjórar Reykjavíkur komið úr röðum Samfylkingarinnar og er flokkurinn sá næststærsti í borgarstjórn og hefur verið í meirihluta þar síðan 2010.
Saga
breytaAðdragandi
breytaÓlíkt hinum Norðurlöndunum var enginn stór jafnaðarmannaflokkur starfandi á Íslandi mestalla 20. öldina heldur voru vinstri menn klofnir í smærri flokka. Hugmyndir um sameiningu vinstri manna í einn flokk sem gæti keppt við Sjálfstæðisflokkinn í fylgi voru þó ávallt lífseigar og í nafni þeirra var gjarnan stofnað til sérstakra klofningsframboða úr eldri flokkum sem áttu að ná fram þessu markmiði. Síðasta slíka framboðið var Þjóðvaki sem stofnaður var 1994 í því yfirlýsta markmiði að sameina íslenska jafnaðarmenn. Í kjölfar alþingiskosninganna 1995 fór umræða um mögulega samfylkingu af stað fyrir alvöru. Alþýðuflokkurinn var þá kominn í stjórnarandstöðu ásamt hinum vinstri flokkunum og vel heppnað sameiginlegt framboð vinstri manna og Framsóknarflokksins í sveitastjórnarkosningunum í Reykjavík 1994 og 1998 undir merkjum R-listans virkaði sem hvati á sameiningarviðræður.
Viðræður um sameiningu
breytaInnan Alþýðuflokks og Þjóðvaka var stuðningur við sameiningu hvað mestur. Haustið 1996 voru þingflokkar þessara flokka sameinaðir undir nafninu „þingflokkur jafnaðarmanna“.[1] Raunar gengu þrír af fjórum þingmönnum Þjóðvaka síðan aftur í Alþýðuflokkinn, Jóhanna Sigurðardóttir formaður Þjóðvaka var ein eftir. Í nóvember 1997 var haldinn flokksstjórnarfundur hjá Alþýðuflokknum og landsfundir hjá Kvennalista og Alþýðubandalagi og aðalfundur hjá Þjóðvaka um það hvort að hefja ætti sameiningarviðræður. Allir flokkarnir samþykktu það að gengið skyldi til viðræðna en mismikil eindrægni var í þeirri afstöðu milli flokka.
Alþýðuflokkurinn og Þjóðvaki[2] lýstu yfir afdráttarlausum stuðningi við sameiningarviðræður. Innan Kvennalistans var áherslumunur á milli kynslóða þar sem yngri kynslóðin reyndist tilbúnari til þátttöku í mögulegri samfylkingu en margar fyrrverandi og þáverandi þingkonur flokksins voru andvígar, meðal annars á þeirri forsendu að Kvennalistinn hafi verið hugsaður sem óháður hefðbundnum stjórnmálaöflum en með samfylkingu væri verið að skilgreina hann sem vinstri félagshyggjuflokk.[3] Niðurstaðan varð að samþykkt var að ganga til sameiningarviðræðna með 36 atkvæðum gegn 18, í kjölfarið sögðu nokkrar af þeim konum sem höfðu verið andvígar sig úr flokknum. Það var í Alþýðubandalaginu sem að andstaðan reyndist hvað hörðust. Málefnaágreiningur réði þar mestu, margir óttuðust að flokkurinn væri að fórna hefðbundnum stefnumálum sínum og færast of langt til hægri með því að sameinast Alþýðuflokki en þessir tveir flokkar höfðu að ýmsu leyti ólíka stefnu. Alþýðuflokkurinn var t.d. jákvæðari gagnvart Atlantshafsbandalaginu og mögulegri aðild Íslands að Evrópusambandinu en Alþýðubandalagið. Af þessum sökum sögðu þrír þingmenn Alþýðubandalagsins sig úr flokknum og stofnuðu eigin vinstri flokk - Vinstri hreyfinguna -grænt framboð - sem skyldi leggja meiri áherslu á hefðbundnari vinstri gildi auk umhverfismála.
Alþingiskosningar
breytaSamfylkingin bauð fram í fyrsta skipti í alþingiskosningunum 1999 sem kosningabandalag. Margrét Frímannsdóttir, þáverandi formaður Alþýðubandalags, gegndi þá hlutverki talsmanns. Flokkurinn hlaut þá 26,8% atkvæða sem var hæsta hlutfall atkvæða sem að vinstri flokkur hafði fengið í áratugi en þó 11% lægra en flokkarnir fjórir höfðu fengið samanlagt í kosningunum 1995. Vinstri grænir fengu 9,1% í sömu kosningum. Stofnfundur Samfylkingarinnar var haldinn 5. - 6. maí 2000 og varð hún þá að formlegum flokki, fyrsti formaðurinn var kjörinn Össur Skarphéðinsson.
Fyrir alþingiskosningarnar 2003 tók Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi borgarstjóri í Reykjavík, sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður þrátt fyrir að hafa lýst því yfir eftir borgarstjórnarkosningarnar 2002 að hún væri ekki á leið í þingframboð.[4] Þetta vakti hörð viðbrögð samstarfsflokka Samfylkingarinnar í R-listanum sem kröfðust þess að hún viki úr stóli borgarstjóra. Í kjölfarið var hún titluð „forsætisráðherraefni“ flokksins fyrir kosningarnar og ræða sem hún hélt í Borgarnesi 9. febrúar 2003 varð eitt helsta deilumál baráttunar en þar spurði hún að því hvort að lögregluaðgerðir og skattarannsóknir gagnvart Baugi og Jóni Ólafssyni væru mögulega sprottnar af persónulegri óvild Davíðs Oddssonar í garð einstakra athafnamanna. Í kosningunum bætti flokkurinn við sig nokkru fylgi, fékk flest atkvæði í tveimur kjördæmum og vantaði þá aðeins tvö sæti til að ná Sjálfstæðisflokknum.
Hugmyndafræði
breytaMeginstefna Samfylkingarinnar er jöfnuður, sjálfbærni og friður. Flokkurinn sér hlutverk stjórnvalda að koma fram við almenning af virðingu og gæta jafnræði í samfélagi þar sem allir einstaklingar geta notið hæfileika sinni á eigin forsendum. Samfylkingin vill tryggja að íslenskt samfélag geti tryggt sambærileg lífsgæði og eru í nágrannalöndunum og sé nútímalegt og framsækið. Nýting auðlinda á að vera sjálfbær og umhverfisvæn. Íslensk utanríkisstefna á að tryggja náin samskipti við umheiminn og stuðla að auknum jöfnuði, sjálfbærni í notkun auðlinda og virðingu fyrir umhverfinu á heimsvísu.[5]
Flokksskipulag
breytaÆðsta stjórn Samfylkingarinnar er landsfundur flokksins sem haldinn er á tveggja ára fresti og hefur hann vald yfir stefnumál, lög og starf hennar. Á milli landsfunda fer flokksstjórn sem kosin er á landsfundi með æðsta vald flokksins. Milli flokkstjórnarfunda starfar framkvæmdastjórn sem vinnur að framkvæmd samþykkta lands- og flokkstjórna. Stjórn flokksins samanstendur af formanni varaformanni ritara, gjaldkera, þingflokksformanni, formanni sveitarstjórnarráðs og formanni framkvæmdastjórnar.[6] Innan flokksins eru 57 aðildarfélög og auk þeirra eru 8 aðildarfélög innan ungliðahreyfingar flokksins, Ungs Jafnaðarfólks.[7] og auk þess tvær landshreyfingar, Kvennahreyfingin og 60+. Aðildarfélögin skipa fulltrúa á landsfund sem hafa atkvæðarétt á ályktunum, stefnubreytingum og lagabreytingum sem samþykktar eru. Formaður og varaformaður eru hinsvegar kosnir af öllum félögum flokksins og er Samfylkingin einn flokka á Íslandi til þess að opna kosningu formanns til allra flokksmanna.[6]
Formenn
breytaFormaður | Kjörinn | Hætti | Aldur við embættistöku | |
---|---|---|---|---|
Margrét Frímannsdóttir (talsmaður) | 30. janúar 1999 | 5. maí 2000 | 44 | |
Össur Skarphéðinsson | 5. maí 2000 | 21. maí 2005 | 47 | |
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir | 21. maí 2005 | 28. mars 2009 | 48 | |
Jóhanna Sigurðardóttir | 28. mars 2009 | 2. febrúar 2013 | 66 | |
Árni Páll Árnason | 2. febrúar 2013 | 3. júní 2016 | 46 | |
Oddný G. Harðardóttir | 3. júní 2016 | 31. október 2016 | 59 | |
Logi Einarsson | 31. október 2016 | 28. október 2022 | 52 | |
Kristrún Frostadóttir | 28. október 2022 | Enn í embætti | 34 |
Varaformenn
breytaKjörfylgi
breytaAlþingiskosningar
breytaKosningar | Atkvæði | % | Þingsæti | +/– | Sæti | Stjórnarþátttaka |
---|---|---|---|---|---|---|
1999 | 44.378 | 26,8 | 17 / 63
|
17 | 2. | Stjórnarandstaða |
2003 | 56.700 | 31,0 | 20 / 63
|
3 | 2. | Stjórnarandstaða |
2007 | 48.742 | 26,8 | 18 / 63
|
2 | 2. | Í stjórnarsamstarfi |
2009 | 55.758 | 29,8 | 20 / 63
|
2 | 1. | Í stjórnarsamstarfi |
2013 | 24.294 | 12,9 | 9 / 63
|
11 | 3. | Stjórnarandstaða |
2016 | 10.893 | 5,7 | 3 / 63
|
6 | 7. | Stjórnarandstaða |
2017 | 23.652 | 12,1 | 7 / 63
|
4 | 4. | Stjórnarandstaða |
2021 | 19.825 | 9,9 | 6 / 63
|
1 | 4. | Stjórnarandstaða |
2024 | 44.091 | 20,8 | 15 / 63
|
9 | 1. | Óráðið |
Sveitarstjórnarkosningar
breytaSamfylking bauð sig fram í eigin nafni í 10 sveitarfélögum í sveitarstjórnarkosningunum 2002. Fjórum árum síðar bauð hún fram í 15 sveitarfélögum og hefur haldið framboðum þar síðan. Flokksmenn Samfylkingarinnar hafa hinsvegar tekið þátt í sameiginlegum listum í ýmsum sveitarfélögum, þar á meðal í Reykjavíkurlistanum og Í-listanum á Ísafirði. Samfylkingin var lengi stærsti flokkurinn í Hafnarfirði og var með hreinan meirihluta á árunum 2002 til 2010. Samfylkingin var stærsti flokkurinn í borgarstjórn Reykjavíkur kjörtímabilið 2014 - 2018 með 5 borgarfulltrúa og er næst stærst flokka núna með 5 borgarfulltrúa, frá 2014 til 2024 leiddi Samfylkingin þar meirihluta.
Kosningar | Atkvæði | % | fulltrúar |
---|---|---|---|
2002 | 32 | 29 | |
2006 | 36.112[8] | 22%[8] | 35[9] |
2010 | 27.775[8] | 18,1%[8] | 42[8] |
2014 | 26% | 41 | |
2018 | 42 | ||
2022 | 38 |
Sjá einnig
breytaNeðanmálsgreinar
breyta- ↑ „Fyrsta skref til frekara samstarfs jafnaðarmanna“, Morgunblaðið, 5. september, 1996
- ↑ „frétt af aðalfundi Þjóðvaka“. mbl. 1997. Sótt apríl 2021.
- ↑ Hópur kvenna íhugar úrsögn, Morgunblaðið, 18. nóvember, 1997
- ↑ „Ekki á leið í þingframboð að ári“, Morgunblaðið, 19. desember, 2002.
- ↑ „Stjórnmálaályktun Samfylkingarinnar“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 4. mars 2017. Sótt 31. október 2017.
- ↑ 6,0 6,1 Lög Samfylkingarinnar, Skoðað 15. mars 2015
- ↑ Aðildarfélög Samfylkingarinnar
- ↑ 8,0 8,1 8,2 8,3 8,4 Samantekt Sambands íslenskra sveitarfélaga 2010, Skoðað 4. apríl 2015.
- ↑ „Niðurstöður Sveitastjórnarkosnigna 2006“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 24. júlí 2014. Sótt 4. apríl 2015.