Logi Einarsson

íslenskur stjórnmálamaður og arkitekt

Logi Már Einarsson (fæddur 21. ágúst 1964) er íslenskur stjórnmálamaður, arkitekt og dansari og textahöfundur, sem að hefur setið á Alþingi fyrir Samfylkinguna síðan 2016 í Norðausturkjördæmi. Logi var formaður Samfylkingarinnar frá 2016 til 2022.

Logi Einarsson (LE)
Formaður Samfylkingarinnar
Í embætti
31. október 2016 – 28. október 2022
ForveriOddný G. Harðardóttir
EftirmaðurKristrún Frostadóttir
Alþingismaður
frá  kjördæmi    þingflokkur
2016  Norðaustur  Samfylking
Bæjarfulltrúi á Akureyri
frá til    flokkur
2012 2016  Samfylking
Persónulegar upplýsingar
Fæddur21. ágúst 1964 (1964-08-21) (60 ára)
Akureyri
StjórnmálaflokkurSamfylkingin
MakiArnbjörg Sigurðardóttir
Börn2
MenntunArkitekt
HáskóliArkitektúrháskólinn í Ósló(no; en)
Æviágrip á vef Alþingis

Logi var kjörinn varaformaður Samfylkingarinnar á aðalfundi hennar árið 2016. Hann bauð sig fram sem oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi í Alþingiskosningum sem haldnar voru þann 29. október 2016. Logi varð með kosningunni einn þriggja fulltrúa flokksins á þingi og sá eini í sínu kjördæmakjörni. Í kjölfar afhroðs Samfylkingar í kosningunum sagði formaður flokksins, Oddný G. Harðardóttir af sér og tók Logi við þann 31. október 2016. Eftir fjölda áskoruna sagði Logi af sér sem formaður flokksins í júní 2022 og tók Kristrún Frostadóttir við honum í október 2022.[1]

Æviágrip

breyta

Logi ólst upp á Akureyri og útskrifaðist með stúdentspróf úr Menntaskólanum á Akureyri árið 1985.[2] Hann nam húshönnun í Osló frá 1986–92 og útskrifaðist með mastersgráðu í arkitektúr.[3]

Eftir útskrift sneri Logi aftur til Akureyrar og vann þar sem landslagshönnuður á H. J. teiknistofu frá 1992 til 1994 og hjá skipulagsdeild Akureyrarbæjar 1994–1996. Hann vann síðan hjá Teiknistofunni Form frá 1996–1997, Úti og inni arkitektastofu árin 1997–2003, Arkitektúr.is arkitektastofu 2003–2004 og Kollgátu arkitektastofu 2003–2016. Hann stofnaði árið 2003 arkitektastofuna Kollgátu ásamt iðnhönnuðinum Ingólfi Frey Guðmundssyni. Hann var einnig stundakennari við Háskólann í Reykjavík árin 2010 til 2012.[4] Logi var formaður Arkitektafélags Íslands árið 2010 til 2012. Logi var einnig vel þekktur sem einn af dönsurum og textahöfundum sveitaballahljómsveitarinnar Skriðjökla.

Stjórnmálaferill

breyta

Eftir að hafa starfað í mannvirkjageiranum sem arkitekt í nær tvo áratugi bauð Logi sig fram í þingkosningum fyrir Samfylkinguna í Norðausturkjördæmi árið 2009. Hann náði ekki kjöri en kom fimm sinnum inn sem varaþingmaður á kjörtímabilinu (2009–2013).[5] Hann varð varabæjarfulltrúi á Akureyri árið 2010, bæjarfulltrúi 2012 til 2016, formaður Akureyrarstofu 2014–2015 og formaður skólanefndar 2015–2016. Logi var kjörinn varaformaður Samfylkingarinnar á Landsfundi árið 2016.

Logi náði kjöri einn Samfylkingarmanna í norðausturkjördæmi í alþingiskosningunum árið 2016 og mætti segja að hann hafi haldið flokknum frá því að detta út af þingi. Vegna afhroðs Samfylkingarinnar í kosningunum sagði Oddný G. Harðardóttir af sér sem formaður og Logi, sem varaformaður, tók við formannsembættinu þann 31. október 2016. Hann lét af störfum sem bæjarfulltrúi á Akureyri stuttu eftir að hann var kjörinn á Alþingi.[6]

Í alþingiskosningunum 2017 bætti Samfylkingin við sig og hlaut 12,1 prósent atkvæða og fór frá því að hafa aðeins þrjá þingmenn upp í sjö. Logi var endurkjörinn formaður á landsfundi Samfylkingarinnar í mars 2018 með öllum greiddum atkvæðum. Samfylkingin rétti að vissu marki úr kútnum eftir að Logi tók við formennsku og mældist gjarnan sem annar eða þriðji stærsti íslenski stjórnmálaflokkurinn í skoðanakönnunum á kjörtímabilinu 2017 til 2021. Þó var flokkurinn langt því frá að njóta eins mikils stuðnings og hann gerði á upphafsárum sínum á miðjum fyrsta áratug aldarinnar. Flokkurinn missti nokkuð fylgi í kosningunum 2021 og vann aðeins sex þingsæti.

Í dag situr Logi í utanríkismálanefnd Alþingis, formannanefnd um endurskoðun stjórnarskráarinnar og framtíðarnefnd Alþingis.

Hann ákvað að stíga niður sem formaður Samfylkingarinnar sumarið 2022. Kristrún Frostadóttir tók við af honum eftir landsfund Samfylkingarinnar í október sama ár.

Einkalíf

breyta

Logi er kvæntur lögfræðingnum og flautuleikaranum Arnbjörgu Sigurðardóttur. Þau eiga tvö börn, Úlf og Hrefnu.[7]

Tilvísanir

breyta
  1. „Össur skammar Loga og segir Kristrúnu framtíðina“. www.mbl.is. Sótt 4. september 2024.
  2. Akureyri. „Bæjarfulltrúar 2010-2014“. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. desember 2016. Sótt 26. desember 2017.
  3. „Logi Már Einarsson «  Gerum Akureyri skemmtilegri“. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. október 2017. Sótt 26. desember 2017.
  4. „Kollgáta arkitektúr“. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. febrúar 2018. Sótt 26. desember 2017.
  5. „Logi Einarsson“.
  6. „Logi Már Einarsson nýr formaður Samfylkingarinnar“. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. október 2017. Sótt 26. desember 2017.
  7. „Logi Már Einarsson «  Gerum Akureyri skemmtilegri“. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. október 2017. Sótt 26. desember 2017.