Georgía

land í Kákasusfjöllum; Austur-Evrópu og Vestur-Asíu
(Endurbeint frá Sakartvelo)

Georgía (georgíska საქართველო; Sakartvelo) er land í Kákasusfjöllum, við austurströnd Svartahafs. Georgía á landamæri að Rússlandi í norðri, Tyrklandi og Armeníu í suðri og Aserbaísjan í austri. Georgía liggur í Austur-Evrópu og Vestur-Asíu en hefur flestöll stjórnmálaleg og menningarleg tengsl sín við Evrópu.

Georgía
საქართველო
(Sakartvelo)
Fáni Georgíu Skjaldarmerki Georgíu
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
ძალა ერთობაშია (georgíska)
Aflið er í samstöðu
Þjóðsöngur:
Tavisupleba
Staðsetning Georgíu
Höfuðborg Tíblisi
Opinbert tungumál Georgíska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Salomé Zourabichvili (სალომე ზურაბიშვილი)
Forsætisráðherra Irakli Kobachidze (ირაკლი კობახიძე)
Sjálfstæði
 • frá Sovétríkjunum 9. apríl 1991 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
119. sæti
69.700 km²
-
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar
131. sæti
3.716.858
57,6/km²
VLF (KMJ) áætl. 2019
 • Samtals 46,05 millj. dala (112. sæti)
 • Á mann 12.409 dalir (101. sæti)
VÞL (2019) 0.812 (61. sæti)
Gjaldmiðill Georgískur lari
Tímabelti UTC+4
Þjóðarlén .ge
Landsnúmer +995

Á því svæði sem nú til dags þekkist sem Georgía hefur einatt verið búið síðan snemma á steinöld. Í fornöld voru þar konungsríkin Kolkis og Íbería, sem lögðu drög að menningu Georgíu. Löndin tóku upp kristna trú snemma á 3. öld og sameinuðust í eitt ríki árið 1008. Georgía gekk í gegnum tíma þar sem skiptust á upplausn og uppbygging þar til að ríkið brotnaði niður í nokkrar minni einingar á 16. öld. Rússaveldi tók smám saman yfir land Georgíu á árunum 1801-1866. Lýðveldið Georgía var skammlíft lýðræðisríki á árunum 1918-1921, á árunum eftir rússnesku byltinguna. Það féll í hendur Sovétríkjanna árið 1922. Georgía hlaut svo sjálfstæði á ný árið 1991 og eftir borgarastyrjöld og efnahagskreppur náðist ákveðið jafnvægi á síðari hluta 10. áratugsins. Árið 2003 fór fram bylting sem nefndist Rósabyltingin og fór alfarið fram án blóðsúthellinga. Komst þá að til valda ný ríkisstjórn sem stefndi að því að ganga í Atlantshafsbandalagið. Tilraunir nýju ríkisstjórnarinnar til að koma aðskildu svæðunum aftur undir stjórn Georgíu hafa orðið til þess að valda erjum milli Rússlands og Georgíu.

Landslag Georgíu er fjölbreytt allt frá hálendinu í Kákasusfjöllum til strandlengjunnar við Svartahaf, þar sem loftslag er heittemprað og dregur að ferðamenn. Saga landbúnaðar nær aftur til fornaldar og er sú atvinnugrein ennþá mikilvægur þáttur í efnahag landsins.

Í Georgíu er fulltrúalýðræði, nokkurs konar forsetalýðveldi. Georgía er meðlimur Sameinuðu þjóðanna, Evrópuráðs, Samveldis sjálfstæðra ríkja, Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og Svartahafsefnahagssamvinnusamtakanna, og hefur áhuga á að ganga í Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið.

Orðsifjar

breyta

Forn-Grikkir og Rómverjar kölluðu Austur-Georgíumenn Íbera og Vestur-Georgíumenn Kolka. Georgíumenn kalla sjálfa sig Kartvelebi (ქართველები), land sitt Sakartvelo (საქართველო) og tungumál sitt Kartuli (ქართული). Samkvæmt biblíunni er forfaðir hinnar kartvelsku þjóðar Kartlos, barnabarnabarn Jafets sonar Nóa. Öll lönd heims nema Armenía þekkja landið sem Georgíu. Minnst er á Georgíu og Georgíumenn í fjölmörgum ritum frá miðöldum. Margir gera ranglega ráð fyrir því að nafn landsins sé komið frá heilögum Georg, verndara landsins. Einnig hefur verið talið að nafnið væri dregið af fornpersneska orðinu gurj eða gorg, sem merkir glæsilegt (sbr. enska orðið gorgeous) á frumindóevrópskum málum. Þá hafa sumir haldið að Grikkir hafi nefnt landið Georgíu vegna mikilla landkosta þess, því að georgía (γεωργία) merkir búskapur á grísku. En hvað sem þessu öllu líður er uppruni nafnsins ennþá óljós og umdeildur.

Saga Georgíu og georgísku þjóðarinnar nær 5000 ár aftur í tímann.

Georgía í fornöld

breyta

Tvö konungsríki, sem Rómverjar og Forn-Grikkir þekktu undir nöfnunum Íbería og Kolkis, voru í Georgíu í fornöld. Þessi tvö konungsríki voru meðal fyrstu þjóða heims til að taka upp kristna trú, árið 319 eða 337 samkvæmt nýlegum rannsóknum.

Í grískri goðafræði var Kolkis heimkynni gullna reyfisins sem Jason og Argóarfararnir leituðu að í Argonautica, hetjusögu Apolloníosar frá Ródos. Möguleg ástæða þess að gullna reyfið varð orðið hluti að goðsögninni gæti verið sú að á þessum tíma notuðu Georgíumenn ullarreyfi til að sía gullryk úr ám. Kolkis, sem innfæddir nefndu Egrisi eða Lazica, átti oft í erjum við Persíu og Austrómverska ríkið, sem nokkrum sinnum náðu að leggja Vestur-Georgíu undir sig. Fyrir vikið sundruðust konungsríkin í nokkur minni umdæmi rétt fyrir upphaf miðalda. Þetta auðveldaði Aröbum að ráðast inn í Georgíu á 7. öld. Á 11. öld voru uppreisnarumdæmin innlimuð á ný og sameinuð í nýtt georgískt konungsríki. Í byrjun 12. aldar lögðu Georgíumenn undir sig ný lönd, og náði ríkið nú yfir nokkurn hluta Suður-Kákasusfjalla og næstum alla norðurströnd þess svæðis sem nú er Tyrkland.

Georgía á miðöldum

breyta
 
Konungsríkið Georgía á hernaðarlegum hápunkti sínum.

Georgíska konungsríkið náði hápunkti sínum á tólftu öld og í byrjun þeirrar þrettándu. Þetta tímabil hefur oft verið nefnt gullöld Georgíu eða endurreisnartímabil Georgíu. Þrátt fyrir það varð hið endurreista konungsríki skammlíft og að lokum réðust Mongólar inn í það árið 1236. Upp frá því börðust ýmsar stjórnir innan héraða landsins fyrir sjálfstæði frá georgíska konungsríkinu þar til það sundraðist á 15. öld. Nágrannaríkin notfærðu sér stöðuna og á 16. öld réðust persneska og ottómanska heimsveldið hvort um sig inn í austur- og vesturhéruð Georgíu.

Leiðtogar þeirra héraða sem héldu áfram hálfgerðri sjálfstjórn skipulögðu uppreisnir við allmörg tilefni. Seinni innrásir Persa og Tyrkja drógu þó enn frekar úr mætti konungsríkja og héraða á svæðinu.

Vegna stríða við nágrannaríki fækkaði íbúum Georgíu svo mjög að á tímabili voru þeir ekki nema 250.000.

Georgía innan Rússaveldis

breyta
 
Alexander 1. Rússakeisari á árunum 1801-1825

Árið 1783 skrifuðu Rússland og georgíska konungsríkið Kartli-Kakheti undir milliríkjasamning sem tryggði að Rússar vernduðu Kartli-Kakheti. Þetta hindraði þó ekki innrás Persa í Tíblisi árið 1795. Þann 22. desember 1800 skrifaði Páll I. Rússakeisari undir yfirlýsingu þess efnis að Georgía (Kartli-Kakheti) yrði hluti af Rússaveldi að beiðni Georgs XII., þáverandi konungs Georgíu. Þann 8. janúar 1801 skrifaði konungur svo undir úrskurð þess að Kartli-Kakheti yrði hluti af Rússaveldi, sem Alexander I. Rússakeisari staðfesti þann 12. september 1801.

Aðalsættir Georgíu viðurkenndu ekki úrskurðinn fyrr en í apríl 1802 þegar Knorring hershöfðingi safnaði þeim saman í dómkirkju Tbilisi og þvingaði fólkið til að sverja keisarakrúnu Rússa hollustueið. Þeir sem voru á móti þessu voru fangelsaðir um tíma. Sumarið 1805 sigruðu rússneskir hermenn persneska herinn við Askerani-fljót nálægt Zagam og björguðu Tbilisi frá annarri hertöku.

Árið 1810 innlimaði Alexander I. Rússakeisari konungsríkið Imereti eftir skammvinnt stríð. Síðasti imeretíski kongurinn og síðasti Bagrationinn, Salómon II. dóu í útlegð árið 1815. Á árunum 1803 til 1878 háðu Rússar og Georgíumenn þó nokkur stríð háð við Íran og Tyrkland og náðu að leggja undir sig nokkur svæði og innlima í Georgíu. Þau svæði eru Batumi, Akhaltsikhe, Poti og Abkhazía og eru þau stór hluti núverandi Georgíu. Furstadæmið Guria var afnumið árið 1828 og Samegrelo (Mingrelia) árið 1857. Svaneti-svæðið var smám saman innlimað á árunum 1857-1859.

Skammvinnt sjálfstæði og Sovétstjórn

breyta

Þann 26. maí árið 1918, þegar rússneska borgarastyrjöldin stóð sem hæst, lýsti Georgía yfir sjálfstæði. Georgíski alþýðuflokkurinn bar sigur úr býtum í lýðræðislegum kosningum. Talið var að flokkurinn væri skipaður mensévíkum og var leiðtogi flokksins, Noe Zhordania, gerður forsætisráðherra. Árið 1918 braust út stríð á milli Georgíu og Armeníu í þeim hlutum Georgíu sem voru mestmegnis byggðir Armenum, en það tók enda vegna afskipta Breta.

Í febrúar 1921 réðst Rauði herinn á Georgíu. Georgíski herinn var sigraður og þurftu ráðherrar ríkisstjórnarinnar að flýja land. Þann 25. febrúar 1921 kom Rauði herinn til höfuðborgarinnar Tbilisi og kom á laggirnar kommúnískri leppstjórn, sem georgíski bolsévíkinn Filipp Makharadze fór fyrir. Sóvétríkin tóku svo landið yfir eftir uppreisn árið 1924. Georgía varð hluti af Transkákasíska SFSR-sambandinu sem sameinaði Georgíu, Armeníu og Aserbaídsjan. TSFSR-sambandinu var svo síðar skipt niður í þau ríki sem það var myndað úr og Georgía varð að Sósíalíska sovétlýðveldinu Georgíu.

Georgíumaðurinn Jósef Djúgashvili (betur þekktur sem Jósef Stalín) var áberandi á meðal rússneskra bolsjevíka, sem tóku völdin í Rússlandi eftir Októberbyltinguna árið 1917. Stalín átti síðar eftir að gegna valdamestu stöðu Sovétríkjanna.

Á árunum 1941 til 1945, meðan á seinni heimstyrjöldinni stóð, börðust nærri því 700.000 Georgíumenn með Rauða hernum gegn nasistum. Einnig börðust einhverjir með þýska hernum. Um 350.000 Georgíumenn fórust á vígvöllum Austurvígstöðvanna. Á þessum tímapunkti var Téténum, Ingúsum, Karötsjum og Balkörum frá Norður-Kákasus-svæðinu vísað úr landi, og margir sendir til Síberíu vegna meints samstarfs við nasista. Lýðveldi þeirra voru því lögð niður og lönd þeirra lögð undir Sósíalíska sovétlýðveldið Georgíu til skamms tíma, eða til ársins 1957.

Á 7. áratugnum jókst andóf gegn Rússum og stuðningur við sjálfstæði Georgíu. Á meðal georgískra andófsmanna voru Merab Kostava og Zviad Gamsakhurdia fremstir í flokki. Sovéska stjórnin ofsótti andófsmenn og bældi starfsemi þeirra niður af hörku. Langflestir meðlimir georgískra andófshreyfinga voru fangelsaðir af sovéskum yfirvöldum.

Landfræði

breyta

Georgía er við Svartahaf og á landamæri að Rússlandi, Aserbaídsjan, Armeníu og Tyrklandi. Hnattstaða landsins er við 42'00°N og 43'30°A. Hluti Georgíu er í Kákasusfjöllum og landið er því að stórum hluta hátt yfir sjávarmáli, en við strandlengjuna er láglendi. Hæsti punktur Georgíu er Shkharafjall, sem er 5201 m.y.s. Veðurfar er breytilegt, við strandlengjuna er Miðjarðarhafsloftslag en í austurhluta landsins eru sumur heit, en vetur einkar kaldir.

Lýðfræði

breyta

Þjóðarbrot

breyta

Fjöldinn allur af þjóðarbrotum býr í landinu. Þrjú sjálfsstjórnarsvæði eru í Georgíu. Í norðvesturhluta landsins er Abkhazía, Ajaría í suðvesturhlutanum og Suður-Ossetía í norðurhlutanum. Stór hluti íbúa þessara svæða hafa sérstaka menningu og tungumál. Um 70% íbúa Georgíu eru Georgíumenn að uppruna, um 8% Armenar, Rússar eru rúmlega 6% og Aserar tæplega 6%. Um 3% eru Ossetar, tæp 2% eru Abkhazar og 5% tilheyra öðrum þjóðarbrotum. Rúm 17% íbúanna eru á aldrinum 0-14 ára, rúm 66% á aldrinum 15-64 ára og 16,5% yfir 65 ára aldri. Lífslíkur eru 76 ár.

Tungumál

breyta

Opinbert tungumál Georgíu er georgíska og er það móðurmál rúmlega 70% íbúa. Málið telst til suðurkákasísku tungumálafjölskyldunnar. Uppruni georgísku er óljós, en málið líkist engum af helstu tungumálum heims. Málið hefur stafróf sem rekja má til 5. aldar. Fleiri tungumál eru töluð í Georgíu, oft af minnihlutahópum. Rússneska er móðurmál 9% íbúanna, armenska er móðurmál 7% þeirra og 6% tala asersku. Abkazar segja abkasísku opinbert mál Abkhazíu og í Suður-Ossetíu er töluð ossetíska.

Trúarbrögð

breyta

Í Georgíu eru flestir íbúanna kristnir og tilheyra georgísku, rússnesku eða armensku rétttrúnaðarkirkjunni. Tæpur fimmtungur íbúanna eru múslimar, fyrst og fremst Aserar, Ajaríumenn og Kúrdar. Um tveir fimmtu hlutar íbúanna tilheyra engum ákveðnum trúarbrögðum.

Atvinna

breyta

Landbúnaður og þjónusta eru ásamt iðnaði helstu atvinnuvegir Georgíu. Meðal helstu landbúnaðarafurða eru te og ávextir. Georgía er auðug af jarðefnum og má þar nefna mangan, kol, járn og marmara. Helstu iðngreinar eru framleiðsla úr stáli og öðrum málmum, tóbaksiðnaður og víngerð, en vín er meðal helstu útflutningsvara landsins. Við landbúnað starfa 40% íbúanna, 20% við iðnað og 40% við þjónustu.

Stjórnarfar

breyta

Í Georgíu er lýðveldi og hefur verið allt frá því að landið fékk sjálfstæði eftir hrun Sovétríkjanna árið 1991. Núverandi forseti er Salomé Zourabichvili og núverandi forsætisráðherra er Irakli Kobachidze.

42°00′00″N 43°00′00″V / 42.00000°N 43.00000°V / 42.00000; -43.00000