Alexander 1. Rússakeisari
Alexander 1. (Александр Павлович eða Aleksandr Pavlovítsj á rússnesku) (23. desember 1777 – 1. desember 1825) var keisari Rússaveldis frá 23. mars 1801 til 1. desember 1825. Hann var jafnframt fyrsti rússneski konungur Póllands frá 1815 til 1825 og fyrsti rússneski stórhertogi Finnlands. Hann var stundum kallaður „Alexander helgi“.[1]
| ||||
Alexander 1.
| ||||
Ríkisár | 23. mars 1801 – 1. desember 1825 | |||
Skírnarnafn | Aleksandr Pavlovítsj Rómanov | |||
Fæddur | 23. desember 1777 | |||
Sankti Pétursborg, Rússlandi | ||||
Dáinn | 1. desember 1825 (47 ára) | |||
Taganrog, Rússlandi | ||||
Gröf | Dómkirkja Péturs og Páls | |||
Undirskrift | ||||
Konungsfjölskyldan | ||||
Faðir | Páll 1. Rússakeisari | |||
Móðir | Soffía Dórótea af Württemberg | |||
Keisaraynja | Lovísa af Baden | |||
Börn | 10 |
Alexander fæddist í Sankti Pétursborg og var sonur stórhertogans Páls Petrovitsj, sem síðar varð Páll 1. Rússakeisari. Hann settist á keisarastól eftir að faðir hans var myrtur og ríkti yfir Rússlandi á stormasömu tímabili Napóleonsstyrjaldanna. Sem fursti og keisari gældi Alexander oft við frjálslyndishugmyndir í orði en í reynd viðhélt hann einveldi í anda forvera sinna. Á fyrstu árum valdatíðar sinnar kom hann á minniháttar samfélagsumbótum og síðar (1803-04) stórtækum menntamálaumbótum eins og byggingu nýrra háskóla. Áætlanir voru gerðar til að stofna þing og setja stjórnarskrá en þeim var aldrei hrint í framkvæmt.
Í Napóleonsstyrjöldunum breytti Alexander afstöðu Rússaveldis til Frakklands fjórum sinnum á milli 1804 til 1812 og fór frá því að vera hlutlaus í garð Napóleons til þess að vera andstæðingur hans, bandamaður og loks andstæðingur á ný. Árið 1805 gekk Alexander til liðs við Breta í þriðja bandalagsstríðinu en eftir herfilegan ósigur gegn Frökkum í orrustunni við Austerlitz gerðist hann bandamaður Napóleons. Hann barðist í minniháttar stríði gegn Bretum frá 1807 til 1812. Lítil sátt var þó á milli Alexanders og Napóleons, sérstaklega þegar kom að Póllandi, og því lauk bandalagi þeirra árið 1810. Alexander vann sinn mesta sigur árið 1812 þegar Rússlandsherför Napóleons mistókst herfilega og leiddi brátt til fullnaðarósigurs Frakkakeisarans. Sem meðlimur í bandalaginu sem sigraði Napóleon öðlaðist Alexander ný landsvæði í Finnlandi og Póllandi. Hann stofnaði „heilaga bandalagið“ til að hafa hemil á þjóðernissinnuðum byltingarhreyfingum í Evrópu sem hann taldi ógna lögmætum kristnum einvöldum. Hann hjálpaði Klemens von Metternich Austurríkiskanslara að kveða niður allar þjóðernis- og frjálslyndishreyfingar.
Á seinni hluta valdatíðar sinnar varð Alexander æ duttlungafyllri, afturhaldssamari og smeykari um að launráð væru brugguð gegn sér. Hann batt enda á margar umbætur sem hann hafði áður staðið fyrir, hreinsaði erlenda kennara úr skólum og gerði námsskrána guðræknari og íhaldssamari.[2] Alexander lést árið 1825 og var þá barnlaus þar sem dætur hans tvær höfðu látist barnungar. Eftir mikla ringulreið tók yngri bróðir hans við og varð Nikulás 1. Rússakeisari.
Tilvísanir
breyta- ↑ Troubetzkoy, Alexis S. (2002). Imperial Legend: The Mysterious Disappearance of Tsar Alexander I. Arcade Publishing, bls. 7, 205 og 258.
- ↑ Walker, Franklin A (1992). "Enlightenment and Religion in Russian Education in the Reign of Tsar Alexander I". History of Education Quarterly. 32 (3): 343–360.
Fyrirrennari: Páll 1. |
|
Eftirmaður: Nikulás 1. |